Sunday, November 25, 2007

Ríkramannahverfið

Föstudagsfríið virðist vera að breytast í langt helgarfrí frá öllu skólatengdu. Ætti að vera alltílæ vegna gríðarlegs dugnaðar síðustu vikur. En á morgun skal hafist handa við að klára þau verkefni sem fyrir liggja.

Afmælið í gær var prýðisskemmtun. Etið og drukkið þar til vömbin þoldi ekki meir. Og aðeins tekið í spil. (Fimbulfamb á norsku er ekki leiðinlegt). Afmælisbarnið býr í foreldrahúsum í hverfi sem liggur aðeins fyrir utan Osló, og er þekkt fyrir að vera ríkramannahverfi Noregs. Þar býr fólk í þriggja hæða einbýlishúsum. Foreldrarnir ákváðu að halda sig utan heimilis meðan á veisluhöldum stóð (þó plássleysinu væri nú ekki fyrir að fara) og eyddu nóttinni í seglskútu fjölskyldunnar. Peningaleysi verður sennilega seint vandamál þar á bæ.

Dagurinn í dag hefur farið í alþrif á húsakosti mínum. Það er á slíkum stundum sem maður er hvað fegnastur að hafa ekki meira pláss til umráða. 20 fermetrar eru sko alveg nóg.

Í kvöld er hugmyndin að fara í óvænta heimsókn til handarbrotna saxófónleikarans, með restinni af saxófóngenginu.