Sunday, April 27, 2008

Lúðr og suð

Lúðratónleikarnir í gær gengu vonum framar. Túbuleikari fór á kostum í stykkinu mínu, og ég hef aldrei séð hljómsveitarstjóra svitna eins mikið og gaurinn sem stjórnaði síðasta verkinu á tónleikunum (vorum með tvo stjórnendur í þetta skiptið, þar sem þetta var samstarfsverkefni með annarri lúðrasveit).
Það þurfti svo auðvitað að halda upp á þetta alltsaman eitthvað fram á nótt. Því er maður pínu slompaður í dag.

Tókst nú samt að hafa tvær velheppnaðar generalprufur á suðtónleikunum mínum áðan. Komst að því að þeir geta ekki orðið styttri en 20 mínútur, sem er gott, þar sem það er lágmarkslengd tónleikanna.
Á morgun verður svo spennandi að sjá hvort þetta virki þegar allt rafdraslið hefur verið flutt á bókasafnið.

Hér eru nokkur atriði sem gætu komið upp á:
- Rafmagnið fer (mjög líklegt)
- Einn eða fleiri hátalarar springa í loft upp (frekar líklegt)
- Pirraður samnemandi ræðst á mig vegna þess að hann fær ekki frið til að einbeita sér að mikilvægu verkefni fyrir suði á bókasafninu (nær öruggt)

Já. Það er ekki hættulaust að vera suðtónskáld.
Læt vita hvernig fer. Bíðið spennt.

Friday, April 25, 2008

Flókið = Einfalt

Var að ljúka við að gera spektrómorfólógíska greiningu á eigin tónsmíð. Það er lokaverkefni fyrir fag sem heitir Sonologi. Hljómar flókið. En hvað er þetta eiginlega? Jú, Sonologi er kúrs um suð. Spektrómorfólógísk greining er að teikna þríhyrninga, ferhyrninga, strik og punktalínur á blað, eftir því hvað maður heyrir.
Ef maður er með eyru (eitt eyra er meira að segja nóg) og hefur nægilega teiknihæfileika til að teikna Óla prik, þá getur maður varla klúðrað þessu. Semsagt, einfalt.
Á miðvikudaginn held ég svo stuttan fyrirlestur þar sem ég útskýri "Óla-prik" greininguna mína. Þá er því fagi lokið.

Næsta lokaverkefni er hins vegar suðtónleikarnir á mánudaginn. Hyggst nota helgina vel í undirbúning fyrir þá.
Hluti af verkefninu var að gera auglýsingar (veggspjöld) og hengja upp innan skólans. Gerði það í gær og passaði að hafa þær eins lítið áberandi og hægt er. Svartir stafir á hvítu blaði. Yfirskrift tónleikanna er "Suð á bókasafninu." Ætla þannig að koma í veg fyrir að fólk sé að þvælast á bókasafninu og glápa á mig búa til suð. Allt fólk með viti hlýtur að halda sig fjarri suði. Held allavega að fæstir hugsi: "Jess, loksins! það sem ég hef beðið eftir alla ævi! suð á bókasafninu!" Samt aldrei að vita hvað þessu ruglaða liði hérna finnst áhugavert og hvað ekki.

Næstu tónleikar eru hins vegar á morgun. Þá spilar lúðrasveitin lag eftir mig í menningarhúsinu í Lilleström.
Allir að mæta.

Thursday, April 24, 2008

Sumar

Skyndilega er komið sumar. Hér í Útlandinu byrjaði það reyndar á mánudaginn. Þegar ég slapp út af helgarfundinum var hitastigið skyndilega komið töluvert yfir 10 plúsgráður og sólin skein. Og þannig er veðrið enn. Finnst dáldið eins og ein árstíð hafi gleymst þetta árið. Fyrir nokkrum dögum var slydda.
Hvað varð um árstíðina vor?

