Saturday, September 30, 2006

Tónleikar síðustu daga

hafa verið fjölbreyttir. Fór á tónleika 3 kvöld í röð.

Tónleikar 1:
Mámblásaraskólatónleikar. Ansi skemmtilegir. Skemmtilegt prógramm og hópur málmblásara getur varla hljómað illa. Og svo voru þau líka flink að spila.

Tónleikar 2:
Marimbuhljómsveit Guatemala. Mjög skondið að sjá 7 manns spila á tvær marimbur. Skil ekki hvernig þau fóru að því að vera ekki sífellt að rekast utaní hvert annað. Spiluðu Guatemalska þjóðlagatónlist, sem minnir mjög á íslenska gömludansatónlist. Bara spilað á marimbur í staðin fyrir harmonikkur.

Tónleikar 3:
Setningartónleikar Ultima, sem er árleg nútímatónlistarhátíð hér í borg. Sinfóníutónleikar þar sem flutt voru 3 nútímatónverk (þar af 1 eftir frystikistumanninn). Alveg ágætt. Held ég sé að verða betri í að hlusta á nútímatónlist. Það er gott. Skoðun mín á slíkri tónlist er þó ekkert að breytast. Ætla ekki að fara nánar út í þá sálma hér. Fannst aðallega skuggalegt hvað ég þekkti marga tónleikagesti. Gestir á þessum tónleikum voru þessir:

- Tónsmíðakennarar úr skólanum
- Nemendur úr skólanum
- Kennarar úr skólanum sem ég var í í fyrra
- Nemendur sem voru með mér í skóla í fyrra
- Allir núverandi nemendur skólans sem ég var í í fyrra (þekki þá reyndar ekki)
- Kóngurinn (þekki hann heldur ekki)
- Ýmsir áhangendur allra ofantaldra
- Og ekki mikið fleiri

Á morgun er það svo að pakka niður öllu draslinu sínu og þrífa holuna.

Flytja á mánudaginn.

Wednesday, September 27, 2006

Dugleg eða ...

Byrjaði daginn á því að:

- Fara í skólann
- Vera í tónlistarsögutíma í 1,5 klukkutíma
- Koma heim úr skólanum
- Versla
- Setja í þvottavél
- Afla mér ýmissa praktískra upplýsinga vegna yfirvofandi flutninga

Þegar ég var búin að öllu þessu voru sambýlingar mínir flestir hverjir að dröslast á fætur.
Spuring hvort það er ég sem er svona dugleg eða hvort þau séu letihaugar.

Nú ég líka búin að hengja upp úr þvottavélinni og tónsmíða fullt. Og er að fara aftur í skólann að æfa mig á píanóið og kíkja kannski á eina tónleika.

Svona er ég nú dugleg.

Monday, September 25, 2006

Hvað leynist í frystikistunni?

Á morgun er síðasti tíminn í sögu raftónlistar. Mikið verður nú frábært þegar það er búið. Ekki að þetta hafi verið erfiður kúrs. Engin verkefni eða próf. Bara fyrirlestrar. Á dönsku. Þar sem ég skil ekki dönsku og hef þar að auki afar takmarkaðan áhuga á umræðuefninu, þá eru þessir klukkutímar MJÖG langir. Og alltaf fyrirlesið í tvo og hálfan klukkutíma í senn.

Í dag var næstsíðasti tíminn í sögu raftónlistar. Ótrúlega langir 2,5 tímar eins og venjulega.

Í gær var matarboð hjá einum tónsmíðaprófessornum. Það er víst viðtekin venja að hann bjóði fyrsta árs nemum til kvöldverðar í upphafi skólaárs. Var þetta samsæti hið huggulegasta, með óendanlega miklu kalkúns-, ís- og ostaáti, og rauðvínsdrykkju í miklu magni. Skemmtilegur kall.

Komumst að líklegri skýringu á skorti nema á 3. ári tónsmíðadeildar (það er enginn á 3. ári). Eftir gærkveldið þykir okkur líklegast að 3. árið sé að finna í frystikistu ofangreinds tónsmíðakalls. Hann á nefnilega fulla frystikistu og vélsög, sem hann notaði til að skera kalkúninn með ...

Thursday, September 21, 2006

Konan sem veit

Í öllum skólum er ein manneskja (yfirleitt kvenmaður) sem veit allt. Það er alveg sama hvaða misgáfulegu upplýsingar mann vantar, þessi kona er alltaf með svörin á hreinu.

