Í dag er 17. maí, þjóðhátíðardagur Norðmanna.
Ákvað að vera með og fagna deginum að hætti heimamanna.
Dagurinn hófst með hefðbundnum morgunverði í heimahúsi, með allskonar mat og kampavíni og bjór. Löngu fyrir hádegi. Svo var skundað niður í bæ til að kíkja á skrúðgönguna, sem er stór hluti af hinum hefðbundnu hátíðarhöldum. Þar sem mín reynsla af slíkum skrúðgöngum í heimalandinu er nú ekkert sérstaklega góð bjóst ég nú ekki við mikilli skemmtan. En þetta var nú alveg ágætt. Hér eru nefnilega MARGAR lúðrasveitir sem ganga hver á fætur annarri. Sumar með prikstúlkur með í för (það vantar alveg á Íslandi), og önnur hver kona í þjóðbúning. Afar hátíðlegt alltsaman.
Aðalmunurinn á 17. júní hátíðarhöldunum á Íslandi og 17. maí í Norge er kannski að hér virðist fólk vant því að vera innan um margt fólk og hagar sér samkvæmt því. Skrúðgöngunni var t.d. þannig skipt upp að fyrst kom fánaberi lúðrasveitar, svo kom lúðrasveitin og síðan gekk fólk í hæfilegri fjarlægð fyrir aftan lúðrasveitina. Þá kom fánaberi næstu lúðrasveitar, lúðrasveitin, og svo fólkið. Og þannig koll af kolli. Virkar svo einfalt.
En ekki á Íslandi.
Í 17. júní skrúðgöngu er löggan fyrst, þá skátarnir og svo lúðrasveitin. Allt í lagi með það. En svo kemur fólkið. Ekki í hæfilegri fjarlægð fyrir aftan lúðrsveitina, heldur flækist fyrir inná milli lúðrasveitaraðanna.
Af hverju? Af hverju ekki bara fyrir aftan eins og hér í Útlandinu?
Fólk virðist alls ekki átta sig á því hve lítið sniðugt það er þegar lítil börn flækjast fyrir fótum fólks með lúður. Fólk með lúður á oftar en ekki engan séns á að sjá niður fyrir lappirnar á sér. Það er jú með lúður. Stundum stóran lúður. Og þarf að horfa á nóturnar sínar.
Á Íslandi skilur fólk þetta ekki. Mörgum finnst voða sætt að sjá börnin sín hlaupa um allt öskrandi með blöðrur. Ég efast hins vegar um að þessu sama fólki finnist sniðugt að sjá þessi sömu börn troðast undir fótum lúðrasveitar. Lúðrasveitin getur ekki bara fært sig ef það er krakki fyrir, því hún sér hann ekki.
Nú hefur undirrituð oftar en ekki spilað á stóran lúður á 17. júní, sem þýðir að ég labba aftast í lúðrasveitinni. Á hverju einasta ári þegar ég hef tekið þátt, hef ég hrasað um krakka og fengið blöðru í andlitið. Það er ekki gaman að vera næstum dottinn um krakka með 20 kílóa lúður í fanginu. Og ef maður dettur fram fyrir sig er lúðurinn ónýtur. Hann kostar minnst milljón miðað við gengi dagsins.
Það er heldur ekki sniðugt að fá blöðru í andlitið þegar maður er að spila. Þá sér maður ekki neitt. Það er líka voða erfitt fyrir íslendinga að skilja. Ef þú labbar með barn með blöðru við hliðina á lúðrasveit. Hvert fýkur þá blaðran?
Svo þykir mér nú bara almenn kurteisi að ganga á eftir lúðrasveitum í skrúðgöngum. Þannig er þetta gert í útlöndum og þykir ekki flókið mál.
Ég er allavega mjög fegin að sleppa við 17. júní þetta árið. Það er ekki í uppáhaldi að þurfa að díla við tillitslausan almúgann þann daginn.
Með lúður.