Monday, October 31, 2005

Vikan sem leið.....

.....var undarleg að flestu leyti.
Internetsamband hefur verið með minnsta móti.
Á mánudagskvöldið spilaði ég á flösku UPPí tré í klukkutíma í 10 stiga frosti. Það var þvílíkt stuð.
Á þriðjudaginn flutti nýja stelpan inn í Hús E. Hún spilar á fiðlu og lágfiðlu.
Á miðvikudagskvöldið voru undarlegir tónleikar hér í skólanum. Nokkrir Ástralir sáu um þá skemmtan. Þetta var auglýst sem nútímatónlist, en samt voru þarna lög inná milli. Textarnir fjölluðu m.a. um skítuga geimveru, kýr í Texas og egg utan úr geimnum sem olli heimsendi. Á þessum sömu tónleikum var glerplata einnig notuð sem sólóhljóðfæri (reyndar tengd við tölvu sem skynjaði hreyfingar, held ég). Í því atriði kom einnig við sögu slatti af blóði þegar flytjandinn nuddaði glerplötunni svo fast við andlitið að hún brotnaði. Já, afar áhugaverð nálgun á tónlist myndi ég segja.
Á miðvikudaginn fór Berglind til Parísar að kaupa klarinett. Það tókst vel hjá henni, hún fann víst alveg frábært klarinett. En þessi Parísarferð hennar endaði óvænt á Íslandi, þar sem hún mun dvelja næstu vikurnar. Þannig að það mun fara lítið fyrir íslenskri tungu hér í skólanum á næstunni.
Um helgina fengum við auka klukkutíma þannig að nú er ér bara einum klukkutíma á undan.

Saturday, October 22, 2005

Nýr sambýlingur

Komst að því í gærkveldi hvað ég bý í ógurlega vinsælu húsi. Hingað til hafa stundum verið gestir, svona eins og gengur. En ekkert margir og ekkert alltaf. Í gærkveld var skyndilega boðað til húsfundar í Húsi E. Slíkt hefur ekki gerst áður. Umræðuefni fundarins var hvort við ættum að taka inn nýjan íbúa í húsið okkar. Það eru nefnilega einstaklingar hér í skólanum sem eru ekki jafn heppnir með sambýlinga og við í Húsi E. Ein stelpa hafði semsagt lagt fram beiðni um að fá að flytja inn í Hús E. Við ákváðum að neita þeirri beiðni, aðallega vegna þess að við þekkjum hana ekki mjög mikið, og svo á hún frekar pirrandi vini. Þ.á.m. er íslenski strákurinn. Hann hagar sér einmitt eins og flestir íslenskir drengir á þessum aldri. Þarf að fá ALLA athyglina ALLTAF, og getur því verið mjög þreytandi til lengdar.
Hins vegar ákváðum við að bjóða annarri stúlku að hafa vetursetu í Húsi E ef hún óskaði þess. Sú hefur verið fastagestur frá upphafi skólaárs og nýlega komust íbúar Húss E að því að hún væri ekki allskostar ánægð í sínum eigin híbýlum. Hún mun sennilega flytja inn á næstu dögum. Þá verða íbúar Húss E átta talsins, og níu ef við teljum Drauga-Álf með.
Í kvöld er mexíkanskt þema. Mexíkanskur matur og svona. Og svo er Hrekkjavökukvöld á mánudagskvöldið (já, ég veit að það er viku of snemma, en svona er þetta bara). Þá fæ ég að spila á blokkflautu í tré. Það verður gaman.

Thursday, October 20, 2005

Sambandsleysi

Internetsambandið í skólanum er alveg rosalega takmarkað þessa dagana þannig að nú er það bara bókasafnið.
Enginn veit hvað vandamálið er með tenginguna í skólanum og því veit enginn hvað þetta ástand á eftir að vara lengi. Ef það verður í marga daga á ég örugglega ekki eftir að blogga mikið á næstunni. Hef nefnilega næstum aldrei tíma til að yfirgefa skólasvæðið og bókasafnið er dáldið langt í burtu.
Það er semsagt brjálað að gera. Tók að mér smá aukavinnu á þriðjudaginn. Kenna í tónskóla hér í Hamar. Það er samt eiginlega of mikið að vera í skólanum frá 8 og fram eftir degi og fara svo að kenna fram á kvöld, þannig að ég vona að ég lendi ekki oft í að vera beðin um að vinna hér (get semsagt ekki sagt nei við svoleiðis löguðu hér, sérstaklega ekki þar sem það eru yfirleitt yfirmenn skólans míns sem koma og bjóða mér þessar vinnur).

Annars er bara stuð í útlöndum!

