Wednesday, May 31, 2006

Vinnan

Jæja, þá er ég komin í höfuðborg okkar Íslendinga og farin að vinna venjulega vinnu í fyrsta sinn í þónokkur ár (venjuleg vinna = vinna sem unnin er á virkum dögum milli klukkan 8 og 5). Þar með er ég orðin svo venjuleg að mér dettur alls ekki neitt í hug til að skrifa. Hef ekki skoðum á neinu þessa dagana og finnst best að gera sem minnst.

England í næstu viku.

Saturday, May 27, 2006

Búin að kjósa

og gekk það stóráfallalaust fyrir sig. Heimsótti svo heilar tvær kosningaskrifstofur og fékk kaffi og kökur. Var spurð á annarri hvort ég væri að kjósa í fyrsta skipti. Ég kvað svo ekki vera. Þetta eru víst þriðju sveitarstjórnarkosningar sem ég tek þátt í sem kjósandi (fyrir utan allar hinar kosningarnar náttúrulega - alþingis- og forsetakosningar). Minnist þess þó ekki að hafa mætt á kjörstað áður til að kjósa. Alltaf verið á einhverju flakki og kosið utan kjörfundar. Það var óneitanlega stemming yfir því að mæta á kjörstað. Þar er maður spurður að heimilisfangi. Sem betur fór hafði faðir minn tilkynnt mér það áður en á kjörstað var haldið að ég væri heimilislaus samkvæmt kjörskrá, en ég væri númer 3 á þeim ágæta lista. Þetta voru afar gagnlegar upplýsingar. Og ég þurfti ekki að sýna skilríki. Það var kúl.

Að öðru leyti er ég að mestu búin að halda mig innandyra síðan ég kom í foreldrahús. Það virðist vera orðin regla fremur en undantekning að ég fæ einhverja pest þegar hingað kemur. Það verður að teljast frekar fúlt. Mömmu finnst það allavega hundleiðinlegt.

Wednesday, May 24, 2006

Senn líður að kosningum

og að því tilefni legg ég land undir fót. Ferðinni er heitið austur á Hérað með mjög brothættan varning. Egg ættuð af vestfjörðum. Vona bara að þau lifi ferðalagið af.

Fór til Vestmannaeyja um helgina og þegar ég kom til baka var orðið KALT. Það var gaman í eyjum vestmanna, eins og alltaf. Mæli eindregið með að fólk sem ekki enn hefur komið þar, heimsækji eyjarnar einhverntímann á lífsleiðinni. Staður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Nú eru flestir búnir að ákveða hvað þeir ætla að kjósa. Pabbi er búinn að ákveða hvað ég á að kjósa. Fæ örugglega að vita hvað það á að vera þegar þar að kemur. Áður en ég fer inn í kjörklefann, svo ég gleymi því nú ekki á leiðinni og x-i við vitlausan staf. Mér finnst alveg ótækt að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu í sveitarfélagi sem ég hef varla komið í síðustu árin. En maður verður nú að kjósa eitthvað. Faðir vor og eigandi lögheimilis fær því að ákveða hvar x-ið verður sett.

Það vill svo undarlega til að ég hef nánast aldrei verið á kjörskrá þar sem ég á heima. Hef t.a.m. aldrei verið á kjörskrá í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningum, þó ég hafi búið þar meira eða minna síðustu 6-7 árin.

Það er margt skrítið í kýrhausnum

Thursday, May 18, 2006

Komin til landsins

og flutt í íbúðina sem mun vera heimili mitt í sumar. Frábær íbúð! Takk fyrir það Erla Dóra. Sérlega gaman að koma á nýja heimilið sitt í fyrsta skipti og nafið manns er komið á útidyrnar þá þegar. Og ekkert smá vel virkandi internetsamband. Alltaf gaman að svoleiðis löguðu.

Annars er ég ekki búin að gera margt af viti síðan ég kom, en dáldið af óviti. Þarf að sofa aðeins meira áður en ég byrja að vinna fyrir alvöru, en það verður víst ekki fyrr en rétt fyrir mánaðarmótin. Á að vinna smá í hinni vinnunni í næstu viku, en það er mjög lítið skilst mér.

Markmið næstu daga:
-Vestmannaeyjar (á morgun – sunnudags)
-Egilsstaðir (fimmtudag 25. – mánudags 29., sennilega)
-Sofa
-Klára að pakka upp úr töskunni minni
-Heimsækja Sigguláru

Þá vitiði það mamma og Siggalára, ég kem örugglega í heimsókn til ykkar beggja í næstu viku. Sjáumst þá.

Litli bróðir á merkisafmæli í dag. Orðinn kvartaldar gamall. Til hamingju með það Sivin.

Og júróvisjón í kvöld. Það er bara allt að gerast

Friday, May 12, 2006

Þá er það búið

Þá er þettta skólaárið á enda runnið og mikið dæmalaust var grenjað mikið á skólaslitunum í dag. Skildi sjálf ekki alveg allar þessar grenjur. Þetta var náttúrulega frábært ár, en það var þó alveg ljóst að það myndi taka enda einhverntímann (nánar tiltekið, í dag). Ýmsum nemendum þóttu grenjurnar mikið atriði og voru miður sín þegar þeim tókst ekki að grenja meira.

