Friday, January 27, 2006

Vöfflur og bjór

Í gær var hópferð á barinn. Tilefnið var í og með ítarleg kynning á áfengislöggjöf skóla vors sem tók bróðurpart skólatíma gærdagsins. Það voru nefnilega ansi margir teknir fyrir áfengisneyslu og gríðarlegan hávaða því fylgjandi á skólasvæðinu eftir nýárs/þorrapartýið sem fram fór fyrir sléttri viku síðan. Eiga þeir nemendur sem hlut eiga að máli sennilega von á tímabundinni brottvísum innan skamms tíma.

Barferð þessi tókst með miklum ágætum. Það voru bakaðar vöfflur á barnum frameftir nóttu og þær gefnar gestum staðarins. Sá viðburður var í boði einhvers skóla sem ég kann enginn deili á. Ansi hreint spes að borða vöfflur með bjór.

Einn nemandi míns skóla ákvað að stofna eigið leigubílafyrirtæki sem tók að sér að skutlast með nemendur heim af barnum fyrir hálft verð almennra leigubíla hér í bænum. Örugglega hægt að græða helling á því ef áhugi er fyrir hendi. Einnig skilst mér að búið sé að stofna útvarpsstöð skólans. Ekki annað hægt að gera en dást að dugnaði nemenda skólans þessa dagana.

Í dag áttu ein stelpa í skólanum og Mozart afmæli. Þau voru samtals 270 ára.

Spurning dagsins er hins vegar þessi:
Er ég orðin móðursystir? Hef grun um að ég verði ekki ein af þeim fyrstu sem fréttir það. Efast stórlega um að ég hafi lent á “þeir sem fá að vita fyrstir sms-lista”. Þannig að ég verð líklega að bíða eftir að eitthvað komi um viðburðinn á bloggi systurinnar. Hin systirin er búin að panta að fá að vera “uppáhaldsfrænkan” þannig að ég sæki um titilinn “ókunnuga frænkan sem fær kannski að vita hvors kyns krakkinn er áður en hann/hún/það nær 10 ára aldri”. Er farið að líða soldið eins og löngu gleymda fjarskylda ættingjanum sem flutti til útlanda fyrir alllöngu síðan.

Wednesday, January 25, 2006

Tónleikaferðir

Það er búið að vera mjög rólegt og gott í skólanum síðustu dagana. Það voru næstum allir á tónleikaferðalagi. En nú eru allir komnir aftur. Fyrstu fréttir af þessum tónleikaferðalögum eru þær að það hafi verið “gaman en MJÖG þreytandi”. Semsagt alltof mikið af tónleikum og rútuferðum. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ferðir á öldurhús virðast ekki vera bannaðar á slíkum ferðalögum á vegum skólans. Það gæti þá verið að þetta verði bara gaman eftir allt saman.

Á morgun eru undirbúningstónleikar fyrir tónleikaferðalagið sem byrjar á sunnudaginn (með 10 tíma rútuferð!). Það verður vonandi gaman. Er búin að komast að því að við erum bara að fara að keyra svona 500 kílómetra (svipað langt og Reykjavík-Akureyri). Ástæðan fyrir að þetta tekur svona langan tíma er að það er bara 50 km hámarkshraði eiginlega alla leiðina. Spurning hvort það sé ekki bara fljótlegra að labba þetta. Maður getur nú labbað ansi hratt.

Monday, January 23, 2006

Vinnur

Nú eru norsk skólayfirvöld farin að leggja mig í einelti. Er búin að fá 3 atvinnutilboð (afleysinga) síðustu 8 daga. Auðvitað gat ég ekki sagt nei við þeim öllum. Bara því fyrsta. Þannig að á morgun er ég í skólanum frá 8-16 og að kenna frá 15-20:30. Eins og glöggir lesendur sjá gengur þetta plan ekki alveg upp.

Það að segja nei við svona vinnum er í rauninni ekki svo erfitt. Það eru hins vegar spurningarnar sem koma eftir “nei-ið” sem eru fullkomlega óþolandi.

Svona ætti símtal af þessu tagi að vera:
Maður/kona í síma: Hæ. Viltu vinna á morgun?
Ég: Nei
M/K: Ókei bæ.

