Monday, March 23, 2009

Er fólk fíbbl?

Í dag fór ég í búð og verslaði áfengi. Þegar kom að því að greiða fyrir vöruna var ég beðin um skilríki, sem er ekki í frásögur færandi þar sem það gerist oftar en ekki. Í þetta skipti var heldri maður fyrir aftan mig í röðinni. Honum þótti þetta athæfi greinilega grunsamlegt og fram fór eftirfarandi samtal:

Heldri maður: Hvað þarf maður að vera gamall til að versla áfengi?
Afgreiðslumaður: Átján ára... en hún lítur bara svona út, hún er sko alveg um þrítugt.
Heldri maður: Nú? Ég hélt hún væri svona fjórtán.

... og hversu oft hefur fólk ekki sagt við mann að þegar maður verði kominn á vissan aldur líti maður á það sem hrós að fólk telji mann yngri en maður er í raun og veru.

Oft hefur maður heyrt að það eiga að bera virðingu fyrir sér eldri og vitrari. Takið eftir og-inu þarna á milli. Eldri OG vitrari. Hér er vísað til að maður verði vitrari með aldrinum, sem er vissulega rétt. Með aukinni lífsreynslu öðlast maður meiri visku. Skólaganga hvers og eins hefur lítið með það að gera hversu mikinn vísdóm maður hefur viðað að sér. Aldur hefur hins vegar mikið að segja í því tilliti. Með tímanum lærir maður meira og meira um það sem skiptir máli í lífinu.

Fólk - og þá sérstaklega kvenfólk - er margt hvert mjög upptekið af að halda unglegu útliti. Ég get ekki skilið af hverju. Ég hlakka til þegar ég lít út fyrir að vera gömul. Fólk talar nefnilega við (h)eldra fólk af meiri virðingu en ungling, sem eðlilegt er. Eldra fólk er vitrara og unglingar eru oft til vandræða, því þeir vita minna.

Þá spyr maður sig:
Vil fólk virkilega líta út fyrir að vera heimskara en það er?
Og af hverju?
Á maður að taka því sem hrósi ef fólk heldur að maður sé yngri (=heimskari) en maður er?

Fyrir ykkur sem viljið enn halda í unglegt útlit, þá er hér aðferðin sem ég notaði:
- Drekka óhóflega mikið áfengi eins oft og auðið er.
- Stunda ekki líkamsrækt að neinu tagi.
- Borða það sem mann langar í í það og það skiptið.
- Huga lítið sem ekkert að eigin útliti.

Hef oft velt því fyrir mér hvernig maður fari að því að líta út fyrir að vera eldri. Reyndi að byrja að reykja. Það gekk ekki neitt. Þannig að núna reyni ég að brosa mikið. Þá hlýt ég að fá hrukkur eftir smá tíma.

Friday, March 20, 2009

Nútíð og framtíð

Mikið að gera?
Jájájá.

Tónleikar í gær með David Byrne. Hann ku vera frægur. Mjög flottir tónleikar hjá kallinum. Búningar og sviðshreyfingar á hreinu. Með dansara og allt. Kúl.

Framtíðin:
Skóli
Lúðrasveit
Meiri skóli
Meiri lúðrasveit
Þrándheimur
Enn meiri skóli
Útlönd
Páskafrí
Aðeins meiri skóli
Og lúðrasveit
Koma til Íslands 15. maí.
Vantar sennilega húsaskjól þarlendis í einhverja daga. Annars eru staðsetningar á heimalandinu frekar óljósar enn sem komið er.

Wednesday, March 11, 2009

Kvikmyndir vikunnar

Hef verið óvenju dugleg að sækja kvikmyndahús bæjarins heim upp á síðkastið. Er reyndar að verða svo ótrúlega snobbuð að ég fer helst ekki í bíó nema um "sérstakar" sýningar sé að ræða, og borga helst ekki aðgangseyri.