Sunday, October 16, 2005

Partý eldri borgara

Í skólanum mínum hefur nú verið standandi eldriborgarapartý síðan á fimmtudaginn. Ekki veit ég ástæðuna fyrir þessum ótrúlega langa gleðskap, en ég vona að viðkomandi eldriborgarar hafi haft leyfi til að nýta sér skólabygginguna til partýhalds. Annars gæti ég verið í vondum málum. Tökum dæmi um samtal milli mín og skólamanns:
Hann: Hva! Drasl út um allt og búið að brjóta rúður og stela fullt af dóti!
Ég: Uuuuu, það voru einhverjir eldri borgarar hér um helgina........
Hann: OG HRINGDIRU EKKI Á LÖGGUNA EÐA NEITT! Það er alræmt gamalmennaglæpagengi sem hefur gengið hér sveit úr sveit og rústað fullt af stofnunum og opinberum byggingum. Svo þykjast þau öll vera með alsæmer þannig að það er aldrei hægt að kæra þau fyrir neitt!

Ég vona innilega að þetta sé ekki raunin, en það er margt grunsamlegt við þetta partý. Einhverra hluta vegna hafa þau allar dyrnar læstar (og það er hvorki hægt að komast inn né út án þess að hafa lykil) sem bendir óneitanlega til þess að þau hafi komist inn um opinn glugga einhvers staðar. Og svo eru þau ótrúlega mörg og alls staðar í byggingunni.

Til að komast hjá vandræðum ákvað ég að yfirgefa skólasvæðið í dag og halda til niðrí bæ þar til fleiri nemendur eru mættir á svæðið. Og, já, ég er búin að taka til í Húsi E (það var sko EKKI eldriborgarapartý þar!) og skreyta fyrir heimkomu sambýlinga.
Í miðbænum komst ég að því að barinn þar sem nemendur hanga gjarnan á kvöldin er eins konar Kaffi Austurstræti á daginn. Spes. Slatti af mis-sjúskulegu fólki að drekka öl.

Annars er þetta helst í fréttum:
Er búin að panta flug heim í jólafrí. Millilendi á höfuðborgarsvæðinu og mun eyða þar allt að einum sólarhring sitt hvoru megin við hátíðirnar. Annars vegar 17.-18. desember og hins vegar 2.-3. janúar. 18. des-2. jan. mun ég að sjálfsögðu halda til á heimili foreldra minna í Egilsstaðaborg. Ef einhver er tilbúinn til að leyfa mér að gista í húsakynnum sínum þessar nætur sem ég verð í höfuðborginni væri það vel þegið. Eins væri frábært ef einhver vill sækja mig til Keflavíkur og/eða skutla mér þangað eftir áramótin. Þið hafið 2 mánuði til að hugsa málið.

Ákvað semsagt að fara að dæmi Sóleyjar og auglýsa viðburði með góðum fyrirvara. Hún hefur nú þegar óskað eftir nærveru minni á útskriftartónleikum sínum sem eru 12. apríl næstkomandi. Um að gera að byrja að plögga tímanlega!

Friday, October 14, 2005

Í haustfríi

Skil nú ekki alveg hvað fólk var að væla um að þetta haustfrí væri ótrúlega langt og ég myndi örugglega deyja úr einmanaleik yfir að þurfa að vera hérna alein allan þennan tíma. Ég bjó til langan lista yfir allt sem ég þurfti að gera í þessu ótrúlega langa haustfríi og mun sennilega ekki takast að klára helminginn af því. En ég er búin að:

a) Vera frekar slöpp allan tímann
b) Vera (internet)sambandslaus við umheiminn í 3 daga
c) Horfa á ótæpilega marga Friends-þætti
d) Byrja að semja kórverkið
e) Byrja að færa Moldvörpulagið yfir á norsku
f) Klára að prjóna 1 vettling á Berglindi
g) Æfa mig ekkert svo mikið

Haustfríið er ekkert langt. Það var lygi.

Lenti í furðulegu símaveseni áðan. Fékk sms, sem er ekki í frásögum færandi, nema ég skildi innhaldið (sem var á norsku) ekki alveg. Skilboðin voru sennilega ekki ætluð mér. En svo fékk ég sama sms-ið aftur .......og aftur. OK það gerist að fólk sendi sama sms-ið óvart 2svar eða 3svar. Þegar ég var búin að fá þessi skilaboð 5 sinnum sendi ég skilboð til baka um að nú væri ég búin að fá þessi skilaboð nokkuð oft og botnaði þar að auki ekkert í þeim. Þegar ég var búin að fá skilaboðin u.þ.b. 15 sinnum reyndi ég að hringja í viðkomandi (sem er maður sem ég vinn með) og láta hann vita af þessum endalausu sms-sendingum. Hann hefur líklega ýtt á “svara” takkann án þess að taka eftir því (eða verið alveg blindfullur um hádegi á föstudegi). Ég náði allvega engu sambandi við hann. Og þetta sama skilaboð hélt áfram að berast. Í allt urðu þetta 50 alveg eins sms! Já, einhver á eftir að fá háan símareikning um næstu mánaðarmót ef þetta gerist oft.

