Wednesday, October 29, 2008

Bláa Vélsagarhænan og Herra Korps

Þegar ég leit út um gluggann í morgun var kominn ponsulítill snjór. Agalega jólalegt. Yfirleitt kemur vetur í Útlandinu 1. nóvember, en þetta er örugglega innan skekkjumarka.

Er á góðri leið með að verða alþjóðlegt lúðrasveitanörd. Búin að koma mér í stjórn í tveimur lúðrasveitum, sem staðsettar eru í sitthvoru landinu. Og komandi helgi mun eytt á vesturströndinni á einhverjum ofur-lúð(r)a fundi.

Tók að mér nýtt gæludýr á aðalfundi Útlanda-lúðrasveitarinnar um helgina. Það er appelsínugult og heitir Herra Korps. Þar með er Bláa Vélsagarhænan loksins búin að eignast vin.

Monday, October 27, 2008

Mánudagsmorgnar

Þá eru lengstu klukkutímar þessarar viku að baki.

Annan hvern mánudagsmorgun eru nefnilega tímar hjá Dananum. Þessir tímar fara þannig fram að við hlustum á eitthvurt arfaleiðinlegt tónverk sem danskurinn hefur ákveðið að greina, og svo heldur hann fyrirlestur þar sem hann útskýrir greininguna sína.
Fyrirlestrarnir eru nokkurnvegin svona:
2 og 3 og 3 og 3 og 5 og 8 og 21 og 144 og 54 og 6 og 13 og 9 og 7 og 17 og 3 og 3 og ..... og svo framvegis. Semsagt einhver óendanleg talnaruna.
Annað slagið koma svo stuttar útskýringar á dönsku sem hljóða einhvernvegin svona:
kou e skou i me kui (með tilheyrandi gubbuhljóðum).
Aldeilis áhugavert. Maður ræður sér varla fyrir spenningi í þessum tímum!

Tilgangur allra þessara talna er að sýna fram á ákveðið kerfi. Ef maður er virkilega illkvittinn (sem maður að sjálfsögðu er) og vill finna sér eitthvað að gera til að deyja ekki úr leiðindum (sem maður vill) leggur maður sig fram við að fylgjast með talnarununni á nótunum og finna villur. Það vill nefnilega þannig til að danskurinn er bæði óskipulagður og fljótfær, og hefur því oftar en ekki gleymt einhverri tölu úr rununni eða lagt vitlaust saman.
Og þar með er maður búinn að eyðileggja þetta fína kerfi sem danskurinn er búinn að eyða óteljandi vinnustundum í að finna. Afleiðingin er sú að hann fer næstum á taugum og nemendurnir hlæja innra með sér.
Skemmtilegur leikur.

Heimskulegheitin eru fólgin í að í raun er hægt að finna nánast hvaða talnarunu sem er út úr þessum verkum, og láta passa inn í hvaða kerfi sem er.
Dáldið einsog að sanna stærðfræðiformúlur, nema hvað þær formúlur eru notaðar til að reikna út dót. Danakerfin eru bara notuð við eitt tónverk hvert.
Og tilgangurinn?
Maður spyr sig.

Það besta er þó að þegar þessir þrír klukkutímar af talnarunum eru yfirstaðnir, er bókstaflega ALLT annað svo ótrúlega skemmtilegt og frábært að orð fá því varla lýst.

Og svo er líka sól.

Gleðilega nýja viku.

Saturday, October 25, 2008

Lítið um blogg

= lítið að gerast.
Samt alveg eitthvað, en ég nenni ekki að skrifa neitt að viti núna. Kannski á morgun.
Hér kemur því blogg um veðrið.
Það er sennilega það sem ég á eftir að sakna hvað mest þegar ég flyt frá Útlandinu. Veðrið. Hér er enn hálfgerð sumarblíða, á íslenskan mælikvarða, þósvo nóvember sé rétt handan við hornið. Hiti kringum tíu gráður og oftar en ekki sól. Stundum er reyndar rigning, en það er alltílæ. Þá fer maður bara út með regnhlífina. Það virðist nefnilega ekki vera búið að finna upp rok í Útlandinu. Alltaf jafn dásamlegt að vakna á morgnana, og það er logn. Alltaf. Og orðið bjart úti (nema maður vakni ókristilega snemma).
Í nótt fæ ég aukaklukkutíma til að það haldi nú örugglega áfram að vera bjart þegar ég vakna á morgnana.
Hversu frábært er það?

Gleðilegan vetur.

Friday, October 17, 2008

Sérfræð

Byrjaði þessa skólavikuna á að sofa yfir mig. Í fyrsta skipti í áraraðir.
Og nú er vikan búin.
Greinilega ekki margt markvert sem gerðist þarna á milli.

