Sunday, October 29, 2006

Tíminn líður

eins og venjulega. Eða hvað?

-Fyrir tveim vikum fékk ég 2 auka klukkutíma.
-Fyrir einni viku missti ég af tveimur tímum.
-Í dag fékk ég 1 auka klukkutíma.

Ég er semsagt 1 í plús.

Í tilefni af því kláraði ég klarinettulagið í dag. Vantar bara nafn á það. Einhverjar hugmyndir? (Það þarf að vera kúl eða fyndið, eða bæði).

Saturday, October 28, 2006

Frábær diskur

Fann þennan líka frábæra geisladisk þegar ég var að gramsa í eigum mínum í geymslu systur minnar hinnar eldri. Þar er um að ræða hljóðupptöku sem gerð var á öldurhúsinu Svarta folanum fyrir dáldið mörgum árum. Hljóðupptaka þessi er til víða um heim ... í ca. fjórum eintökum. Ótrúlega gaman að hlusta á þetta. Ætla að geyma þennan disk vel, þar sem hinir þrír hljómsveitarmeðlimirnir eru örugglega á góðri leið með að verða heimsfrægir. Þá get ég selt afrit á ebay og grætt stórfé.

Það tókst aldrei almennilega að finna nafn á hljómsveitina, en hljómsveit þessi varð heimsfræg á sínum tíma. Á Stöðvarfirði, og spilaði eingöngu þar.

Það skemmtilegasta við upptökuna er samt áheyrendur, sem verða minna edrú = meira áberandi með hverju laginu.

Hér gæti svo komið löööööööööööööng saga um ævintýri hljómsveitarinnar á ferðum sínum og fróðleiksmolar frá Stöðvarfirði. Held ég fari ekki nánar út í þá sálma hér (skrifa kannske bók síðar). Hef hins vegar tekið það helsta saman í eitt spakmæli:

Það var gaman í gamla daga (og er enn).

Rafdót

Hef nú komist að því að ég get sennilega sofið endalaust. Vaknaði við vekjaraklukkuna í morgun eftir 12 tíma svefn (ekki í fyrsta skiptið í þessari viku). Flestir verða sloj af að sofa svona lengi, en ég verð bara hress. Var dugleg og labbaði í skólann og gekk alveg yfirnáttúrulega illa með rafdót-verkefnið. Get nefnilega verið alveg ævintýralega treg þegar kemur að samskiptum við tölvur og annað rafdót. Gengur bara betur næst. Eða eitthvað. Nenni ekki alveg að pirra mig yfir þessu. Gekk allavega vel með önnur verkefni og æfingar á ýmis hljóðfæri. Það er þó eitthvað.

Á morgun er stefnan að klára klarinettulagið. Eins gott að það gangi betur en rafdót-verkefnið.

Friday, October 27, 2006

Inni með Ingó

Er búin að vera að semja klarinettulagið í allan dag. Samt ekki alveg búin. Klára vonandi á sunnudaginn. Ég og nýji fjölskyldumeðlimurinn (Ingó Eldhúsborð) erum semsagt búin að vera heima í allan dag. Á morgun þarf ég að fara upp í skóla að gera rafdót og æfa mig á píanóið. Þá fer ég allavega aðeins út fyrir dyr.

Langar mest af öllu til að vera í Vestmannaeyjum núna með Sóleyju og fleirum. En ég verð bara að fara þangað seinna. Ruglið að búa í þessu Útlandi. Maður missir af fullt af skemmtilegu.

Annars eru fréttir dagsins án efa þær að 47 nemendum úr skólnum sem ég var í í fyrra var vikið úr skóla tímabundið vegna áfengisneyslu. Þetta mun vera um þriðjungur allra nemenda skólans. Jón rektor er örugglega ekkert smá pirraður núna. Hef bara eitt að segja um þessa blessuðu nemendur. Djöfull eru þau heimsk ....

Thursday, October 26, 2006

Veðurfar og hversdagsleiki

Í gærmorgun var myrkur úti þegar ég vaknaði. Það á ekki að geta gerst þegar maður býr í Útlandinu. Útlendingar eru nefnilega stundum sniðugir. Þeir breyta bara klukkunni þegar það er orðið of dimmt á morgnana. Reikna fastlega með að þeir breyti klukkunni aðafaranótt næstkomandi sunnudags.

