Monday, September 28, 2009

Í himnaríki?

Búin að vera ansi stíf keyrsla síðustu daga, og ekki laust við að bláa liðið væri orðið þreytt á setunni í bílnum eftir 13 tíma akstur í gær. Frá Denver, Colorado til Phoenix, Arizona.
Í dag er frí.
Hljómsveitin skiptist í 2 lið. Bláa liðið og hvíta liðið. Í bláa liðinu erum við stelpurnar þrjár og einn strákur. Í hvíta liðinu eru bara strákar (2). Svo er keppni hver vinnur. Það að vinna getur þýtt ýmislegt.
Á þessu ferðalagi er yfirleytt gist í heimahúsum hjá vinum og ættingjum hljómsveitarmeðlima. Aðbúnaður hefur verið mjög góður, og oft hefur maður hugsað með sér að hlutirnir gætu hreinlega ekki verið betri. Nú held ég að toppnum sé náð. Bláa liðið dvelur nú rétt fyrir utan Phoenix heima hjá fólki sem á RISAhús með RISAgarði. Hvíta liðið dvvelur annars staðar hér í Phoenix. Flestir nágrannarnir eru með hesta í garðinum. Ekki þetta fólk. Það er hins vegar með sundlaug með rennibraut og hval. Í dag er 105 stiga hiti á farenheit, sem samkvæmt Sóleyju er alltof heitt. Það er hins vegar ekkert of heitt þegar maður getur dýft sér í sundlaugina við og við, og annars setið í forsælunni með bjór í hönd. Í þessum rituðum orðum sit ég einmitt við sundlaugarbakkann.
Þetta er ansi hreint ljúft.
Bláa liðið vann örugglega í dag!

Thursday, September 24, 2009

Cleveland

Þá er maður loksins kominn úr stórborginni. Verð að viðurkenna að mér finnst smærri staðir skemmtilegri en þeir stærri. Alltof mikið af fólki, umferðarteppur og óheyrilegar vegalengdir á milli staða innanbæjar. Íbúðin sem ég gisti í í Nýju Jórvík var samt frábær. Á 29. hæð (með þaksvölum á 35. hæð) steinsnar frá Empire State byggingunni. Og ekkert lítið flott íbúð. Sér baðherbergi með hvoru svefnherbergi, plús gestakló, risaflatskjár og gluggar sem náðu frá gólfi uppí loft. Með útsýni! Gallinn við að búa í svona flottri íbúð er að maður týmir varla að fara út. Aukadagurinn sem við fengum í stórborginni var því að mestu nýttur innandyra. Sem kom sér reyndar ágætlega. Þvoði af mér leppana og lék mér heillengi með rauða kubba.

Fórum svo ekki til Washington DC. Gigginu þar var aflýst. Komum til Cleveland í gær, og fengum að vita um klukkutíma fyrir áætlað gigg að því hafði líka verið aflýst. Bömmer, en samt ekki. Fundum annan stað til að spila á hér í bæ í gærkveldi, og náðum okkur í aukagigg fyrir kvöldið í kvöld. Þetta þýðir reyndar að við þurfum að keyra til Omaha í Nebraska í nótt. Ég er ekkert brjálæðislega hrifin af næturkeyrslum, en maður lifir þær svosum alveg af.
Cleveland er góður staður að vera á.

Á morgun er það semsagt Omaha.
Þar hitti ég Sóleyju og fjölskyldu.
Jeij.

Sunday, September 20, 2009

Stóra eplið

Komin til New York. Spiluðum í Brooklyn í gær. Seinna giggið á Manhattan í kvöld. Frídagur á morgun. Gisti á 29. hæð í íbúðablokk á Manhattan. Með þaksvölum. Er ansi upptekin við að horfa út um gluggann. Er ekki búin að sjá þetta stóra epli sem allir eru að tala um.

Thursday, September 17, 2009

Risabaun

Það er ýmislegt sem maður þarf að venjast þegar maður er á ferðinni og gistir aldrei tvær nætur á sama stað. En það venst allt ótrúlega hratt. Ákveðin kúnst að gleyma ekki neinu neinsstaðar. En það hefur hingað til tekist fullkomlega. Held ég hafi ekki skilið eftir mig svo mikið sem einn sokk enn sem komið er. Og svo er það þetta með símann. Eða símaleysið öllu heldur. Það vandist um leið. Er ekki búin að vera í símasambandi í tæplega 3 vikur, og er ekki að sjá að það skipti mig neinu máli. Fyndið. Svona hlutur sem maður hélt að maður gæti ekki lifað án.

