Thursday, September 16, 2010

Ekki í sumarfríi

Brjálað að gera.
Svona er Ísland í dag.

Saturday, August 14, 2010

Í sumarfríi - ennþá

Aftur mætt í foreldrahúsin.
Hér líður tíminn HRATT. Búin að vera í viku og nánast ekkert búin að ná að gera. Nema láta mömmu sauma gardínur, fara smá í berjamó og gróðursetja blóm fyrir utan ríkið.

Í gær hófst bæjarhátíð Héraðsins. Ég bý í gula hverfinu. Við unnum ekki keppnina. Samt er guð í mínu hverfi (kirkjan). Bæði kaþólski og venjulegi guð. Nunnurnar mættu í skrúðgöngu og allt. Speisað að sjá nunnur spásséra með gula hjálma.
Svona er í sveitinni.
Stemming og stuð.

Wednesday, June 30, 2010

Í sumarfríi

Vúhú!

Er stödd í foreldrahúsum þessa dagana eftir afstaðið nám ytra. Vantar enn stað að búa á í höfuðborginni, ef einhver er með tillögur að slíku.

Hugmyndin var að hafa það rólegt í foreldrahúsum þessa vikuna, en æsingurinn varð óvart meiri en til stóð. Foreldrarnir drógu mig með út um allar trissur um helgina, og ég fór á 2 tónleika. Gaman að því.
Með foreldrunum fór ég m.a. að skoða hið nýja Alnotahús að Skriðuklaustri. Það er ekki alnota. Í besta falli einnota myndi ég segja: Upplýsingamiðstöð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Innanhúss var hægt að á upplýsingar og skoða dót tengt svæðinu. En húsið er ljótt að utan og steinsteypa að innan. Var í alvörunni ekki hægt að nota peningana í eitthvað gáfulegra en þetta? Vantaði hús á svæðið?
Nei.
Þetta er bara ljótt og peningasóun.
Ég er hneyksluð.

Foreldrarnir voru bara þokkalega sáttir við að fá mig í heimsókn, en rúmum sólarhring eftir að ég koma á svæðið varð vart við aðeins fleiri gesti innanhúss. Ekki alveg eins velkomna. Þeir gerðu sig heimakomna í þvottahúsinu. Mjög áhugavert var að fylgjast með þessum nýju ábúendum, en þeim var sópað út rúmum einum sólarhring eftir komu þeirra.
Það var semsagt geitungabú í þvottahúsinu. Meindýraeyðirinn sem kom sagðist aldrei hafa séð slíkt innanhúss áður, og var því ákaflega spennandi að fá að taka þátt í útrýmingunni sem sérlegur aðstoðarmaður Flugumannsins. Útrýmingin tók um klukkutíma, og er þetta einn sá mest spennandi klukkutími sem ég hef upplifað í lengri tíma (og örugglega mun meira spennandi en HM-leikurinn sem ég missti af meðan á þessu stóð).

Svona er í sumarfríi.

Friday, June 04, 2010

Auglýsingar

Auglýsing 1:
Útskriftartónleikar mánudaginn 14. júní. Allir að mæta (sem eru í Osló þann daginn).

Auglýsing 2:
Vantar stað að búa á miðsvæðis í Reykjavík frá ca. 1. júlí.

Thursday, May 27, 2010

Júróvisjonvikan

Missti af júróvisjon á þriðjudaginn.

En sá seinni undanúrslitin í kvöld og varð ÓGEÐSLEGA fúl yfir að Litháen hafi ekki komist áfram.
Var fólk ekki að sjá silfur-nærbuxurnar? Hvernig er hægt að tapa í silfur-nærbuxum?!

Díses. Fólk sem kýs í þessari keppni er bara asnar...

Hlakka til úrslitanna á laugardaginn. Ætla ekki að halda með lélegu lögunum sem komust áfram í dag.

Saturday, May 22, 2010

Ópera og júróvisjon

Þá er enn einn tilbúinn hátíðisdagur runninn upp. Aðfangadagur hvítasunnu.
Allt er nú til.

Afrekaði það í gær að koma inn í nýja óperuhúsið hér í Útlandinu. Kannski ekkert rosalegt afrek. Húsið búið að vera í kortérs göngufjarlægð síðustu árin. Kannski meira afrek að hafa ekki komið þarna inn fyrr.
En ástæðan var ekki af verri endanum. Var boðið á frumsýningu á nýrri norskri óperu. Snobb og frægt fólk. Samt ekkert rosalega mikið af frægum skildist mér. Fullt af venjulegu fólki líka. En mér var bent á nokkra fræga. M.a. konu sem keppti í júróvisjon fyrir löngu. Há, grönn og glæsileg kona. En sagan segir að hún sé ekki með fætur. Hún hefur víst aldrei sést öðruvísi en í síðum kjólum eða pilsum. Kannski er hún hafmeyja...
Ræddi við nokkur tónskáld. Var sem betur fer ekki spurð að því hvað mér fannst um tónlistina þetta kvöldið. Þarna voru nefnilega staddir menn sem ráða því hvort ég fæ að útskrifast úr skólanum í vor, og ég nenni ekki að ljúga til um eigin skoðanir. Stundum er hins vegar alltílæ að halda þeim útaf fyrir sig ef enginn spyr.
Tónlistin í þessari óperu fannst mér ekki uppá marga fiska. Ekkert svo leiðinleg, en ekkert skemmtileg heldur. Aðallega óeftirminnileg. Man ekkert eftir tónlistinni í dag. Og þetta var í gær.
En óperuhúsið er stórt að innan. Svalir á fjórum hæðum í stóra salnum og sviðið risastórt. Þrír fílar í fullri stærð og risavaxinn úlfaldi (örugglega 6 metrar á hæð og önnur hlutföll í samræmi við það) tóku ekki nema lítinn hluta af sviðinu.
Trítlaði aðeins um sviðið eftir æfingu (til að heilsa upp á fræga fólkið og svona), og sá að hliðarsviðið var risastórt líka. Sá aðeins glitta í úlfaldann langt, langt í burtu. Samt var þetta inni. Lofthæðin á sviðinu var líka gígantísk. Nokkuð margir tugir metra.