Vinningshafi

Og vinningshafinn í kórtextasamkeppninni er .................................................................................................... Tim Burton!

Takk Agnes fyrir að benda mér á þessar frábæru teiknimyndir. Valdi vísu sem nefnist The Girl With Many Eyes.

Vil einnig þakka öðrum þátttakendum í kórtextakeppninni fyrir þátttökuna. Hugsast gæti að myndi vilja nota eitthvað textunum sem mér bárust við aðrar tónsmíðar og mun ég þá hafa samband við viðkomandi höfunda til að fá leyfi til notkunar.

Wednesday, October 12, 2005

Víðáttan

Á flestum stöðum í heiminum er víðáttan utandyra. Því er þó ekki þannig háttað hér í Fellabæ Noregs. Víðáttan í er matsalnum/stofunni. Utandyra eru trén. Hér finnur maður líka ýmislegt fleira utandyra sem ekki gæti talist eðlilegt á Íslandi. Ef maður fær sér göngutúr í óspilltri náttúru Íslands rekst maður kannske á gamla fjárrétt eða rústir af gömlum bæ. Það er hins vegar ekki á færi hvers sem er að koma auga á slíkar rústir. Held að það sé eiginlega bara Páll Pálsson frá Aðalbóli sem sér slíkt, því munurinn á rústum og þúfum er ....... enginn. Rústirnar eru þúfur í örlítið reglulegri mynd en gengur og gerist. Hér í landi Norðmanna rekst maður hins vegar á trjáhýsi og misgömul eldstæði í skóginum og ..... SKÍÐASTÖKKPALLA! Ójá. Í miðju einskinsmannslandi í útjaðri skógar hér í Fellabænum má finna gamlan skíðastökkpall. Þykir reyndar ólíklegt að hann sé enn notaður því hann er frekar fúinn greyjið.

Í Húsi E er víðáttan horfin undir draslið mitt sem hefur tekið upp á því að fjölga sér og dreifa sér út um allt hús. Þá aðallega prjónadótið. Ótrúlegt hvað getur farið mikið fyrir nokkrum spottum og prikum.

Sunday, October 09, 2005

Um Afríku

Ég er nú ekki alveg jafn alein hérna í fríinu einsog ég hélt. Hér eru 4 Afríkanar auk mín. Þetta er það sem ég hef lært um Afríkana á einum degi:
-Þeir eru ekki mjög góðir í landafræði (spurðu hvort Ísland væri nálægt Alaska).
-Þeir eru hræddir við snjó og kulda og kvíða því þegar það verður kaldara en nú er orðið (nú eru enn u.þ.b. 10 gráður í plús, og hér er spáð um 30 gráðum í mínus yfir hörðustu vetrarmánuðina).
-Þeir eru hins vegar ekkert hræddir við að klífa fjöll í aftakarigningu og slagviðri.
-Í Suður-Afríku eru töluð a.m.k. 11 tungumál. Krakkarnir sem eru hér tala ekki öll sama tungumálið og tala því saman á engilsaxnesku.
-Í Afríku læra lúðrasveitarkrakkar ekki að lesa nótur. Þau læra allt eftir eyranu og þau eru hér í Útlandinu til að læra að lesa nótur og kenna útlenskum krökkum að spila án nótna. Sniðugt.

Það er líka eitthvað af starfsfólki hér í fríinu. Fólk í eldhúsinu alla daga. Nú er kokkurinn að baka rúnstykki handa okkur. Já. Þetta er alveg eins og að búa á hóteli núna. Þar sem eru álíka margir gestir og starfsfólk. Afríkanarnir fara svo í ferðalag á miðvikudaginn til að kenna krökkum. Þá verður talsvert fleira starfsfólk en gestir hér á hótelinu (ég verð semsagt pottþétt ein eftir þá). Þangað til höldum við Afríkanarnir að mestu til í stofunni/matsalnum. Þar er nefnilega poolborðið, internetsambandið og sjónvarpið. Þessi óvænti félagsskapur verður samt sennilega til þess að minna verður af æfingum og tónsmíðum en áætlað hafði verið.
Síðasti skiladagur fyrir texta er þó á morgun. Ef einhverjir fleiri hyggjast senda mér texta þurfa þeir hinir sömu að drífa í því. Dómnefnd mun að öllum líkindum velja kórverkstextann eigi síðar en á þriðjudag.