Um leið og veðrið batnaði varð auðvitað fáránlega mikið að gera á mörgum vígstöðvum. Lokaverkefni í skólanum í hrönnum, lúðratónleikar á laugardaginn, bókasafns-suðtónleikar á mánudaginn (þá þarf ég að standa fyrir suði á bókasafninu í hálftíma, með tilheyrandi róti = hátalarar, snúrur og annað rafdót sem þarf að flytja milli húsa og tengja á viðeigandi hátt), tónlist fyrir ákveðið leikrit (er alveg að fara að lesa það Siggalára) skal semjast og hljóðfestast, og rétt áðan var fundur tónsmíðanema með Dananum. Og hann er þver. Býr til vandamál úr engu, túlkar námsskrána eftir eigin höfði (gerir undantekningar þegar honum sýnist o.s.frv.) og er á góðri leið með að ýta a.m.k. hluta málsins út af borðinu, áður en það kemst til umræðu í Allsherjarráði tónsmíðadeildar. Og hann ræður sko hvað er rætt þar og hvað ekki. En nú erum við, litlu tónsmíðanemarnir, allavega orðin sammála um að maðurinn er hálfviti. Byltingin heldur áfram. Reikna með að næsta skref verði að ræða málin við yfirmenn Danans. Rektor virkar fínn kall.
En byltingin verður sennilegast að bíða um sinn. Hin verkefnin verða að hafa forgang þrátt fyrir danska fíflið.

Lúðrafundurinn um síðustu helgi var ansi góður. Þar var sko ekki verið að búa til vandamál úr hlutnum. Atorkusamt fólk sem var tilbúið til að prófa hlutina til hins ýtrasta, áður en gefist er upp á verkefninu. Nema auðvitað Danirnir. Þeir voru meira í að reyna að búa til vandamál. Það var bara ekkert hlustað á þá í þessu samhengi.

Eins og sjá má er ég á góðri leið með að þróa með mér töluverða fordóma gagnvart dönsku þjóðinni heild sinni.
Danir eru greinilega bjánar.

Wednesday, April 16, 2008

Þýð

Þá virðist vorið loksins komið til að vera, og samkvæmt veðurspánni byrjar sumarið í næstu viku.

Tókst í dag á við verkefni sem fólst í að snara íslenskum texta yfir á norsku. Fékk ágætis æfingu í formlegum bréfaskriftum á útlenskunni í tengslum við Byltinguna. Eini munurinn á þeim bréfaskriftum og þessu verkefni var að þá skrifaði ég í samvinnu við tvo ritsnillinga með fullkomnunaráráttu (semsagt; þau skrifuðu á milli þess sem þau rökræddu hvernig best væri að orða öll smáatriði í textanum, á meðan ég reif kjaft og sagði þeim hvað ætti að standa í bréfinu. Sanngjörn verkaskipting). Í dag reyndi á eigin snilligáfu í hinu erlenda máli. Held ég hafi komist nokkuð vel frá þessu, en fullkomnunaráráttan verður að fá að bíða betri tíma. Finnst ég samt hafa lært helling af Byltingarbréfaskriftunum. Byltingin borgar sig greinilega.

Textaþýðing þessi var í tengslum við lúðrafund sem mun taka alla helgina. Spennandi helgi framundan.

Þessa dagana er ég samt aðallega að bíða eftir svari frá einum aðila til að geta skipulagt sumarið.

Saturday, April 12, 2008

Eitthvað að ske?

Nei.

En ætli maður riti ekki nokkur orð eigi að síður.

Slæmar fréttir:
-Slydda í morgun þegar mér var litið út um gluggann.
-Kvef, eflaust að tilefni þessarar vetrarframlengingar.

Góðar fréttir:
Allt annað.
-Byltingarundirbúningur gengur vel.
-Skólinn gengur vel.
-Og lífið gengur almennt séð bara vel.

Fór á sinfóníutónleika í gær.
Þeir byrjuðu verulega illa en enduðu að sama skapi brjálæðislega vel.
Snjallt að lauma að ótrúlega hundandskoti leiðinlegu norsku nútímaverki í byrjun svona tónleika. Maður fyrirgefur það alveg þegar restin af tónleikunum er jafn fjölbreytt og frábær og raun bar vitni. Hápunktur tónleikanna var tvímælalaust þrjú lög eftir Frank Zappa, sem flutt voru í lokin. Snilld.
Mæli með að allar sinfóníuhljómsveitir geri það að árlegum viðburði að flytja Zappa-lög á tónleikum. Er hann eitthvað minni klassík en t.d. Mozart, í nútímasamfélagi?

