Sunday, April 30, 2006

Alltaf sunnudagur

Merkilegt með svona daga þegar maður hefur ekkert sérstakt að gera, en nennir samt engan vegin að gera hluti sem myndu létta talsvert næstu daga. Þannig var það í dag. Ég spilaði á spil við Hús E stelpur í 3 tíma. Fyrir utan það gerði ég næstum ekkert.

Á morgun er aftur sunnudagur (1. maí). Þá hafði ég nú eiginlega hugsað mér að gera eitthvað af viti (s.s. tónsmíða píanólagið sem ég er nýbyrjuð á, æfa mig fyrir tónleikana á fimmtudaginn og byrja að pakka nður draslinu mínu). En rétt í þessu bauðst mér að taka þátt í námskeiði með kúbönskum djassfiðluleikara sem stendur allan morgundaginn og þriðjudaginn líka. Því get ég nú varla sleppt.

Gæti nátturulega reynti að gera eitthvað í kvöld, en ég hugsa að ég noti tímann frekar í að horfa á eina eða tvær Harry Potter myndir í Húsi 7.

Svona er maður nú afslappaður.

Saturday, April 29, 2006

Klósettpartý

Nú fer þetta skólaár að verða búið og því fylgir dálítið stress. Eigum að vera búin að “tæma” (pakka öllu niður og þrífa) húsin á föstudaginn. Er aðeins byrjuð fara í gegnum pappíra og henda. Ótrúlegt hvað manni tekst að safna miklu drasli á ekki lengri tíma. Verð að vera tímanlega í niðurpakkningu. Það eru nefnilega saxófóntónleikar á fimmtudaginn og mun allur sá dagur fara í æfingar fyrir þá. Þá um kvöldið eru svo 2 partý, að því að virðist.

Í gær var klósettpartý í Húsi E. Hef aldrei áður verið í klósettpartýi. Oft í elshúspartýi en aldrei klósett. Spennandi upplifun. Í kvöld verður rólegt í Húsi E. Ætlum bara að horfa á Shrek 1 og fara snemma að sofa. Klósettpartýið í gær stóð nefnilega talsvert frameftir og við þurftum að vakna í morgun af því að í dag átti að vera tiltektardagur úti.

Það varð ekkert úr þeirri tiltekt vegna of mikillar rigningar.

Friday, April 28, 2006

Ferðalögin

Ferðsögur síðustu vikna verða hér sagðar í stuttu máli:

Í páskafríinu var ég á Íslandi. Nánar tiltekið í Reykjavík. Það var MJÖG gaman, en að sama skapi ekki mjög hollt. Óreglan var algjör. En ég hitti margt skemmtilegt fólk og skipulagði sumarið nokkuð vel.

Eftir páskafríið skrapp ég aðeins heim í Hús E til að sofa dáldið og pakka upp á nýtt. Svo var ferðinni heitið til Budapest. Þar var gott veður. Þetta var bara svona venjulegt ferðalag og gerðist svosem ekki margt sem er í frásögum færandi. Bara þrennt:

Ég fór í dýragarðinn og sá fullt af dýrum sem ég hafði aldrei sé áður. Hafði reyndar ekki séð mikið fleiri dýr en hund, kött, hest og ánamaðk áður en ég kom í dýragarðinn. En þarna voru saman komin ótrúlega mörg dýr. Ljón, tígrisdýr, gíraffar, ótlejandi tegundir af öpum, leðurblökur, fílar og fullt af öðrum dýrum.

Ég fór í sund (það gerist næstum aldrei) og það var fínt (ótrúlegt en satt). Þar í landi er nefnilega ekki meiningin að synda heldur aðallega liggja í misheitum laugum og hafa það gott. Þarna var einn pollur sem mátti synda í og u.þ.b. 10 (misheitir) þar sem mátti bara sitja/liggja. Afar huggulegt.

