Monday, September 29, 2008

Króna = Jen

Tékkaði á gengi hinnar íslensku krónu áðan. Sæææll, þarf eitthvað að ræða þetta eða?

Og nú á íslenska ríkið, semsagt við, meirihlutann í banka sem verslar með þvísemnæst verðlausan gjaldmiðil. Frábært.
Til að ráða bót á því er verið að reyna að fá frændur okkar Norðmenn til að leggja sparifé sitt í Glitni. Jebb, Útlendingar vilja örugglega láta banka sem er ný-"næstum því farinn á hausinn" geyma péningana sína... eða ekki. Útlendingar eru kannski engar mannvitsbrekkur, en kommon! Það er enginn svona heimskur.

Kannski maður fari að fara að góðum ráðum; fá sér vinnu erlendis og senda péning heim til ættingjanna. Það gerir fólk frá fátæku löndunum.

Góðu fréttirnar eru þær að í dag er rosa auðvelt að reikna út hvað dót kostar í Bandaríkjunum og Japan. Maður bætir við tveimur núllum á bandarískt dót og japanska jenið er jafn verðlítið og íslenska krónan. Pæliði í því.

Saturday, September 27, 2008

Að tuða eða ekki tuða...

Þá er skólastarf komið á nokkuð gott ról, enda eins gott þar sem þriðjungur annarinnar er að baki. Miðað við þá staðreynd finnst mér nú ansi lítið hafa miðað í eigin afköstum, en það hlýtur að koma.

Fór á fund Dana-barnapíunnar í vikunni og kláraði byltinguna frá í fyrra. Það tók um hálftíma. Á næsta ári fáum við semsagt að velja fag sem miðar að samstarfi tónsmíða- og hljóðfæraleiksnema. Loksins. Frekar pirrandi hvað við eyddum miklum tíma í þetta í fyrra með takmörkuðum árangri, þar sem Daninn er fáviti, og fengum þetta fag því ekki í gagnið á þessu skólaári.

Gerði fyrsta max-verkefnið í dag. Tók ekki langan tíma, sem er gott. Er samt alvarlega farin að spá í að tuða yfir þessum max-kúrsi. Minn árgangur er jú að læra þetta í annað sinn, sem er ansi fúlt og bara tímasóun, en þau sem eru á fjórða ári eru að taka þennan (nánast) sama kúrs í þriðja sinn, sem þýðir að við að öllum líkindum að gera það líka. Þá er þetta orðið fáránlegt (nema fyrir þá sem vilja læra meiri í max-i, en þeir ættu þá að geta valið það sjálfir). Fer kannski með einni stelpu af fjórða ári og tuða, svona fyrst það er komið í ljós að það gæti borgað sig. Það er líklegra að það gerist eitthvað í málunum ef það fara fleiri saman að tuða.

Annars lítur út fyrir að flest fög ársins séu bæði gagnleg og skemmtileg, enda fékk maður nú tækifæri til að ákveða að einhverju leyti sjálfur hvað maður vildi læra.
Gott mál.

Saturday, September 20, 2008

Nýtt kort og fíkniefni

Fékk nýtt útlenskt debetkort í gær, í stað þess sem glataðist með veskinu í liðinni viku. Ansi hreint gott mál þar sem notkun íslenskra korta í útlöndum er ekki málið þessa dagana.

Fór í saxófónkvintettpartý í gærkveldi. Það var hressandi, en dagsformið er ekki alveg upp á sitt besta í dag, og afköstin eftir því.
Nú er þessi kvintett búinn að vera til í næstum heilt ár.
Svona fólk er í kvintettinum:
- Hljóðfærasmíðanemi
- Grafískur hönnuður
- Sveppafræðingur
- Starfsmaður í byggingavöruverslun
- og ég
Partýin eru oftast heima hjá sveppafræðingnum. Hann býr hinumegin við ána. Meðfram ánni stunda fíkniefnasalar viðskipti sín. Á leiðinni heim í gær var með einmitt boðið að versla fíkniefni. Ég afþakkaði það nú pent, þar sem mig vantaði ekki hass.

