Wednesday, November 28, 2007

Píanó-jóla-dæmi

Hefðbundinni kennslu fyrir jólafríið lauk í síðustu viku. Gærdagurinn var samt með lengri skóladögum þessa önnina. Óhefðbundin kennsla tekur greinilega lengri tíma.

Fylgdist með æfingu hjá útvarpshljómsveitinni, þar sem tekin voru fyrir verk nokkurra samnemenda minna. Gaman að því.

Það sem eftir lifði dags fór svo í ýmsan undirbúning fyrir píanó-jóla-dæmið um kvöldið.
Píanó-jóla-dæmið voru litlir tónleikar þar sem við sem erum með píanó sem aukahljóðfæri spiluðum fyrir hvort annað. Ég spilaði reyndar á lúður og ein stelpa á selló.

Komst að því að það er eiginlega bara skrítið fólk með píanó sem aukahljóðfæri. Semsagt orgelleikarar. Þeir orgelnemendur sem eru á öðru ári hafa oft vakið athygli mína á göngum skólans. Eflaust eitt skrítnasta gengi sem ég hef séð. Gengi þetta samanstendur af einum kalli (sem gengur oftar en ekki um berfættur), rússneskri gellu (með fullkomnunaráráttu – komst ég að í gær) og pólskri nunnu. Spes lið. En þar sem það var svona mikið af skrítnu fólki á píanó-jóla-dæminu, var það eiginlega töffarinn sem stakk mest í stúf. Drengur (ættaður frá Bergen af málfarinu að dæma) rétt innan við tvítugt, með ansi marga töffarastæla á hreinu. Og hvað gerir hann svo í þessum skóla? Jú, hann er víst líka í orgeldeildinni. Kom mér ekki lítið á óvart, og þá sérstaklega af þeim sökum að inntökuskilyrði í þá deild eru þess eðlis að flestir þurfa a.m.k. hálfa ævina til að undirbúa sig. Hann hefur greinilega notað sína stuttu ævi í eitthvað annað en æfa töffarastælana, þó hann beri það ekki með sér...

Nú er skólinn eiginlega alveg búinn. Þetta er eftir:
- Tónsmíðatími hjá hljómsveitarkallinum á mánudaginn. Þá ætla ég helst að vera búin með lúðralagið.
- Skiladagur fyir Bach-fúgu (sem ég er næstum búin með) á þriðjudaginn.
- Skriflegt próf í tónheyrn á miðvikudaginn.

Og hvernig undirbýr maður sig fyrir skriflegt próf í tónheyrn? Ef einhver lesandi býr yfir þeirri vitneskju má sá hinn sami gjarnan deila þeim fróðleik með mér.

Í staðinn eru hér upplýsingar um hvernig gott er að lengja tónverk:
Bæta við löööngu túbusólói. Klikkar aldrei.

Heimkoma eftir viku.

Monday, November 26, 2007

Tilviljanir

Hver kannast ekki við að hitta ókunnugan aðila, spjalla aðeins við hann og komast að því að viðkomandi á ýmislegt sameiginlegt með þér. Rannsóknir hafa sýnt að á Íslandi eiga allir minnst 1 sameiginlegan kunningja. Sama hvursu ókunnugir aðilar annars eru.

Í útlöndum er þetta ekki svona. Maður reiknar aldrei með að eiga neitt sameiginlegt sem ókunnugum sem maður kynnist fyrir tilviljun. Hef hitt eina manneskju hér í Útlandinu sem ég á skuggalega margt sameiginlegt með.
Hér er (örugglega engan vegin tæmandi) listi yfir sameiginleg atriði með þessari manneskju:

- Við erum á svipuðum aldri.
- Hún býr í næsta nágrenni. Nánar tiltekið í húsinu handan götunnar.
- Hún er í námi sem ég hafði alveg látið mér detta í hug að leggja stund á (hljóðfæraviðgerðir).
- Við eigum báðar tvo saxófóna. Alt og sópran.
- Við höfum gengið í sama heimavistarskóla hér í Noregi, þó ekki á sama tíma.
- Þar höfðum við sama saxófónkennara (og auðvitað fleiri sameiginlega kennara).
- Í heimavistarskóla þessum er pláss fyrir rúmlega 150 íbúa. Við bjuggum í sama húsi, og í sama herbergi.
- Í dag spilum við saman lúðrasveit, og saxófónkvartett þar sem við skiptum bróðurlega með okkur sópran- og altsaxófónröddum.

