Konan sem veit
Í öllum skólum er ein manneskja (yfirleitt kvenmaður) sem veit allt. Það er alveg sama hvaða misgáfulegu upplýsingar mann vantar, þessi kona er alltaf með svörin á hreinu.
Ég hef átt í smá basli með að finna Konuna sem veit í nýja skólanum. Skrifstofur skólans eru á 3. hæð og þangað hef ég hingað til farið til að fá ýmsar upplýsingar. Oft án árangurs. Þar var að öllu jöfnu nauðsynlegt að vita nákvæmilega hvaða skrifstofustarfsmann maður þurfti að tala við (sama hversu heimskuleg spurningin var), því allir höfðu þeir sitt sérsvið. Enginn vissi neitt fyrir utan sína mjög svo afmörkuðu starfslýsingu. Ekki einu sinni konan sem sat í afgreiðslunni á 3. hæðinni.
En í dag fann ég Konuna sem veit. Lenti í því að gleyma mikilvægum pappírum í nemendaljósritunarvélinni í kjallaranum. Þegar ég fattaði það (klukkutíma síðar) voru mikilvægu pappírarnir mínir á bak og burt. Þótti mér líklegast að einhver ofursamviskusamur nemandi hefði farið með pappírana mína til Konunnar sem veit, þar sem ég efaðist um að einhver starfsmaður á 3. hæðinni hefði starfa af því að halda utanum pappíra sem gleymst hefðu hér og þar um bygginguna. Ákvað ég þá að spyrja konuna sem situr hjá öryggisverðinum á 1. hæðinni. Og viti menn, hún er einmitt Konan sem veit!
Samtalið við hana var eitthvað á þessa leið:
Ég: Ég held að ég hafi hugsanlega gleymt pappírum í ljósritunarvélinni niðri.
Konan: (blaðaði í þykkum bunka af blöðum og dró úr ca. miðjum bunkanum einhverja pappíra og réttir mér) Hér eru pappírarnir þínir.
Ég þurfti ekki einu sinni að kynna mig eða segja hvers lags pappírar þetta væru.
Þetta getur bara Konan sem veit.
<< Home