Friday, January 26, 2007

Á eftir

fer ég til Íslands og verð þar í viku.

Tilgangur ferðarinnar er:

- Fara í Sveitina og æfa með Lúð(r)asveit Reykjavíkur.
- Vera í Reykjavík og æfa meira.
- Spila á tónleikum með áðurnefndri sveit fimmtudaginn 1. febrúar í Neskirkju. Veit ekki klukkan hvað, en það er örugglega hægt að komast að því ef áhugi er fyrir hendi. Á efnisskránni er m.a. Klarinettulagið eftir mig sjálfa.

Sjáumst

Thursday, January 25, 2007

Suð

Eins og fram hefur komið er nú hátíðarvika í skólanum vegna viðbyggingarinnar. Hver dagur vikunnar hefur sitt þema. Þá daga eru haldnir fyrirlestrar sem tengjast efninu og á kvöldin eru haldnir tónleikar sem sýna brot af því besta sem tengist þema dagsins. Flestir hafa passað upp á að hafa þetta “brot” ekki of langt. Semsagt tónleikar í hæfilegri lengd. Miðað er við að gestir og gangandi komi á þessar uppákomur, þannig að reynt er að hafa dagskránna aðgengilega fyrir hinn almenna borgara.

Á þriðjudaginn var tónsmíðadagurinn. Ágætis fyrirlestrar, en svo komu tónleikarnir. Ég giska á að ákvarðanataka um efni tónleikanna hafi farið svona fram:

Tvö tónskáld ræða saman um efni fyrirhugaðra tónleika:

T1: Hvað ættum við að hafa á þessum tónleikum.
T2: uuu ..... hey, ég veit! Höfum BARA raftónlist.
T1: Góð hugmynd! Og höfum þessa tónleika lengri en alla hina tónleikana svo allir sjái hvað við erum að gera margt merkilegt í þessum skóla.
T2: Já! Maraþontónleika með eintómri raftónlist. Það er sko eitthvað fyrir alla!!!

Gæti verið hægt að gera meiri mistök varðandi tónleika ætlaða hinum grunlausa borgara?
Það voru semsagt maraþontónleikar þar sem boðið var upp á .... suð. Í fjóra tíma. Ég fór heim í fyrsta hléi, og dauðvorkenndi miðaldra konunum í loðfeldunum, sem eflaust hafa verið of kurteisar til að láta sig hverfa fyrir lok tónleikanna.

Er einmitt nýbyrjuð í fagi sem miðar að því að kenna manni að hlusta á suð. Ekkert vitlaust svosem ef maður á það á hættu að lenda á mörgum svona tónleikum. Þá hefur maður allavega lært að reyna að finnast þetta áhugavert.

Kennarinn sem kennir “suðkúrsinn” var einmitt sá eini sem fannst það “mál” að ég skildi missa af tímanum í næstu viku. Af því að hvað er mikilvægara en að læra að hlusta á suð?

Ja, maður spyr sig ...

Bil

Ætladi ad setja inn hneyksladan pistil, en internetid heima er ì òlagi og èg nenni ekki ad skrifa neitt langt thegar mig vantar ìslensku stafina. Kemur kannski seinna ì dag ef netid heima kemst ì lag.

Bìdid spennt ...

Monday, January 22, 2007

Kjötlagið

Lenti í símaviðtali áðan við svæðisútvarpið á Austurlandi. Um kjötlagið.

Það vildi ekki betur til en svo, að ég var á leið heim úr skólanum þegar ég lenti í viðtalinu. Leiðin heim úr skólanum liggur eftir götu þar sem umferð verður að teljast með meira móti. Og þar sem ég á erfitt að gera fleira en eitt í einu, þá getiði rétt ímyndað ykkur hvernig gekk að labba í sleipum snjó, reyna að finna upp á einhverju gáfulegu að segja OG yfirgnæfa umferðargný. Man semsagt ekkert hvað ég sagði, en það var örugglega ekki gáfulegt. Ef þetta verður notað í útvarpinu og virkar glatað og heimskulegt, þá vil ég koma því á framfæri að kjötlagið verður kúl og skemmtilegt.

Kjötlagið átti eiginlega að vera hálfgert leyndó, en það er greinilega erfitt að eiga leyndó. Er bara rétt nýbyrjuð á þessu lagi og nú verð ég að klára það bráðum svo Sóley geti örugglega spilað það í vor. Eða ertu ekki til í það Sóley?

