Wednesday, May 21, 2008

Best í heimi

Komin aftur í Útlandið.

Íslands- og Vestmannaeyjaferðin var snilld! Hitti fullt af skemmtilegu fólki (takk fyrir hittinginn allir!), spilaði á túbuna og fékk verkið mitt fyrir hörpu og slagverk spilað á tónleikum af frábæru tónlistarfólki. Náði reyndar ekki að vera á þeim tónleikum, en það á víst að flytja verkið aftur... og aftur í sumar, þannig að ég stefni á að heyra verkið flutt á tónleikum áður en sumarið er á enda.

Þema ferðarinnar að þessu sinni var sjóferðir. Fór á sjó alla dagana sem ég dvaldi á landinu. Eina seglskútuferð, þar sem ég fékk að vera stýrimaður nánast allan tímann, eina útsýnisferð umhverfis Vestmannaeyjar og tvær Herjólfsferðir. Maður er semsagt orðinn vel sjóaður.

Vestmannaeyjar halda áfram að vera uppáhalds. Nú er ég komin með óbilandi áhuga á öllu sem tengist þeim. Sá heimildamynd um eldgosið o.fl., ætlaða túristum, og held ég hafi aldrei séð jafn frábæra mynd. (Hér gæti ég skrifað óendanlega mikið um allt mögulegt og ómögulegt sem tengist Vestmannaeyjum, en ákveð að sleppa því af tillitsemi við lesendur). Fólkið í Eyjum tekur líka ævinlega frábærlega á móti manni. Var skömmuð smá af heimafólki (sem ég hitti fyrir tilviljun) fyrir að hafa ekki látið vita af ferðum mínum. En þessi ferð var jú aðallega hugsuð sem vinnuferð, þannig að ég vissi nú lítið fyrirfram hvort ég hefði einhvurn tíma til hittinga þar. Hafði svo smá tíma seint á laugardagskvöldið, og tókst að hitta ansi marga á alltof stuttum tíma. Vonast til að hitta Eyjafólk betur áður en allt of langt um líður.

Eitt af mínum fyrstu verkum eftir komu mína aftur til Útlandsins var að panta næstu ferð til Íslands. Sú nýbreytni verður höfð á í það skipti að fljúga beint til Egilsstaða. Frá Kaupmannahöfn. Um miðjan júní.
Næsta Vestmannaeyjaferð er hins vegar löngu plönuð.
Annars er sumarið enn að mestu leyti óskrifað blað.

Næst á dagskrá er þetta:
- Prófaundirbúningur. Samkvæmt nýjustu tölum á ég eftir að taka þrjú próf. Það fyrsta á mánudaginn kemur, það síðasta 10. júní. Síðasti kennsludagur er á morgun.
- Lúðratónleikar 4. júní. Þar verða flutt tvö verk eftir mig, og mörg eftir einhverja aðra. Þyrfti nú eiginlega að æfa mig slatta fyrir þessa tónleika, en það verður eiginlega að mæta afgangi.
- Gera tónlist fyrir leikritið um Soffíu mús. Á sennilega eftir að taka mestan tíma af þessu þrennu.

Nóg að gera að venju.