Er aðeins búin að fylgjast með fréttum að heiman, þarf jú að geta svarað spurningum Útlendinga um ástandið heimafyrir.
Finnst íslenska þjóðin vera að eyða ansi miklu púðri í að tala um sökudólga. Hvað er til dæmis málið með Bretland? Sérfræðingar að kanna möguleika á lögsókn þeim á hendur? Hver myndi græða á því? Þeir sem hafa efni á dýrari lögfræðingum kannski? Og það er ekki Ísland. Það þarf engan sérfræðing til að sjá það. Þar með hefði íslenska þjóðin getað sparað sér þá sérfræðiaðstoð.

Ókei, kannski voru Bretar vondir að setja á okkur hryðjuverkalög, en hvernig væri nú að líta í eigin barm. Ég man ekki betur en Tyrkir hafi verið réttdræpir á Íslandi fyrir rétt rúmum áratug. Ekki fóru þeir að grenja og hóta málsóknum. Vildu samt ekki koma og etja kappi við Íslendinga á heimavelli. Eðlilega. Nú hafa þessir sömu Tyrkir fengið sæti í ákveðnu öryggisráði. Ekki Íslendingar. (Ögn réttlátt þar sem Íslendingum yfirsást að tryggja öryggi Tyrkja á Íslandi þar til fyrir fáeinum árum.)

Hvaða lærdóm má draga af þessu?
Hætta að grenja yfir því hvað allir eru vondir við mann og gera eitthvað í eigin málum.

Það þarf heldur engan sérfræðinga til að sjá það.

Sunday, October 12, 2008

Lúðraferðin

var sérdeilis skemmtileg. Fórum og heimsóttum aðra lúðrasveit í litlum bæ. Hingað til hef ég talið Lúðrasveit Reykjavíkur afar heppna að eiga sitt eigið húsnæði, en lúðrasveit sú sem heimsótt var í gær hafði gert sér lítið fyrir og keypt gamalt félagsheimili fyrir nokkrum árum og gert upp. Þar með komu þau sér upp eigin æfinga-, tónleika- og partýhúsnæði. Með bar í andyrinu og alles. Ótrúlega flott húsakynni.

Sögusagnir herma að Íslendingar séu lagðir í einelti í Útlöndum (þá sér í lagi á Bretlandseyjum) vegna bágrar stöðu íslenskra banka erlendis. Því er nú öfugt farið í mínu Útlandi. Allavega kepptust menn við að bera áfengi í aumingja litla Íslendinginn.
Ölvunarstig gærkveldsins var samkvæmt því.

Friday, October 10, 2008

Þrennt

Númer eitt:
Mikið er rætt um kreppuástand. En er ekki óþarfi að tala um ástandið eins og heimurinn sé að farast í þessum töluðu orðum. Maður spyr sig...

Númer tvö:
Þessar vikurnar er hin óbærilega leiðinlega nútímatónlistarhátíð þeirra Norðmanna í fullum gangi. Tók þá heilbrigðu ákvörðun að sniðganga hana að mestu (þó það væri eiginlega skylda að mæta). Ákvað að eigin geðheilsa væri mikilvægari. Hátið þessi (sem er aðallega saumaklúbbur nokkurra tónskálda-sérvitringa hér ytra) hækkaði ekki í áliti hjá undirritaðri þegar áreiðanlegar upplýsingar fengust um að hátíðin fær sextíu og tvær milljónir norskra króna árlega. Í íslenskum krónum talið eru það um það bil milljón trilljón skrilljónir, miðað við gengi dagsins. Jahérnahér...

Númer þrjú:
Morgundeginum mun varið í lúðraferð-tónleika-partý. Jeij...

Wednesday, October 08, 2008

Gósentíð

hjá fjölmiðlafólki og táknmálstúlkum.
Hvað var eiginlega í fréttum áður en kreppan skall á? Man það einhver? Og má það ekki koma í fréttirnar aftur? Nú vita allir að efnahagsástandið er afar slæmt. Íslenskir ráðamenn hamast við að hvetja menn til að panikkera ekki. Til hvers ætti fólk líka að vera að panikkera? Það er ekki eins og það bæti ástandið í heiminum.
Þetta fer allt einhvernvegin, og aldrei verr en illa.

Ég mæli með fréttaflutningi af einhverju öðru en efnahagsástandinu.
Til dæmis kindum. Þær eru oft skemmtilegar.

Annars er bara nokkuð hresst að vera í Útlandinu.

Wednesday, October 01, 2008

Helmingi

Venjulega labba ég í skólann, en í dag fékk ég far. Það er svosum ekkert í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að fararskjótinn var reiðhjól. Tveggja manna reiðhjól. Skólafélagi minn var semsagt á leið í skólann með laust pláss á hjólinu sínu. Mér fannst þetta nú ekkert frábær hugmynd til að byrja með, þar sem öll leiðin í skólann er uppávið. Komst þó fljótlega að því að það er helmingi auðveldara að hjóla tveir. Og maður kemst helmingi hraðar.

Talandi um helmingi. Í dag er íslenska krónan helmingi minna virði en hún var í upphafi árs, miðað við flesta erlenda gjalmiðla sýnist mér. Hinn fullkomni tími fyrir túrista að skella sér til Íslands. Allt ótrúlega ódýrt.

Þannig er nú það.