Þetta var nú gaman
Þá er ég búin í prófunum. Fannst mér bara ganga ágætlega. Komst samt ekki í 2. umferð á sax. Fór svo í tónsmíðaprófið í gær. Og ÞAÐ var gaman! Fékk að gera allskonar skemmtilegt. T.d. spila eldfjall (eða eitthvað sem leit soldið út eins og eldfjall) og teikna mynd af nútímatónverki. Bað reyndar sjálf um að fá að teikna. Það voru 5 skrítnir kallar sem sátu inni í prófinu. Ég sagði þeim nokkrar skemmtilegar sögur (m.a. um ostalagið) og þeir flissuðu meira eða minna allan tímann. Nú hef ég ákveðið að sækja um aftur í tónsmíðadeildina þarna á næsta ári ef ég kemst ekki inn núna, bara að fara í inntökuprófið var alveg fáránlega gaman. Fæ sennilega að vita í næstu viku hvort ég komist að. Reikna ekki með því reyndar, veit að það komust margir inn í fyrra (alveg 4, venjulega taka þeir inn 1-2, sem þýðir að það er ekki einu sinni víst að þeir taki inn neinn þetta árið) og það voru 11 að taka prófið í ár.
Hitti alveg nokkra sem ég þekkti sem voru líka í inntökuprófum þarna, og eru ekki í skóla með mér núna. Það var dáldið gaman af því að ég hélt að ég þekkti enga aðra útlendinga en þá sem eru hér í skólanum. Svona er að vera gamall. Maður hefur hitt marga sem maður er búinn að gleyma.
Í dag stóð mér til boða að skreppa með til Svíðþjóðar í þeim tilgangi að smygla bifreið og áfengi til landsins. Ákvað að afþakka það góða boð þar sem ég er orðin ansi þreytt á ferðalögum núna. Vonast til að geta varið öllum mínum tíma fram að páskafríi innan skólasvæðisins.
<< Home