Skemmtileg tilviljun.

Annars virðist þessi saxófónkvartett ætla að verða með aktívari saumaklúbbum, miðað við allar þær hugmyndir sem uppi eru fyrir framtíðina.
En nú er saumaklúbbur þessi lagstur í dvala þar til eftir áramót, vegna Íslandsfarar og handarbrots.

Sunday, November 25, 2007

Ríkramannahverfið

Föstudagsfríið virðist vera að breytast í langt helgarfrí frá öllu skólatengdu. Ætti að vera alltílæ vegna gríðarlegs dugnaðar síðustu vikur. En á morgun skal hafist handa við að klára þau verkefni sem fyrir liggja.

Afmælið í gær var prýðisskemmtun. Etið og drukkið þar til vömbin þoldi ekki meir. Og aðeins tekið í spil. (Fimbulfamb á norsku er ekki leiðinlegt). Afmælisbarnið býr í foreldrahúsum í hverfi sem liggur aðeins fyrir utan Osló, og er þekkt fyrir að vera ríkramannahverfi Noregs. Þar býr fólk í þriggja hæða einbýlishúsum. Foreldrarnir ákváðu að halda sig utan heimilis meðan á veisluhöldum stóð (þó plássleysinu væri nú ekki fyrir að fara) og eyddu nóttinni í seglskútu fjölskyldunnar. Peningaleysi verður sennilega seint vandamál þar á bæ.

Dagurinn í dag hefur farið í alþrif á húsakosti mínum. Það er á slíkum stundum sem maður er hvað fegnastur að hafa ekki meira pláss til umráða. 20 fermetrar eru sko alveg nóg.

Í kvöld er hugmyndin að fara í óvænta heimsókn til handarbrotna saxófónleikarans, með restinni af saxófóngenginu.

Friday, November 23, 2007

Djúpur

Fór í gær á fyrirlestur hjá Þjóðverja sem semur tónlist fyrir heyrnarlausa. Merkileg pæling, og þar sem viðkomandi aðili á heyrnarlausa foreldra hefur hann ansi góða þekkingu á menningu heyrnarlausra. Þjóðverji þessi talaði reyndar enga ensku, þannig að fyrirlesturinn fór fram á þýsku. Allt í lagi með það. Þýska og skandinavísku tungumálin eru mjög svipuð, og flestir Þjóðverjar tala skýrt og skiljanlega (samt pínu skrítið þegar fullorðið fólk, sem ekki er komið á miðjan aldur, talar ekki ensku). Daninn sem hefur umsjón með fyrirlesarakúrsinum ákvað samt að það væri best að hann sjálfur túlkaði. Yfir á dönsku. Fyrir Norðmenn (og 1 Íslending). Það var ekki til að einfalda málin. Fyrirlesturinn varð ansi samhengislaus vegna stoppa og þýðingar yfir á óskiljanlegt hrognamál.
Skilaboð til Dana: Það skilur enginn hvað þið eruð að reyna að segja!

Fór með fyrsta uppkast af lúðrasveitarlaginu í tónsmíðatíma í dag. Kennaranum fannst það æði. Hann er nú kannski að verða full-jákvæður fyrir minn smekk. Mætti alveg vera neikvæðari og koma með fleiri athugasemdir. Var flinkari í því í fyrra. Hann segir nú samt alveg eitthvað. Mér finnst það bara ekki nóg.
En ég er allavega langt komin með stykkið. Þarf bara að lengja það aðeins, og kennarinn gat sagt mér hvar honum fyndist að lengingarnar ættu að koma. Gott mál. Hann velti reyndar soldið fyrir sér titlinum á verkinu. “Djúpur”. Ég útskýrði fyrir honum merkingu orðsins, og hann spurði hvort ég væri að vísa í eitthvað sem væri djúpt, eða djúpt í sálinni.... Ég horfði á hann eins og hann væri eitthvað ruglaður og svaraði svo: “Nei, Djúpur er sko nammi....”
Maður er nú ekkert að drepast úr háfleygni.

