Monday, April 27, 2009

Að lita eða ekki lita...

Hvað er málið með mánudaga?

Síðasta mánudag vaknaði ég eeeldsnemma og keyrði langtlangtlangtlangtlangt uppí sveit, eins og fram hefur komið á þessari síðu.

Þennan mánudaginn vaknaði ég á venjulegum mánudagstíma og mætti í skólann klukkan níu. Fékk að vita þegar þangað var komið að kennari dagsins væri veikur. Það gerist næstum aldrei. Ákvað að vera rosa dugleg og æfði mig bæði á lúður og í priksveiflum.
Þegar því var lokið var bara komið hádegi.
Og ég var löt.
Það eina sem mig langaði til að gera var að lita. En það tilheyrir víst ekki eðlilegum hluta af vinnudegi fullorðinnar manneskju.

En mig langaði samt að lita.

Þannig að ég litaði mynd af flautukonsert. Konsert þessi inniheldur nú 8 fiska, 1 snák, laufblað, gorm og ýmislegt fleira. Og fullt af litum.

Þegar maður er fullorðinn getur maður ráðið sjálfur hvað maður gerir.

Liggaliggalái.

Sunday, April 26, 2009

Letihaugur og innipúki

og nenni því ekki að blogga neitt mikið meira en eina setningu þessa dagana, né heldur taka þátt í því skemmtanalífi sem í boði er.

Skrópaði í afmæli sem stóð yfir í 3 daga.
Nennti ekki að hitta bjórfélaga í gær. Fór frekara að sofa eftir að hafa beðið eftir fyrstu tölum úr kosningunum. Sem passaði reyndar mjög vel. Þá vaknaði ég nefnilega í þann mund sem síðustu tölur voru gerðar opinberar.
Er þó búin að mæta á 3 tónleika síðustu 4 daga.
Ókei, ekkert svo mikill innpúki kannski, en allavega letihaugur.

Allir búnir að kjósa og reikna ég með að allflestir séu ánægðir með úrslitin.

Til hamingju með það

Saturday, April 25, 2009

Allir að kjósa

einn, tveir og þrír...

Thursday, April 23, 2009

Jeij

Sumar

Jeij

Monday, April 20, 2009

Nei

Það er ekkert sniðugt að vakna eldsnemma. Maður er kannski þokkalega hress í svona 2-3 tíma, en svo er maður drulluþreyttur það sem eftir lifir dags.
Mæli því engan vegin með að vakna eldsnemma, nema maður þurfi þess nauðsynlega.
Í dag þurfti þess nauðsynlega, og það var ýmislegt sem kom á óvart.

Ég hélt að við værum að leggja af stað svona eldsnemma til að losna við mestu morgun umferðina, en værum í rauninni ekki að fara svo langt. Það var misskilningur. Það tók jú smátíma að komast útúr bænum, en eftir að útúr bænum var komið keyrðum við lengilengilengilengilengi. Næstum því til Svíþjóðar. Æfingin var ekkert útí sveit. Hún var í þrjátíuþúsund manna bæ rétt við landamærin.
Það var líka eitthvað skrítið við að það væri einhver atvinnulúðrasveit með æfingu uppí sveit.

Lúðrasveitin átti að spila útsetningarverkefni nemenda í vissum kúrsi. Í þessum kúrsi eru 10 manns, þar af skiluðu 4 verkefni, þar af voru 3 á staðnum. Hversu miklir sluksar geta þessir blessuðu tónsmíðanemar verið? Og hversu erfitt getur verið að klambra saman einhverju örstuttu fyrir lúðrasveit?
Tónsmíðanemar eru ekki fólk til að stóla á. Það hef ég lært í þessu námi. Meira eða minna bjánar sem datt ekkert skárra í hug að gera. Ekki séns að þetta lið geti skilað af sér verkefnum á réttum tíma, og hvað þá mætt í skóla/vinnu á réttum tíma.
Mæli ekki með að ráða svoleiðis fólk í vinnu.

Og hananú.

En allavega. Ef maður vaknar eldsnemma er maður orðinn drulluþreyttur upp úr hádegi. Þá áttum við eftir að keyra lengilengilengilengilengi aftur til baka. Og svo þurfti ég auðvitað að leggja mig. Það gerist sjaldan neitt af viti eftir eftirmiðdagslúr.
Það er því fullkomlega tilgangslaust að vakna eldsnemma nema maður þurfi þess nauðsynlega. Miklu gáfulegra að sofa aðeins lengur og takast á við verkefni dagsins úthvíldur.

Þetta var sagan af því að vakna eldsnemma.

Sunday, April 19, 2009

Síðasti í páskafríi

er í dag. Og, já, þetta var langt páskafrí að venju.

Notaði síðasta "fríkvöldið" til að kíkja út á lífið með saxófóngenginu. Það var gaman að venju.

Á morgun byrjar síðasta törn þessa skólaárs með trukki. Þarf að vakna fyrir allar aldir og fara uppí sveit til að hlusta á litla atvinnu-blásarasveit spila útsetningarverkefni. Það verður örugglega fróðlegt og skemmtilegt.
En það kostar líka það að vakna klukkan hálfsjö.
Þá er nótt.

Saturday, April 18, 2009

Hugleiðingar um kosningar

Þá er ég búin að kjósa.
Hef þó vissar efasemdir um að atkvæðið komist nokkurntíma til skila. Hér kemur ástæðan fyrir þeim efasemdum:

Í hvaða kjördæmi kjósa Íslendingar með lögheimili erlendis?
Agnesi og dömunni sem vinnur hjá íslenska sendiráðinu hér í bæ voru sammála um að þeir kysu í því kjördæmi sem lögheimili var síðast skráð á Íslandi.