En að öðru mikilvægara. Júróvisjon.

Í fréttum ríkissjónvarpsins hér í júróvisjonlandi var Íslendingum spáð sigri. Viðtal við íslenska útvarpsstjórann og allt útaf þessu stórmáli. Því hvað gera Íslendingar ef þeir þurfa að halda keppnina nú á þessum síðustu og verstu tímum? Sjitt. Þessi umræða kemur vissulega upp á Íslandi á hverju ári. Litla fólkið frá Íslandi alltaf sigurvisst. En ég hef aldrei séð þessa umræðu í erlendum fjölmiðlum. Og það var ekkert verið að spá neinum öðrum sigri. Sjitt.
Einhver útlenskur kall sagði í þesssari sömu frétt að lönd sem hefðu ekki efni á að halda keppnina ættu einfaldlega ekki að taka þátt. Það finnst mér nú fullgróft. Á þetta þá bara að vera ríkulandakeppni?

Ætlaði að kaupa skó í dag. Kom heim með ljósritunarpappír í 5 litum.
Það er ekki það sama.

Monday, May 17, 2010

17. maí vs. 17. júní

Í dag er 17. maí, þjóðhátíðardagur Norðmanna.
Ákvað að vera með og fagna deginum að hætti heimamanna.

Dagurinn hófst með hefðbundnum morgunverði í heimahúsi, með allskonar mat og kampavíni og bjór. Löngu fyrir hádegi. Svo var skundað niður í bæ til að kíkja á skrúðgönguna, sem er stór hluti af hinum hefðbundnu hátíðarhöldum. Þar sem mín reynsla af slíkum skrúðgöngum í heimalandinu er nú ekkert sérstaklega góð bjóst ég nú ekki við mikilli skemmtan. En þetta var nú alveg ágætt. Hér eru nefnilega MARGAR lúðrasveitir sem ganga hver á fætur annarri. Sumar með prikstúlkur með í för (það vantar alveg á Íslandi), og önnur hver kona í þjóðbúning. Afar hátíðlegt alltsaman.
Aðalmunurinn á 17. júní hátíðarhöldunum á Íslandi og 17. maí í Norge er kannski að hér virðist fólk vant því að vera innan um margt fólk og hagar sér samkvæmt því. Skrúðgöngunni var t.d. þannig skipt upp að fyrst kom fánaberi lúðrasveitar, svo kom lúðrasveitin og síðan gekk fólk í hæfilegri fjarlægð fyrir aftan lúðrasveitina. Þá kom fánaberi næstu lúðrasveitar, lúðrasveitin, og svo fólkið. Og þannig koll af kolli. Virkar svo einfalt.

En ekki á Íslandi.

Í 17. júní skrúðgöngu er löggan fyrst, þá skátarnir og svo lúðrasveitin. Allt í lagi með það. En svo kemur fólkið. Ekki í hæfilegri fjarlægð fyrir aftan lúðrsveitina, heldur flækist fyrir inná milli lúðrasveitaraðanna.
Af hverju? Af hverju ekki bara fyrir aftan eins og hér í Útlandinu?
Fólk virðist alls ekki átta sig á því hve lítið sniðugt það er þegar lítil börn flækjast fyrir fótum fólks með lúður. Fólk með lúður á oftar en ekki engan séns á að sjá niður fyrir lappirnar á sér. Það er jú með lúður. Stundum stóran lúður. Og þarf að horfa á nóturnar sínar.
Á Íslandi skilur fólk þetta ekki. Mörgum finnst voða sætt að sjá börnin sín hlaupa um allt öskrandi með blöðrur. Ég efast hins vegar um að þessu sama fólki finnist sniðugt að sjá þessi sömu börn troðast undir fótum lúðrasveitar. Lúðrasveitin getur ekki bara fært sig ef það er krakki fyrir, því hún sér hann ekki.
Nú hefur undirrituð oftar en ekki spilað á stóran lúður á 17. júní, sem þýðir að ég labba aftast í lúðrasveitinni. Á hverju einasta ári þegar ég hef tekið þátt, hef ég hrasað um krakka og fengið blöðru í andlitið. Það er ekki gaman að vera næstum dottinn um krakka með 20 kílóa lúður í fanginu. Og ef maður dettur fram fyrir sig er lúðurinn ónýtur. Hann kostar minnst milljón miðað við gengi dagsins.
Það er heldur ekki sniðugt að fá blöðru í andlitið þegar maður er að spila. Þá sér maður ekki neitt. Það er líka voða erfitt fyrir íslendinga að skilja. Ef þú labbar með barn með blöðru við hliðina á lúðrasveit. Hvert fýkur þá blaðran?
Svo þykir mér nú bara almenn kurteisi að ganga á eftir lúðrasveitum í skrúðgöngum. Þannig er þetta gert í útlöndum og þykir ekki flókið mál.

Ég er allavega mjög fegin að sleppa við 17. júní þetta árið. Það er ekki í uppáhaldi að þurfa að díla við tillitslausan almúgann þann daginn.
Með lúður.