En svona er þettta ekki. Heldur svona:
M/K: Hæ. Viltu vinna á morgun?
Ég: Nei.
M/K: En veistu kannski um einhvern sem vill það?
(Það sem mig langar til að segja: Ertu eitthvað rugluð/ruglaður! Ég er útlendingur og þekki bara fólkið í skólanum mínum. Og það vill að sjálfsögðu ekki gera þetta af sömu ástæðu og ég.)
Ég: Nei, því miður.
M/K: U. Ókei. Má ég kannski hringja í þig seinna ef það vantar einhverntímann aftur einhvern í afleysingar.
(Það sem mig langar að segja: Nei!)
Ég: Ja, þú getur svosum reynt það en ég er nú frekar upptekin á þriðjudögum.

Svo virðist nefnilega sem allir kennslutímar í saxófónleik á svæðinu eigi sér stað á þriðjudögum. Og það er einmitt eini dagurinn sem ég er í skólanum alveg frá átta til fjögur.

Held ég reyni að fá framhaldsnámskeið í að segja nei.

Og nú finnst mér alveg ágætt að vera að fara í ferðalag í næstu viku. Hef þá allavega pottþétta afsökun til að vinna ekki á meðan.

Saturday, January 21, 2006

Afrek dagsins

Það var bara ansi gaman í nýárs/þorrapartýinu. Mikið drukkið, en í þetta skipti ákváðu skipuleggendur samkomunnar að hafa partýið bara í 4 tíma í staðinn fyrir 7. Jólapartýið var nefnilega ansi langt fyrir marga. Þetta var mun passlegri lengd á slíkri samkomu.

Í dag var þriggja tíma námskeið um kvikmyndatónlist. Afar áhugavert. Og svo voru tveggja tíma kór- og strengjaleikaratónleikar undir lok dagsins. Þeir sem voru að syngja og spila á þeim tónleikum eru að fara í ferðalag á morgun og verða burtu fram á miðvikudag. Það eru u.þ.b. 2/3 af öllum nemendum skólans sem yfirgefa svæðið af þessarri ástæðu þannig að næstu daga verður mjög fámennt hér í skólanum. Það verður örugglega frábært að vera hér meðan svona margir eru í burtu.

Fékk atvinnutilboð í dag. Ekki það fyrsta í þessari viku. En í þetta skiptið gat ég ekki sagt nei. Var bara of þreytt. Þannig að ég vinn í 3 tíma á þriðjudaginn.

Af fjölskyldunni er það helst að frétta að systir mín hin óléttari stefnir óðum í að ná meðgöngutíma fíls.

Thursday, January 19, 2006

Nýtt ár - Þorrablót

Þessa dagana eru flestir nemendur skólans að æfa sig í tónfræði og tónheyrn flestum stundum. Bráðum er nefnilega tónfræðagreinahlutinn af inntökuprófinu í tónlistarháskólann í Osló. “Bráðum” er nánar tiltekið eftir um 12 klukkutíma. Af einhverjum ástæðum nennti ég ekki að undirbúa mig neitt verulega undir þetta próf. Kannski vegna þess að ef við náum ekki þessu prófi fáum við annan séns í mars. Vona nú samt að ég hafi þetta í fyrstu tilraun.

Annað kvöld er nýárssamkvæmi nemenda skólans (haldið utan skólasvæðis til að geta haft fyllerí). Ekki veit ég hvar í heiminum nýtt ár byrjar á morgun, en ég veit hins vegar að á morgun er bóndadagur, sem er yfirlýstur fylleríisdagur hjá mörgum Íslendingum.

Gleðileg þorrablót kæru Íslendingar.

Tuesday, January 17, 2006

Manndrápsfærð

Nú er hált. Ójá. Og reyndar svo hált að það er stórhættulegt að fara út fyrir dyr hér á skólasvæðinu. Komst reyndar að því í gær að það er ekkert hált þegar komið er út fyrir svæðið. En leiðin Skóli-Hús E er nánast ófær. Allavega styttri leiðin. Fer alveg að verða spurning um að hætta að stytta sér leið í gegnum bakgarðinn hjá rektor ef ástandið varir miklu lengur. Hugsa að það sé minni hálka á veginum, en sú leið er örugglega tíu skrefum lengri þannig að maður nennir nú varla að tékka á því.