En reynslan sýnir annað. Í sambærilegum kosningum 2007 kaus ég einnig utankjörfundar, og mínar búsetuaðstæður voru að öllu leyti þær sömu. Þá kaus ég hjá Sýslumanninum í Reykjavík mörgum vikum fyrir kjördag. Þá var mér tjáð að allir Íslendingar búsettir erlendis kysu í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Óháð því hvort viðkomandi hefði nokkurntíma búið í Reykjavík. Upphafsstafir kennitölu skáru úr um í hvoru Reykjavíkurkjördæminu fólk lenti.

Eru reglur um þetta mál bara einhvernvegin frá ári til árs? Og ef svo er hver ræður þeim þá? Miðað við hvað aðrar reglur og lög um kosningar eru niðurnjörvaðar og ófrávíkjanlegar, þykir mér þetta með ólíkindum.

Ég vafraði aðeins um alnetið í leit að upplýsingum. Þar fann ég þetta á síðunni kosning.is:

Hvar lenda íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis sem teknir eru inn á kjörskrá ef þeir voru áður með lögheimili í Reykjavík?
Landskjörstjórn ákveður mörk norður- og suðurkjördæmis í síðasta lagi 4. apríl. Miðast sú skipting við að fjöldi kjósenda að baki hverju þingsæti sé nokkurn veginn jafnmikill og að kjördæmin séu sem samfelldust heild. Þegar íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis eiga í hlut verður miðað við að þeir sem fæddir eru í fyrri hluta hvers mánaðar verði í suðurkjördæmi og að þeir verði í norðurkjördæmi sem fæddir eru í síðari hluta hvers mánaðar.

Hvergi var minnst á fólk sem ekki hafði átt lögheimili í Reykjavík áður en flust var af landi brott. Kannski hefur mönnum þótt það liggja í augum uppi að þeir einstaklingar kysu í því kjördæmi sem þeir bjuggu í síðast. En það lá þá greinilega ekki ljóst fyrir í kosningunum 2007.

Og eitt enn:
Er sama í hve langan tíma síðasta lögheimilið var skráð, eða er miðað við lögheimili 1. des fyrir brottflutning?

Mitt atkvæði er á leið til Sýslumannsins á Seyðisfirði, í hvers kjördæmi ég átti lögheimili í eina viku áður en flust var af landi brott.

Það væri áhugavert að vita hvort það atkvæði verður tekið gott og gilt þar, sent eitthvað annað eða hreinlega hent í ruslið.

Wednesday, April 15, 2009

Komin heim og kosningar

Komin til heima-Útlandsins eftir páskaferðina til annarra Útlanda.

Ferðin var hin mesta skemmtun, þó í lengsta lagi væri. Held að 5-7 dagar sé alveg nóg af ferðalagi fyrir mig.
Komst að því að það er hægt að fá leið á bæði bjór og ostum, sem og ítölskum mat sem inniheldur alla jafna óhóflega mikið hveiti. Langar mest að borða eingöngu grænmeti og drekka ekkert sterkara en vatn um ófyrirsjáanlega framtíð... eða allavega í nokkra daga.

Helsta afrek ferðarinnar var að koma páskaeggi óbrotnu alla leið að heiman til Mílanó með nokkurra daga viðkomu í Berlín og Prag (og Osló auðvitað). Geri aðrir betur. Páskaeggið var svo etið upp til agna á ítalskri grund. Eins gott. Hefði verið frekar bjánalegt að þurfa að taka það með aftur til baka. Ég borðaði reyndar minnst af því sjálf, enda lítið gefin fyrir nammi, en hinir útlensku ferðafélagar nutu góðs af því.

Þá er næsta ferðalag eftir sléttan mánuð. Heim til Íslands, hvar sumrinu verður varið að venju.

Að öðru.

Senn líður að kosningum. Að því tilefni koma hér 2 mikilvægar spurningar:
- Hvar má finna framboðslista hinna ýmsustu flokk?
- Í hvaða kjördæmi kýs maður sem á lögheimili í Útlöndum - eða hvar má nálgast þær upplýsingar?

Vil helst vita hvaða fólk ég er að kjósa. Finnst alls ekki nóg að kjósa flokk sem hefur hin og þessi mál á stefnuskránni.
Fólk skiptir máli.

Wednesday, April 01, 2009

Komin og farin

Frábær helgi í Þrándheimi liðin. Magnað hvað er gaman á hinu árlega lúðramóti í þeim fallega bæ. Jafnast alveg á við Þjóðhátíð í Eyjum - bara styttra. Mikil stemming og margir sem maður þekkir. Og einstaklega vel skipulagt allt saman. Enda ekki fyrir hvern sem er að taka á móti yfir fjögurþúsund lúðraspilurum á einu bretti.

Nú er ég að baksast við að klára eitt verkefni. Það er að taka langan tíma, en nú sýnist mér ég vera nokkurnvegin búin (áðí). Þarf að skila 14. apríl, og það er einmitt dagurinn sem ég kem heim frá Útlöndum = varð að klára þetta áður en lagt er íann.

Á morgun held ég í páskaferð um Evrópu. Ferðin sú tekur 12 daga.
Verð að pakka einhverju niður í tösku.
Ef einhver þarf nauðsynlega að ná í mig þessa 12 daga, verð ég með íslenska símanúmerið.

Gleðilega páska