Monday, October 29, 2007

Löggur og prestar

Í dag fékk ég að vita hina raunverulegu skýringu á þessari gífurlegu öryggisgæslu hér í skólanum. Hér kemur sagan af því.

Það vill þannig til að tónlistarháskólinn er staðsettur á milli tveggja annarra skóla. Lögguskólans og prestaskóla nokkurs. Hér áður fyrr var mötuneyti tónslistarskólans öllum opið og vöndu nemendur hinna skólanna tveggja, sem flestir (ef ekki allir) voru af karlkyninu, gjarnan komur sínar þangað. Eftir einhvern tíma þótti mönnum nokkuð ljóst að aðkomunemendur litu á tónskólann sem eins konar “makaleitunarstöð”. Þeir dvöldu semsagt löngum stundum í mötuneytinu í leit að álitlegum kvenmönnum. Þetta þótti stjórnendum hins háttvirta tónlistarskóla alls ekki nógu gott, og ákváðu að meina löggu- og prestanemum aðgang að skólanum. Það gekk í sjálfu sér vel að henda löggugenginu út. Þeir voru auðþekkjanlegir. Kúl gaurar í leðurjökkum. Prestana var meira mál að þekkja. Þeir voru nefnilega alveg jafn lúðalegir og tónlistarnemarnir. Því var tekið á það ráð að banna öllum aðgang að húsnæði skólans, nema löggiltum kennurum og nemendum umrædds skóla, sem geta sýnt fram á það með þar til gerðum skírteinum.

Það hlaut að vera einhver raunhæf skýring á öryggishliðunum og verðinum sem situr alltaf við innganginn...

Saturday, October 27, 2007

Mikið að gera?

Sumir hafa oft voða mikið að gera og vilja þá gjarnan fá auka klukkutíma í sólarhringinn. Aðrir fá auka klukkutíma, alveg án þess að biðja um það.

Í nótt ferðast ég klukkutíma aftur í tímann að tilefni lækkandi sólar. Held að ég noti þennan aukatíma til að .... jah .... sofa aðeins lengur kannski?

Wednesday, October 24, 2007

Innidagur

Einhver slappleiki í gangi þessa dagana. Var því inni á náttfötunum í allan dag. Gat samt alveg gert eitthvað af viti. Bara ekkert mjög mikið. Hugsa að ég sé alveg orðin hress. Óþolandi að vera svona hálfslappur, samt eiginlega ekki nógu veikur til að gera ekkert. Þó skárra en að vera alveg veikur.

Í kvöld klukkan átta eru tónleikar Lúðrasveitar Reykjavíkur í Neskirkju. Allir að mæta! (nema þeir sem eru í útlöndum). Verður örugglega hörkustuð. Lúðrasveit er kúl.

Sunday, October 21, 2007

Fréttir dagsins

Er ekki frá því að lúðrasveitartónleikarnir í dag hafi tekist mun betur en þeir síðustu. Allavega af minni hálfu. Borgar sig greinilega að mæta á nokkrar æfingar. Ekki bara eina.

Kranavatnið er aftur orðið drykkjarhæft. Þar fór sú megrunaraðferð.

Saturday, October 20, 2007

Ýmislegt smávegis

Búið að vera voða mikið að gera síðan ég kom aftur til Útlandsins. Það var 15 klukkutíma námskeið í indverskum rytmum í vikunni. Semsagt 3 klukkutímar á dag, eftir venjulegan skóladag. Dáldið mikið á mann lagt, en þetta var ansi gaman. Lærði fullt af nýjum (kúl) orðum. Eins og; Tisra, Misra, Chatusra, Khanda, Jahti, Gati og miiiklu fleiri. Svona indverskt hryn-dót byggist voða mikið á –ólum inní –ólum inní –ólum (lærðum bara uppí 3 lög af –ólum, en mér fannst það nú meira en nóg). Hægt að nota marga tugi þúsunda mismunandi samsetninga. En þetta er nú eiginlega með öllu óskiljanlegt nema maður hafi verið þarna...

