Monday, May 05, 2008

Próf eða ekki próf?

Á morgun var meiningin að skila af sér tveimur af síðustu verkefnum annarinnar. Bæði þessi verkefni eru alveg tilbúin, og það er alltaf tilhlökkunarefni að skila af sér slíku. Áðan þegar ég kíkti á tölvupóstinn minn varð mér hins vegar ljóst að öðru af þessum tveimur verkefnum verður ekki skilað á morgun, vegna veikinda kennara. Þetta er sko verklegt verkefni, þannig að það er framkvæmt í tíma. Þessi skil frestast því um viku.

Í dag komst annar kennari að því að kannski á að vera próf í faginu sem hann kennir. Kannski. Síðasti tíminn í faginu var í dag, og ef það verður próf/skil á lokaverkefni er það í byrjun júní. Hvað myndi felast í því prófi/verkefni veit enginn.

Í næstu viku er komið að prófskiladegi fyrir fyrsta helming tónsmíðanáms míns. Þá á ég víst að skila nótum og upptökum af ákveðnu magni af tónlist, sem ég hef unnið þennan fyrri helming námsins. Ákvörðun um hvaða tónsmíðar skuli notaðar í þessum tilgangi, skal tekin í samráði við aðalkennara. Sá tiltekni aðili gefur hins vegar ekki kost á samráði þessa dagana vegna persónulegra vandamála.

Mér finnst eins og ég sé dáldið að missa yfirsýn yfir skólamálin þessa dagana.

Skilaboð til kennara:
Rétt fyrir prófatímabil er ekki tíminn til að vera veikur, eiga við persónuleg vandamál að stríða eða annað rugl.