Saturday, January 31, 2009

Jæja

Eitthvað lítið hefur maður nú nennt að skrifa hér uppá síðkastið. Ég kenni nýjasta fjölskyldumeðlimnum alfarið um það. Herra Sjónvarpi er mjög góður í að stela tíma.

Í fréttum er annars þetta helst:

Hinn pólski Penderecki kom í heimsókn í skólann og stjórnaði eigin verkum. Einnig voru haldnir kammertónleikar honum til heiðurs. Ágætt allt saman. Var svosum ekkert að deyja úr hrifningu, en ágætt. Jú, vissulega tónsmíðaði hann tímamótaverk, á sínum tíma. En það var þá... þau tímamót eru löngu liðin, og mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. Mörgþúsundmilljónskrilljón lítrar.
Herra P. er nú samt afar merkilegur maður. Hann hefur t.d. afrekað það að verða heimsfrægt tónskáld í lifanda lífi. Ekki mörgum sem tekst það.

Síðan fyrir bankahrun hef ég unnið að því að skapa mér fjárhagslegt öryggi erlendis, hvar íslenskar krónur, eða fjármagn frá Íslandi, koma hvergi nærri. Það markmið er nú í sjónmáli. Frá komandi viku verð ég sennilega búin að koma mér upp tvöföldu hagkerfi, og mun um leið hætta að þurfa að flytja fjármuni milli landa. Loksins.
Þar með get ég hætt að lifa tvöföldu lífi og farið að lifa tveimur lífum, algerlega óháðum hvort öðru. Magnað.

Búin að vera feikidugleg í skólanum. Verð með síðustu æfingu á saxófónballettinum mínum á morgun, og túbulagið er komið vel á veg. Einhverjum smáverkefnum hefur þó verið frestað í óhófi, en markmiðið er að klára allt svoleiðis fyrir næstu Íslandsför, sem áætluð er eftir tæpar tvær vikur.

Hef sloppið algerlega við veikindi þennan veturinn. Var ekki einu sinni veik í jólafríinu, sem hefur verið fastur liður síðasta áratuginn eða svo. En nú finnst mér eins og veiki sé að krefjast inngöngu í líkama minn. Mun beita öllum brögðum til að það gerist ekki. Hyggst því eyða kveldinu í að fylgjast með undanúrslitum í júróvisjon. Norsku útgáfunni. Hef ekkert fylgst með þeirri íslensku, en ef marka má bloggskrif fólks er ég ekkert að missa af miklu.

Stjórnmál:
Ný ríkisstjórn = Gott mál
Jóhanna Sigurðar sem forsætisráðherra = Gott mál
Hvort hin nýja ríkisstjórn verði tilbúin til yfirtöku fyrir eða eftir helgi finnst mér ekki skipta nokkru máli.
Nenni að öðru leyti ekki að tjá mig um íslensk stjórnmál.
Alveg nógu margir sem sjá um það.

Takk og bæ í bili.

Tuesday, January 27, 2009

Allt að gerast

í íslenskum stjórnmálum.

Ekki missa af því.

Tuesday, January 20, 2009

Eitt enn

Gleymdi einu í upptaliningunni í gær:

-Snjór.

Og alveg slatti af honum.
Snjór er ávallt til trafala í stórborgum. Samgöngur fara úr skorðum og enginn kemst neitt á réttum tíma. Svo breytist snjórinn í slabb, drullu, drullupolla og drullutjarnir við víðförlar götur. Það er líka dáldið hált þannig að gamalt fólk og annað fólk sem er ekki vant slíku (sem eru næstum allir) dettur á hausinn.
Fúlt.

Annars átti ég víst afmæli í dag. Fékk gjafir á lúðrasveitaæfingunni. Í Útlöndum á maður afmæli miklu oftar.

Þess vegna passar örugglega prýðilega að halda upp á fertugsafmælið sitt síðar á árinu. Miðað við fjölda afmælisdaga síðustu árin.

Monday, January 19, 2009

Tölvumál

hafa verið ofarlega í mínum huga síðustu vikuna.
Tölvan mín litla er farin að hökta óþarflega mikið. Er nú búin að gera allt sem mér dettur í hug til að laga það, og gott betur. Vitandi = ekkert um tölvudót er kannske ekkert skrítið að ég hafi ekki getað lagað þetta sjálf. Er búin að henda tugþúsundum megabæta af óþarfa skrám og forritum sem ég þarf ekkert á að halda, bæði innan og utan alnetsins, hreinsa harða diskinn og afþýða, og leyta að veirum með þar til gerðu forriti. Án gríðarlegs árangurs.
Eitthvað hefur þetta jú lagast. Alnetið virkar sem aldrei fyrr - eftir að það er búið að koma sér í gang, sem getur tekið dágóða stund. En eitthvað hökt er enn í gangi. Sérstaklega þegar kemur að hljóði. Þetta er samt sennilega ekki hljóðkortið þar sem músin höktir líka í sínum hreyfingum. Eftir að hafa talað við ýmsa aðila um tölvur hef ég fengið nokkrar hugmyndir um hvað gæti verið að.
Þetta eru hugmyndirnar sem ég man í augnablikinu:
-Vinnsluminnið gæti verið að gefa sig. Ef svo er borgar sig alveg örugglega ekki að láta gera við það.
-Litlir vírusar gætu hafa tekið sér bólfestu í hinum ýmsustu afkimum. Það væri hugsanlega hægt að laga með því að strauja allt draslið og setja upp á nýjan leik. Sú aðgerð hugnast mér ekkert alltof vel. Finnst of líklegt að eitthvað fari úrskeiðis og dót týnist í aðgerðinni (er samt alveg búin að taka afrit af því sem ég þarf að eiga).
Geri mér líka grein fyrir að tölvur eru hlutir sem virka ekki endalaust. Og mín er búin að gera sitt gagn í næstum fjögur ár. Þrátt fyrir að hafa verið fengin á lítinn péning og vera með lítinn harðan disk.
Hugsa því að ég reyni að fjárfesta í nýrri á næstunni. Þykir fýsilegri kostur að gera það áður en gamla tölvan hættir alveg að virka. Svo getur alltaf komið sér vel að eiga aukatölvu, þó hún virki ekki alveg sem skyldi.
Þetta voru aðal-hugleiðingar vikunnar.