Saturday, October 08, 2005

Partý!

Þá er ég orðin ein eftir í Húsi E. Sambýlingarnir (og reyndar flestir aðrir líka) farnir til síns heima. Hér á svæðinu eru reyndar 4 krakkar frá Suður-Afríku. En þau fara í ferðalag á miðvikudaginn.
Hér í Húsi E er mjög partýlegt um að litast. Blöðrur upp um alla veggi síðan í barnaafmælinu á þriðjudaginn og bílateppið hans Sigmund á stofugólfinu. Bílateppi er teppi með myndum af götum og húsum svo maður geti farið í bíló. Íbúar Húss E fengu nefnilega þá snilldarhugmynd að búa til flatsæng á stofugólfinu til að geta lagt sig og talað saman á meðan. Bílateppið er semsagt leifarnar af þeirri hugmynd.

Held ég sé pottþétt orðin mesta kennarasleikja skólans. Hér koma nokkrar staðreyndir sem styðja þá kenningu:
-Fór til Jóns skólastjóra áðan og fékk lykla að ÖLLUM dyrum skólans. Jafnt inni- sem útidyrum (partýið getur því teigt sig yfir ansi stórt svæði).
-Ég er boðin í mat til yfirkennarans á mánudaginn (ásamt Afríkukrökkunum reyndar).
-Við Berglind erum búnar að afla okkur nafnbótarinnar “kontrapunktsnördar skólans”. Ansi vafasamur titill það.
-Ég er að spila verk sem undirleikari skólans þarf að æfa heima. Það er rosalegt. Þessi undirleikari er nefnilega með u.þ.b. 30.000 megabæta minni. Hann hefur spilað ALLT (nema kannski eitthvað eitt) og hann getur spilað þetta ALLT í fyrstu tilraun (nema kannski eitthvað tvennt). Honum finnst íslenska orðið “undirleikari” frábært en “meðleikari” ekkert flott. Og ég held að honum finnist alveg ótrúlega gaman að hafa eitthvað að æfa heima. Hlýtur að vera skrítið að geta spilað ALLT.
-Var í tónsmíðatíma í klukkutíma og korter á þriðjudaginn (ég á að fá hálftíma í viku).
-Í lúðrasveitinni er ég skyndilega búin að fá alla sópran-sax og 1. alt-sax parta (upphaflega áttum við eitthvað að skiptast á) og að auki öll sóló sem eiga að spilast á óbó eða enskt horn (viagra-óbó). Þetta þýðir ansi mikla transponeringarvinnu, því ég spila þetta jú allt á saxófónana.
-Brass-band skólans er byrjað að æfa eina verkið sem ég er búin að tónsmíða síðan ég kom.

Það er semsagt nóg plásss í partýinu. Og þá meina ég svona nokkur þúsund fermetrar til afnota fyrir gesti og gangandi.

Friday, October 07, 2005

Snúruklipping

Í gær var snúruklipping. Það er það sem Íslendingar myndu kalla vígsluathöfn þar sem klippt er á borða. Þessi snúruklipping var merkileg fyrir margra hluta sakir. Það var ekki verið að vígja nýja byggingu eða brú. Ónei. Það var verið að vígja MALBIKIÐ á bílastæðinu. Ansi sérstakt. Við þetta stórmerkilega tækifæri söng 150 manna kór og 3 ræður voru haldnar. Í allt tók athöfnin þó innan við 10 mínútur. Eftir þetta var svo hátíðarkvöldverður til heiðurs nýja malbikinu. Já. Segiði svo að útlendingum detti aldrei neitt skemmtilegt í hug. Ástæðan fyrir því að bílastæðið var malbikað var líka ansi sérstök. Það voru ekki nemendur eða kennarar sem nota bílastæðið sem kvörtuðu yfir malbiksskorti heldur ein skúringakonan í skólanum. Það kom svo mikil drulla inn með skóm. Og nú er víst miklu hreinna innahúss en áður hefur þekkst. Það er semsagt hlustað á kvartanir ALLRA í skólanum og málunum reddað þannig að allir séu glaðir. Enda gengur fólk hér um gangana með sólheimaglott á vör.