Annars er ekki mikið að frétta. Hátíðarvika í skólanum að tilefni vígslu nýju sexþúsund fermetra viðbyggingarinnar (sem er ekki alveg tilbúin). Að því tilefni var ég í skólanum fram eftir kveldi í gær að tengja hátalara og hljóðnema út af einhverju hljóðverki, sem virkaði svo ekki útaf einhverju tölvudæmi. Týpískt.

Tuesday, January 16, 2007

Skilaboð að handan

Dreymdi draum í nótt.

Var á leið í samkvæmi til systur minnar í vesturbæ Reykjavíkur. Þegar þangað kom var húsmóður og gestum ansi mikið niðri fyrir. Höfðu þau komist að því að fyrrverandi húsfrú íbúðarinnar gengi aftur í íbúðinni og héldi mönnum föstum niðri við gólf, ef gengið var um vestari enda stofunnar.
Ákveðið var að hafa samband við Magnús Skarphéðinsson til að leysa vandann. Hann komst að því að hér var ekki um afturgöngu að ræða, heldur hafði geimskip lent í garðinum, sem hafði þessi aðdráttaraflsáhrif. Var þetta hinn mesti léttir fyrir alla viðstadda.

Þetta eru tvímælalaust skilaboð til þín Siggalára. Ef þú heldur að það sé draugur í íbúðinni þinni, þá er það sennilega bara geimskip sem lagt hefur verið fyrir utan.

Eins gott að þessi skilaboð komust til skila, ég segi nú ekki annað ...

Thursday, January 11, 2007

Í fréttum er þetta helst

Í gær fékk ég í hendur miðana fyrir næstu utanlandsferð, sem hefst eftir rétt rúmar tvær vikur.

Í dag byrjaði að snjóa.

Fleira er ekki í fréttum.

Wednesday, January 10, 2007

Hint

Ætli það sé merki um að maður sé orðinn of feitur þegar maður rúllar fram úr rúminu sínu um miðjar nætur?

Þegar fólk er farið að ýja að því að maður ætti að kíkja á útsölurnar, eða hreinlega farið að kaupa á mann föt, þá er kannski kominn tími til að versla sér föt.

Skrapp semsagt í búðir í dag og keypti fáeinar flíkur.

Annars er ég bara löt.

Tuesday, January 09, 2007

Breytingar

Ýmsar breytingar áttu sér stað hér í Útlandinu á meðan ég var í burtu:

- Bláu útidyrahurðinni á blokkinni minni var skipt út fyrir svarta.
- Matvöruverslun var opnuð á neðstu hæð hússins sem ég bý í, þannig að nú þarf ég varla að fara út fyrir dyr nema til að fara í skólann.

Mestu breytingarnar áttu sér þó stað í skólanum, þar sem 6.000 fermetra viðbygging var tekin í notkun nú eftir jólafríið. Skólinn telur þá um 20.000 fermetra. Það eru tæplega 35 fermetrar á hvern nemanda/starfsmann skólans.

Ýmsar nýjungar fylgja þessu nýja húsnæði. Í hverja kennslustofu er nú komið skrifborð/ræðupúlt á hjólum, sem inniheldur hljómflutningstæki, tölvu og nýmóðins myndvarpa. Glærur heyra nú sögunni til og í staðinn er kominn skanni sem tekur myndir af upplýsingum (t.d. af pappír) og varpar beint upp á tjald með þar til gerðum skjávarpa.
Þvílíkt tæknilegt.
Framan á þessum skrifborðsræðupúltum er glerplata með nafni og merki skólans, og litlu bláu ljósi á bakvið. Voða sætt.

Nýja húsnæðið er samt ekki alveg tilbúið. Víðast hvar hanga leiðslur niður úr loftinu, og eftir er að fínpússa ýmsan frágang. Einhverjir flutningar fylgja líka þessu nýja húsnæði. Margir starfsmenn fá nýjar skrifstofur og því má sjá stafla af pappakössum á stöku stað.
Eitt pappakassafjallið er staðsett í andyrinu. Ég veitti því enga sérstaka athygli þar til mér var bent á að þarna væru á ferðinni píanóbekkirnir fyrir alla nýju flyglana sem eiga að vera í nýbyggingunni. Með vitneskjunni um að með hverjum þessarra kassa fylgdi flygill, varð kassafjallið mun áhugaverðara. Fjallið telur þónokkra tugi kassa.

