Wednesday, June 18, 2008

Komin

Komst alla leið á 17 tímum.

Undarlega atvik ferðarinnar:
-Það var sko engin helv... rúta frá Akureyri til Egilsstaða, og ekki heldur langferðabíll. Það var sko taxi með harmonikkuóðum bílstjóra. Held það líði talsvert langur tíma þar til harmonikkuómur nái mínum eyrum sársaukalaust.
4 tímar af harmonikkutónlist er of mikið.

Sorglega atvik ferðarinnar:
-Að sjá áfangastað út um glugga flugvélarinnar, vitandi að það ættu eftir að líða allavega 5 tímar þar til þeim áfangastað yrði náð.

Spurning dagsins:
-Er einhver á leiðinni frá Egilsstöðum til Reykjavíkur, akandi, ca. 30. júní? Ef svo er má viðkomandi gjarnan láta mig vita.

Kveðjur frá Egilsstöðum city.
Þar sem stemmingin býr.

Thursday, June 12, 2008

Ferðalag

Á morgun (eða í nótt öllu heldur) hefst ferðalagið. Þá mun ég halda sem leið liggur til Egilsstaða, með stuttri viðkomu í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Reikna með að ferðalagið muni taka um 16 tíma. Augljóslega ekki stysta leiðin á milli þessarra staða, en (einhverra hluta vegna) sú hagkvæmasta. Hugsa að beint flug milli Óslóar og Egilsstaða myndi taka innan við 2 tíma.
Bjánalegt.

Ef ekkert klikkar verð ég mætt á áfangastað síðla dags/snemma kvölds á morgun.

Ef eitthvað klikkar, þá mæti ég kannski hvorki eitt né neitt á morgun.

Spennó.

Wednesday, June 11, 2008

Sumarbjór

Hér ytra eru seldar nokkrar tegundir sumarbjóra á þessum árstíma. Á einni tegund slíkra dósa er mynd af einskonar veðurlandakorti. Inná þetta landakort eru svo merktir helstu staðir landsins, og alls staðar er sól og hægur vindur.

Nema í Bergen. Þar er rigning.

Það er greinilega alltaf rigning í Bergen. Meirað segja á sumarbjórdósunum.

Tuesday, June 10, 2008

Tímamót

Var nú ekkert að slá í gegn með snilldarsöng mínum í þessu blessaða tónheyrnarprófi. En það gekk alveg nógu vel. Reikna allavega fastlega með að ná. Ef það er ekki ástæða til að fagna, þá veit ég ekki hvað. Allrasíðasta tónheyrnarprófið að baki. Einstök upplifun.

Þá er þessum fyrri helming námsins lokið. Hann leið hratt. Eins gott að byrja að plana hvað maður ætlar að gera að námi loknu.

Næstu mjög fáu dagar:
-Sitja aðeins í stúdíóinu og fínpússa.
-Pakka niður fyrir Íslandsdvöl sumarsins.

Næstu dagar eftir það:
-Hvur veit?

Monday, June 09, 2008

Seglskútuferðin

á laugardaginn var indæl. Reyndar eiginlega enginn vindur, en fáránlega gott veður, sem varð þess valdandi að ég sólbrann næstum til ösku. Nei, ókei, ekki alveg kannski. Varð skemmtilega bleik á litin.

Skilaði af mér næstsíðasta prófinu í dag og allrasíðasta tónheyrnarprófið mitt er á morgun. Það er jafnframt síðasta prófið á fyrri hluta þessa náms sem ég nú stunda.

Húrra fyrir því.

Friday, June 06, 2008

Afrek síðustu daga

eru eftirfarandi:

- Lúðratónleikar í fyrradag. Spiluðum 1 lag eftir mig og ég fékk blóm (sem urðu frekar slöpp vegna mikils hita í tónleikahúsnæðinu). Alltaf gaman að fá blóm. Saxófónkvintettinn spilaði opinberlega í fyrsta skipti á sömu tónleikum. Hann var líka með 1 lag eftir mig á prógramminu. Helsta afrekið í því samhengi var samt að meika að spila öll lögin án þess að stoppa í miðju lagi. Ekkert alltof vel æft og hiti vel yfir yfirliðsstigi.

- Kláraði heimaprófið í útsetningum í gærmorgun. Þarf samt ekkert að skila því á mánudaginn. Gott að vera búinn með það.

- Lauk við að gera tónlist fyrir leikritið, og koma á mp3 form. Þá á bara eftir að lagfæra hitt og þetta. Það tekur nú alveg einhvern tíma, en ég er allavega búin með allt semj. Nema leikhúsfólkið óski sérstaklega eftir einhverjum stórvægilegum breytingum.

Í tilefni af öllum þessum afrekum ætla ég í seglskútuferð um Óslóarfjörð með bekkjarfélugum á morgun. Verður örugglega frábært. Klikk gott veður og svona.

Wednesday, June 04, 2008

Plan B

í höfn.

Það felur í sér flug til Akureyrar degi fyrr en áætlað var, og road trip þaðan til Egilsstaða.

Verð nú bara að nota tækifærið og hrósa Æsland Express fyrir frábæra þjónustu í þessu samhengi. Var orðin pínu stressuð yfir þessu máli og sendi tölvupóst á þetta ágæta flugfélag. Skömmu síðar var hringt og málunum reddað án frekari málalenginga. Og Æsland Express tekur á sig þann aukakostnað sem breyting á tengiflugi hefur í för með sér. Ekki þykir mér heldur leiðinlegt að fá road trip í kaupbæti.
Magnað.

Semsagt. Langt ferðalag föstudaginn þrettánda júní.

Monday, June 02, 2008

Frábært plan!

... en samt ekki.

Hið frábæra ferðaplan sem ég gerði fyrir för mína til Egilsstaða í næstu viku féll gjörsamlega um sjálft sig þegar Æsland Express ákvað skyndilega að hætta við að fljúga þangað í sumar. Ég skil reyndar alveg þá ákvörðun. Bara bull að halda uppi áætlunarflugi með nánast enga farþega.

En þetta þýðir að nú ég flug til Kaupmannahafnar 14. júní, og þaðan... ekkert. Og ég þyrfti að vera komin til Egilsstaða seinnipartinn þennan sama dag. Fluginu mínu til Kaupmannahafnar þarf ég greinilega að flýta, og yfirgefa Útlandið fyrr en ella (sem þýðir enn þéttara plan fyrir næstu daga), en ég reikna með að skipta við Æsland Express þrátt fyrir ákvörðun þeirra um að hætta við flug til Egilsstaða. Ástæðuna fyrir þeirri ákvörðun minni má sjá ef maður skoðar fargjöld annarra flugfélaga.

Annars bara allt fínt. Dáldið mikið að gera, en það er nú alltílæ.