Sýningin í gær tóskt vel. Mér tókst alveg að læra allar þessar nótur utanað. Flott hjá mér. Síðustu dagarnir hafa semsagt eiginlega bara farið í að læra nótur utanað, borða ís, ýmist labba eða keyra yfir í leikhús þeirra Hamarbúa (sem er alveg rosalega flott og með kúrekabar í kjallaranum, sem var reyndar lokaður meðan við vorum þarna, því miður) og skemmta sér við að horfa á þau atriði í sýningunni sem maður var ekki í sjálfur. Þau voru mörg hver afar vel heppnuð.

Hitti Íslendinga á skólaslitunum í dag. Foreldrar Palla (Íslendings í skólanum sem búsettur hefur verið í Norge hálfa ævina) komu til að verða vitni að útskrift sonarins. Með eindæmum skemmtilegt fólk.

Nú er mjög skrítið að vera í Húsi E. Herbergin alveg tóm (nema mitt náttúrulega, það er fullt af drasli), alveg eins og þegar ég kom í haust. Fékk pínu á tilfinninguna að það hefðu aldrei komið neitt fleiri í húsið og ég hefði bara ímyndað mér hitt fólkið í Húsi E.

Þá er komið að hinni venjubundnu spurningu þegar fer að nálgast heimkomu. Vill einhver sækja mig á flugvöllinn? Kem á mánudaginn. Áætluð lending um hálffjögur leytið, um dag.

Monday, May 08, 2006

Að læra dót utanað tekur langan tíma

Það tókst að fara snemma að sofa á laugardagskvöldið, en það gekk ekki í gær. Þá var ég föst í Osló eitthvað fram eftir kvöldi. Það fórst nefnilega eitthvað fyrir að redda bílstjóra á skólarútuna. Við komumst þangað á einkabílum og minni skólabílnum, en einn bílstjórinn (og bíllinn hans) höfðu ákveðið að eyða nóttinni í Osló, þannig að við vorum þrjár sem urðum strandaglópar. Við komumst þó heim um síðir með góðviljuðum kennara sem var á tónleikum í Osló.

Annars snúast þessir síðustu skóladagar aðallega um að rúnta á milli skólans og leikhússins þar sem "lokasýningin" mun fara fram. Ekki alveg það skemmtilegasta í heimi, en allt í lagi svosum.

Og ég er ennþá að rembast við að læra nokkur lög utanað. Gengur ágætlega, en að læra utanað er EKKI mín sterkasta hlið þannig að þetta er að taka alveg þónokkra klukkutíma. Stefni á að kunna þetta á miðvikudaginn. Alveg heilum degi fyrir sýningu.

Það er líka alltof gott veður til að vera inni læra dót utanað. Held bara að það yrði ekki vinsælt að vera mikið að freta í lúðurinn utandyra. Vona að veðrið haldist fram að fyrirhugaðri brottför.

Saturday, May 06, 2006

Komið sumar

Þá er alvarlega farið að sjá fyrir endann á þessu skólaári. Í gær voru öll húsin þrifin og sumarið kom skyndilega hér í Útlandinu.

Í gærkveld var slegið upp grillveislu á ströndinni. Það var ansi gaman. Þegar það var orðið of dimmt til að sjá fólk ákváðum við nokkur að enda kvöldið með að kíkja aðeins á barinn. Þetta “aðeins” varð reyndar ans langt. Mér tókst semsagt að vera á djamminu til 9 í morgun. Þá varð ég að koma mér heim til að mæta á stórsveitaræfingu kl 10. Það gekk rosa vel. Er reyndar ekki búin að læra nóturnar mínar utanað, en það áttum við að vera búin að gera fyrir æfinguna í morgun. Ég fékk nú samt að hafa nóturnar þar sem ég fékk að vita á miðvikudaginn að ég ætti að spila með, og allir hinir eru búnir að æfa þetta í nokkrar vikur. Það er eitthvað endalaust kúl við að spila á stór hljóðfæri. Sérstaklega þegar maður er ekkert mjög stór sjálfur.

Í kvöld er meiningin að fara snemma að sofa. Sjáum til hvernig það gengur. Og á morgun spila ég á tónleikum í Osló með títtnefndri stórsveit. Það verður spennandi. Held reyndar að nú hafi ég spilað flest lögin áður. Þó ekki öll.

Wednesday, May 03, 2006

Búin að pakka

öllu dótinu mínu niður í töskur. Tók bara 2 tíma að sortera og tæma allar mínar hirslur í Húsi E. Frábær árangur það.

Á morgun eru saxófóntónleikar kl. 17:00 að staðartíma, fyrir þá sem hafa áhuga .....

Monday, May 01, 2006

Hvað búa margir í Húsi E?

Vinsældir Húss E fara sífellt vaxandi. Nú er orðið afar óljóst hve margir íbúar Húss E eiginlega eru. Með fasta búsetu í húsinu erum við átta. En þessa dagana sýnast mér íbúarnir vera allt að ellefu.

Gaman að því