Monday, October 27, 2008

Mánudagsmorgnar

Þá eru lengstu klukkutímar þessarar viku að baki.

Annan hvern mánudagsmorgun eru nefnilega tímar hjá Dananum. Þessir tímar fara þannig fram að við hlustum á eitthvurt arfaleiðinlegt tónverk sem danskurinn hefur ákveðið að greina, og svo heldur hann fyrirlestur þar sem hann útskýrir greininguna sína.
Fyrirlestrarnir eru nokkurnvegin svona:
2 og 3 og 3 og 3 og 5 og 8 og 21 og 144 og 54 og 6 og 13 og 9 og 7 og 17 og 3 og 3 og ..... og svo framvegis. Semsagt einhver óendanleg talnaruna.
Annað slagið koma svo stuttar útskýringar á dönsku sem hljóða einhvernvegin svona:
kou e skou i me kui (með tilheyrandi gubbuhljóðum).
Aldeilis áhugavert. Maður ræður sér varla fyrir spenningi í þessum tímum!

Tilgangur allra þessara talna er að sýna fram á ákveðið kerfi. Ef maður er virkilega illkvittinn (sem maður að sjálfsögðu er) og vill finna sér eitthvað að gera til að deyja ekki úr leiðindum (sem maður vill) leggur maður sig fram við að fylgjast með talnarununni á nótunum og finna villur. Það vill nefnilega þannig til að danskurinn er bæði óskipulagður og fljótfær, og hefur því oftar en ekki gleymt einhverri tölu úr rununni eða lagt vitlaust saman.
Og þar með er maður búinn að eyðileggja þetta fína kerfi sem danskurinn er búinn að eyða óteljandi vinnustundum í að finna. Afleiðingin er sú að hann fer næstum á taugum og nemendurnir hlæja innra með sér.
Skemmtilegur leikur.

Heimskulegheitin eru fólgin í að í raun er hægt að finna nánast hvaða talnarunu sem er út úr þessum verkum, og láta passa inn í hvaða kerfi sem er.
Dáldið einsog að sanna stærðfræðiformúlur, nema hvað þær formúlur eru notaðar til að reikna út dót. Danakerfin eru bara notuð við eitt tónverk hvert.
Og tilgangurinn?
Maður spyr sig.

Það besta er þó að þegar þessir þrír klukkutímar af talnarunum eru yfirstaðnir, er bókstaflega ALLT annað svo ótrúlega skemmtilegt og frábært að orð fá því varla lýst.

Og svo er líka sól.

Gleðilega nýja viku.