Lúðr
Þá er ég komin heim eftir lúðrafund helgarinnar.
Komst að því að Stavanger er agalega hugguleg borg, og greinilega alltaf gott veður þar (allavega þegar ég hef verið þar).
Á svona fundum er lítið annað gert en að borða (MIKIÐ) og sitja á fundum (LENGI). Vorum látin borða tvo kvöldmata á laugardagskvöldið. Ca. hálfa belju í hvort skipti. Leyfði ansi miklu af seinni hálfu beljunni, og var ansi ein um það (sem þýddi að það var gert grín að mér af því ég borðaði "svo lítið"). Var líka eiginlega alltaf síðust að klára matinn minn, og er ég þó ekki þekkt fyrir að borða neitt sérstaklega hægt. Skil alls ekki hvernig þessu fólki tókst að borða svona mikið, og hratt. Verð að afla mér upplýsinga um það ef ég þarf aftur að mæta á svona fund. Eða hreinlega gerast grænmetisæta... tímabundið. Það eru nefnilega takmörk fyrir því hvað maður hefur lyst á að borða margar beljur á einni helgi.
Eftir öll átin á laugardagskvöldið (sem var ekki lokið fyrr en um miðnætti) var mælt með að við færum í eitthvað risapartý með fullt af lúðrafólki. Mig hefur aldrei á ævinni langað jafn lítið í partý, enda nær dauða en lífi eftir allt þetta át. Skrópaði því í partýinu og fór að sofa.
Í dag er ég aðallega dösuð eftir ofát helgarinnar og sennilega nokkrum tugum kílóa þyngri en á sama tíma í síðustu viku. (Tek greinilega ekki þátt í megrunarkeppninni þetta árið). Og þar sem ákveðinn lúðrafundaleiði er kominn upp ákvað ég að vera forfölluð á lúðrastjórnarfundi í kvöld. Mæti samt á lúðraæfingu annað kvöld.
Frí í skólanum þessa vikuna vegna kammertónlistarviku. Þannig að ég nota tímann í að æfa mig á lúður og semja lög fyrir lúðra.
Þetta er semsagt það sem lífið gengur út á þessa dagana:
Lúðr
<< Home