Annars er fullt að gera. Er náttúrulega í rúmlega fullu námi, ofvirkri lúðrasveit sem heldur tónleika mánaðarlega, saxófónkvintett sem vill helst eyða öllum sínum frítíma í að æfa saman og svo er ég líka með vinnuna frá í sumar með mér hér í Útlandinu. Og þar fyrir utan er maður auðvitað að skipuleggja eitt og annað. Stuð.

Vandamálin þessa dagana eru tvö:
a) Ég held ég sé að sofa of mikið.
b) Það eru of fáir klukkutímar til að gera allt sem maður vill.
Mig grunar að b) sé bein afleiðing af a).
Svona er maður nú klár.
En nú er ég farin að vinna.

Thursday, September 18, 2008

Max = ekki kúl

Þá er skólinn loksins alveg byrjaður. Búin að fara í fyrsta tímann í öllu og líst bara nokkuð vel á þetta alltsaman, þrátt fyrir nett þunglyndiskast á mánudaginn þegar ég komst að því að helv... Daninn kennir helminginn af skyldufögunum. Það var búið að ljúga því að mér að hann yrði ekkert að kenna þetta skólaárið vegna rannsóknarverkefnisvinnu.
Það reyndist misskilningur.
Þar sem umræddur Dani kann ekki að skipuleggja neitt fengum við að vita í fyrsta tímanum að tímarnir í faginu yrðu helmingi fleiri en stundaskráin segði til um, og sá helmingur sem ekki var getið um í skránni snýst að öllu leyti um hið frábæra forrit MAX-MSP (nánar tiltekið: verkfæri djöfulsins). Fór í fyrsta tímann í því í dag. Virðist vera nákvæmilega það sama og ég lærði á ótrúlega löngu 5 daga námskeiði fyrir tveimur árum síðan. Það voru 5 lengstu dagar lífs míns. Kosturinn við MAX-tímana þetta árið er að Daninn kennir þá ekki. Gallinn við MAX er að þetta er í rauninni ekkert svo leiðinlegt til að byrja með. En ef maður passar sig ekki verður þetta ávanabindandi. Dáldið eins og Sudoku, nema MAX-fólk fær gjarnan þá grillu í höfuðið að tilgangur lífsins felist í MAX-MSP eingöngu.
Það er rangt.

Nenni nú eiginlega ekki að tjá mig um fjármáladæmið, en ég rak augun í það í einhverjum fjölmiðlinum að einhver teldi einu möguleikana á bættu ástandi að skipta íslensku krónunni út fyrir evru, eða styrkja krónuna (einhvernvegin... náði ekki hvernig).
Þriðji möguleikinn (og sennilega sá einfaldasti fyrst Íslendingar hafa enn ekki getað fundið farsæla lausn á sífallandi gengi krónunnar) væri að íslenska þjóðin flytti í heild sinni aftur "heim" til Noregs. Þar gæti hún byggt sína eigin borg (nóg pláss) og notið fjárhagslegrar aðstoðar til að byrja með (hér búa peningarnir) verandi flóttamenn. Hér er veðurfar líka mun hagstæðara og félagsleg þjónusta til fyrirmyndar (eftir því sem ég kemst næst).
Gott plan.

Friday, September 12, 2008

Svarthol Alheimsins

Helstu afrek síðan síðast, í tímaröð:

-Fór í fyrsta saxófóntímann í 2 ár.
-Spilaði á fyrstu lúðrasveitatónleikum vetrarins.
-Glataði veskinu mínu með undarlegum hætti.
-Pantaði flug heim í jólafrí.
-Fór í fyrsta tónsmíðatímann hjá nýja kennaranum.

Allt var þetta hið ágætasta mál, nema að glata veskinu. Nú er það sennilega í Svartholi Alheimsins með öllu hina týnda dótinu. Ef heimurinn myndi skyndilega detta í þetta margumrædda svarthol, myndi það þá ekki bara þýða að við fyndum allt dótið sem hefur lent þangað? Ég er allavega mjög fylgjandi að vísindamenn reyni að finna svartholið og allt dótið sem þar er. Ef þeim tækist það, þá ætti ég mörg veski. Og Sóley ætti marga bakpoka. Og Einar og Anna Guðný ættu marga lykla að húsinu sínu. Og svo framvegis.

