Thursday, November 23, 2006

Komið jólafrí

hjá mér í skólanum. Þá er um að gera að drífa sig heim á frónið og byrja að vinna allar vinnurnar (3) sem ég er búin að fá í jólafríinu.

Kem til landsins á morgun og byrja að vinna um leið og ég kem í Sveitina. Verð svo á höfuðborgarsvæðinu frá sunnudagskveldi og eitthvað frameftir næstu viku (ef einhver vill hittast) áður en förinni er fram haldið austur á land. Þar eru hinar tvær vinnurnar.

Veit ekki hvað ég verð dugleg við að skrifa hér meðan ég er á Íslandinu. Þið getið þá bara hringt til að afla nýjustu frétta, ef áhugi er fyrir hendi.
Verð með sama gamla símanúmerið.

Sjáumst bráðum.

Wednesday, November 22, 2006

Ennþá dimmt

Síðustu daga er ég búin að eyða alveg fáránalega miklum tíma í að pirra mig yfir seinagangi skrifstofufólks í skólanum. Ótrúlegt hvað allt sem tengist skrifræði virkar illa í þessum skóla, miðað við hvað allt annað virðist pottþétt. Kennslan frábær, bókasafn, tölvumál og öll aðstaða miklu betri en ég hef áður átt að venjast í slíkum skólum. En ég held ég hafi aldrei komist í kynni við skrifstofubákn sem virkar svona illa. Fyrst tekur óratíma að fá það á hreint hver sér um hvaða mál. Og þegar pappírar eru komnir í réttar hendur, þarf maður eiginlega að sitja yfir fólki á meðan það vinnur vinnuna sína, til að það gerist eitthvað.

Ætla að reyna að halda aftur af pirringi mínum frá og með núna og fram yfir jól. En þá verð ég líka brjáluð ef það verður ekki komið á hreint hvaða fög ég þarf að taka og hvað ekki (er semsagt enn að sitja í tímum sem ég veit ekki hvort ég þarf að vera í).

Maður verður líka þreyttur á að vera pirraður. Og það er ennþá rigning og dimmt. Varla búið að verða vart við dagsbirtu í 3 sólarhringa.

Sjitt hvað ég hlakka til að sjá til sólar þegar ég kem á heimaslóðir (já, ég er búin að tékka á veðurspánni).

Ekki á morgun heldur hinn.

Monday, November 20, 2006

Dimmt

Í Útlandinu er enginn snjór núna. Það er rigning og kalt og dimmt. Meira að segja smá vindur (rok á útlenskan mælikvarða, smá gola á íslenskan). Það versta við svona veður er áhrif þess á dagsform manneskjunnar. Maður verður alveg skítþreyttur. Og það er spáð svona veðri alveg þangað til ég yfirgef landið (á föstudaginn). Ætli maður höndli myrkrið í heila fjóra daga?
Asnalegt að hafa myrkur allan sólarhringin.

Þessi færsla var tileinkuð ykkur sem þolið illa snjóinn. Lítið á björtu hliðarnar. Það er allavega bjart úti einhvern hluta dags.

Hlakka til að koma til lands þar sem hægt er að vera vakandi á daginn.

Farin að sofa ........ zzzzzz.

Sunday, November 19, 2006

Að læra á hljóðfæri?

Merkilegt hvað maður er miklu duglegri dagana sem maður þarf ekki að mæta í skólann. Vaknar fyrir hádegi hress og sprækur til að takast á við heimaverkefni vikunnar. Eitthvað sem maður nenni aldrei að gera efitr venjulegan skóladag, jafnvel þó hann sé stuttur.