Það sem hefur gerst annars er:
-Ballett-tal
-Skólahljómsveitar-afleysing (norsk börn eru verr upp alin en ALLT).
-Smá próf í að veifa með prik í annarri hendinni.
-Skipulagning framtíðarinnar (eilífðarverkefni)
-Besti bjór í heimi.
-Túbu-tal
-Sjónvarp heimilisins tengt. Án míns samþykkis. 13 sjónvarpsstöðvar í boði.
-Fljúgandi pulsa utan úr geimnum. Í brauði.
-Kampavínspartý.
-Íslendingar í bænum.
-Eyrnatappatónleikar.

Sunday, January 11, 2009

Jólatrésskemmtun og stríð

númer 3 var í dag. Þá er bara ein eftir. Á morgun.

Missti víst af svaka hasar á einni slíkri skemmtun í gær. Hjá frímúrurum.
Þar mætti fólk til að mótmæla ástandinu á Gaza. Og hvað ákváðu mótmælendur að gera? Jú, búa til svipað ástand í sínum heimabæ. Það var semsagt brotin rúða, og síðan sprengdir flugeldar. Innum gluggann. Á jólatrésskemmtun þar sem fyrir voru um 200 börn!
Frábær leið til að mótmæla krakkar.
Frábært.
Sem betur fór var skemmtunin á annarri hæð hússins þannig að fólk innandyra skaðaðist ekki af þessum sökum. Þegar löggan kom voru mótmælendur sumir komnir inn, þannig að táragasinu var sprautað á mannskapinn. Það þurfti svo að lofta út áður en hægt var að sleppa jólatrésskemmtana-gíslunum út.

Hér með er ég formlega á móti mótmælendum.
Læti skapa bara meiri læti sem skapa meiri læti sem skapa meiri læti... og svo framvegis.

Héðan í frá ætla ég að mótmæla mótmælum með því að vera heima og gera ekkert. Þannig legg ég mitt að mörkum til að draga úr látum heimsins.

Friday, January 09, 2009

Nýtt plan

Stundaskráin mín inniheldur öllu færri tíma en síðastliðin ár. Eða fjögur fög. Þar af tvö sem eru á nákvæmilega sama tíma þannig að ég get bara mætt í annað, og eitt sem gekk eitthvað erfiðlega að finna kennara í, þannig að það verður sennilega kennt í þremur námskeiðum síðar á önninni.
Eftir standa því tveir kúrsar. Samtals þrír klukkutímar í viku. Plús einkatímar hjá þremur mismunandi kennurum.

Ég hef svosum nóg að sýsla. Það er ekki það. Þegar hér er komið við sögu í náminu er bara ætlast til meira frumkvæðis nemenda. Þannig að nú er þörf fyrir að gera gott plan, sem aldrei fyrr, svo maður lendi ekki í að sitja með hendur í vösum alla önnina og ætla svo að gera ALLT daginn fyrir sumarfrí.

Ætlaði að nota daginn í dag til að gera hið fullkomna plan fyrir næsta eina og hálfa árið.
Mér tókst ekki einu sinni að skipuleggja morgundaginn almennilega.
Ótrúlega lélegur árangur.

En ég spilaði hins vegar á einni jólatrésskemmtun í dag. Og einni í gær. Ekki á sama hljóðfærið, þannig að ég var að sjá nóturnar mínar í fyrsta skipti í bæði skiptin.
Stemming.
Þá eru bara tvær jólatrésskemmtanir eftir.
Jeij.

Tuesday, January 06, 2009

Nýtt líf?

Kom aftur til Útlandsins í dag.
Byrjaði á að hitta stúlkuna sem dvaldi í íbúðinni minni í jólafríinu, og tók við lyklavöldum. Spjallaði aðeins við hana, og hún minntist aðeins á að hún hefði skilið eftir smá dót handa mér og breytt aðeins.
"Smá" og "aðeins" eru ekki alveg orðin sem ég hefði notað.
Hér í híbýlum mínum er mjög margt ekki einsog það var. Fékk nett sjokk þegar ég kom inn um dyrnar og ALLT var öðruvísi. Húsgagnaskipulagi hefur verið umpólað gjörsamlega og þetta "smá dót" er sjónvarp, agalega "fancy" lampi, rauð pottaplanta og nýtt rúmteppi. Svo eitthvað sé nefnt. Í tuttugu fermetra íbúð breytir þetta ansi hreint miklu. Þannig að nú líður mér eins og ég búi í innlit-útlit þætti.
Ætlaði fyrst að breyta strax í einsog þetta var, en hef tekið þá ákvörðun að bíða með það í nokkra daga (og þá verð ég pottþétt löngu hætt að pæla í þessu - þannig að þetta verður örugglega svona þar til ég flyt út... eða næsti leigjandi breytir fyrir mig).

En hvað í andsk... hef ég að gera með sjónvarp og rauða pottaplöntu?

Friday, January 02, 2009

Nýtt ár

Komið nýtt ár og læti.

Til hamingju með það.