Monday, April 30, 2007

Hauskúpur og blóm

Skrapp í bæinn í dag og keypti mér bol með hauskúpumyndum. Á heimleiðinni hitti ég bekkjarfélaga minn. Hann hafði keypt sér litla garðkönnu til að vökva inniblómin.

Kvenleikanum er greinilega misskipt í mínum bekk.

Sunday, April 29, 2007

Þessa helgina

er ég búin að gera tvennt:

1. Möppuverkefni sem á að skila á morgun.
Þurfti að finna verkefnin innan um nokkur hundruð önnur blöð og setja í möppu.

2. Þrífa smávegis á heimili mínu.
Þannig að nú er hér nokkurn vegin íbúðarhæft.

Svona er maður nú duglegur.

Saturday, April 28, 2007

Gærdagurinn

var góður.

Byrjaði á göngutúr um skólann til að skoða hljóðaverkefnin. Það var mjög gaman. Mitt verkefni tókst vonum framar. Hafði áhyggjur af því að einhverjir yrðu móðgaðir og kennarinn yrði brjálaður og fyndist þetta ömurlegt (mig dreymdi það sko nóttina áður). En kennarinn varð himinlifandi og fannst þetta æði, og það móðgaðist enginn. Held ég láti ekkert mikið uppi um þetta verkefni. Gæti nefnilega kannski notað það aftur seinna. Það sem ég föndraði var ekkert merkilegt (er ekki góð í að föndra). Bara nokkrar litlar skilaboðabækur sem ég skrifaði í og litaði. Voða sætt.

Á þessum göngutúr sá ég nokkra hluti í skólanum sem ég hef ekki séð áður. T.d. einn stigagang sem ég vissi ekki að væri til (þá eru þeir orðnir fimm) og lyftan í nýju byggingunni rúmar 33 manneskjur. Engin smá lyfta.

Hin stelpan í hópnum var með sitt verkefni í kvennasturtuklefanum (og, já, það eru sturtur, gufuböð og leikfimisalur í skólanum. Engin sundlaug. Glatað). Það var fyndið. Sérstaklega þegar einhver vesalings stúlka álpaðist þar inn á vandræðalegu augnabliki og sá röð af strákum sitjandi á bekk í búningsklefanum, og hálfnakta stúlku (í engu nema handklæði) í dyrunum að sturtuklefanum. Hún var fljót að forða sér (sennilega með særða blygðunarkennd).

Fleiri verkefni vöktu einnig mikla kátínu. Semsagt skemmtileg morgunstund.

Í gærkveld var svo eitt lag eftir mig spilað á tónleikum. Það var auðvitað frábært, og haldið uppá það eftirá á hefðbundinn hátt. Með mikilli öldrykkju og spjalli við skemmtilegt fólk.

Í dag hitt ég Íslending í skólanum.

Suma daga er maður heppnari en aðra.

Thursday, April 26, 2007

Ennþá löt

en núna er ég ég líka orðin rosalega góð í því. Búin að koma mér undan því að gera þrjú verkefni á snilldarlegan hátt (án þess einu sinni að koma með einhverjar afsakanir).

Í fyrradag fengum við asnalegt verkefni, sem ég kemst ekki hjá því að gera. Eigum að finna herbergi í skólanum og búa til hljóð í því sem passar ekki (t.d. spila fiðlukonsert á klósettinu). Við fengum þrjá daga. Á morgun verður farið í göngutúr um skólann og afraksturinn skoðaður. Verkefnið er fáránlegt, en hins vegar finnst mér soldið snjallt að fá verkefni sem á að leysa á stuttum tíma.

Ég ákvað að föndra mitt verkefni. Finnst yfirleitt hundleiðinlegt að hlusta á einhverja “hljóðskúlptúra” (nema þeir séu þeim mun fyndnari) þannig að ég fer nú ekki að búa til svoleiðis sjálf. Finnst persónulega ég hafa leyst þetta verkefni ákaflega vel af hendi (fínt að eyða einu eftirmiðdegi í að föndra), og hlakka til að sjá hvað hinum finnst á morgun. Segi kannski betur frá þessu verkefni, og hvernig til tókst, síðar.

Á morgun ætlar líka samspilshópur í skólanum að spila eitt lag eftir mig á tónleikum. Fór á æfingu hjá þeim áðan, og djö... eru þau góð! Þetta verður örugglega frábært hjá þeim. Á sömu tónleikum verða einnig spiluð verk eftir þrjá samnemendur mína. Hlakka til að heyra hvað þeir eru að gera.

