Saturday, May 31, 2008

Heitt

Þá er sumarið komið. Með offorsi. Eiginlega orðið of heitt til að vera úti, fyrir óbreyttan Íslending. Og spáir hlýnandi á næstu dögum. Hvar endar þetta eiginlega?
Það góða við þennan mikla hita er að þá er maður ekki eins útiþurfi, vitandi að það er varla líft utandyra. Hins vegar er ansi mollulegt inn líka, og því erfitt að hugsa. Hvað gerir fólkið í Heitulöndunum eiginlega? Situr inni með viftuna á fullu allan daginn? Og til hvers þá að búa í Heitulöndunum? Þá er alveg eins hægt að búa á Íslandi, með ofninn á fullu.
Þetta var hugleiðing dagsins.

Þessa helgina er ættarmót hjá vesturættinni. Hitti það fólk sjaldan, en þeim bregður stundum fyrir í sjónvarpinu. Í þáttum um Skrítið Fólk. Slíkir þættir hafa orðið geisivinsælt sjónvarpsefni á síðustu árum. Þannig að nú er allt þetta furðulega lið sem býr lengst útí rassgati skyndilega orðið frægt, einmitt fyrir að vera furðulegt lið sem býr lengst útí rassgati.
Loksins er ég skyld einhverjum frægum. Jeij.

Thursday, May 29, 2008

Að ske

Fyrir nokkrum vikum hélt ég að þegar komið yrði fram í seinnihluta maímánuðar yrði ég að mestu komin í frí. Sjitt hvað ég hafði rangt fyrir mér. Hef ekki haft meira að gera í allan vetur held ég sveimérþá.

Þetta helst:

-Leikritstónlistin:
Gengur vel, en tók sinn tíma að finna bestu vinnuaðferðina. Hún skiptist í eftirfarandi stig: Sibelius-Midi-Cuebase-wav-mp3-tölvupóstur. Það gerist ýmislegt á hverju stigi sem ég nenni ekki að fara nánar útí hér. En þetta tekur sinn tíma.

-Lúðratónleikar:
á miðvikudaginn. Hefði þurft að æfa helling fyrir þá, en, nei. Æfingadagur á sunndaginn. Verð bara að massa þetta þá.

-Próf:
Helv... munnlega prófið í tónheyrn. Er reyndar ekki fyrr en 10. júní, en ég ætla sko EKKI að falla í allrasíðasta tóneyrnarprófinu mínu, þannig að ég verð að æfa mig fyrir það.
Svo er eitthvað óskilgreint heimapróf í næstu viku. Hef fáránlega litlar upplýsingar um það mál.

Þannig er nú það.

Og svo var bara jarðskjálfti og læti.

Monday, May 26, 2008

Prump

Fyrsta prófið var í dag. Í píanói. Gekk vel. Jibbí.

Á morgun er planið að flytja aðsetur mitt og tölvunnar minnar tímabundið í eitt af hljóðverum skólans. Þar mun hafist handa fyrir alvöru við að gera tónlist fyrir leikritið um Soffíu mús. Í því felst m.a. að búa til prumpuhljóð. Sjitt hvað ég á eftir að skemmta mér vel við þetta verkefni.
Prump er alltaf fyndið.

Friday, May 23, 2008

Í úrslit

Ísland bara komið í úrslit í júrovisjon og læti. Og líka öll hin Norðurlandalögin. Kom nú eiginlega frekar mikið óvart. Óvenju mikið af fínum lögum með í keppninni að þessu sinni fannst mér.
Klíkuskapur, samsæri og mútur.
Pottþétt.

En það verður allavega víða partý á laugardaginn.

Thursday, May 22, 2008

Í útvarpinu

Verkið mitt fyrir hörpu og slagverk var flutt í heild sinni í Hlaupanótunni á rás eitt í gær. Kallinn í þættinum segir reyndar að þetta sé brot úr verkinu, en það er bull. Þetta er allt verkið.
Þannig að ef ykkur, æstu aðdáendur, langar að heyra það, þá er það hægt á ruv.is.
Ef þið viljið hins vegar frekar vera á tónleikum þar sem verkið verður flutt (mæli með því), þá skilst mér að það verði hægt í Hafnarfirði 31. maí og á Sólheimum 12. júlí. (Held að þetta séu réttar dagsetningar, þori samt ekki að hengja mig uppá það).