Ef það er eitthvað sem er nóg til af hér í landi Norðmanna, þá eru það peningar.
Og flyglar.

Sunday, January 07, 2007

Skýrsla jólafrísins

1. hluti: Í sveitinni og á höfuðborgarsvæðinu

-Farið uppí sveit með nokkra tugi barna með rokkhljómsveitarheilkenni.
-Komið í höfuðborgina og legið í gubbupest í staðin fyrir að vinna og mæta á æfingar.
-Djammað með ekkert frægri rokkhljómsveit.
-Spilað við jólatréð á Austurvelli daginn eftir í frábæru formi.
-Farið á Borat. Fyndin mynd.

2. hluti: Í stórborginni Egilsstöðum

-Unnið hjá Útgáfufélagi Glettings í nokkra daga, nokkur kvöld og nokkrar helgar
-Unnið hjá Héraðsverk ehf á almennum skrifstofuopununartíma í nokkrar vikur.
-Farið á fyllerí í tilefni afmælis Sóleyjar
-Jólin
-1 leiðinleg bók lesin.
-"Börnin heim" skemmtun á Hetjunni
-Hélt uppá afmælið mitt. Partýspilið er skemmtilegt spil.
-Áramót; ball með hinni frábæru hljómsveit Wilson Rockness og partý hjá einhverjum óþekktum aðila, hvers heimili var í rúst daginn eftir.

3. hluti: Í höfuðborginni á leið aftur í Útlandið

-Nýja spilið Draumaeyjan spilað við Sóleyju. Oft. Skemmtilegt spil.
-Mætt á tónleika hjá SLÁTUR. Gaman að því.
-Rúmlega 1.100 dósir taldar í húsakynnum ónefndrar fylleríishljómsveitar.

Og svo fór ég aftur í Útlandið, þar sem skólinn byrjar á morgun.

Saturday, January 06, 2007

Skýrsla ársins 2006

Hér kemur listi yfir helstu persónulegu áfanga ársins 2006.

Ferðalög:
a) Milli landa: Ísland-Noregur-Svíðþjóð-Noregur-Ísland-Noregur-Ungverjaland-Noregur-Ísland-England-Ísland-Noregur-Ísland-Noregur-Ísland.
b) Innalands: 3 ferðir til Egilsstaða og 2 til Vestmannaeyja. Styttri ferðir voru örugglega einhverjar.

Búsetur:
1) Hús E í Fellabæ Noregs
2) Lítil og sæt kjallaraíbúð í 101 Reykjavík
3) Gettó Noregs, í úthverfi Oslo
4) Ponsulítil og frábær íbúð í miðbæ Oslóborgar

Skólar:
1) Toneheim folkehögskole, vorönn
2) Norges Musikkhögskole, haustönn

Vinnur:
a) Skólahljómsveit Vesturbæjar og miðbæjar: Túbuleikur og æfingastjórnun á ferðalögum sveitarinnar
b) Listaháskóli Íslands: Uppröðun og ýmis skipulagning á plötusafni Halldórs Hansen.
c) Útgáfufélag Glettings: Ýmis skrifstofustörf
d) Héraðsverk: Ýmis skrifstofustörf

Íþróttir stundaðar á árinu:
1) 3 magaæfingar og 2 armbeygjur í Húsi E á fyrri hluta árs
2) 1 fótboltaleikur í fullri lengd (án hlés) spilaður í Englandi snemmsumars.
3) Fullt af magaæfingum (30) í æfingabúðum skólahljómsveitarinnar í lok nóvember. Magaæfingakeppnin unnin.

Misstæðast á árinu:
Dagarnir þrír sem ég var ekki á ferðalögum eða að flytja.

Skemmtun ársins:
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Þetta sýnist mér nokkuð tæmandi listi yfir atburði ársins. Merkilegast verður að teljast þessi gríðarlega íþróttaiðkun á árinu. Eins er ferðalagalistinn merkilegur fyrir þær sakir að undirrituð hefur sérlega lítið gaman að ferðalögum.

Gleðileg jól (betra er seint en aldrei) og vonandi hafið þið það gott á árinu sem nú er gengið í garð.

Bráðlega birtist hér sambærilegur listi yfir atburði jólafrísins.