Thursday, October 05, 2006

2 búnir, 3 eftir

Þá eru 2 af 5 námskeiðsdögum búnir.

Það er eitt alveg frábært við þetta námskeið. Maturinn. Það var búið að segja okkur að maturinn væri góður á þar sem námskeiðið fer fram (sem er á dansk-norsku sveitahóteli í útjaðri Osló). En vá. Í hádeginu í dag var þríréttað hlaðborð, og þar held ég svei mér þá að allar tegundir matar hafi verið í boði. Enda taka máltíðirnar yfirleitt um 2 tíma. Þegar við mættum á svæðið var okkur sagt að hér værum við aðallega til að borða. Og það varð raunin. Einhverjir fyrirlestrar svona inná milli.

Er annars komin með alveg uppí háls af klassískri nútímatónlist, þannig að ég nennti ekki á tónleikana sem eru í kvöld. Verð að jafna mig aðeins. Held að vandamál tónskálda nútímans sé að þau hugsa of mikið, og reyna of mikið að finna uppá einhverju nýju.

Áðan hélt Luco Francesconi fyrirlestur um óperu sem hann skrifaði undir lok síðustu aldar, og þvílík vitleysa. Hann ákvað að hafa engan söguþráð og engar persónur af því að þá gæti hann alveg eins hafa gert kvikmynd. Mér sýnist á öllu að úr hafi orðið algert bull, sem samanstendur af mis-skipulögðum hljóðum frá nokkrum söng- og hljóðfærahópum. Ekki skil ég hvernig nokkur maður á að skilja hvað litli feiti Ítalinn er eiginlega að fara með þessum óhljóðum.

En svona er tónlist dagsins í dag.