Saturday, February 28, 2009

Menning

Búin að mæta á 5 tónleika í vikunni. Þar af 4 á hinni árlegu Vetrar(ó)hljóðahátíð. Hið merkilega gerðist að af þessum 4 tónleikum, voru 50% alveg hreint ágætir.

Þeir fyrstu (á mánudaginn) áttu tvímælalaust vinninginn í skemmtilegheitum. Þar voru mættir nokkrir hressir Útlendingar sem spiluðu á nýuppfundin hljóðfæri. Þar mátti m.a. sjá fótstigið skrifborð með einum streng sem hljómaði eins og rafmagnsgítar, samblöndu af sellói og didjerídú-i í einu hljóðfæri. Og margt fleira. Daginn eftir var svo gefinn kostur á að mæta og prófa hljóðfærin. Ég fattaði það ekki fyrr en of seint og er enn miður mín.

Á þriðjudaginn voru tónsmíðanematónleikarnir. Þetta er í fyrsta sinn sem við fáum að koma nálægt þessari hátíð, en eftir að hafa tuðað í 1,5 ár fengum við loks að vera með. Mjög fínir maraþontónleikar. Voru reyndar fáránlega langir, en áheyrendum var gefin kostur á að yfirgefa svæðið svo lítið bæri á, í tveimur hléum sem gerð voru á tónleikahaldi. Merkilega margir sem sátu alla tónleikana.

Mætti ekki á miðvikudagstónleikana. Var of þreytt eftir "bar-óhapp" kvöldið áður.

Kennarinn minn, Daninn og einn mastersnemi áttu verk á fimmtudagstónleikunum. Þeir notuðust við ýmsa nútímatækni (vídjó, tölvukvartett o.fl.) og var útkoman leiðindi með bjánahroll. Það sem reddaði þessu var takmörkuð lengd tónleikanna (innan við klukkutími) og bjánahrollurinn sló á leiðindin að einhverju leyti.

Síðustu tónleikarnir (í gær) voru þeir al-leiðinlegustu. Fjögur verk, hvert öðru leiðinlegra. Langaði mest að leggjast í gólfið og grenja úr einskærum leiðindum. Samt voru þetta hóflega langir tónleikar. 1,5 klukkutími með hléi. Hléið var hápunktur tónleikanna. Verst að tveir samnemenda minna áttu verk á leiðindatónleikunum. Ég flýtti mér heim eftir þá til að sleppa við að tala við fólk.

Mætti líka á harðangursfiðlutónleika í gær. Harðangursfiðla klikkar aldrei.

Og í kvöld er það ofur-menningarleg bíóferð á mynd á ofur-menningarlegri kvikmyndahátíð.
Vona bara að hún sé ekki mjög leiðinleg. Held ég hafi klárað leiðindakvóta vikunnar, og rúmlega það, á tónleikunum í gær.

Wednesday, February 25, 2009

Tíminn líður

Það fer víst ekkert á milli mála.

Magnað stuð á Íslandinu að venju. Fékk reyndar magaveiki og gat lítið sem ekkert borðað í 5 daga og bara drukkið vatn, en það kom ekki að sök. Gat alveg unnið vinnuna mína og talað við skemmtilegt fólk fyrir því.
Matur er greinilega ofmetið fyrirbæri.

Kom til Útlandsins á mánudaginn, og í gær vorum við tónsmíðanemarnir með stórkostlega vel heppnaða maraþontónleika. Mitt verk var síðast og þá voru merkilega fáir búnir að gefast upp og yfirgefa tónleikasvæðið.

Saxófónballettinn minn vakti mikla lukku. Verður tvímælalaust endurtekinn við tækifæri.

Wednesday, February 11, 2009

Ísland

á morgun og verð til 23. þessa mánaðar.

Er ekki að nenna að pakka neinu niðrí tösku. Spurning um að stinga tannburstanum í vasann og láta það gott heita í niðurpakkningu...

Verð í höfuðborginni (á virku dögunum) og nágrenni (um helgar).

Vinsamlegast hafið samband ef áhugi er fyrir hendi.

Ókeibæ.

Friday, February 06, 2009

Neeeei!!!

Ekki Kaupfélagið!

Einhvurra hluta vegna hef ég gjarnan staðið á þeirri meiningu að Kaupfélagið yrði það síðasta í öllum heiminum til að fara á hausinn. Það var greinilega röng meining. Eða er heimsendir kannski í nánd?
Fyrst Kaupfélagið getur farið á hausinn, þá hlýtur allt að geta gerst.
Og þá meina ég ALLT.

Fjárhagsleg staða undirritaðrar er hins vegar með besta móti. En ég á ekki alveg nóg til að redda Kaupfélaginu. Því miður.

Er annars búin að vera eitthvað slöpp undanfarna viku. Held ég. Ekkert mjög veik, en eitthvað skrítin.

Hér eru nokkrar hugmyndir um hvað gæti verið að:
-Smávægileg veiki af ókunnum uppruna
-Síþreyta
-Þynnka (frekar ólíklegt þar sem takmarkað magn af áfengi hefur farið inn fyrir mínar varir síðustu vikuna).
-Heilarýrnun, sökum neyslu á meintri megrunarvöru (varð allt í einu rosa hrifin af morgunkorninu Sérstöku Ká-i. Enginn veit hví)
-Lækkun líkamshita í kjölfar ómanneskulega mikils frosts utandyra

... eða kannski er ég bara eitthvað rugluð inní hausnum mínum.