Tuesday, March 30, 2010

Með öndina í hálsinum

Um helgina kom það fram í sjónvarpsfréttum hér ytra að Íslendingar biðu með öndina í hálsinum eftir yfirvofandi Kötlugosi. Samkvæmt mínum áreiðanlegu heimildum (feisbúkk) bar nú ekki mikið á þeirri önd. Fólk virtist hins vegar keppast um að komast sem næst eldgosinu á Fimmvörðuhálsi.

Undarlegt þegar fjölmiðlar greina frá yfirvofandi hættuástandi í öðrum löndum, en minnast varla á hættuástand í eigin landi.
Hér í borg hefur verið stórhættulegt að vera á ferli nánast allan marsmánuð. Ástæðan er snjó- og klakaflóðahætta af húsþökum. Nokkrum sinnum varð ég vitni af slíkum flóðum, oft á fjölförnum gangstéttum, og ávallt var bara heppni að enginn varð undir.

Nú er snjóflóðahættuástand liðið hjá, en ég verð að viðurkenna að öndin var ekkert langt frá hálsinum þennan mánuð sem hættuástand varði.

Vorið nálgast óðfluga.
Opinber dagsetning vor-upphafs í Útlöndum er 1. apríl.

Saturday, March 27, 2010

Páskafrí!

Jeij!!

Hef sjaldan verið jafn ánægð með að komast í frí, og örugglega aldrei verið jafn stressuð í marga daga. Það er stress að halda tónleika, en þeir gengu vel og nú veit ég margt um tónleikahald í skólanum sem ég vissi ekki fyrir. Vitneskja sem kemur sér afar vel fyrir aðal-útskriftartónleikana í júní. Sé að mörgu leyti fram á mikið minna stress fyrir þá tónleika.

Það gekk líka vel í lúðrakeppninni í Þrándheimi. Urðum í 4. sæti af 89. Fyrir utan hvað það var rosalega gaman í Þrándheimi, að venju.

Mitt fyrsta verk í páskafríi var að sofa. Lengi. Kom heim úr skólanum í gær um hádegi og svaf í 3 tíma. Vaknaði bara af því að vekjaraklukkan hringdi. Fór á tónleika, kom heim og fór að sofa. Svaf 12 tíma í nótt. Það er greinilega þreytandi að vera stressaður lengi.

Nú er hið langþráða páskafrí komið. Hef reyndar búið til langan lista yfir allt sem þarf að gera í fríinu, en sá listi inniheldur að mestu hluti sem ég get gert í rólegheitum heima hjá mér, eða í skólanum = tjill, en samt eitthvað gert af viti. Fullkomið.

Á morgun breytist klukkan. Mjög fín helgi til að missa af klukkutíma, nú þegar það er páskafrí og klukkutími til eða frá skiptir svosum engu.
Á morgun verð ég semsagt komin 2 tímum á undan ykkur kæru landsmenn.

Gleðilegt páskafrí!

Thursday, March 18, 2010

Lúðr og tónleikar

Nú stendur yfir hin árlega lúðrakeppnisvika hér í landi lúðrasveitanna. Um síðustu helgi var Óslóarkeppni í lúðrasveiti. Við unnum. Í gær voru æfingatónleikar í nágrannasveitafélagi og á morgun verður haldið til Þrándheims, hvar att verður kappi við helstu lúðrasveitir landsins. Svo er auðvitað ofur-lúðrpartý með hátt í 2.000 lúðranördum á laugardagskvöldið í Þrándheimi. Það hefur hingað til verið magnað.
Jól lúðanna.

Er annars á fulllu að undirbúa 1. hluta útskriftartónleikanna minna (svona þegar ég er ekki að lúðra) sem haldnir verða í næstu viku. Dáldið rosalega mikið stress. En ég reikna fastlega með frábærum tónleikum.

Tónleikar fimmtudaginn 25. mars kl. 19.30. Í Noregi.
Allir velkomnir!

Sunday, March 07, 2010

Lausnin á æseif

Komin aftur til Noregs og búin að ná upp töpuðum svefni. Það er erfitt að vaka heila nótt. Þá verða tveir dagar að einum og það er eitthvað rangt við það.

Í gær voru kosningar. Ég kaus reyndar ekki neitt. Nennti ekki að kynna mér almennilega hvað var verið að kjósa um, og fólkið á götunni talaði um að betri samningar væru í vændum. En hver veit það?

Skil annars ekkert hvað fólk er að pælí þessu æseif-máli endalaust. Lausnin er einfaldari en allt. Við gerumst hluti af Noregi. Nánast allir þeir Norðmenn sem ég hef hitt, og hafa vakið máls á efnahagsástandi Íslands, hafa komið með þessa tillögu. Nokkrum finnst þó eðlilegra að Noregur verði hluti af Íslandi, þar sem allir "kúlustu" Norsararnir hafi farið þangað á sínum tíma.

Ef einhver efast um að Noregur ráði við að greiða skuldir Íslendinga, þá heyrði ég eftirfarandi staðreyndir í fréttum hérlendis fyrir helgi:
Hagnaður Noregs af olíusjóðunum árið 2009 voru um 1.000.000.000 norskra króna (ca. 22.000.000.000 íslenskra). Á DAG!
Og þetta er bara hagnaðurinn. Enginn veit hvursu stórir þessir olíusjóðir eru, en það eru örugglega nokkuð mörg núll í því. Noregur gæti semsagt borgað allar skuldir Íslendinga með ca. eins mánaðar hagnaði olíusjóðanna.

Lausnin er því einföld. Verum með í Noregi. Eða fáum Noreg til að vera með í Íslandi. Þeir eru örugglega til í annað hvort. Þá þyrfti enginn að pæla meir í æseif. En hvað myndu Íslendingar þá tala um? Það hefur varla verið talað um annað svo lengi sem elstu menn muna... Kannski vilja Íslendingar ekki finna neina lausn. Þá hafa þeir ekkert að tala um lengur.