Thursday, November 27, 2008

Tilkynningar

Kem til Íslandsins á morgun.
Hér eru nokkrar tilkynningar.

Þórunn Gréta: Mundu deitið okkar á morgun eftir vinnu.

Systkini: Mun hafa samband við eitthvert ykkar um helgina til að forvitnast um plan sunnudagskveldsins.

Allir aðrir á Íslandi: Sjáumst örugglega einhverntímann næsta mánuðinn.

Allir í Útlöndum: Vonandi hafiði það sem best hvar sem þið eruð.

Búið að vera endalaust stress síðustu daga.
Enginn tími til að blogga.
Sjáumst.

Sunday, November 23, 2008

Stress

Það má með sanni segja að þessi helgi hafi verið andstæða síðustu helgar hvað varðar svefnmunstur. Eyddi meirihlutanum af síðustu helgi í bælinu, þessa helgina er ég búin að sofa innan við 6 tíma.
Taugaveiklunin náði hámarki þegar ég spratt fram úr rúminu klukkan hálfsex í gærmorgun til að gera verkefni. Klukkan hálfsex á laugardagsmorgni... þá er maður stressaður. Var dugleg allan daginn og fór svo á Jethro Tull tónleika, heimsótti öldurhús og fór í eftirpartý.
Afkastamikill (og laaangur) dagur og frábært kvöld!
Vaknaði svo í dag eftir örfárra tíma svefn.
Snemma að sofa í kvöld. Ójá.
Burtséð frá stress-hámarkinu var þetta hin ágætasta helgi.
Sú síðasta í Útlandinu fyrir jólafríið.

Wednesday, November 19, 2008

Málimál... eða ekki

Var litið út um gluggann í upphafi vikunnar. Og skyndilega fannst mér ég sjá óvenju skýrt. Allt var miklu meira í fókus en venjulega. Mjög skrítið. Þangað til ég fattaði að það var búið að taka netið sem hefur hangið utaná vinnupöllunum nánast síðan ég kom hingað eftir sumarleyfið.
Degi síðar voru vinnupallarnir farnir líka. Þessir pallar voru upphaflega settir upp til að spasla og mála húsið að utan. Það átti að taka 2-3 mánuði, og nú eru jú einmitt þrír mánuðir síðan pallarnir voru settir upp.
Einhvernvegin finnst mér samt að það hafi eitthvað gleymst í þessum framkvæmdum.
Einsog til dæmis að mála...
Spes.

En allavega. Búið að vera geðsýkislega mikið að gera síðustu daga. Var að kenna í gær og fékk útlenska péninga að launum (éss) og er þessa stundina að rembast við að klára lokaverkefni, sem ætti að gefa af sér þónokkuð margar námseiningar (sem er einmitt forsenda fyrir efnahagslegu öryggi á næstu önn - þannig að eins gott að maður nái).

Skilaboð til Sóleyjar:
Þurfti að fresta tónleikunum fram í júní, þannig að taktu frá helgina ellefta til þrettánda júní; tónleikar mánudaginn 14.
Tvöþúsundogtíu altso. (Um að gera að skipuleggja sig)

Monday, November 17, 2008

Nýliðin helgi

Sjaldan hefur helgi farið jafn gjörsamlega í vitleysu.

Fyrri helmingur laugardags fór í lúðr.
Seinni helmingurinn fór í óhóflega drykkju. Þessi kreppa á Íslandi er alveg að gera úraf við mann í drykkjumálum. Hérlendir vilja vera góðir við fólk frá kreppulandinu og keppast því við að hella í mann áfengi (eins og maður hafi eitthvað gott af því...).
Sunnudagurinn fór að mestu í rúmlegu. Svakalegustu drykkjueftirköst í manna minnum. Engin uppköst þó.

Græddi þó aðeins meira en allt þetta áfengi á laugardagskvöldið. Tókst að finna traustan leigjanda í íbúðina mína meðan ég er íslendis í jólafríi, og skaffaði mér frímiða á Jethro tull tónleika næstkomandi laugardag. Ég heppin.

Finnst ég hafa komið út í plús eftir þessa helgi, þrátt fyrir sunnudaginn.

Friday, November 14, 2008

Tvær vikur

í jólafrí. Já, það byrjar snemma þegar engin eru prófin.
En það þarf bísna margt að gerast á þessum tveimur vikum. Allnokkur verkefni sem þarf að skila, og vinna sem þarf að vinna. Dagurinn í dag hefur farið í kvíðaröskun yfir verkefnamagni komandi tveggja vikna. Léleg nýting á tímanum það.
Og morgundagurinn fer í lúðraæfingu- og tónleika. Sá dagurinn mun því heldur ekki nýtast sem skildi.
Þá eru hreinlega ekkert mjög margir dagar eftir. Þarf jú eitthvað að mæta í skólann suma dagana og er búin að taka að mér afleysingakennslu í einn dag.
Held að restinni af þessum degi sé best varið í að gera plan fyrir næstu tvær vikurnar. Skriflegt.