Er af einhverjum ástæðum (leti) komin smá á eftir í allavega einu fagi í skólanum. Dagurinn í dag fer því í að klambra saman hálfri invensjón í Bach stíl og byrja á fúgu. Ætti ekki að vera mikið mál þar sem ég er með nákvæmar leiðbeiningar, en er samt mál. Maður les nefnilega leiðbeiningarnar og hugsar: “Já, þetta er ekkert mál ..” svo um leið og maður byrjar að skrifa nótur, þá gleymir maður leiðbeiningunum. Vesen. Og svo eru fleiri skólaverkefni sem ég þyrfti að byrja á fyrir þriðjudaginn. Get ekki gert neitt á morgun, því þá eru lúðrasveitartónleikar og löng æfing á undan. Þetta eru eiginlega æfingabúðir + tónleikar þjappað saman á einn dag.

Er komin með smá kvef. Vona að það verði ekki langlíft (þó sjálflýsandi grænt hor sé nú ansi fallegt). Ætla að halda mig innan dyra í dag til öryggis. Má alls ekki vera að því að vera veik þessa dagana.

Vatnið er enn ekki drykkjarhæft. Las einhversstaðar að það þyrfti bara einn kúk til að menga allt drykkjarvatn borgarinnar. Og þá er spurningin: Hver kúkaði í vatnið?

Hér koma nokkrir möguleikar:
1. Flöskuvatnsframleiðandi
2. Verslunareigandi sem selur aðallega vatn á flöskum
3. Fullur kall að reyna að vera fyndinn
4. Búfénaður sem heldur til í nágrenni vatnsbóls borgarinnar.
5. Offitu- eða átröskunarsjúklingur sem sá þarna tilvalda megrunarleið.
6. Hryðjuverkamaður í leyt að nýjum aðferðum til hryðjuverka.

Fleiri hugmyndir?

Thursday, October 18, 2007

Vatnið

Hér í Óslóarborg er skyndilega orðið ódrykkjar- og tannburstunarhæft sökum pöddu. Þetta þýðir að sjóða þarf allt vatn í minnst 3 mínútur (helst 4-5). Þar með er hraðsuðuketillinn orðinn vanhæfur. Hann sýður nefnilega vatnið bara í smástund. Á mínu heimili hefur verið tekið til þess ráðs að sjóða slatta af vatni (í potti) að kveldi dags, og geyma það á viðeigandi stöðum (í ísskápnum til drykkjar/tannburstunar og í hraðsuðukatlinum til endursuðu í kaffi, te og annað tilfallandi). Sjáum svo til hvernig þetta fyrirkomulag virkar. Hingað til (í þennan 1 og hálfa sólarhring) hefur það virkað ágætlega Enginn veit hvursu lengi þetta ástand á eftir að vara. Hugsanlega eittthvað fram á næsta ár. Spennandi.

Vatnsbirgðir í verslunum borgarinnar eru af skornum skammti. En þó hef ég hvergi séð vatnslausa búð ennþá. Vatn án bragðs og kolsýru er að vísu ófinnanlegt. Persónulega er mér sléttsama hvort ég drekk vatn með kolsýru eða bragði eða bara eitthvað allt annað. Hið forna slagorð “Spörum vatnið, drekkum bjór” varð allt í einu ekki alvitlaust. Það er nóg af bjór í búðunum.

Svo er auðvitað möguleiki að drekka pödduvatnið úr krananum. Það á víst að hreinsa mann all-rækilega að innan. Gæti komið sér vel í megrunarkeppninni. Já, þið lúð(r)afólk sem lesið þessa síðu; Megrunarkeppni LR er formlega hafin. Öllum yfir tvítugu er velkomið að taka þátt (nema Rut, hún myndi hverfa).

Wednesday, October 17, 2007

Snilldarferð!

Snilld 1: Ferðalagið út gekk mjög vel. Fékk sæti við neyðarútgang þannig að það var nóg af plássi. Og ekki mikil seinkun á fluginu.

Snilld 2: Náði að hjálpa aðeins til við undirbúning ferðalagsins, þó ég kæmi ekki til landsins fyrr en á miðvikudagskveldi og ferðin hæfist á föstudagsmorgni. (Ferðalagið var á landsmót skólalúðrasveita sem haldið var á Höfn í Hornafirði í þetta skiptið).

Snilld 3: Veðrið. Hafði kynnt mér veðurspár áður en haldið var af stað frá útlandinu, og þær hljóðuðu allar upp á rok og rigningu. Jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á suð-austur horninu. Þessar spár stóðust ekki. Það var sól og logn nánast allan tímann, hvar sem ég var.