Annars var líka myrkur í eiginlega allan dag. Og rigning. Og skítakuldi. Greinilega að koma vetur. Þá fer ég í lopapeysu.

Í dag smíðaði ég borð og stóla (úr IKEA). Það gekk vonum framar.

Er komin í helgarfrí, en þessi helgi mun fara í að vinna upp heimaverkefni síðustu tveggja vikna (missti dáldið úr útaf Íslandsför) og reyna að drullast til að klára klarinettulagið.

Tuesday, October 24, 2006

Píanó og kór

Það snýst flest um skólann og verkefni honum tengudum þessa dagana. Kannski ekkert skrítið þar sem ég stakk af í síðustu viku og það eru ekkert sérlega margar “venjulegar” kennsluvikur eftir fram að jólum. Fór í píanótíma í dag og bjóst við að fá loksins að sjá manninn sem á að kenna mér á píanó. En, nei. Það var enn afleysingakennari. Í þetta skipti strákurinn sem kenndi mér fyrst. Hann kennir djass, en ég var auðvitað ekki búin að æfa mig í því þar sem ég bjóst við manninum sem ku vera klassískt menntaður. Frekar fúlt. En nú veit ég allavega að djassstrákurinn verður líka næst.

Eyddi fyrri hluta kvölds á kóræfingu. Ekki til að syngja heldur kenna útlendingum íslenskan framburð. Bjóst við að þurfa að eyða hálfu kvöldinu í að tönglast á þ og ð. En þau kunnu það alveg, og heilmargt fleira. (Segir sitt um íslenskuáhuga hópsins að kórinn heitir Ginnungagap). Það var bara fátt sem þau kunnu ekki (t.d. ei, au, æ og ll) og þau voru fljót að læra það. Samt 1 sem fór dáldið í taugarnar á mér. Það er mjög í tísku meðal hérlenskra kórtónskálda að notast við texta úr Hávamálum og Völuspá. Finnst persónulega frekar asnalegt þegar fólk notar texta sem það kann ekki að bera fram og/eða skilur ekki. Og í dag fannst mér það alveg út í hött. Held nefnilega að drengurinn sem samdi lagið hafi ekki alveg skrifað textann réttan fyrir neðan lagið sitt (þetta var sko handskrifað), og ekki gat ég farið að “breyta” textanum sem gefinn var upp. Einn og einn stafur sem átti bara ekki heima í sumum orðum, þannig að sum orð/setningar meikuðu engan sens. Sumt fólk er fíbbl. Ef ég sem einhverntímann aftur kórlag ætla ég sko EKKI að nota Hávamál eða Völuspá.

Hitt íslenska lagið sem kórinn var að syngja er eftir Íslending. Það var rétt skrifað og ekki úr Hávamálum eða Völuspá. Húrra fyrir því.

Monday, October 23, 2006

Stuttir dagar og einn langur

Helgin var stutt. Ástæða þess var svefn í gríðarlegu magni. Tókst semsagt að sofa af mér rúmlega helming hvors sólarhrings. Þess á milli var ég dugleg að þrífa heima hjá mér og setja dótið sem ég tók úr geymslu systur minnar á sína staði. Þannig að nú er Gorbatsjov kominn á sinn stað uppá vegg.

Í dag var langur skóladagur. Það var alveg ágætt samt. Byrjaði í nýju fagi. Vissi reyndar fyrri helminginn af tímanum hvorki hver þessi maður var sem var að kenna, né heldur hvaða fag hann var að kenna. Það stemmdi nefnilega ekki við það sem stóð á stundaskránni. Komst að líklegri niðurstöðu fyrir lok tímans (sem var 5 klukkutímar).

Ég fann líka Bókina mína (sjá nokkrum færslum neðar). Og hvar haldiði að hún hafi verið? Jú, auðvitað hjá Konunni sem veit. Hitti ekkert á hana áður en ég hélt af landi brott. En í dag var hún á sínum stað, og vissi að sjálfsögðu um Bókina.

Saturday, October 21, 2006

Komin aftur heim í Útlandið

Og var gaman á Íslandinu? JAHÁ!!!! Það var ótrúlega gaman. Helsti kostur þess að búa í Útlandi er einmitt að koma í heimsókn. Stanslaust stuð allan tímann sem maður er á landinu. Hefði reyndar viljað hitta fólk aðeins lengur (og suma hitti ég hreint ekki neitt).