Ég hef átt í smá basli með að finna Konuna sem veit í nýja skólanum. Skrifstofur skólans eru á 3. hæð og þangað hef ég hingað til farið til að fá ýmsar upplýsingar. Oft án árangurs. Þar var að öllu jöfnu nauðsynlegt að vita nákvæmilega hvaða skrifstofustarfsmann maður þurfti að tala við (sama hversu heimskuleg spurningin var), því allir höfðu þeir sitt sérsvið. Enginn vissi neitt fyrir utan sína mjög svo afmörkuðu starfslýsingu. Ekki einu sinni konan sem sat í afgreiðslunni á 3. hæðinni.

En í dag fann ég Konuna sem veit. Lenti í því að gleyma mikilvægum pappírum í nemendaljósritunarvélinni í kjallaranum. Þegar ég fattaði það (klukkutíma síðar) voru mikilvægu pappírarnir mínir á bak og burt. Þótti mér líklegast að einhver ofursamviskusamur nemandi hefði farið með pappírana mína til Konunnar sem veit, þar sem ég efaðist um að einhver starfsmaður á 3. hæðinni hefði starfa af því að halda utanum pappíra sem gleymst hefðu hér og þar um bygginguna. Ákvað ég þá að spyrja konuna sem situr hjá öryggisverðinum á 1. hæðinni. Og viti menn, hún er einmitt Konan sem veit!

Samtalið við hana var eitthvað á þessa leið:

Ég: Ég held að ég hafi hugsanlega gleymt pappírum í ljósritunarvélinni niðri.
Konan: (blaðaði í þykkum bunka af blöðum og dró úr ca. miðjum bunkanum einhverja pappíra og réttir mér) Hér eru pappírarnir þínir.

Ég þurfti ekki einu sinni að kynna mig eða segja hvers lags pappírar þetta væru.

Þetta getur bara Konan sem veit.

Wednesday, September 20, 2006

Smá um skólann

Í dag kom Rússi í skólann. Rodion Schedrin. Hann er tónskáld. Veit ekki hvort hann er frægur, en hann átti frægan vin sem hét Dmitry Schostakovich. Reikna með að Rodion þessi verði frægur þegar hann deyr. Var með afar áhugaverðan fyrirlestur um hvernig lífið gekk fyrir sig í Rússlandi um og eftir heimstyrjöldina síðari.

Hafði nú eiginlega hugsað mér að gefa ítarlega skýrslu um námið, en ætli það fái ekki að bíða enn um sinn. Ekki alveg allt komið á hreint ennþá, en það ætti að gerast á allra næstu dögum.

Í gær fór ég í fyrsta píanótímann minn í nýja skólanum. Kennarinn búinn að vera veikur frá upphafi skólaárs, og verður það eitthvað áfram, þannig að það var fenginn afleysingakennari. En afleysingakennarinn komst ekki í gær, þannig að það var fenginn afleysingakennari fyrir afleysingakennarann til að kenna þennan eina dag. Afleysinga-afleysingakennarinn var fínn og ákvað að ég ætti að læra að spila djass. Þannig að það lærði ég í gær. Á hálftíma.

Það er oft gaman í skólanum. Nánar um það síðar.

Tuesday, September 19, 2006

Skilaboð til símnotenda

sem ef til að reyna að hafa samband við undirritaða símleiðis í náinni framtíð.

Síminn minn hefur komið sér upp afar sjálfstæðum vilja uppá síðkastið. Það nýjasta er að stundum virðist hann ekki vilja taka á móti símtölum eða sms-skilaboðum. Hann gefur hinum grunlausu íhringjendum þær upplýsingar að það sé slökkt á sér eða hann utan þjónustusvæðis, þó svo að sú sé alls ekki raunin. Ég get hins vegar bæði hringt og sent skilaboð. Þannig veit ég ekki þegar síminn virkar bara í aðra áttina. Þetta var hins vegar mjög auðvelt að laga. Þurfti bara að slökkva og kveikja á blessuðu símtækinu.

Ef þið lesendur góðir, sem reynið að hringja, verðið uppvís af því að það er slökkt á símanum í lengri tíma (lengri tími = 6 klukkutímar), vinsamlegast látið mig vita með aðstoð tölvupósts, eða athugasemdar á bloggi þessu.