Ég fór á ballett í óperuhúsinu í Budapest. Það var alveg frábært. Tvímælalaust hápunktur ferðarinnar. Hef aldrei áður séð ballett og hélt eiginlega að ég hefði ekki mjög gaman að svoleiðis löguðu. Það var misskilningur.

Það merkilegasta við þessi ferðalög er eiginlega að það gekk allt upp. Engin seinkun á flugvélum, rútum eða lestum og ekkert vesen. Gerðist bara eitt smávegis sem var meira skemmtilegt en vesen:

Á flugvellinum í Budapest þegar ég var á leiðinni til baka til Noregs var ég kölluð upp í hátalarakerfinu og skipað að koma að upplýsingaborðinu. Það gerði ég. Þangað kom kona sem sagði að ég þyrfti að gera grein fyrir einhverju í farangrinum mínum. Ég fór með henni til baka í gegnum hliðið, framhjá inntékkinu og þar á bakvið þar sem farangurinn er gegnumlýstur. Þar inni var önnur kona sem var að gera grein fyrir sínum farangri. Hún var með FULLT af byssukúlum. En það var allt í lagi af því að hún var herkona. Hún var bara spurð hvort hún væri ekki með svona eða hinsegin byssudót líka, en hún vara bara með byssukúlurnar.

Ég var ekki með byssukúlur. Bara lítinn kassa úr málmi sem var ekki hægt að gegnumlýsa. Hálfskammaðist mín fyrir að vera ekki með neitt merkilegra fyrst ég var nú á annað borð komin þarna á bakvið. Litli kassin minn innihélt 12 litlar brennivínsflöskur. Eftirlitsfólkinu fannst þetta rosa flottur kassi og gerður engar athugsemdir við innihaldið. Svo fékk ég flott gult límband utan um töskuna mína til merkis um það að farangurinn hefði staðist öryggispróf.

Þetta límband hengdi ég uppá vegg í Húsi E. Ekkert smá kúl.

Wednesday, April 26, 2006

Komin heim!

Þá er maður loksins kominn heim í Hús E úr þessum endalausu ferðalögum. Það gerðist nú samt ýmislegt á meðan á ferðalögunum stóð. Tókst að redda mér íbúð og vinnu í sumir í höfuðstað okkar Íslendinga á innan hálfum sólarhring. Það verður að teljast nokkuð gott. Þar að auki hef ég fengið inni á stúdentagörðum í Osló næsta vetur. Þar með er næsta árið orðið nokkuð vel skipulagt.

Sóley spilaði lag eftir mig á útskriftartónleikunum mínum á laugardaginn var. Það gleymdi ég alveg að auglýsa hér, en það gekk mjög vel eftir því sem ég kemst næst.

Held ég skrifi eitthvað meira um ferðalögin síðar (ef ég nenni). Er alltof þreytt núna.

Góða nótt.

Tuesday, April 18, 2006

Ekki dáin

Bara rosalega þreytt. Kom heim í Hús E í nótt. Það var frábært, fyrir utan það að það var ekkert rafmagn þar. En ég var nú ekki lengi að kippa því í liðin, með smá aðstoð reyndar.

Á morgun fer ég til Ungverjalands.

Alltaf á ferðinni.

Monday, April 10, 2006

Afköst

voru með meira móti þessa helgina. Hitti fullt af skemmtilegu fólki (bæði kunnugu og ókunnugu), heyrði hljómsveitina Hraun spila (frábært band), svaf eitthvað takmarkað (reyni að vinna það upp á næstu dögum), fór á æfingu á einu tónverki sem ég samdi (skemmtilegt lag og flinkir spilarar), reddaði mér vinnu og húsnæði í höfuðborg Íslands á innan við sólarhring. Og margt, margt fleira. Held ég hafi sjaldan afkastað jafn miklu á svona stuttum tíma. Verst hvað maður er lengi að vinna upp tapaðan svefn. Er enn hálf sloj eftir laugardagskvöldið.