Kvefið hefur yfirgefið mig að sinni og er þess ekki saknað. Letin hefur líka minnkað til muna, þannig að nú er ég bara ansi dugleg að æfa mig og tónsmíða. Sem er gott. Því nú fer að styttast í “Tónleikaferð dauðans #2” og ég reikna fastlega með því að vera nokkrar vikur að jafna mig eftir hana. Í alvöru talað, planið gerir ráð fyrir 2-3 tónleikum á dag (+ ferðum á milli tónleikastaða náttúrulega) og til þess að það gangi upp þarf liðið að vakna eigi síðar en 7 og kemst ekki í bælið mikið fyrir miðnætti. Og þetta eru heilir 4 dagar. Já. Ég kann nú betur við íslensk lúðrasveitarferðalög þar sem markmiðið er að innbirgða sem mest áfengi á meðan á ferðalaginu stendur.

Saturday, January 14, 2006

Spennan í hámarki

Það sem Norðmenn eru einna þekktastir fyrir er áhugi þeirra á gönguskíðaíþróttinni. Fyrir skemmstu komst ég að því að keppnum í þess konar íþróttum er oft útvarpað beint hér í Útlandinu. Ég ímynda mér að lýsing af keppni í 10 kílómetra skíðagöngu karla gæti hljómað einhvernveginn svona:

“ ....... og þeir eru lagðir af stað! Anders Aagerblomst tekur strax forystuna en aðrir fylgja fast á eftir. Og þeir skíða og skíða og skíða ........”

Talsvert löngu síðar:

“....... og skíða og skíða og skíða og skíða. Þeir fara nú að nálgast markið! Aagerblomst heldur enn forystunni en allt getur gerst!”

Nokkru síðar:

“ ...... ooooooooog Aagerblomst er búinn að tryggja sér sigurinn! Glæsilega skíðað hjá kappanum!”

Já. Útvarpsefni gerist nú varla mikið meira spennandi. Það eina sem mér dettur í hug að gæti hugsanlega toppað þetta er sá æsispennandi þáttur Maður er nefndur, sem er reyndar sjónvarpsþáttur, en hefði kannske átt betur heima í útvarpi.

Friday, January 13, 2006

Hoppirenn

Stundum horfi ég á sjónvarpið ef ég nenni engu. Í dag var skíðastökk. Það er nú eiginlega ekkert gaman að horfa á það nema einhver stökkvi ótrúlega langt eða detti. En það gerist næstum aldrei. Í dag var reyndar einn sem stökk ótrúlega langt og einn sem stökk pínu út á hlið, hallaði aðeins í aðra áttina og stökk þess vegna frekar stutt. Það fyndnasta við skíðastökk er hins vegar að á norsku heitir það hoppirenn. Það nafn á íþróttinni gerir hana óneitanlega tölvert skemmtilegri.

Áðan varð ég vitni að því þegar ein feit stelpa kafnaði næstum úr hlátri í matsalnum. Hún ákvað sem betur fór að yfirgefa svæðið áður en hún dó. Veit ekki betur en hún hafi lifað af.

Thursday, January 12, 2006

Frekar rólegt ennþá

Í gærkveld var afmælisveisla í Húsi E. Það var mjög fínt. Pitsur, íslenskt nammi og Fimbulfamb á norsku. Missti reyndar af meiripartinum af afmælinu þar sem ég var í nútímatónlistarsögutíma. Ekki skemmtilegasta tónlist í heimi að hlusta á, en ansi áhugavert að heyra sögur af köllunum sem sömdu hana og þeirra hugmyndir um hvernig ætti að semja tónlist.