Wednesday, May 21, 2008

Best í heimi

Komin aftur í Útlandið.

Íslands- og Vestmannaeyjaferðin var snilld! Hitti fullt af skemmtilegu fólki (takk fyrir hittinginn allir!), spilaði á túbuna og fékk verkið mitt fyrir hörpu og slagverk spilað á tónleikum af frábæru tónlistarfólki. Náði reyndar ekki að vera á þeim tónleikum, en það á víst að flytja verkið aftur... og aftur í sumar, þannig að ég stefni á að heyra verkið flutt á tónleikum áður en sumarið er á enda.

Þema ferðarinnar að þessu sinni var sjóferðir. Fór á sjó alla dagana sem ég dvaldi á landinu. Eina seglskútuferð, þar sem ég fékk að vera stýrimaður nánast allan tímann, eina útsýnisferð umhverfis Vestmannaeyjar og tvær Herjólfsferðir. Maður er semsagt orðinn vel sjóaður.

Vestmannaeyjar halda áfram að vera uppáhalds. Nú er ég komin með óbilandi áhuga á öllu sem tengist þeim. Sá heimildamynd um eldgosið o.fl., ætlaða túristum, og held ég hafi aldrei séð jafn frábæra mynd. (Hér gæti ég skrifað óendanlega mikið um allt mögulegt og ómögulegt sem tengist Vestmannaeyjum, en ákveð að sleppa því af tillitsemi við lesendur). Fólkið í Eyjum tekur líka ævinlega frábærlega á móti manni. Var skömmuð smá af heimafólki (sem ég hitti fyrir tilviljun) fyrir að hafa ekki látið vita af ferðum mínum. En þessi ferð var jú aðallega hugsuð sem vinnuferð, þannig að ég vissi nú lítið fyrirfram hvort ég hefði einhvurn tíma til hittinga þar. Hafði svo smá tíma seint á laugardagskvöldið, og tókst að hitta ansi marga á alltof stuttum tíma. Vonast til að hitta Eyjafólk betur áður en allt of langt um líður.

Eitt af mínum fyrstu verkum eftir komu mína aftur til Útlandsins var að panta næstu ferð til Íslands. Sú nýbreytni verður höfð á í það skipti að fljúga beint til Egilsstaða. Frá Kaupmannahöfn. Um miðjan júní.
Næsta Vestmannaeyjaferð er hins vegar löngu plönuð.
Annars er sumarið enn að mestu leyti óskrifað blað.

Næst á dagskrá er þetta:
- Prófaundirbúningur. Samkvæmt nýjustu tölum á ég eftir að taka þrjú próf. Það fyrsta á mánudaginn kemur, það síðasta 10. júní. Síðasti kennsludagur er á morgun.
- Lúðratónleikar 4. júní. Þar verða flutt tvö verk eftir mig, og mörg eftir einhverja aðra. Þyrfti nú eiginlega að æfa mig slatta fyrir þessa tónleika, en það verður eiginlega að mæta afgangi.
- Gera tónlist fyrir leikritið um Soffíu mús. Á sennilega eftir að taka mestan tíma af þessu þrennu.

Nóg að gera að venju.

Saturday, May 10, 2008

Sól

Búin að vera brjáluð blíða síðustu daga. En síðasti blíðudagurinn í bili er víst á morgun, samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Kannski eins gott. Þá hættir maður kannski að slæpast úti mestallan daginn.

Neinei. Ég er búin að vera dugleg að gera dót inni. Sibeliusið fór yfirum í vikunni. Vildi ekki láta heyrast neitt í sér allt í einu. Ekki gaman. Tók marrrga klukkutíma að laga það nokkurnvegin. Og ég læt það duga í bili. Laga það kannski almennilega síðar, ef það lagar sig ekki sjálft (þetta bilaði jú sjálfkrafa, þannig að af hverju ætti að það ekki að lagast af sjálfu sér?).