Þar sem það gengur svona ljómandi vel með allt mögulegt, ákvað ég að nota daginn í að tónsmíða ekkert. Tók til á heimilinu. Ekki veitti af. Og pakkaði inn afmælisgjöfum fyrir morgundaginn. Þá ætlar yngsti bekkjarfélaginn að halda uppá upphaf fullorðinsáranna. Litli drengurinn er orðinn tvítugur.
Ætlaði alltaf að skrifa smá pistil um bekkjarfélaga mína fjóra, þar sem ég eyði töluverðum tíma með þessum einstaklingum. En það fær að bíða enn um sinn.

Wednesday, November 21, 2007

Rýrnun

Fór á síðustu lúðrasveitaræfinguna sem ég kemst á fyrir áramótin, í gær. Það var löngu orðið ljóst að ég gæti ekki verið með á jólatónleikunum, þannig að það var búið að finna fyrir mig staðgengil sem ætlaði að leysa mig af bæði í kvartettinum og lúðrasvetinni. Gott mál.

Í gær ákvað síðan baritónsaxófónleikarinn að brjóta á sér hendina. Hann spilar sennilega ekkert næsta mánuðinn. Og sá sem ætlaði að leysa mig af verður sennilega ekki á svæðinu á umræddum tónleikum. Það varð semsagt gríðarleg rýrnum í saxófóndeildinni í gær. Frekar fúlt þar sem við erum búin að monta okkur óhóflega af því síðasta mánuðinn hvað við erum ótrúlega dugleg að æfa okkur saman...

Monday, November 19, 2007

Montblogg?

Ætlaði að skrifa mont-blogg, þar sem ég er búin að vera svo dugleg að tónsmíða uppá síðkastið. Búin að gera eitt stuttverk fyrir sinfóníuhljómsveit (3 mínútur af sinfóníu-lagi er samt alveg fullt af nótum) og eitt rúmlega helmingi lengra lag fyrir kór.

Í gær fékk ég fyrirspurn um hvort ég væri að verða búin með lúðrasveitarlagið. Ég er ekki búin með það. Ekki einu sinni byrjuð. Einhvernvegin hafði það alveg farið framhjá mér að ég ætti að vera að semja lúðrasveitarlag, sem á víst að flytja í byrjun febrúar. Þannig að ... sjitt? Já.

Þessi bloggfærsla breyttist því skyndilega úr “mont-bloggi” í “konan-sem-er-greinilega-ekki-alveg-með-hlutina-á-hreinu-blogg”. En ef ég næ að klára það fyrir mánaðarmótin, verð ég búin að gera 1 sinfóníulag, 1 kórlag og 1 lúðrasveitarlag á einum mánuði. Það er mikið.

Stefni á að vera búin með fyrsta uppkast að lagi fyrir lúðrasveit fyrir tónsmíðatímann minn á föstudaginn.

Og þá er best að spýta í lófanan. Nú er þetta orðið keppnis...

Thursday, November 15, 2007

Veðrið skiptir máli

Veðurfarið hefur verið með besta móti hér í haust. Hérlendum finnst þeir eiga það fullkomlega skilið þar sem sumarið var víst heldur leiðinlegt (rigning í nánast allt sumar). En síðan ég kom í ágúst, hafa regndropar sem fallið hafa á jörðina verið mög fáir. Nánast teljandi á fingrum annarrar handar. Sólin hefur látið sjá sig flesta daga og vindur er óþekkt fyrirbæri í útlöndum. Semsagt, frábært. Það er eitthvað dásamlegt við að geta vaknað á nánast hverjum einasta morgni, litið út um gluggann og hugsað: Jeij! Sól! Það munar sko heilmiklu skal ég segja ykkur. Veðrið skiptir máli!