Sunday, April 22, 2007

Loksins kom rigning

þannig að ég gat prófað nýju gúmmístígvélin mín.

Þau eru æði.

Thursday, April 19, 2007

Gleðilegt sumar

og takk fyrir veturinn.

Það er kalt í Útlandinu.

Fúlt að Rósenberg hafi brunnið.

Tuesday, April 17, 2007

Á undanhaldi

Jájájá. Þessi leti virðist að mestu hafa verið afleyðing smá svefnleysis. Er allavega mun hressari í dag og búin að afreka eitt og annað smávegis.

Góðverk dagsins:
Keypti kaffi fyrir píanókennarann minn og færði honum í kennslustofuna sína. Hann er nefnilega svo fatlaður greyið að hann á erfitt með það. Eða sko, hann getur alveg keypt kaffið, en kemst ekki með það til baka. Hann er sko ekki með glasahaldara á hjólastólnum sínum.

Hiss dagsins:
Fór á bókasafnið í skólanum, sem ég geri nánast daglega. Í þetta skipti þurfti ég að fá lánaðar nokkrar nótnabækur. Þegar bókasafnskonan tók við kortinu mínu sagði hún: “Þá veit ég hver þú ert.” Hún er semsagt Íslendingur. Hinn Íslendingurinn sem starfar/nemur innan veggja skólans (fyrir utan mig). Frekar asnalegt að hafa verið þarna næstum heilan vetur og ekki fundið hinn Íslendinginn fyrr en nú.

Illkvittnisleg gleði dagsins:
Hitti bekkjarfélaga minn sem er álíka lélegur í rafdótinu og ég. Hann hafði eitt bróðurparti morgunsins í að reyna að gera verkefnið sem ég hafði ákveðið að fresta um sinn. Honum tókst ekki að gera þetta þrátt fyrir mjög nákvæmar leiðbeiningar á heimasíðu okkar ágæta kennara. Ætlum að biðja um nánari útlistanir eftir næsta tíma.
Ég verð þá ekki sú eina sem ekki hefur klárað verkefnið á tilsettum tíma. Það er fínt. (Verð þó sennilega sú eina sem reyndi það ekki einu sinni).

Jeij dagsins:
Fékk einkunina úr skriflega hluta tónheyrnarprófsins. Féll ekki (þó einkuninn hafi ekki verið upp á marga fiska). Jeij. Og hef möguleika á að hækka einkunina í munnlega hlutanum. Bara spurning um að nenna að æfa sig.

Úrið mitt kláraði batteríið sitt í dag. Í dag er klukkan því tuttugu mínútur yfir fjögur. Fínn tími.

Monday, April 16, 2007

Leti dauðans

hefur náð tökum á mér. Minnist þess ekki að hafa verið svona afburða löt áður. Finnst ég hafa gert nóg þennan veturinn og vill fá sumarfrí. Núna.
En það er ekki þannig. Það eru enn nokkrar skólavikur eftir.

Að því tilefni ætla ég á næstu dögum að finna leiðir til að vinna bug á þessum leiða kvilla. (Er reyndar ekki alveg viss hvort þetta er bara leti eða eftirmálar af gríðarlegum afköstum páskafrísins).

Læt ykkur vita hvernig gengur.

Jæja, ég nennti allavega að skrifa þetta blogg (þó stutt sé), og mæta í skólann klukkan níu í morgun. Og fara á bókasafnið.
Ég er kannski ekkert svo löt þó ég nenni ekki að gera heimaverkefnin mín. En hey, hverjum dettur líka í hug að láta mann fá heimaverkefni fyrir páskafrí.

Nóg í bili.

Sunday, April 15, 2007

Páskafríslok

Þá lýkur páskafríinu á morgun.

Eitthvað gengur brösulega að snúa sólarhringnum rétt. Hefur enn ekki tekist að vakna fyrir hádegi. En á morgun er það skóli klukkan níu. Ekkert rugl.

Hér er búin að vera sól og blíða síðan ég kom. Hiti kringum tuttugu gráður. Samkvæmt spám á þó eitthvað að draga fyrir sólu og kólna á næstu dögum. Kannski eins gott. Ekki séns að ég geti verið inni að læra svona veðri.