Monday, April 07, 2008

Góð æfing

Þá er ég búin að vera viðstödd æfingu hjá Alvöru Atvinnumanna sinfóníuhljómsveit sem æfði verk eftir mig. Það var nú ekki nálægt því að vera eins hræðilegt og var búið að undirbúa mann fyrir. Þetta var hin besta skemmtan. Flinkir hljóðfæraleikarar og stjórnandi sem kom með gagnlegar tillögur að lagfæringum. Frábært alveg hreint. Sumir bekkjarfélaga minna fengu reyndar harðorðar athugasemdir, en þær áttu nú oftar en ekki rétt á sér.

Það athygliverðasta var umræðurnar sem við áttum eftir æfingu, bekkurinn og tveir kennarar skólans (hinn margumræddi Dani og einn til). Hinir tveir hærra settu voru algerlega á þeirri skoðun að þeir sem “tóku sénsa” (og fengu þar með illt auga frá hljóðfæraleikurum) hefðu verið hetjur dagsins.
Línan á milli “að taka sénsa” og vita ekki hvað maður er að gera, er að mínu mati ósýnileg. Hér er verið að ræða um að finna upp hjólið enn einu sinni, og/eða vita ekki tónsvið hljóðfæra og aðra hljóðfæratæknilega hluti. Og hér erum við sennilega komin með hluta ástæðunnar fyrir því að mestöll nútímatónlist er eins og hún er. Hundleiðinleg. Oft getur verið sniðugt að gera “öðruvísi hluti” í tónlist, en þegar skrifað er fyrir strangt form, eins og sinfóníuhljómsveit, þykir mér mikilvægt að taka mið af menntun hljóðfæraleikaranna (sem er að öllu jöfnu venjuleg klassísk menntun) og nýta sér þá þekkingu og færni sem þeir búa yfir. Ef maður hefur ekki hugmynd um hvað felst í hljóðfæraleikaramenntun, ætti maður að gera eitthvað annað en tónsmíða. Finnst mér. En.... tónsmíðakennarar hér á bæ eru greinilega ekki sammála mér. Allavega ekki þessir tveir. Það er kannski ástæðan fyrir að þeir vinna við kennslu; enginn sem hefur áhuga á að spila neitt eftir þá...

Þegar ég verð stór ætla ég að skrifa doktorsritgerð í tónsmíðum. Ritsmíð sú skal bera heitið “Ástæðan fyrir því að nútímatónlist er svona ótrúlega hundleiðinleg.”

Friday, April 04, 2008

Eftir páskafrí

Fyrstu viku eftir páskafrí að ljúka, og það er bara ansi gaman að vera kominn í skólann aftur eftir svo langt frí. Tíminn flýgur áfram, og strax komin helgi.
Og skyndilega er kominn apríl. Meiraðsegja 4. apríl. Þá á Siggalára afmæli. Til hamingju með daginn frú Sigríður.

Kennarar dagsins í dag reyndust fjarri góðu gamni. Sá fyrsti lét ekki sjá sig. Ástæða ókunn. Og sá síðari lá heima í flensu. Fúlt fyrir þá. En þar með bauðst hið fullkomna tækifæri til að undirbúa Byltinguna í samráði við nokkra samnemendur mín. Það gekk vonum framar. Við skrifuðum formlegt og vel ígrundað bréf til Allsherjarráðs tónsmíðadeildarinnar, og héldum skyndifund með yfirmanni kammertónlistar í skólanum. Hann var hinn jákvæðasti, sem var nú eitthvað annað en það sem við höfðum heyrt frá helv... Dananum. Enda kom upp úr kafinu að umræddum Dana hafði engan vegin tekist að útskýra mál sitt fyrir Kammertónlistarmanninum. Hafði hitt hann á hlaupum í stigaganginum og sagt eitthvað út í bláinn á sínu “vel skiljanlega” móðurmáli.
Já, maður verður hreinlega að taka málin í sínar hendur þegar yfirmaður deildarinnar reynist svo lítt hæfur til starfans.
Undirbúningur Byltingarinnar er því á lokastigi. Reikna með að honum ljúki um eða upp úr helgi.

Annars er mest lítið að frétta. Er að reyna að skipuleggja sumarið eitthvað. Það gengur mjög hægt, en það bendir margt til að hlutirnir skýrist betur í næstu viku.
Það eina sem ég er búin að plana eru tvær ferðir til Vestmannaeyja, sem leiðir óhjákvæmilega til viðkomu á Íslandi. Einhverntíma komst afmælisbarn dagsins svo að orði að ég væri “Eyjasjúk”. Held að það sé vægt til orða tekið, miðað við fyrirliggjandi sumarplön.