Snilld 4: Skipulagning á mótinu. Ekkert klikkaði. Allt gekk ótrúlega vel. Það er ekki á hvers manns færi að skipuleggja 500-600 krakka mót, en Hornfirðingar kunna þetta greinilega.

Snilld 5: Krakkarnir voru voða þægir allan tímann. Sérstaklega saxófón- og hornkrakkarnir í Rauðu sveitinni, sem ég var með á grúppuæfingu. Heyrðist varla í þeim (nema þegar þau áttu að vera að spila auðvitað). Krökkunum var skipt niður í fjórar rúmlega 100 manna lúðrasveitir (Gula, Rauða, Græna og Bláa) og einn slagverkshóp. (Rauða var klárlega best).

Snilld 6: Fékk að spila á túbuna í Rauðu sveitinni (hefur auðvitað ekkert að gera með það að mér fannst hún best).

Snilld 7: Skemmtilegar kvöldstundir í bjálkakofabar á Höfn. Góður staður, skemmtilegt fólk. Maturinn í bjálkakofanum var heldur ekki af verra taginu.

Snilld 8: Einkabílstjórinn sem ég hafði til afnota á mótsstað. Frábær félagsskapur. (Takk fyrir mig Anna Lilja).

Snilld 9: Ferðalagið aftur til Útlandsins. Fékk einhverra hluta vegna sæti á 1. farrými. Það gerist reyndar stundum þegar það er full vél og þarf að færa “almenninginn” lengra frameftir vélinni. En í þetta skiptið fékk ég líka alla þá þjónustu sem í boði er fyrir “fyrirmennin”. Þetta þýddi ótakmarkað magn af öli og víni, þriggja rétta máltið og kaffi og koníak á eftir. Þvílík snilld! Tókst örugglega að borða og drekka uppí nánast allt fargjaldið sem ég borgaði fyrir þetta flug. Mér er hins vegar hulin ráðgáta hvers vegna ég lenti í þessu sæti. En allavega. Takk fyrir mig SAS.

Nú er ég komin aftur til Útlandsins og þar er allt í einu bannað að drekka kranavatnið. Meira um það síðar (á morgun væntanlega).

Monday, October 08, 2007

Er langt til útlanda?

Nú bý ég í útlöndum.

Ég er jafnlengi að fara með flugi til Íslands og það tekur að fara með Herjólfi milli lands og Eyja.

Það kostar álíka mikið fyrir mig að fljúga frá Útlandinu til Íslands og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur.

Hvernig væri nú að pæla í bættum samgöngum á stór-Íslandssvæðinu. Og þá er ég ekki að tala um vegagerð. Það á alltaf eftir að taka heilan vinnudag að keyra frá höfuðborginni austur á land. Alveg sama hvað vegurinn verður góður.

Af hverju verður allt brjálað þegar olíufélög eru staðin að verðsamráði, en enginn segir neitt þegar samkeppni á innanlandsflugi er bókstaflega drepin. Sbr. útreið Íslandsflugs á sínum tíma. Þá þótti engum tiltökumál þó Flugfélag Íslands lækkaði skyndilega verð á samkeppnisleiðum um helming og bætti jafnvel við flugum, sem voru þá sett á svipaðan tíma og samkeppnisaðilinn hafði sín daglegu flug. Hvar var samkeppnisráð þá?

Nú skilst mér að ákveðið flugfélag hafi sýnt áhuga á að hefja samkeppni á innanlandsflugi. Og hvað er gert til að greiða leið þessa ágæta félags? Finnst fólki einokun á þessum markaði bara alltílæ? Ætti ekki samgönguráðuneytið líka að greiða götu (eða loftleið) þeirra sem búa lengst frá höfuðborginni? Byggðastefna?

Eins og staðan er í dag er semsagt ekkert lengra til Útlanda, heldur en Vestmannaeyja eða Egilsstaða.

Ég er semsagt á leiðinni til landsins ísa á miðvikudaginn til að vinna smá.
Sjáumst þá.