Í morgun fór ég í hljóðver skólans, tók smá upp og gerði verkefni. Þessar vikurnar erum við aðallega að læra að láta tölvuhljóð hljóma eins og alvöru hljóðfæri. Við erum semsagt að flytja tónlistina úr hefðbundnu nótnaskriftarforriti yfir í upptökuforrit, og fáum það til að hljóma eins og alvöru hljóðfæri með hjálp þar til gerðs hljóðfærahermiforrits. Þetta hljómar eiginlega alveg eins og ef um alvöru hljóðfæraleik væri að ræða. Siðugt. Eða hvað? Er ekki pínu skrítið að kenna ponsulitlum hluta nemenda að gera hina nemendur skólans atvinnulausa að námi loknu?

Þetta er víst framtíðin. Í heimi kvikmyndatónlistar er mikið farið að nota þessa tækni. Ódýrara að ráða einn kall í nokkrar vikur til að gera þetta, en heila hljómsveit í einn dag.
Spurning um siðferðislegt réttmæti.

Saturday, November 18, 2006

Ævintýri dagsins

Ákvað í dag að fara með sporvagningum í skólann sökum rigningar. Yfirleitt labba ég.

Þegar sporvagninn var búinn að keyra um 100 metra leið í áttina að skólanum stoppaði hann sökum bilunar. Vesalings bílstjórinn var fyrst í sambandi við kall í gegnum talstöð. Sá sagði honum að ýta á einhverja takka, sem virkaði ekki neitt. 15 mínútum síðar kom gulur kall og skoðaði eitthvað í 5 sekúndur og fór aftur. Nokkrum mínútum síðar komu tveir gulir kallar og skoðuðu eitthvað í 3 sekúndur og fóru svo aftur. Nokkru síðar kom annar sporvagn til að draga minn sporvagn, því hann var greinilega alveg bilaður. Urðu þá farþegarnir að fara út og bíða eftir enn öðrum vagni.

Það sem gerist þegar sporvagn bilar, er að það myndast biðröp annarra sporvagn fyrir aftan bilaða sporvagninn. Þegar bilaði sporvagninn var farinn kom því heill haugur af slíkum farartækjum á örskömmum tíma, en enginn þeirra var númer 11 (það var númerið á mínum vagni). Hann kom ekki fyrr en 10-15 mínútum síðar.

Ferðalagið í skólann tók um klukkustund. Það tekur tæpan hálftíma að labba.

Þegar ég kom í skólann var hætt að rigna.

Það skemmtilegasta við ferðalagið var að ég sá virðulegan eldri herramann í dökkum fötum með hatt og í frakka, og SKÆRappelsínugulum gúmmískóm. Já, það þarf lítið til að deginum sé bjargað.

Ég ákvað að labba heim úr skólanum.

Friday, November 17, 2006

Kindur og tilgangur lífsins

Fór í afar áhugaverðan tónsmíðatíma í gær. Þar fóru fram heimspekilegar umræður um lifnaðarhætti kinda og ýmislegt fleira. Var þar meðal annars rætt um ástæður og afleiðingar gjörða mannsins og tilgang lífsins (sem báðir aðilar voru alveg með á hreinu, merkilegt nokk).

Undir lok samtalsins komst minn ágæti kennari svo að orði: “Ég vil nú ekki að þú endir sem alkóhólisti á Íslandi”. Ég sagði honum að það væri nú lítil hætta á því (var hins vegar ekkert að hafa orð á því að það væru yfirgnæfandi líkur á að ég yrði fyllibytta á Íslandi. Það er nefnilega allt annað mál).

Hins vegar sá ég ekki alveg hvað væri svona slæmt við að verða alkóhólisti á Íslandi. Þekki alveg slatta af íslenskum alkóhólistum og þetta er upp til hópa alveg prýðisfólk. Það eina slæma sem ég sé við að verða alkóhólisti á Íslandi er kuldinn og rokið. En það á við um allt sem endar á "........ á Íslandi.”

Thursday, November 16, 2006

Hin íslenska tunga

á daginn í dag. Til hamingju með það Tunga.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum er langbest að vakna kl. 10:00 fyrir hádegi í svartasta skammdeginu.