Og það ætla ég að gera.

(Þetta var örnámskeið í skipulagningu)

Monday, November 10, 2008

Tvær eilífðir

Fór í næstsíðasta Dana-talninga-tímann í dag. Hann var ansi lengi að líða, að venju. En nú er bara einn eftir (þ.e. þrír óendanlegir klukkutímar).
Uppáhaldstalan mín á dönsku er átta. Hún er nefnilega borin fram "oooooðe", á meðan aðrar tölur eru bara með einn sérhljóða í röð. Skemmtilegt.
Undir lok tímans komu nokkrir menntaskólanemar að fylgjast með. Það er opin vika í skólanum, og þá koma krakkar í heimsókn sem hafa hug á að sækja um nám í skólanum. Efast um að þessi grey hafi áhuga á því eftir heimsókn í þennan tíma... og þó. Þau flissuðu nú eitthvað yfir Dananum.

Eftir þessa þrjá óendanlegu tíma, tók við hópverkefni sem unnið var í samvinnu við tvo bekkjarfélaga, og sameiginlegan vin okkar allra, Max. Það tók aðra þrjá óendanlega klukkutíma. En við kláruðum allavega verkefni vikunnar, sem á ekki að skila fyrr en á fimmtudaginn, og er ég því hæstánægð með árangur dagsins.

Þrátt fyrir að hann hafi tekið tvær eilífðir.

Wednesday, November 05, 2008

Kátína

Sæææll

Eru engin takmörk fyrir því hvursu latur maður getur verið?
Reyndi að semja lag í dag. Það gekk illa. Gengur bara betur næst (á morgun vonandi).
Jæja, ég reyndi allavega...

Horfði á Útsvarsþátt frá síðastliðnum föstudegi. Úrslitin komu svosum ekki mikið á óvart þar sem sigurliðið í þeim þætti virðist nokkurnvegin ósigrandi, ef ég þekki mannskapinn rétt.
Það sem vakti mesta kátínu hjá undirritaðri var leiksigur Stefáns nokkurs Boga. Hélt ég myndi kafna úr hlátri þegar hann lék plötuspilara, og ekki var kátínan minni þegar geisladiskurinn var tekinn fyrir. Snilld.
Á sennilega eftir að flissa innra með mér næstu dagana.

Já, það þarf greinilega lítið til að kæta mann þessa dagana. Enda sól úti.

Monday, November 03, 2008

Lúðr

Þá er ég komin heim eftir lúðrafund helgarinnar.
Komst að því að Stavanger er agalega hugguleg borg, og greinilega alltaf gott veður þar (allavega þegar ég hef verið þar).

Á svona fundum er lítið annað gert en að borða (MIKIÐ) og sitja á fundum (LENGI). Vorum látin borða tvo kvöldmata á laugardagskvöldið. Ca. hálfa belju í hvort skipti. Leyfði ansi miklu af seinni hálfu beljunni, og var ansi ein um það (sem þýddi að það var gert grín að mér af því ég borðaði "svo lítið"). Var líka eiginlega alltaf síðust að klára matinn minn, og er ég þó ekki þekkt fyrir að borða neitt sérstaklega hægt. Skil alls ekki hvernig þessu fólki tókst að borða svona mikið, og hratt. Verð að afla mér upplýsinga um það ef ég þarf aftur að mæta á svona fund. Eða hreinlega gerast grænmetisæta... tímabundið. Það eru nefnilega takmörk fyrir því hvað maður hefur lyst á að borða margar beljur á einni helgi.

Eftir öll átin á laugardagskvöldið (sem var ekki lokið fyrr en um miðnætti) var mælt með að við færum í eitthvað risapartý með fullt af lúðrafólki. Mig hefur aldrei á ævinni langað jafn lítið í partý, enda nær dauða en lífi eftir allt þetta át. Skrópaði því í partýinu og fór að sofa.

Í dag er ég aðallega dösuð eftir ofát helgarinnar og sennilega nokkrum tugum kílóa þyngri en á sama tíma í síðustu viku. (Tek greinilega ekki þátt í megrunarkeppninni þetta árið). Og þar sem ákveðinn lúðrafundaleiði er kominn upp ákvað ég að vera forfölluð á lúðrastjórnarfundi í kvöld. Mæti samt á lúðraæfingu annað kvöld.

Frí í skólanum þessa vikuna vegna kammertónlistarviku. Þannig að ég nota tímann í að æfa mig á lúður og semja lög fyrir lúðra.

Þetta er semsagt það sem lífið gengur út á þessa dagana:
Lúðr