Þetta yrði semsagt hið besta mál.

Monday, September 08, 2008

And-félagslegi dagurinn

er að takast gríðarlega vel. Tókst að gera fullt af hlutum sem ég hélt myndu taka marga daga. Þar á meðal læra vikuskammtinn og ná í manneskju símleiðis sem ég var farin að halda að hefði einsett sér að svara ALDREI aftur í símann.
Afar árangursríkt. Mæli með þessu.

Þessar vikurnar er verið að gera húsið sem ég bý í fínt að utan. Það á að pússa, spasla og mála (vonandi ekki bleikt - aftur. Það er bjánalegt að búa í bleiku húsi). Að því tilefni er búið að setja stillansa utaná húsið, og tjalda stillansana af með hvítu neti. Þetta gerir það að verkum að í hvert skipti sem maður lítur út um gluggann án andlegs undirbúinings hugsar maður: "Sjitt! Snjór!.... nei, djók, net..." Pínu asnalegt og þreytandi til lengdar. Svona er örugglega að vera gullfiskur. Spurning um að hafa dregið fyrir gluggana þangað til framkvæmdum líkur.
Stillansarnir bjóða upp á þann möguleika að nú er hægt að komast út um gluggann, sem opnast einsog dyr, og stytta sér þannig leið út á götu þó maður búi á sjöttu hæð.
En það er örugglega bannað.

Sunday, September 07, 2008

Morgundagurinn

Félagsleg virkni hefur verið með meira móti síðan ég kom til Útlandsins eftir sumar í heimalandinu. Maður er rétt búinn að koma heim til sín til að sofa, og þá ekkert endilega í neitt mjög marga tíma. Að þessu tilefni mun and-félagslegi dagurinn haldinn hátíðlegur á mínu heimili á morgun. Dagurinn mun verða vel (vondandi) nýttur í ritstörf (fyrir skólann), þvotta (fyrir mig) og endanlegt skipulag á stundaskrá komandi skólaárs og reddingar af ýmsu tagi (fyrir eigin geðheilsu).

Á morgun ætla ég semsagt mest að hugsa eigið sjálf, smá um skólann og helst ekki fara útfyrir dyr (enda spáð rigningu).

Gleðilegan and-félagsdag (á morgun).

Saturday, September 06, 2008

Heimsókn að handan

Undangengna viku hefur verið dáldið af Íslendingum á svæðinu vegna ákveðinnar ung-tónskálda hátíðar hér í borg. Að því tilefni fengum við tónsmíðanemarnir frí í skólanum þessa vikuna, en var þess í stað uppálagt að mæta á tónleika og kynnast útlendingunum sem þátt tóku í hátíðinni. Semsagt, vikulangt skyldufyllerí með Íslendingum.
Ekki leiðinlegt það.
Íslendingarnir voru ekkert brjálæðislega duglegir að tala við útlendinga, en voru þeim mun duglegri að skemmta sér innan Íslendingaklíkunnar. Gæti verið vegna þess að flestir Íslendingar á þessum aldri búa erlendis, þannig að tækifæri til að spjalla við samlanda gefast ekkert endilega á hverjum degi.
Tónleikarnir voru líka merkilega lítið leiðinlegir, og sumt var hreinlega mjög skemmtilegt. Kom á óvart.

Komst að þrennu:
-Þessi tiltekni hópur Íslendinga á sennilega meiri möguleika sem loftfimleikafólk en tónskáld í framtíðinni. Við æfðum okkur dáldið í því, og gekk furðuvel. En það þýddi líka allnokkur dett úr hæstu hæðum.
-Íslendingar eru hjarðdýr.
-Svíar geta verið fyndnir.

En nú er loksins komið að eðlilegu lífi:
-Lúðrasveitaræfingar alla helgina og tónleikar á fimmtudaginn.
-Skóli að komast almennilega í gang.
-Hreinlæti á heimilinu alvarlega ábótavant.