Nú er bara ein venjuleg kennsluvika eftir af skólanum (og já, ég er alltaf komin í helgarfrí á fimmtudögum, liggaliggalái), og svo er eitthvað smotterí eftir það. Eitthvað píanójóladæmi þar sem þeir sem hafa píanó sem aukahljóðfæri spila fyrir hverja aðra. Þar á ég reyndar að spila á lúður. Píanókonunni fannst bara of leiðinlegt að hafa á annan tug misvel spilaðra píanólaga, þannig að þeir sem kunna á eitthvað annað spila á það. Og svo er skriflega lokaprófið í tónheyrn líka fyrir jól. Ef ég næ því, þarf ég aldrei aftur að fara í skriflegt tónheyrnarpróf. Það væri nú gaman. Ætla mér svo að drífa mig til Ísl strax að tónheyrnarprófi loknu. Það mun vera 5. des.

Þar með er ég búin að rita hér allt sem gerist fram að jólum .... eða svona flest.

Sunday, November 11, 2007

Hress gaur

Eins og sönnum Íslendingi sæmir hef ég fylgst með laugardagslögunum á RÚV, með hjálp alnetsins. Mér sýnist að það þurfi eitthvað mikið að ske til að Barði vinni þetta ekki með hæ hæ og hó hó laginu sínu. Fyndið lag með hljómborðssólói allra tíma. Eins finnst mér að Barði þessi ætti að hljóta titilinn Hressigaur ársins.

Skóli á morgun. Næstsíðasta kennsluvika þessa árs að hefjast. Já, tíminn líður. Misskildi eitthvað þetta með opnu vikuna. Hún var ekkert í síðustu viku. Það var næstum enginn sjáanlegur í skólanum þó það væri kammermúsíkvika. En ætli menn hafi ekki bara verið að æfa sig í hinum ýmsu kennslustofum. Og svo var hellingur af tónleikum, sem fóru algerlega framhjá mér.

Opna vikan byrjar semsagt á morgun, og þá er líka venjuleg kennsla. Það verða þá nokkurhundruð gestir til viðbótar við nemendur skólans. Allt í lagi með það. Nóg pláss í þessum skóla fyrir alla.

Thursday, November 08, 2007

Varúð, pirringur

Fór á sinfóníutónleika í kvöld. Þriðja fimmtudagskvöldið í röð. Búin að vera dugleg í tónleikamætingum. Á þessum tónleikaferðum mínum hefur tvennt vakið furðu mína:

Furða 1: Í lok tónleika er engin feit kona sem syngur, eins og segir í máltækinu, en það er hins vegar feitur kall sem vaggar fram á sviðið með blómvönd handa stjórnanda (og einleikara, þegar það er svoleiðis). Ansi skrítið að láta feitakallinn vera blómastúlku þegar nóg er af ungum og myndarlegum stúlkum sem vinna á svæðinu. Þetta er bara ekki starf fyrir feitan kall (fordómar? Já).

Furða 2: Eftir tónleika klappa allir áheyrendur, eins og lög gera ráð fyrir. En hvað gera strengjaleikarar? Jú, þeir veifa boganum sínum eitthvað út í loftið. Eða flestir allavega. Sumir klappa bara venjulega (sem segir okkur það að þeir geta alveg klappað þó þeir séu með hljóðfæri og boga í höndunum). Ég bara skil ekki þetta veif. Það lítur fáránlega út auk þess sem það er örugglega stórhættulegt. Fólk er oft ekki nema hársbreidd frá að berja næsta mann fyrir framan í hausinn.