Með fyrirfram þökk

Sunday, September 17, 2006

Merkisdagur

Í dag er ég búin að búa í Gettói Útlandsins í nákvæmilega 1 mánuð.

Í dag eru 2 vikur þar til ég flyt í miðborgina.

Í dag hefur faðir vor náð 60 ára aldri. Til hamingju með það.
Hann heldur upp á áfangann með að stunda nám við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Geri alveg ráð fyrir að feta í fótspor hans, og vera enn í námi um sextugt (með einhverjum hléum kannski.

Þegar ég verð sjötug ætla ég svo að stofna rokkhljómsveit á elliheimilinu. Þeir sem vilja mega vera með. Pant spilá bassa/túbu.

Eftir mánuð verð ég á Íslandi.

Saturday, September 16, 2006

Þjóðhátíðardagur Mexíkó

var í gær. Fagnaði þeim tímamótum með innfæddum hér í gettóinu. Þarlenskir héldu teiti í næstu blokk, og gestir og gangandi kölluðu “Viva Mexikó” fyrir neðan svalir samkvæmishúsnæðisins (sem var á 3. hæð í 11 hæða blokk). Við mikinn fögnuð annarra íbúa hússins.

Áðan kláraði ég að lesa bók. Það tók ca. 1 ár að lesa þessa bók. Lestrarhraði á heimilinu er gríðarlegur. Og Stebbi Kóngur kann sko að skrifa langar bækur.

Tuesday, September 12, 2006

Sannar hetjur

Um miðnætti gerðist það í fyrsta sinn síðan ég flutti hingað í blokkina, að brunavarnarkerfið fór í gang. Að því tilefni prófaði ég tröppurnar í húsinu í fyrsta sinn. Ekki eins langt og ég bjóst við að labba upp og niður af 9. Það er bannað að nota lyfturnar þegar brunavarnarkerfið er í gangi.

Íbúarnir hópuðust út á stétt og myndaðist afar skemmtileg stemming. Ástæða uppþotsins reyndist vera gleymska við eldamennsku á 1. hæð. Eftir nokkurra mínútna bið mætti slökkviliðsbíllinn, og út úr honum stigu tveir slökkviliðsmenn í fullum herklæðum (með súrefniskúta og allt). Var þeim tekið fagnandi með lófataki og teknar af þeim ljósmyndir, eins og sæmir þegar sannar hetjur eða kvikmyndastjörnur eiga í hlut.

Þeir slökktu á kerfinu og við máttum fara inn að sofa.

Monday, September 11, 2006

Hús datt

Var að tala við 2 stelpur á ganginum mínum (þær rússnesku og slóvakísku). Kom þá upp úr kafinu að þær bjuggu hér í annarri blokk í fyrra. Þegar ég innti þær eftir því af hverju þær hefðu flutt, kom í ljós að húsið sem þær bjuggu í hrundi! Ekki til grunna, en helmingurinn af gólfinu datt niður á næstu hæð um miðja nótt þannig að það leit einhvernveginn svona ⁄ út. Voru þá íbúarnir fluttir með snarhasti á hótel, og svo í nærliggjandi blokkir.

Svona lagað hélt ég nú bara að gæti ekki átt sér stað í hinum vestræna heimi.

Saturday, September 09, 2006

Upplýsingar fyrir bófa

Í gær tókst mér að fullvissa mig um það að þetta rosalega öryggiskerfi í skólanum er ekki að gera gagn. Gleymdi nefnilega lykilkortinu mínu heima, en komst allra minna leiða innan skólans (og inn í skólann) þrátt fyrir það. Bara spurning um að labba inn um allar dyr um leið og einhver annar. Gæti ekki verið minna mál á háannatíma. Kannski erfiðara á kvöldin og um helgar þegar færri eru á ferli. Það getur semsagt hvaða bófi sem er (ef hann er ekki þeim mun skuggalegri í útliti) labbað þarna inn og reynt að stela einhverju.

Í gær tókst mér líka að semja fyrsta raftónverkið mitt og setja það á geisladisk. Það er heilar 23 sekúndur.

Í dag er búin að vera sól og blíða og um tuttugu stiga hiti. Og ekkert lát virðist vera á góðviðrinu. Já, svona er í Útlandinu.