Ágætis samkomulag er á meðal hljómsveitarmeðlima, og kannski einum of mikil samheldni stundum. Þegar við mættum hingað til Chicago vorum við t.d. öll í eins bolum (sem við höfðum fengið gefins deginum áður). Náunginn sem við gistum hjá hélt að við værum eitthvað skrítin. Kvöldið eftir (í gærkvöldi) vorum við flestöll í hvítum skyrtum. Þetta er sko jakkafatahljómsveit. Þar með var hann sannfærður um að við værum ekki alveg í lagi.

Vorum túristar í Chicago í gær. Það var gaman. Það sem stóð upp úr hér í borg var tvímælalaust risastór baun (eða nýra eða eitthvað) úr málmi.

Tuesday, September 15, 2009

Frídagur

í dag. Það eina sem þarf að gera er að keyra til Chicago, en það tekur ekkert langan tíma. Ætlum að bíða fram yfir mesta umferðartímann og notum tímann á meðan til að tjilla, þvo föt og þannig.
Í Útlöndum er enn sumar. Búið að vera frábært veður allan tímann. Ágætis framlenging á sumrinu myndi ég segja.
Næstu dagar verða nett strembnir. Planið er svona:
Miðvikudagur: Chicago, Illinois
Fimmtudagur: Oshkosh, Wisconsin
Föstudagur: Pittsburgh, Pennsylvania
Laugardagur: Brooklyn, New York
Sunnudagur: Manhattan, New York
og svo er frí á mánudaginn í New York
Lengsta keyrsla þessa vikuna verður frá Oshkosh til Pittsburgh. Held það séu einhverjir 12 tímar, og við missum af einum tíma.
Ætla að fara út að horfa á íkorna.

Monday, September 14, 2009

Keyrikeyri

Búin að vera ansi stíf keyrsla síðustu daga. Keyrðum frá Minnepolis til uppsveita Wisconsin á föstudaginn. Vorum þar í sumarbústað í nágrenni Green Bay eitt kvöld. Í fríi. Frábær staður að vera á.
Vöknuðum snemma á laugardaginn og keyrðum yfir norðurhluta Michigan yfir brú og niður til Detroit. Misstum við það af einum klukkutíma. Í Detroit hittum við skemmtilega hljómsveit frá Hollandi. Gott partý. En Detroit er augljóslega ekki besta borg í heimi.
Í gær keyrðum við yfir smá hluta af Indiana og Illinois (sáum Chicago) og aftur til Wisconsin. Madison í þetta skiptið. Fengum þá til baka klukkutímann sem við misstum daginn áður.
Þannig að síðustu þrjá dagana erum við næstum búin að keyra risastóran hring. Vera á rúntinum 9-10 tíma á dag.
Í dag keyrðum við bara 2 tíma. Það var stuttur tími. Nú er það Racine. Enn í Wisconsin. Næstu dagar verða afslappaðri, en ég er ekkert að verða leið á rúntinum. Held ég verði aldrei leið á að keyra leeengi.
Wisconsin er uppáhaldsfylkið mitt hingað til. Það voða fallegt hér og skemmtilegt fólk. Héldum út á lífið í Madison í gærkvöldi með nokkrum aðdáendum og nú sit ég með foreldrum eins hljómsveitarmeðlims með bjór í hönd. Tónleikar í kvöld.

Þessi ferð var ekki farin til að sofa...

Friday, September 11, 2009

Minneapolis

Þá er það Minneapolis í kvöld.

Í gærkvöldi vorum við í Oakes, ponsulitlum bæ í Norður-Dakota. Það var magnað. Flestir bæjarbúar mættir í golfskálann, hvar við héldum uppi stuði fram eftir kvöldi, og svo hélt stuðið áfram fram eftir nóttu. Þetta var eiginlega hálfgert ættarmót, þar sem tveir hljómsveitarmeðlima eru ættaðir frá þessum litla bæ. Þarna búa bændur þannig að það var borðað kjöt, beint af kúnni, og grænmetið var tínt útí garði. Í Ammríku er mikið af öllu. Fólk býr í risahúsum og boraðar stóran mat. Samt hef ég ekki séð mikið af mjög feitu fólki... ennþá, en fólk virðist fitna eftir því sem austar dregur.