Fleira er ekki í fréttum.

Wednesday, November 15, 2006

Skór og tuð

Er að verða búin að jafna mig eftir maraþonnámskeiðið í síðustu viku. Allavega hætt að dreyma litla kassa með tölum og orðum. Það er ágætt.

Festi í dag kaup á vetrarskófatnaði ársins, sem er öllu viðaminni en vetrarskófatnaður síðasta árs. En smekklegur engu að síður. Var að vonast til að geta prófað þessa nýju félaga mína á næstu dögum, en veðurspáin hljóðar upp á rigningu og 10 gráður í plús, þannig að það verður að bíða betri tíma ( = verra veðurs). Árstíðirnar eru ekki alveg með á nótunum þessa dagana.

Nú er bara lokaspretturinn fyrir jólafrí eftir. Nokkur verkefni, píanóæfingar og eitt próf. Kannski. Eða meira svona könnun bara. Ekkert stress.

Þarf reyndar eiginlega að fá eitt mál á hreint hjá skrifstofufólkinu. Þeim tókst nefnilega að gera það sem engum hefur nokkurn tíma tekist á minni skólagöngu. Að búa til árekstur í stundaskránni minni. Það er alveg fáránlegt. Hér er nefnilega við lýði einhvers konar bekkjarkerfi, þannig að ég er eiginlega alltaf með sömu fjórum strákunum í öllum fögum. Það eru 2 fög sem við erum ekki saman í, og ég er búin að fá undanþágu frá öðru þeirra. Þessu eina fagi sem eftir stendur tókst semsagt að reka utaní annað fag. Ætla að reyna að fá lausn á þessu máli fyrir jólafrí, en miðað við hraða á úrvinnslu mála hér á bæ reikna ég ekki endilega með að það takist. En ég mun gera mitt besta ( = tuða óbærilega mikið þangað til ég fæ það sem ég vil. Virkar oft.)

Monday, November 13, 2006

Kennt á lúður með einni setningu

Einn bekkjarfélagi minn ákvað nú á dögunum að fara að takast á við eitthvað nýtt og skemmtilegt, og keypti sér því saxófón. Þegar hann hafði gengið frá kaupunum spurði hann mig hvernig maður spilaði á slíkt hljóðfæri. Þessari spurningu gat ég svarað með einni setningu, þökk sé tveimur drengjum úr Sveitinni.

Í síðustu Íslandsför eyddi ég einni helgi við æfingar í Sveitinni. Á einni æfingunni fór saxófóndreng einum að leika forvitni á að vita tilgang eins takka á hljóðfæri sínu. Hann spurði sessunaut sinn hvaða tilgangi þessi tiltekni takki þjónaði. Og sessunauturinn svaraði: "Ef maður ýtir á þennan takka og blæs hér í, þá kemur tónlistin hérna upp".
Mér þótti mikið til þessa svars koma. Þarna tókst drengnum nefnilega að útskýra notkun allra blásturshljóðfæra með einni setningu. Takkarnir à slìkum hljóðfærum gera nefnilega allir meira eða minna það sama.

Þegar bekkjarfélaginn spurði ràða ì tengslum við saxòfònleik sinn, var svarið einfalt: Maður ýtir á takkana og blæs í munnstykkið, og þá kemur tónlistin út.

Flóknara er það nú ekki.

Sunday, November 12, 2006

Steingleymdi

auðvitað að auglýsa Vestmannaeyjatónleikana.

Það voru semsagt tónleikar með Lúðrasveit Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum í gær.
(Ég bíð spennt eftir ferðasögunni Sóley)

Þá vitiði það.

Friday, November 10, 2006

Heili við suðumark

Er alveg að fara að skrifa skemmtilega sögu á þetta blogg, en nú er ég á námskeiði sem grillar á manni heilann hægt og hægt. Þá getur maður ekki skrifað skemmtilega sögu. En skemmtilega sagan kemur örugglega bráðum. Þegar heilinn kemst niður fyrir suðumark (sem verður vonandi fljótlega eftir helgi, ef ekki fyrr).