Saturday, April 14, 2007

Páskafríið sem var

Hér fylgja nokkrar frásagnir af eftirminnilegum atriðum úr nýliðnu páskafríi:

Leikhúsið:
Hugleiksleikritið Epli og eikur eftir doktor Tótu. Skemmtileg sýning.

Bæjarferðin:
Skemmtanalíf miðbæjar Reykjavíkur er iðulega líflegt. Tókst að lenda í slagsmálum og fá glóðarauga. Klikkað lið í miðbænum að næturlagi. Hitti skuggalegt fólk. Skemmtilegt engu að síður.

Road trip-ið:
Án efa þema frísins. Eknir voru um tvöþúsund kílómetrar. Hugmyndin var að keyra hringveginn, með eins dags stoppi á miðri leið. Ekið var sem leið lá norður um land. En þegar halda átti ferðinni áfram suðurfyrir var veðurspáin heldur leiðinleg. Þannig að norðurleiðin var ekin aftur til baka. Skemmtileg ferð engu að síður. En kannski fullstutt stopp í föðurhúsum.
Daginn eftir var svo kíkt aðeins á suðurlandið. Nánar tiltekið Stokkseyri og Eyrarbakka. Og svo Selfoss síðar um kvöldið.
Vil þakka Sóleyju og Erik samfylgdina í öllum þessum ökuferðum.

Messan:
Spilaði í messu með nokkrum lúðrasveitarfélögum að morgni páskadags. Það ku vera ævagömul hefð að sveitin spili á slíkum samkomum á landsspítalanum þennan dag. Hin síðari ár hefur reyndar einnig myndast sú hefð að það líði yfir a.m.k. einn spilarann. Í þetta skiptið ákváðum við að sleppa því. Sátum á meðan á athöfninni stóð. Skil ekki af hverju það hefur ekki verið gert fyrr.

Sveitaballið:
Fyrir utan Selfoss er gamalt útihús sem notað hefur verið fyrir skemmtanahald síðasta árið. Góð hugmynd. Hef aldrei áður farið á ball með hundum.

Og svo hitti ég auðvitað fullt af skemmtilegu fólki, skipulagði framtíðina dulítið og kaus. Ætla nú ekkert að láta það uppi hvað ég kaus, en það var allavega ekki nýja Íslandsframboðið (eða hvað það nú heitir). Það er ekki komið með listabókstaf þannig að það var ekki hægt. Ekki það að ég hefði kosið það hvort eð er, en er þetta ekki dáldið seint í rassinn gripið.

Enn og aftur

komin í Útlandið.

Afar skemmtilegt páskafrí. Hyggst birta helstu atriði þess á næstu dögum. Sennilega á morgun. En hér kemur sagan af ferðalaginu til baka í Útlandið.

Komst á flugvöllinn með aðstoð Sóleyjar og sá fram á hina hefðbundnu tveggja tíma bið. Fylgdist af áhuga með einhverju liði sem var að setja upp svið og hljóðkerfi í Leifsstöð. Greinilega partý þar í kvöld.

Og svo var kallað útí vél. Klukkutíma áður en vélin átti að fara. Mér þótti þetta undarlegt, ekki síst þar sem það er ekki einu sinni venjan að það sé kallað útí vél lengur. Ég rölti að hliðinu. Þegar ég fór að nálgast hliðið sá ég að þar var enginn nema konan sem tók við miðanum. Hún kallaði á mig: “Ert þú Bára?” Ég játti því og svo sagði hún mér að drífa mig. Ég gerði það en hváði og sagði: “En er flugið ekki klukkan .... ó ...” og fattaði eigin heimsku.

Ég flýg nefnilega ansi oft á milli. Iðulega með SAS og það flug er alltaf á sama tíma. Það sem ég hafði ekki athugað er að tíminn er ekki alltaf sá sami. Flugið er semsagt alltaf á sama tíma miðað við Útlönd. Og nú er sumartími í Útlöndum. Flugið var semsagt klukkutíma fyrr en venjulega að íslenskum tíma. Og einhverra hluta vegna tengdi heilinn minn ekki að 17:50 þýddi tíu mínútur í sex, en ekki tíu mínútur í sjö.

Af þessum sökum seinkaði fluginu um 10 til 15 mínútur. Ég vil hér með biðja alla farþega á flugleiðinni Keflavík-Osló í flugi SK4788 fyrr í kvöld afsökunar á þessum leiðu mistökum. Lofa að lesa flugtímasetninguna betur næst ... og skilja hana.