Keyrðum 5 tíma í dag og 9 tíma í gær þannig að við höfum lagt ansi langar vegalengdir að baki. Eigum eftir að keyra um 16.000 kílómetra samkvæmt nýjustu upplýsingum.
Það er gaman að keyra eftir löngum beinum vegi.

Mælieiningar í þessu landi eru lítt skiljanlegar. Mílur og pund get ég reiknað út, en farenheit-gráður eru mér illskiljanlegar. Í dag voru rúmlega 80 gráður á farenheit-kvarða utandyra. Það var bara ansi hlýtt og notalegt. Og svo eru únsur og gallon. Það skil ég ekki heldur. Ég veit að Gallon er meira en únsa, en það er líka allt og sumt sem ég veit um þessar mælieiningar. Þannig að ef einhver hefur brennandi áhuga á að upplýsa mig um gráður á farenheit, únsur og gallon, þá er viðkomandi vinsamlegast beðinn um að skrifa það í athugasemdakerfið hér að neðan.

Kominn tími til að undirbúa sig undir gigg kvöldsins á viðeigandi hátt.
Fá sér bjór.

Monday, September 07, 2009

Í Montana

Þá er ferðalagið hafið fyrir alvöru. Það hófst á laugardaginn eftir afbragðs pönnukökuboð. Fannst reyndar pínu skrítið að bjóða upp á vodka með morgunmatnum, en hei, þetta eru Útlönd.
Spiluðum í Spokane á laugardagskvöldið og gistum hjá eiganda tónleikastaðarins, sem bauð uppá vöfflur með hnetusmjöri, sírópi og beikoni í morgunmat. Er farin að skilja af hverju Útlendingar eru feitir.
Í gær keyrðum við yfir smá bút af Idaho, töpuðum við það einum klukkutíma, og svo yfir hálft Montana-fylki. Það er stórt. Þessa dagana dveljum við á RISA sveitasetri rétt fyrir utan bæ sem heitir Bozeman.
Á morgun er förinni heitið til Billings, þar sem næstu tónleikar fara fram.

Á ferðalaginu eru nú 5 manneskjur og 2 bílar.
Á morgun bætist við 1 manneskja og enginn bíll.

Bílarnir eru:
-Hvíti sendiferðabíllinn sem geymir allt dótið og 2 manneskjur.
-Blái framsóknarbíllinn sem geymir næstum ekkert dót og 3 manneskjur, 4 frá og með morgundeginum. Bíllinn er kallaður framsóknarbíll af því að það stendur xB á honum.

Manneskjurnar eru:
-Bart, söngvari og gítarleikari og aðalkallinn í bandinu.
-Katie, söngkona
-Rich, orgel- og gítarleikari
-Kópur, trommu- og þríhornleikari
-Og ég, bassa- og túbuleikari.
Sú sem bætist við á morgun mun sjá um geisladiska- og bolasölu.

Friday, September 04, 2009

Útvarpið

Á morgun spilum við í beinni á internet-útvarpsstöð. Hún er staðsett hér:
www.hollowearthradio.com
Við spilum klukkan 10 fyrir hádegi að staðartíma.
Það þýðir klukkan 17.00 að íslenskum tíma og 19.00 að norskum.

Ókei!

Komin í tengsl við rafmagn með viðeigandi búnaði.
Fyrsta gigg hljómsveitarinnar var í gær. Það var ágætt, en full-spennandi fyrir minn smekk. Túban ákvað að fara í verkfall mjög fáum mínútum áður en hljómsveitin steig á svið, þannig að ég fékk það áhugaverða hlutverk að spila alveg þónokkur lög á bassa í fyrsta skipti á meðan á tónleikahaldi stóð.

Í dag var túban löguð af þar til gerðum viðgerðarmanni, og ástæða bilunar var fundin, þannig að sams konar bilun í framtíðinni hefur verið fyrirbyggð.

Annars er þetta frídagur. Ekkert verið að spila. Á morgun er það svo Tacoma og pönnuköku-útvarpspartý á laugardagsmorguninn. Þá munum við spila í beinni á einhverri alnets-útvarpsstöð. Eftir pönnukökupartýið verður lagt í ferðalagið sjálft. Þangað til er staðsetningin Seattle, meira eða minna.

Wednesday, September 02, 2009

Útlönd

Komin til Seattle (í fyrradag).
Fyrsta gigg í kvöld (Seattle).
Meira síðar (þegar ég er búin að finna millistykki fyrir rafmagn. Rafmagn í Útlöndum er öðruvísi).