Tókst að gramsa í geymslu systur minnar og hirða þar slatta af eigum mínum. Tókst ennfremur að selja þvottavélina mína. Tvisvar. Það var ekki gáfulegt.

Sveitin er góður staður. Og svo gleymdi ég (nennti ekki) að plögga lúð(r)asveitatónleikana á blogginu þannig að ég geri það bara núna:
Tónleikar Lúðrasveitar Reykjavíkur voru í Neskirkju kl. 19:30 sl. miðvikudag, 18. október. Þið misstuð semsagt af þeim.
En það komu samt margir þannig að þetta var alltílæ. Þetta voru líka skemmtilegir tónleikar, heyrðist mér á tónleikagestum. Passlega stuttir. Gaman að því. Og svo auðvitað partý eftir tónleikana (og öll hin kvöldin líka reyndar).

Takk kærlega fyrir samveruna allir. Sjáumst bráðum aftur.

Skilaboð til mömmu: Takk fyrir lopapeysuna. Hún er geðveikt flott og Sóleyju langar í alveg eins. Var að reyna að hringja í þig í gær og fyrradag, en þú svaraðir aldrei. Mættir hafa samband við tækifæri. Liggur samt ekkert á. Veit að þú ert upptekin við að passa smábarnið.

Thursday, October 12, 2006

Búin

að redda fari af flugvellinum og henda flestum litlu miðunum. Tókst reyndar ekki alveg að klára klarinettukonsertinn, en næstum því þó. Ekki búin að pakka tannburstanum. Og ekki búin að týna flugmiðunum .... ennþá.

Sveitin eftir 1 dag.

Wednesday, October 11, 2006

Litlir miðar

Á morgun ætla ég að taka til. Tiltektin felst aðallega í því að henda fullt af litlum miðum sem liggja um alla pínulitlu íbúðina mína. Þegar ég týndi bókinni ákvað ég nefnilega að skrifa allt sem ég mundi á litla miða og dreifa þeim á mjög óskipulagðan hátt um alla íbúð. Ekki veit ég hvernig þetta átti að bæta skipulagið, en það hefur eflaust verið mjög göfug hugsun á bakvið þessar aðgerðir. Ætla líka að lesa á alla miðana til að gá hvort ég hafi gleymt einhverju. Alltaf gaman að komast að því eftirá að maður hafi gleymt einhverju geðveikt mikilvægu.

Á morgun ætla ég líka að pakka niður tannburstanum (og ekki mikið fleiru) fyrir ferðalagið og klára að semja 1 klarinettukonsert. Sjáum til hvort það takist. Getur verið flókið að pakka niður tannbursta.

Á föstudaginn (þrettánda) fer ég í flugvélina. Reikna með að taka rútuna frá Keflavík (nema einhver hafi gríðarlegan áhuga á að sækja mig) á BSÍ. Ef einhver vill sækja mig þangað (á BSÍ) má sá hinn sami það. En ég held að ég deyji nú ekkert af að labba þaðan og niðrí Hljómskála.

Verð í Sveitinni eftir 2 daga.

Hlakka til að sjá ykkur öll.

Monday, October 09, 2006

Sveitin á föstudaginn

Ekki fannst bókin, þannig að ég stofnaði nýja. Held ég hafi ekki gleymt neinu sem skiptir máli.

Er allavega ekki búin að gleyma ferðalaginu á föstudaginn. Þá fer ég nefnilega í ferðalagið Osló-Keflavík-Reykjavík-Sveitin. Veit ekki hvar Sveitin er þannig að þetta er æsispennandi.

Verð á Íslandi í viku. Held ég sé búin að redda mér gistingu meðan ég er í Reykjavík (eða er það ekki Siggalára?). Ef ekki, þá reddast það eflaust. Ekkert stress.

Þessa vikuna er frí í skólanum og er það nýtt til lærdóms og verslunar á ýmsu smálegu í hin nýju híbýli. Ætla líka að hirða eitthvað af drasli úr geymslum systra minna í næstu viku, svo þær sitji nú ekki uppi með þetta til æviloka greyin.

Ísland á föstudaginn (ef ég verð ekki búin að týna flugmiðunum). Það verður stuð. Eða er það ekki krakkar?

Friday, October 06, 2006

Hvar er bókin mín?