Saturday, October 06, 2007

Nýja lúðrasveitin

er að koma skemmtilega á óvart. Síðasta æfing fór fram á barnum, og voru hljóðfæri víðs fjarri í þetta skiptið. Það kom reyndar ekki til að góðu. Við komumst ekki inn í æfingahúsnæðið, sem er í grunnskóla gettósins, af ýmsum ástæðum (nýbúið að skipta um lás og náðist ekki í neinn með lyklavöld vegna vetrarfrís í grunnskólum). Á þessari bar-æfingu fékk ég að vita að lúðrasveitin er mikið fyrir að spila ný verk. Helst verk sem aldrei hafa verið spiluð áður. Gæti komið sér vel fyrir suma...

Saxófóndeildin er að koma sterk inn. Erum öll (nema einn) nýbyrjuð í bandinu og spilum ekki mikið utan lúðrasveitarinnar. Erum þó öll þokkalega spilandi og á svipuðum aldri, þannig að við stofnuðum kvartett. Fyrsta æfingin var í dag. Í fjóra tíma. Rosa gaman.

Drottningin kom í heimsókn í skólann í fyrradag til að vígja nýja skólahúsið (klippa á spotta). Mér fannst hún nú fullseint á ferðinni blessunin þar sem umrætt húsnæði var tekið í notkun með formlegum hætti fyrir 10 mánuðum síðan. En við fengum snittur og þannig, svo þetta var fínt.

Thursday, October 04, 2007

Hátíðin sem allir hafa beðið eftir

Þessa dagana fer hin árlega “stórskemmtilega” nútímatónlistarhátíð Ultima fram hér í borg. Þetta er þó skárra en í fyrra því nú er ekki skyldumæting fyrir tónsmíðanema á tónleika. Það er þó ætlast til að við látum sjá okkur af og til. Tók mig til í gær og mætti á þrenna tónleika í röð, sem tóku alls um 4 tíma. Frábær árangur það.

Fyrstu tónleikarnir báru yfirskriftina “Ný verk fyrir kvarttónamarimbu.” Marimba er jú skemmtilegt hjóðfæri, en persónulega finnst mér alveg nóg að hafa 12 tóna í áttund. Hljóðfærið sem slíkt var þó skemmtilegt, en verkin auðvitað hundleiðinleg. Þau voru allavega stutt miðað við margt annað (5 verk á klukkutíma og kortéri) og bjargaði það þeim tónleikum.

Næstu tónleikar voru ömurlegir. 2 verk á tæpum tveimur tímum. Ekki sérlega góður árangur það. Annað af þessum verkum var reyndar eftir Beethoven. Það var fínt. Hitt var ööömurlegt, og ég fattaði eitt nýtt. Ef það stendur í tónleikaskrá um tónskáld “... hefur opnað glugga að nýjum hljóðheimi ....” eða eitthvað slíkt, er verkið (og sennilega öll önnur verk eftir sama tónskáld) alveg hundleiðinlegt og laaangt. Þau tónskáld sem fást við að opna einhverja ósýnilega glugga (sem hefðu alveg mátt vera lokaðir áfram) hafa greinilega ekki neitt tímaskyn. Í þessu verki voru hljóðfærin (strengjakvartett) ekki notuð til að spila tóna, heldur framkalla hljóð (misþyrming á þessum fínu hljóðfærum). Það góða við þessa tónleika var, að síðustu tónleikar kvöldsins urðu alger hátíð í samanburðinum.

Það voru impróviseringartónleikarnir. 8 eða 9 verk á klukktíma = sigurvegarar kvöldsins. Ef verk er 5-8 mínútur, gerir ekkert til þó það sé leiðinlegt. Það tekur allavega fljótt af. Stutt = gott.

En hvenær ætla tónskáld nú að hætta þessum “hljóðheima” pælingum og skrifa almennileg lög? Það er alveg kominn tími á það. 20. öldin er búin. Gæti orðið til þess að það mæti einhverjir aðrir á tónleika en önnur tónskáld.

Niðurstaða gærkvöldsins:
Að “opna glugga að nýjum hljóðheimum” er EKKI málið og tónskáld kunna ekki á klukku.

Monday, October 01, 2007

Hver man eftir Soffíu mús?

Að gefnu tilefni leyta ég nú að fólki sem man eftir Soffíu mús eða atburðum henni tengdri.

Ef þú manst einhverjar gjörðir viðkomandi músar máttu gjarnan gefa frásagnargleðinni lausan tauminn í athugasemd hér að neðan.

Takk fyrir.