Í dag fór ég líka á enn einn misáhugaverða fyrirlesturinn um nútímatónlist. Það er löngu hætt að vera fréttnæmt. Það koma gestafyrirlesarar nánast vikulega. Og alltaf eru þeir að reyna að sannfæra okkur um hvað þetta suð sem þeir kalla tónlist (og að mínu mati á ekkert skilt við tónlist) er ótrúlega mikilvægt fyrir alla þróun innan tónlistar. Flestir þessara fyrirlesara eru reyndar í eldri kantinum, þannig að ég vona bara að þeirra hugmyndir um tónlist deyji út með þeim, og eftir 50-100 ár haldi fólk að Stokkhásen sé eitthvað oná brauð. Það er engum manni hollt að heyra svoleiðis “tónlist”.

Á lúðrasveitaræfingu á þriðjudaginn prófuðum við að spila verk eftir náunga sem sagður var nemandi í tónsmíðadeildinni í skólanum mínum. Mér fannst það skrítið þar sem ég kannaðist ekkert við nafnið. Fór svo að ráma í nafnið. Gaur sem byrjaði í þessu námi fyrir löngu (2002) og er enn ekki búinn að klára, af einhverjum ástæðum. Eftir að verkinu (sem hann ætlaði að nota sem útskriftarverk) hafði verið rennt einu sinni voru allir með það á hreinu af hverju þessi maður væri ekki búinn með námið sitt. Þetta var lélegra en flest þau verk sem umsækjendur í deildina senda inn. Sýndi bæði fram á vanhæfni til tónlistarsköpunar og vankunnáttu í hljóðfærafræði (tókst t.d. að skrifa bæði of hátt og of lágt fyrir sax-grúppuna, þó að megnið af “nótunum” hefðu verið hvísl og takkahljóð).
Hvernig í ósköpunum komst þessi maður inn í skólann og hver er eiginlega að kenna honum? Ég vil ekki hafa þann kennara. Held ég spyrji kennarann minn að því í næsta tíma. Á næsta ári er nefnilega meiningin að minn árgangur velji sér nýja kennara, og þá er alveg eins gott að nota útilokunaraðferðina.

Þetta er nú orðið ótrúlega langt og pirrað blogg. Ætli ég reyni ekki að skrifa eitthvað skemmtilegt næst.

Sunday, November 04, 2007

Ferkant

Saxófónkvartettpartýið var snilld. Var ekki að skreiðast heim til mín fyrr en klukkan var farin að nálgast sex. Það er seint. Eða snemmt. Fer eftir því hvernig á það er litið.

Partýið var haldið á heimili baritónsaxófón-gaursins, eftir æfingu sem fór fram annarsstaðar. Áður en haldið var heim til partýhaldarans vissi ég að hann byggi með maka, og vinafólk þeirra skötuhjúa býr líka hjá þeim tímabundið meðan verið að gera upp íbúðina þeirra. Að sjálfsögðu hafði ég séð hina íbúana fyrir mér sambýliskonu og par. Karl og konu. En ekki hvað? Raunin var sú að allir íbúarnir voru karlar. Kom mér mest á óvart hvað maður er hrikalega ferkantaður í hugsun.

Í partýinu voru við fimm sem spilum í kvartettinum (já, það geta alveg verið fimm í kvartett) og einn klarinnettuleikari fékk líka að vera með. Hann er sko skápasaxófónleikari. Hann er reyndar líka samkynhneigður, en sér enga ástæðu til að vera í felum með þá staðreynd. Í Útlandinu er hljóðfærahneigð greinilega meira feimnismál en kynhneigð.

Dagurinn í dag virðist ætla að verða með slappara móti. Aðeins of mikið koníak með kaffinu sennilega.

Friday, November 02, 2007

Kominn nóvember

Komin í vikufrí í skólanum. Opin vika í næstu viku þar sem tilvonandi umsækjendum gefst kostur á að kynna sér starfsemi skólans. Fékk dágóðan slatta af heimaverkefnum til að dunda við í þessu fríi, þannig að mér leiðist líklega ekki. Svo er saxófónkvartett-partý á morgun.

Á leið heim úr skólanum í dag mætti ég þrem túbuleikurum með sex túbur, og hálfri mínútu síðar þrem Íslendingum með sex augu. Tilviljun? Ég held ekki.

Og svo er bara kominn nóvember og læti.