Fór á "leynifrumsýningu" í Noregi á einni ammrískrí mynd (Gran Torino) á sunnudaginn, og í gær sat ég "fyrirmennafrumsýningu" á myndinni Karlar sem hata konur, sem gerð er eftir samnefndri bók Stieg Larsson. Væntingar til þessarar myndar voru gríðarlegar. Allir virðast hafa lesið bókina, og fyrirfram taldi fólk að myndin væri jafnvel betri en bókin. Nú hef ég reyndar ekki lesið bókina, en þori þrátt fyrir það nánast að fullyrða að bókin er betri. Myndin er ágætis afþreying, en ekkert meira en það. Leikarar standa sig reyndar afbragðsvel (sem er næstum ótrúlegt miðað við að leikararnir eru sænskir og leikstjórinn er danskur - og enginn skilur dönsku), en það eru takmörk fyrir því hversu vel er hægt að gera mörgum persónum skil í mynd sem er aðeins 2,5 klukkutími að lengd. Á þessari fyrirmennasýningu var fólk reyndar látið lofa að mæla með þessari mynd útávið, eða halda kjafti ella.
Sumir eru bara ekkert góðir í að halda kjafti.

Niðurstaða þessarra tveggja bíóferða:
Gran Torino er betri. Mæli með henni.

Annars er lífið bara ljúft.
Enginn skóli fyrr en á mánudaginn og sól úti í dag.
Ljúft.

Friday, March 06, 2009

Dös og breytt plön

Þessi vika hefur skipst jafnt milli þreytu og dasa. Hef verið dugleg að drekka bjór. Annan hvern dag. Verið þreytt daginn eftir og farið ósiðsamlega snemma að sofa, og því verið dösuð daginn þar eftir sökum of mikils svefns. Í dag er dasaður dagur.

Í næstu viku er inntökuprófavika í skólanum. Þá vikuna er ekki mælt með að núverandi nemendur skólans séu mikið að flækjast þar, þar sem tilvonandi nemendur þurfa að hafa óheftan aðgang að salarkynnum og kennurum skólans. Hef því hugsað mér að nota næstu vikuna í að tónsmíða fullt og gera önnur skólatengd verkefni. Þar er á ýmsu að taka. Spurning um að gera Plan.

Annars hafði ég líka hugsað mér að nýta páskafríið í heimavinnu. Gerði það í fyrra. Var heima í Útlandinu, var þvílíkt dugleg og hafði það huggulegt þess á milli. Afbragð.
Það plan hefur hins vegar breyst. Núverandi páskaplan hljóðar uppá tæplega tveggja vikna ferð um Evrópu.
Áfangastaðir: Berlín, Prag og Mílanó
Markmið: Smakka bjór á skipulegan hátt.
Verður eflaust gaman.

Komandi helgi fer í lúðra-æfingar, sem og aðrar helgar í þessum mánuði. Síðustu helgi mánaðarins er nefnilega Keppnin í Þrándheimi.

Monday, March 02, 2009

Í lífshættu

Hér Útlendis hefur snjóað linnulítið síðasta mánuðinn eða svo. Það ku fremur óvenjulegt hér innanbæjar, og hafa samgöngur því gengið upp og ofan síðan snjóhörkur hófust.

Snjókoman sem slík hefur ekki plagað mig mikið þar sem ég fer flestra minna ferða fótgangandi. En það getur hins vegar verið lífshættulegt í þessu árferði. Ástæðan eru snjóflóð af húsþökum og árásir risagrýlukerta frá þakskeggjum. Ef maður fær eitt svoleiðis í hausinn, sem dottið hefur úr ca. 10 metra hæð (en það er meðalhæð húsa á leið minni í skólann), þá deyr maður. Örugglega.

Og enn snjóar. Samt er kominn mars. Bind engu að síður vonir við að vorið mæti á svæðið 1. apríl, að venju. Mikið hlakka ég til.