Tuesday, November 07, 2006

Vinna?

Þá er þessi langa helgi að verða búin. Er búin að vera rosa dugleg. Það er munur að vera svona góður í að skipuleggja sig. Ef þig vantar námskeið í skipulagningu tímans þíns skaltu bara hafa samband.

Kláraði klarinettulagið á tilsettum tíma (að sjálfsögðu) og byrjaði á næsta lagi. Það er flautulag fyrir Sóleyju. Gerði líka öll heimaverkefnin sem ég mundi eftir þó það eigi ekki að skila þeim fyrr en í næstu viku. Fæ nefnilega ekkert helgarfrí um næstu helgi. Þá er námskeið í einhverju tölvudóti. Byrjar á morgun. Spennandi verður að sjá hvernig það gengur. Finnst líklegt að rafmagnið fari af borginni og komi ekki aftur fyrr en á sunnudaginn. Dæmigert eitthvað sem gerist þegar ég kem nálægt einhverju sem ég kann ekki á og tengist rafmagni.

Skuggalega stutt í jólafrí og hér er smá auglýsing:

Vantar yður öflugan og samviskusaman starfskraft í desmber?
Undirrituð óskar eftir vinnu, helst á stór-Egilsstaðasvæðinu, allan desember.

Takk

Thursday, November 02, 2006

Í(s) kór

Fór á æfingu hjá Íslendingakórnum áðan (hann heitir Ís-kórinn). Það var bara gaman. Held semsagt að ég sé byrjuð í kór. Svona af og til allavega. Hitti alveg tvo Íslendinga sem ég þekki og einn sem ég er búin að vera svo mikið í sambandi við gegnum tölvupóst að ég þekki hann eiginlega líka.

Annars var eins gott að það var gaman að hitta Íslendingana. Dagurinn búinn að vera frekar glataður fram að því. Eingöngu fjallað um rafdót í skólanum í dag. Fyrst eitthvað sem ég vildi skilja, en skildi samt ekki. Komst svo að því að það var ekki mér að kenna heldur einum strák. Fúlt. Svo var annar rafdótkúrs um rafdót sem mig langar ekkert svo til að læra, en verð á 5 daga námskeiði í í næstu viku. Allan daginn. Í 5 daga. En það byrjar ekki fyrr en á miðvikudaginn. Nú fæ ég semsagt laaangt helgarfrí, en ekkert um næstu helgi. Það er glatað.

Á morgun ætla ég að klára klarinettulagið alveg (partana og allt) og senda, svo lúðasveitin geti byrjað að æfa það á þriðjudaginn.

Pé ess: Klarinettulagið heitir ennþá ekki neitt.

Wednesday, November 01, 2006

Góðan daginn

og gleðilegan nóvember. Í dag kom veturinn. Allt í einu komið frost og ponsulítill snjór. Kemur manni jafn mikið á óvart á hverju ári að það skuli koma vetur.

Ekki mikið að frétta þessa dagana. Alltaf í skólanum fjóra daga í viku og á meðan dettur mér ekkert í hug. Og ég sem hélt að nám að þessu tagi ætti að auka hugmyndaauðgi. Það var svo sannarlega misskilningur.
En svo kemur þriggja daga helgi og þá dettur manni fleira í hug.
Í næstu viku er ekki venjuleg kennsla, en ég hef lúmskan grun um að þá sé tónsmíðanemum ætlað að sitja námskeið um ákveðið rafdót.

Annað kvöld er hugmyndin að hitta Íslendinga hér í borg. Þá fyrstu síðan ég kom í haust.

Pé ess: Mig vantar enn nafn á klarinettulagið ef ykkur dettur eitthvað í hug.