En veðrið hér ytra næstu vikuna skiptir mig nú ekkert sérstaklega miklu máli. Er að koma á Íslandið á miðvikudaginn. Ef einhver vill hittast í höfuðborginni miðvikudags seinnipart/kvöld eða á fimmtudaginn, er viðkomandi beðinn um að láta vita af sér. Verð með sama símanúmer og venjulega meðan ég verð á landinu, og svo má skilja eftir skilaboð hér neðanmáls allan sólarhringinn. Verð í Vestmannaeyjum föstudag til sunnudags. Haldið ytra mánudaginn þareftir. Eldsnemma.

Monday, May 05, 2008

Próf eða ekki próf?

Á morgun var meiningin að skila af sér tveimur af síðustu verkefnum annarinnar. Bæði þessi verkefni eru alveg tilbúin, og það er alltaf tilhlökkunarefni að skila af sér slíku. Áðan þegar ég kíkti á tölvupóstinn minn varð mér hins vegar ljóst að öðru af þessum tveimur verkefnum verður ekki skilað á morgun, vegna veikinda kennara. Þetta er sko verklegt verkefni, þannig að það er framkvæmt í tíma. Þessi skil frestast því um viku.

Í dag komst annar kennari að því að kannski á að vera próf í faginu sem hann kennir. Kannski. Síðasti tíminn í faginu var í dag, og ef það verður próf/skil á lokaverkefni er það í byrjun júní. Hvað myndi felast í því prófi/verkefni veit enginn.

Í næstu viku er komið að prófskiladegi fyrir fyrsta helming tónsmíðanáms míns. Þá á ég víst að skila nótum og upptökum af ákveðnu magni af tónlist, sem ég hef unnið þennan fyrri helming námsins. Ákvörðun um hvaða tónsmíðar skuli notaðar í þessum tilgangi, skal tekin í samráði við aðalkennara. Sá tiltekni aðili gefur hins vegar ekki kost á samráði þessa dagana vegna persónulegra vandamála.

Mér finnst eins og ég sé dáldið að missa yfirsýn yfir skólamálin þessa dagana.

Skilaboð til kennara:
Rétt fyrir prófatímabil er ekki tíminn til að vera veikur, eiga við persónuleg vandamál að stríða eða annað rugl.

Sunday, May 04, 2008

Lag um lag

Eignaðist nýtt uppáhaldslag í gær. Það er samt eiginlega saga um lag. Lag þetta var víst mjög vinsælt meðal norskra barna á áttunda áratug síðustu aldar. Þetta er einstaklega venjulegt lag um strák sem semur lag sem allir blístra og humma og syngja. En þrátt fyrir að lagið sé svona venjulegt, þá er eitthvað við það.... og textinn er fyndinn. Ég er allavega búin að hlusta á það svona áttaþúsund sinnum í dag, og er ekki komin með leið á því. Ætla að nota það í síðasta suðverkefnið, sem skal skilað á þriðjudaginn. En suðinu verður þó stillt í hóf. Sagan um lagið (og lagið sjálft auðvitað) verður að heyrast.

Saxófónkvintettæfingin í gær var góð, og teygðist svo ansi langt í annan endann. Því er maður kannski ekki með hressasta móti í dag. En lagið um lagið er svo frábært að sjálfsvorkun er víðsfjarri.

Snemma að sofa í kvöld. Ójá.

Friday, May 02, 2008

Suðtónleikarnir

gengu vel.

Einum of vel.

Það virðist vera ávanabindandi að gera suð, þannig að nú er ég að hugsa um að verða suðtónskáld. Veit ekki hvursu sniðugt það er.
Ætla nú samt að láta mér nægja að nota suðhæfileikana í eitt verkefni í næstu viku, og leggja svo þessa einstöku hæfileika mína á hilluna. Gætu samt komið sér vel seinna meir...
Suðtónleikarnir voru líka lokaprófið í ákveðnum tveggja ára kúrsi. Það er ekki mikið verið að gefa einkunnir í þessum skóla, en ég fékk að vita strax að tónleikum loknum að ég stóðst prófið. Með glæsibrag.

Í vikunni er ég líka búin að halda fyrirlestur um suð (annað lokaverkefni) og fara á ballettsýningu með suðtónlist (sjálfviljug).
Þetta stefnir ekki í neitt gott hvað suð varðar.

Á morgun er hins vegar saxófónkvintettæfingadagur.
Þar verður sko ekkert óþarfa suð. Bara lög.