Sunday, March 12, 2006

Partý og prufuspil

Í gærkveld héldu nokkrar stúlkur úr Húsi E út á lífið. Ég var nú frekar róleg og fór heim um 3 leytið. En hinar voru að tínast heim alveg fram undir hádegi í dag. Litlu stelpurnar í Húsinu (þessar tvær sem eru minni en ég) eiga tvímælalaust vinninginn þegar kemur að úthaldi þessa dagana. Mætti þeim í dyrunum þegar ég var á leiðinni í morgunmat. Þá voru þær að koma úr partýi. Höfðu lent í samkvæmi í heimahúsi ásamt fleirum úr skólanum eftir að skemmtistaðir bæjarins voru yfirgefnir. Komu heim með nokkra minjagripi, s.s. plakat, fána, keilu (svona alvöru “bowling” keilu) og vínflösku. Þessar sömu litlu stelpur voru á skíðum allan föstudaginn, vöknuðu eldsnemma í gærmorgun til að fara í leikfimi, og fara á morgun í þriggja daga skíða/hyttuferð með þroskaheftu krökkunum. Já, þetta kalla ég sko úthald í lagi.

Annars fór ég í Oslóarferð nr. 1 (af a.m.k. 3 á einni viku) á föstudaginn. Það var gaman. Fór í saxófóntíma og hitti tvo stráka sem eru líka að fara að prufuspila á morgun. Ansi hreint huggulegir piltar. Við komumst að því að það eru allavega 4 að prufupila á saxófón (við 3 og 1 í viðbót miðað við tímasetningarnar sem við fengum). En sennilega eru eitthvað fleiri.

Er semsagt að fara í saxófónprufuspilið á morgun og tónsmíðaprófið á þriðjudaginn og kannski aftur í saxófónpróf á miðvikudaginn ef ég kemst í “3. umferð”. Hlakka ótrúlega til að fara í öll þessi próf. Þetta verður stuð!

Gangi mér vel.