Bókin sem ég skrifa alla mikilvægu hlutina sem ég þarf að gera er horfin. Búin að leyta af mér allan grun á heimili mínu. Held ég hafi verið með hana í gær, en síðan þá er ég búin að vera á örugglega 20 mismunandi stöðum í bænum. Vona bara að Konan sem veit, viti um bókina mína. Annars veit ábyggilega enginn um hana. En hún kemur ekki í vinnuna fyrr en á mánudaginn. Held ég sé farin að þjást af minnisglöpum langt fyrir aldur fram. Ég er allavega farin að skilja dótið mitt eftir á ólíklegustu stöðum.

Er að reyna að muna hvort ég sé að gleyma einhverju sem stendur í mikilvægu bókinni, en man ekkert. Æ, æ. Ætli næstu dagar fari þá ekki bara í að rifja upp dagskrá þarnæstu daga.

Thursday, October 05, 2006

2 búnir, 3 eftir

Þá eru 2 af 5 námskeiðsdögum búnir.

Það er eitt alveg frábært við þetta námskeið. Maturinn. Það var búið að segja okkur að maturinn væri góður á þar sem námskeiðið fer fram (sem er á dansk-norsku sveitahóteli í útjaðri Osló). En vá. Í hádeginu í dag var þríréttað hlaðborð, og þar held ég svei mér þá að allar tegundir matar hafi verið í boði. Enda taka máltíðirnar yfirleitt um 2 tíma. Þegar við mættum á svæðið var okkur sagt að hér værum við aðallega til að borða. Og það varð raunin. Einhverjir fyrirlestrar svona inná milli.

Er annars komin með alveg uppí háls af klassískri nútímatónlist, þannig að ég nennti ekki á tónleikana sem eru í kvöld. Verð að jafna mig aðeins. Held að vandamál tónskálda nútímans sé að þau hugsa of mikið, og reyna of mikið að finna uppá einhverju nýju.

Áðan hélt Luco Francesconi fyrirlestur um óperu sem hann skrifaði undir lok síðustu aldar, og þvílík vitleysa. Hann ákvað að hafa engan söguþráð og engar persónur af því að þá gæti hann alveg eins hafa gert kvikmynd. Mér sýnist á öllu að úr hafi orðið algert bull, sem samanstendur af mis-skipulögðum hljóðum frá nokkrum söng- og hljóðfærahópum. Ekki skil ég hvernig nokkur maður á að skilja hvað litli feiti Ítalinn er eiginlega að fara með þessum óhljóðum.

En svona er tónlist dagsins í dag.

Tuesday, October 03, 2006

Búin að flytja

Nýja heimilisfangið er:

Pilestredet 31, H0603
0166 Oslo
Norge

Og þá getiði farið að senda mér gjafir og póstkort.

Annars gekk bara furðu vel að flytja. Ekkert mál að flytja svona innanbæjar, en þetta er fyrsta reynsla mín af slíkum flutningum. Hef alltaf flutt milli landshorna eða landa. Kannski kominn tími til að flutningar komist upp í vana. Fór að telja og komst að því að nú er ég búin að flytja 11 sinnum á rétt rúmlega 7 árum. Það finnst mér dáldið mikið. En nú sýnist mér ég vera orðin nokkuð góð í því. Sem er gott.

Núna fer ég með sporvagninum í skólann, ekki lestinni eins og þegar ég bjó í gettóinu. Þannig að þetta er dáldið einsog að búa í Kardimommubæ.

Á morgun byrjar námskeið í tengslum við nútímatónlistarhátíðina sem haldin er þessa dagana í Oslo city. Þetta námskeið verður frá morgni til kvölds næstu 5 dagana.

Góða skemmtun ég.

Sunday, October 01, 2006

Útflutningspartýið

var í gær. Ansi skemmtilegt alveg hreint. Í samkvæminu hitti ég fólk frá Frakklandi, Póllandi, Sviss, Austurríki, Spáni, Ítalíu, Rúmeníu, Moldavíu, Slóvakíu, Rússlandi, Lettlandi, Íran, Sýrlandi, Japan, Mexíkó, Kólumbíu og Tasmaníu. Náði ekki að tala við alla, þannig að ég reikna með að þjóðernin hafi verið eitthvað fleiri. Svona er að búa í gettói.

Í dag er ég búin að vera rosa dugleg. Pakka niður öllu dótinu mínu og þrífa.

Alltaf gaman að flytja.