Annars er ég auðvitað að vinna í því að hitta sem flesta meðan ég er í bænum. Búin að gera ýmis plön til hittinga, en ef einhver sem þetta les finnst hann/hún sniðgengin þá bið ég viðkomandi vinsamlegast um að hafa samband. Er með gamla símanúmerið mitt og svo er auðvitað alltaf hægt að skilja eftir skilaboð í kommentadálknum hér að neðan.

Saturday, April 08, 2006

Komin

Ég hef nú bara aldrei lent í jafn litlu veseni á ferðalagi. Einmitt þegar ég hafði búist við öllu heimsins veseni (búin að búa mig undir að vera á flugvellinum í marga daga og lesa mig til um réttindi strandaglópa vegna flugverkfalla). Og svo var flugið mitt á áætlun og allt. Ótrúlegt.

Annars er ýmislegt búið að ske síðan ég kom. Systir mín, frú Sigríður, lét skíra frumburðinn í dag og gifti sig í leiðinni. Barnið heitir Gyða til höfuðs ömmu sinni í móðurætt og ég fékk að vera svaramaður. Þetta er í annað sinn sem ég mæti í brúðkaup, og jafnframt í annað sinn sem ég hef gegnt hlutverki svaramanns. Þannig að ef ykkur vantar svaramann með reynslu, þá hef ég gríðarlega reynslu af slíku.

Thursday, April 06, 2006

Ferðalög og ég

eiga enga samleið.

Ég hafði hugsað mér að bregða mér til Íslands á morgun, en nú óljóst hvernig það kemur til með að ganga vegna verkfalls hjá því flugfélagi sem ég hafði hugsað mér að fljúga með. Ég kem mér nú örugglega á áfangastað á endanum en eins og staðan er í dag hef ég ekki hugmynd um hvað það kemur til með að taka langan tíma (þú verður bara að fyrirgefa það ef ég missi af skírninni hjá þér Siggalára).

Þegar ég verð stór mun ég sennilega ekki ferðast til staða sem eru lengra í burtu en svo, að ég geti komist þangað fótgangandi frá heimili mínu.

Monday, April 03, 2006

Menning, þjófavarnir og skattframtal

Laugardagurinn var menningarlegur. Fór á listasafn með nokkrum stelpum úr Húsi E. Það var menningarlegt. Um kvöldið fórum við svo út að borða menningarlegar flatbökur og horfðum á menningarlega mynd eftir að við komum til baka. Allt mjög menningarlegt semsagt.

Gærdagurinn var ekki jafn menningarlegur. Byrjaði daginn á því að setja þjófavarnarkerfi skólans í gang, þegar ég ætlaði ásamt fleiri krökkum að fara að æfa mig. Þetta er einn af þessum hlutum sem ætti ekki að vera hægt að gera, því það á einhver (sá kennari sem er með umsjón þann daginn) að koma eldsnemma á morgnana, taka úr lás og slökkva á þjófavarnarkerfinu. Sá sem var með umsjón á laugardaginn hefur sennilega gleymt að læsa og sá sem átti að koma á sunnudagsmorguninn, kom bara ekki. Þannig að um leið og við, vesalings nemendurnir gengum inn um dyrnar, fór þjófavarnarkerfið í gang með þeim afleiðingum að heilinn þaut næstum út um eyrun. Slatti af hávaða. Svo tók dágóðan tíma að finna einhvern til að slökkva á kerfinu. Hér tíðkast það nefnilega ekki að þjófavarnarkall komi og athugi hvað sé á seyði. Kemur sér vel fyrir bófa sem eru ekki hræddir við hávaða. Á endanum kom kona skólastjórans og slökkti á draslinu.

Alltaf gaman að lenda í ævintýrum snemma á sunnudögum. Gefur deginum gildi.

Rétt í þessu var ég að skila norska skattframtalinu mínu. Það tók tvær mínútur.