Wednesday, October 05, 2005

Djasskvöld

Er alltaf að komast betur og betur að því hvað þetta er frábær skóli sem ég er í. Mætti skólastjóranum á förnum vegi. Hann innti eftir því hvort ég væri ekki örugglega að fá alla þá kennslu sem ég óskaði eftir. Ég hélt nú það og það er sko alveg FULLT. Og reyndar gott betur. Skilst að það eigi að búa til sérstakan Íslendingatónfræðakúrs, þar sem við erum búnar að læra dáldið meira en útlendingarnir. Förum á fund með viðkomandi kennara eftir haustfríið þar sem ákveðið verður hvað við viljum læra í þeim fræðum í vetur.
Hér er líka ofsalega sniðugt umsjónarkennarafyrirkomulag í gangi. Maður fer í viðtal á tveggja vikna fresti og segir skoðun sína á hlutunum. Ég er búin að fara einu sinni í svona viðtal. Talaði aðallega um hvað lúðrasveitarkallinn væri mikill asni (og rökstuddi þá skoðun mína á faglegan hátt). Og viti menn. Daginn eftir var kallinn eiginlega alveg hættur að vera asni. Já. Samskipti kennara skipta máli. Minnist þess að svipað kerfi (þ.e. umsjónarviðtöl) hafi verið viðhaft í ME á sínum tíma, en þar virkaði það bara aldeilis ekki. Var alltaf að tuða yfir einhverju, jafnvel því sama árum saman en ekkert gerðist.
Hef reyndar smá áhyggjur af því að ég hafi ekkert að tuða yfir svona oft. Þessa dagana er allt ótrúlega frábært og ég sé ekki fram á að það breytist á næstunni.

Í gær átti Maria sambýlingur minn afmæli. Til hamingju með það Maria. Í tilefni dagsins var haldið barnaafmæli í Húsi E með blöðrum, snakki, gosi og prjónakonum.

Í kvöld er djasskvöld. Áðan spiluðu fjórar djasshljómsveitir í röð og nú leikur stórsveit hússins fyrir dansi.
Í tilefni djasskvöldsins ætla ég að deila með ykkur örsögu sem mig minnir að Garðar nokkur Harðarson hafi sagt mér á sínum tíma. Hún var eitthvað á þessa leið:
Maður nokkur spurði annan mann hvort hann hlustaði eitthvað á djass. Viðmælandinn svaraði: “Já, ég hef hlustað dáldið á djass og mér finnst það ekkert sérstaklega skemmtilegt lag”.

Að lokum vil ég þakka frábær viðbrögð við textabeiðninni hér að neðan. Vonast auðvitað til að fá enn fleiri til að velja úr.

Takk fyrir mig

Monday, October 03, 2005

Textar góðan dag!

Jæja. Nú blogga ég ekki meira fyrr en þið eruð búin að senda mér ALLA þá texta sem ég gæti hugsanlega mögulega notað í tilvonandi kórverk. (Heyrirðu það Siggalára! (og allir hinir (3 sem lesa þetta blogg) auðvitað líka)).

Sunday, October 02, 2005

Ykkur er boðið í partý....

..... í Húsi E. Gleðskapurinn hefst næstkomandi föstudag (7. október) og stendur til sunnudagsins16. október. Tilefnið er haustfrí, sem telst víst til siðs hér austan hafs. Það þýðir með öðrum orðum að fólk flykkist til síns heima, utan eins vesæls útlendings sem mun halda patý á skólavæðinu. Samkvæmið hentar ákaflega vel fyrir óvirka alkóhólista og ófrískar konur. Vonast til að sjá ykkur sem flest.
Nefndin.

Fattaði allt í einu af hverju það varð allt í einu svona mikið að gera í skólanum. Fyrstu dagana átti maður að velja þau fög sem maður vildi vera í, þá valdi ég óvart eiginlega allt. Og svo fékk ég óvart smá vinnu. Til samans varð þetta bara ágætlega mikið þegar allt var komið í gang. Og ótrúlega margt gagnlegt sem er hægt að læra hérna, t.d. hljóðblöndun og hljómsveitarstjórnun. Það þýðir ekkert að kunna bara að gera eitthvað eitt!
Svo virðist vera ansi mikið um menningarferðir í höfuðborgina á vegum skólans. Fórum á tónleika á föstudagskvöldið. Verð að vera sammála einni básúnustelpunni. Það var alveg “dritt kjedeligt”. Semsagt, nútímatónlist. Engin lög. Bara mismikil læti. Alltaf þegar ég fer á svona tónleika man ég af hverju ég ákvað að semja lög. Það er einmitt af því að það eru svo fáir sem semja LÖG. Flestir semja hljóð.

Vil að lokum ítreka beiðni mína um texta fyrir kórverkið.

Farin í göngutúr uppí skóg.