Friday, September 08, 2006

Fullt að gerast

Nennti loksins að taka aðeins til í herberginu mínu í dag. Nennti samt ekki að gera það neitt vel þar sem ég hyggst flytjast búferlum eftir 3 vikur, og snúrudraslið á skrifborðinu er eiginlega ekki hægt að minnka með auðveldu móti. Eftir þessar 3 vikur mun ég verða búsett í ponsulítilli íbúð í miðborg Osló. Að þeim tímamótum loknum mun ég hafa haft fasta búsetu á 4 stöðum á þessu ári. Það mun vera persónulegt met. Einnig mun ég þá hafa haft lögheimili á 4 stöðum á þessu ári, ef ég tel íslenska lögheimilið með (Egilsstaðir city, óstaðsett í hús. Einsog róni).

Annars er ég eiginlega alltaf í skólanum, og eyði þar töluverðum tíma í kjallaranum, þar sem hljóðupptökuverið er staðsett. Þar lærum við aðeins á upptökugræjurnar og tökum upp ýmislegt skemmtilegt. Verst að það er frekar kalt í stúdíóinu. Var þar í 5 tíma í morgun og var alveg að frjósa. Sé fram á að vera þar í allt að 3 tíma í kvöld. Spurning um að taka lopapeysuna með.

Og nú er það komið á hreint að ég heimsæki heimalandið um miðjan október í eina viku. Þökk sé Lúðrasveit Reykjavíkur. En þau hyggjast spila eitt lag eftir mig á hausttónleikum sínum. Kláraði einmitt að útsetja það í gær. Samdi það nefnilega ekki fyrir lúðrasveit, heldur brassband, en fékk það aldrei flutt í þeirri útgáfu. Held að þetta sé alveg þokkalegt. En það kemur í ljós.

Það er semsagt fullt að gerast.

Tuesday, September 05, 2006

Tímamót dagsins

Síminn minn er hættur að vera hræddur við lyfurnar í húsinu mínu.

Og það er komið ljós í dimmu lyftuna! Það er sko búið að vera myrkur í annarri lyftunni alveg síðan ég flutti inn. Svolítið sérstakt að vera í lyftu í niðamyrkri. Bara einn pínulítill rauður ljóshringur í kringum takkann sem maður ýtir á. Og ansi spes að vera í svona litlu rými í myrkri með bláókunnugu fólki sem kemur inn í lyftuna á leiðinni upp eða niður.

En nú er semsagt komið ljós í dimmu lyftuna.

Og mér tókst að laga prentarann minn alveg sjálf.

Þetta voru fréttir dagsins.

Sunday, September 03, 2006

Í dag kom rigning

Þá gat ég verið inni að læra. Svo kom sól. Og ég hélt áfram að vera inni að læra. Sko bara hvað ég er dugleg. Þessi verkefni eru ekkert svo mikið mál. Aðalmálið er að byrja á þeim.

Búin að vera ágætis helgi. Skólapartý á föstudagskvöldið og partý á næsta gangi í blokkinni minni í gærkveld. Held að tónlistarsmekkur ungs fólks í dag sé að fara útí algera vitleysu. Eða þá að ég er að verða gömul. Nema hvuru tveggja sé.

Tókst að finna einn innfæddan í samkvæminu í gær. Annars voru þetta bara útlendingar. Og það voru örugglega 40-50 manns þarna. Sýnir kannski ágætlega hlutfall Útlendinga í námsmannahverfinu sem ég bý í. Þeir eru í yfirgnæfandi meirihluta. Þannig að hér skapast undarlegur menningarkimi, þar sem tungumálið sem notast er við, eru misskiljanlegar útgáfur af engilsaxnesku.

Síminn minn þolir ekki lyftuna í húsinu mínu. Hann dettur úr sambandi þegar inn í hana kemur, og tengist ekki símakerfinu aftur hjálparlaust. Það er fremur hvimleitt, þar sem lyftan er notuð í hvert skipti sem farið er inn og út úr húsi. Þegar maður býr á 9. hæð leggur maður ekki í stigana. Þannig að ef það er slökkt á símanum þegar þið reynið að hringja (mamma), þá er það sennilega af því að ég hef gleymt að hjálpa honum aftur í samband eftir lyftuferð.

Geymi yfirlit yfir námið þar til síðar (eða þangað til ég nenni að skrifa það).