Monday, September 25, 2006

Hvað leynist í frystikistunni?

Á morgun er síðasti tíminn í sögu raftónlistar. Mikið verður nú frábært þegar það er búið. Ekki að þetta hafi verið erfiður kúrs. Engin verkefni eða próf. Bara fyrirlestrar. Á dönsku. Þar sem ég skil ekki dönsku og hef þar að auki afar takmarkaðan áhuga á umræðuefninu, þá eru þessir klukkutímar MJÖG langir. Og alltaf fyrirlesið í tvo og hálfan klukkutíma í senn.

Í dag var næstsíðasti tíminn í sögu raftónlistar. Ótrúlega langir 2,5 tímar eins og venjulega.

Í gær var matarboð hjá einum tónsmíðaprófessornum. Það er víst viðtekin venja að hann bjóði fyrsta árs nemum til kvöldverðar í upphafi skólaárs. Var þetta samsæti hið huggulegasta, með óendanlega miklu kalkúns-, ís- og ostaáti, og rauðvínsdrykkju í miklu magni. Skemmtilegur kall.

Komumst að líklegri skýringu á skorti nema á 3. ári tónsmíðadeildar (það er enginn á 3. ári). Eftir gærkveldið þykir okkur líklegast að 3. árið sé að finna í frystikistu ofangreinds tónsmíðakalls. Hann á nefnilega fulla frystikistu og vélsög, sem hann notaði til að skera kalkúninn með ...