Terror dagsins var að kórkallinn (sem er sá eini á svæðinu sem ég er hrædd við. Hann er alveg sköllóttur og stór og með ennþá stærri rödd) bað mig að hjálpa sér aðeins og dró mig með inn á skrifstofuna sína. Hann hafði semsagt fengið slatta af íslenskum kórverkum sem hann hyggst nota næsta vetur og vildi vita um hvað þau fjölluðu og hvað titlarnir þýddu. Og hvort þetta væru þekkt íslensk tónskáld. Ég gerði honum grein fyrir því að á Íslandi byggju MJÖG fáir þannig að allir þekktu til allra. Hvort viðkomandi tónskáld væru þekkt utan landsteinanna vissi ég ekkert um. Svo kom að því að þýða. Þetta voru alveg helv... mörg verk og titlarnir á mörgum alveg fáránlegir, þannig að ég vissi varla hvað þeir þýddu á málinu ylhýra, hvað þá að ég gæti farið að færa þá yfir á önnur tungumál. Ekki bætir það úr skák að engilsaxneskan versnar lítið eitt meðan norskan síast smám saman inn. Þannig að nú er svo komið að ég er ekki almennilega talandi svo heitið geti á neinu erlendu tungumáli. Fúlt að hafa bara pláss fyrir eina útlensku í hausnum. En þetta “litla” verkefni kostaði töluverðan svita.

Annars fara dagarnir mjög mikið í að sitja eða liggja og gera ekkert annað á meðan, nema í mesta lagi að tala við fólk eða horfa á sjónvarpið. Tel hluta ástæðunnar fyrir þessari gífurlegu leti vera nýendurkomið kvef og smá slappleika.

Hvaða hljómsveit?

Hér kemur blogg í boði ákveðinnar hljómsveitar( )
takk

Monday, January 09, 2006

Afmæli

Í dag á ég afmæli. Eiginlega. Krakkarnir í Húsi E ákváðu allavega að láta eins og ég ætti afmæli í dag. Var ég að því tilefni vakin eldsnemma og fékk köku og pakka. Það var fínt.

Á morgun á Soffía mús afmæli. Hún verður 10 ára. Soffía mús hvarf í húsakynnum Alþýðuskólans á Eiðum, sem nú eru í eigu Sigurjóns Sighvatssonar, fyrir 9 árum og 9 mánuðum síðan. Ég hef fulla trú á að hún lifi þar enn góðu lífi. Ef einhver á leið um þetta svæði væri ekki úr vegi að svipast um eftir henni. Hún er auðþekkjanleg frá öðrum músum þar sem hún klæðist grænum pípuhatti.

Á miðvikudaginn á Sigmund í Húsi E afmæli. Hann verður tvítugur.

Í kvöld skilst mér að það verði spilakvöld í Húsi E til að fagna því að síðasti íbúi hússins kom heim úr jólafríi í gærkveld og ég á afmæli. Eiginlega.

Sunday, January 08, 2006

Í fréttum er þetta helst

Í gærkveld héldu nokkrir nemendur skólans (svona 60-70 stykki sennilega) í bæinn í þeim tilgangi að gera sér dagamun (sem fól að sjálfsögðu í sér talsvert af neyslu áfengra drykkja) í tilefni af upphafi hinnar síðari annar skólaársins. Þessi ferð var að mestu leyti keimlík öðrum slíkum ferðum, fyrir utan það að nú gubbaði enginn. Það er orðið of kalt úti til að gubba. Hins vegar trítlaði ein stelpan úr Húsi E niður næstum alla göngugötuna á sokkaleistunum af því að henni var illt í fótunum. Það var 10 stiga frost. Minnsta stelpan í Húsi E hélt á henni síðasta spölinn í leigubílaröðina.

Að öðru leyti er allt með rólegasta móti. Ég er farin að vera dugleg að æfa mig. Ætla líka að fara að vera dugleg að tónsmíða. Hef nefnilega allan tíma í heiminum flesta daga. Munar þar mestu um að ég hætti í vinnunni fyrir jól. Þetta er allt annað líf. Ekkert stress og engar óþarfa áhyggjur.

Í skólaumsóknamálum fyrir næsta ár er það helst að frétta að ég dró til baka umsóknirnar í Danmörku. Nennti bara ómögulega að flækjast um Danmörku næstum allan janúarmánuð til að vera í inntökuprófum í tveimur skólum. Fáránlegt hvað það er hægt að láta þetta taka langan tíma. Þannig að nú eru það bara tveir skólar sem sótt verður um í. Í Osló og Gautaborg. Á reyndar eftir að senda inn umsóknina í Gautaborg. En það gerist örugglega á næstu dögum. Verst hvað maður verður latur af að hafa ekki brjálað mikið að gera. En það er gott að vera latur.

