Friday, December 14, 2007

Óveður?

Komin til Egilsstaðaborgar. Akstur frá höfuðborgnni gekk gríðarvel. Sá tvo hreindýrahópa, og keyrði ekki á neitt þeirra. Keyrði reyndar á einn lítinn fugl. Skammaðist mín ekki einu sinni fyrir það. Er sennilega að breytast í samviskulausan morðingja.

Í dag berast fréttir af óveðri miklu á suðvesturhorninu (hef reyndar heyrt að þær fréttir séu stórlega ýktar). En hvernig er veðrið hér í höfuðstað Austurlands?
Það er manndrápshálka. Ráðlegg engum sem staddur er hér að fara út fyrir dyr. Manndrápshálka er óþekkt fyrirbæri í öðrum þéttbýlum. Þetta er svell sem nær yfir allar götur, gangstéttir og nálæg svæði. Svo er smá rigning og vindur. Litlir lækir renna víða yfir svellinu og ef það kemur vindkviða sem er mælist 5 metrar á sekúndu eða meira, þá ertu fokinn eitthvert sem þú átt alls ekki að vera (t.d. út á miðja götu). Hálka að þessu tagi er mjög algeng hér á bæ. Svellið hverfur sko ekkert á nokkrum dögum. Það geta liðið vikur, eða jafnvel mánuðir þar til hægt verður að fara út án þess að setja sig í lífshættu.
Þurfti að skreppa í Kaupfélagið áðan og hugði ekki nægilega vel að mér (var með gleraugu). Lenti í bráðum lífsháksa vegna hálku og sá næstum ekkert vegna rigningar á gleraugum. Datt samt ekki. Heppni.

Að mínu mati er mun varhugaverðara að vera á ferli utandyra í Egilsstaðaborg heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju er ekki varað við því í fréttum allra landsmanna?

Mér er spurn.

Tuesday, December 04, 2007

Á morgun

er það Ísland.

En fyrst tónheyrnarpróf.
Gangi mér vel.

Sjáumst heima.

Sunday, December 02, 2007

Mæli með

- Pú og Pa.

Legg til að RÚV sýni þetta jóladagatal á hverju ári. Snilldarhúmor sem eldist greinilega mjög vel.

- Jólatrénu á Austurvelli

sem var víst höggvið við Sognsvatn. Það vill svo skemmtilega til að það vatn er einmitt í bakgarði Gettósins, hvar ég bjó fyrir margt löngu (rúmlega ári).

- Jólafríi í Egilsstaðaborg.

Þar verður stuðið.

Saturday, December 01, 2007

Innivera

fyrir framan tölvuskjá hefur einkennt síðustu daga. Og það gengur bara vel.

Í dag ákvað ég að drífa mig uppí skóla og æfa mig aðeins á píanóið, mér til ánægju og yndisauka. Veðrið er reyndar ekki uppá marga fiska þessa dagana. Dimmt og rigning, en þá er jafnframt ástæða til að fara út í röndóttu gúmmístígvélunum og hoppa í nokkra polla. Og það er nú ekki leiðinlegt.

Að öðru:

Út er komin geislaplata í tilefni 85 ára afmælis Lùðrasveitar Reykjavíkur. Á plötu þessari má finna tvö lög eftir mig sjálfa auk verka eftir nokkra minna fræga kalla, einsog t.d. Charles Ives, Pál Pampichler Pálsson og Áskel Másson.
Plötu þessa má nálgast í verslun Tólftóna (í mjög takmörkuðu upplagi) og hjá nokkrum útvöldum aðilum.

Ég reikna að sjálfsögðu með að þið lúðrafólk sækið mig á Kebblavíkurflugvöll á miðvikudaginn og afhendið mér formlega eintak af plötunni … og blóm.

Takk.


P.S. Það er kominn desember og Sigga amma á afmæli í dag. Hún er 85 ára, alveg eins og lúðrasveitin. Til hamingju með daginn amma.