Flókið = Einfalt
Var að ljúka við að gera spektrómorfólógíska greiningu á eigin tónsmíð. Það er lokaverkefni fyrir fag sem heitir Sonologi. Hljómar flókið. En hvað er þetta eiginlega? Jú, Sonologi er kúrs um suð. Spektrómorfólógísk greining er að teikna þríhyrninga, ferhyrninga, strik og punktalínur á blað, eftir því hvað maður heyrir.
Ef maður er með eyru (eitt eyra er meira að segja nóg) og hefur nægilega teiknihæfileika til að teikna Óla prik, þá getur maður varla klúðrað þessu. Semsagt, einfalt.
Á miðvikudaginn held ég svo stuttan fyrirlestur þar sem ég útskýri "Óla-prik" greininguna mína. Þá er því fagi lokið.
Næsta lokaverkefni er hins vegar suðtónleikarnir á mánudaginn. Hyggst nota helgina vel í undirbúning fyrir þá.
Hluti af verkefninu var að gera auglýsingar (veggspjöld) og hengja upp innan skólans. Gerði það í gær og passaði að hafa þær eins lítið áberandi og hægt er. Svartir stafir á hvítu blaði. Yfirskrift tónleikanna er "Suð á bókasafninu." Ætla þannig að koma í veg fyrir að fólk sé að þvælast á bókasafninu og glápa á mig búa til suð. Allt fólk með viti hlýtur að halda sig fjarri suði. Held allavega að fæstir hugsi: "Jess, loksins! það sem ég hef beðið eftir alla ævi! suð á bókasafninu!" Samt aldrei að vita hvað þessu ruglaða liði hérna finnst áhugavert og hvað ekki.
Næstu tónleikar eru hins vegar á morgun. Þá spilar lúðrasveitin lag eftir mig í menningarhúsinu í Lilleström.
Allir að mæta.
<< Home