Best að fara að gera eitthvað mikilvægt. Prjóna og horfa á sjónvarpið.

Friday, January 06, 2006

Tíðindalaust

Hér í Útlandinu ber það helst til tíðinda að hér er allt helst til tíðindalaust. Sem er vel. Þá get ég nefnilega gert það sem ég vil. Sem er margt. Þessa stundina er ég til að mynda að hlusta á Baggalútsþætti. Þar má heyra margan gagnlegan fróðleik. Vissuð þið að sannað hefur verið með óyggjandi hætti að ballett er leiðinlegur?

Í dag var fyrsti dagurinn á þessu ári í Útlandinu sem ég svaf ekki um miðjan daginn. Ber það ákveðinn vott um minnkandi þreytu eftir ferðalög jólafrísins. Næsta ferðalag (sem ég veit um) verður farið í lok mánaðarins. Þá mun haldið til austurstrandar Útlandsins með rútu. Rútuferðin sú mun taka um 10 tíma. Aðra leið. Get ekki sagt að ég hlakki til þess ferðalags. En þangað til að því kemur get ég bara dinglað mér hérna í skólanum. Sem er alveg frábært.

Annars óska ég ykkur gleðilegs síðasta jóladags. Sem er einmitt í dag.

Wednesday, January 04, 2006

Álegg og gubb

Það er eitt álegg sem stundum er á boðstólnum hér í mötuneyti skólans. Það er gult gums með allskonar litum kögglum í. Þetta er mjög gott á bragðið en enginn veit hvað þetta er. Þetta lítur dáldið út eins og gubb. Held samt að þetta sé eitthvað annað.

Rektor skólans byrjaði þessa önn einmitt á að segja sögu um gubb. Hann var inntur eftir því hvort árið hefði ekki byrjað vel hjá honum, og hann svaraði því til að það hefði allavega byrjað skár en síðasta ár. Og hvað var svona slæmt við upphaf ársins 2005? Jú. Hann hafði vaknað undir morgun til að fara á salernið og ákvað í leiðinni að tékka á hvort það væri ekki allt í lagi (nokkuð að kvikna í eða svoleiðis örugglega). Hann kíkti inn í herbergi dóttur sinnar. Þar var allt í góðu. Þaðan fór hann inn í stofuna. Þegar þangað var komið heyrðist rosalegt SPLATT hljóð úr herbergi dótturinnar. Hún hafði gubbað. Þess má geta að stúlkan hafði fengið hátt rúm fyrir þessi jól. Eins konar hákoju, þannig að hún svaf upp undir lofti. Þegar maður gubbar úr slíkri hæð þá lendir gubbið ekki í “snyrtilegum” polli á gólfinu. Ónei. Það skvettist út um allt herbergið. Og þetta var ekkert smá magn af gubbi. Því tókst að dreyfa sér yfir allt sem í herberginu var. Leikföng, bangsa, í rúmið sjálft og bak við alla gólflista. Það tók viku að þrífa allt gubbið.

Af þessu má læra eftirfarandi: Ekki leyfa börnum að borða ótakmarkað yfir jól og áramót. Þau kunna sér ekki hóf.

Tuesday, January 03, 2006

Komin aftur í Útlandið

og það er alveg frábært. Er búin að vera hér í 5 tíma og afreka eftirfarandi:
- Fara í gegnum póstinn minn
- Pakka upp úr töskunni
- Borða
- Sofa
- Borða meira

Eins og sjá má er lífið hér afar tilbreytingarmikið og skemmtilegt. Alveg eins og maður vill hafa það.

Annars gekk ferðalagið óvenju vel. Bara klukkutíma seinkun á hvoru flugi og svo þurfti ég ekkert að bíða eftir lestinni. Hún var akkúrat að leggja af stað þegar ég var loksins búin að fá farangurinn minn.

Hér er semsagt feiknastuð. Allir agalega glaðir að vera komnir í skólann aftur.

Vil nota tækifærið og þakka öllum sem ég hitti í jólafríinu fyrir ánægjulegar samverustundir. Þið eruð æði.