Saturday, October 24, 2009

ó, hið daglega líf

hve dásamlegt það er.

Gleðilegan vetur!

Saturday, October 17, 2009

Ferðalok og heimkoma

Eftir Ammríku var hugmyndin að skella sér til Vestmannaeyja á lúðramót. Af því varð ekkert vegna veðurs. Herjólfur fór ekki til Eyja í næstum 2 sólarhringa, og voru því í einangrun einmitt á því tímabili sem ætlunin var að flytja hátt í þúsund lúðramanns til eyja. Var auðvitað arfafúl út í þetta vitlausa veður. Allt slagverkið og stóru hljóðfærin fengu hins vegar að fara til eyja, og koma til baka, ónotuð.
Í stað eyjaferðar gat ég gert smá gagn og passað tvö smábörn. Það gerði ég alein í heila 5 klukkutíma, og enginn fór að grenja að neinu ráði. Þetta verður að teljast ótrúlegur árangur. Skemmti mér ákaflega vel við að lita og horfa á múmínálfana.

Nú er ég komin heim til mín og farin að mæta í skólann. Kannske ekki seinna vænna. Búin að mæta í nokkra tíma og sýnist ég ekkert hafa misst af neitt miklu, en hins vegar misskilið innihald sumra faganna.
Mætti t.d. í skólann eldsnemma á föstudagsmorguninn vitandi að ég ætti að gera eitthvað með dönsurum. Í einfeldni minni hélt ég að dansararnir ættu að dansa eitthvað og tónlistarfólkið ætti að finna/búa til tónlist í samvinnu við þá. Í ljós kom að allir áttu að hreyfa sig eitthvað.
Dansararnir voru þarna semsagt aðallega til að láta tónlistarhlussurnar hreyfa sig. Ég get nú ekki kallað hreyfingu dagsins dans, en gaman var það. Á einum tímapunkti brutust út hópslagsmál upp á stólum. Það endaði á því að tónsmíðaleiðbeinandi datt á rassinn niður á gólf. Dansara varð þá að orði: "Þú verður að passa dreyfingu líkamsþyngdarinnar".
Ég myndi nú segja að þumalputtareglan væri sú að það er hættulegt að slást uppá stól. Og örugglega bannað. En greinilega ekki ef maður er dansari.

Wednesday, October 14, 2009

Ferðalög

Þá er komið að stuttu landfræðilegu yfirliti yfir ferðina mína til Ammríku. Heimsótti alls 20 fylki á rúmum fjórum vikum sem verður að teljast afbrags árangur. Sum þeirra voru meira að segja heimsótt oftar en einu seinni.
Hér verða upp talin þau fylki sem heimsótt voru, hversu oft (í sviga) og í hvaða borgum og bæjum var stoppað til að spila og/eða sofa:

-Washington (x2): Seattle, Tacoma, Spokane
-Idaho (x1)
-Montana (x1): Bozeman, Billings, Miles City
-North Dakota (x1): Oaks
-Minnesota (x1): Minneapolis
-Wisconsin (x3): Sveitin, Madison, Racine, Oshkosh
-Michigan (x1): Detroit
-Indiana (x3)
-Illinois (x4): Chicago
-Ohio (x2): Cleveland
-Pennsylania (x2): Pittsburgh
-New Jersey (x2)
-New York (x1): New York
-Iowa (x1)
-Nebraska (x1): Omaha
-Colorado (x1): Denver
-New Mexico (x1)
-Arizona (x1): Phoenix
-California (x1): San Diego, Los Angeles, San Francisco
-Oregon (x1): Portland

Þá er það upp talið.

Þetta var nú alveg töluvert ferðalag og voða gott að vera komin heim til sín í hversdagsleikann. Í heilar 6 vikur eða svo. Þá er komið jólafrí.

Í dag barst mér svo tölvupóstur þess efnis að ég ætti að fara til Finnlands í janúar/febrúar að taka þátt í .... einhverju á vegum skólans. Það er greinilegt að fólkinu í skólanum finnst betra þegar ég er einhversstaðar annarsstaðar en þar. Mér sýnist á öllu að þetta ...... dæmi eigi að taka alveg meira en viku.
Og nú ætla ég að fara að lesa gamla tölvupósta og gá hvort ég verði einhvers vísari um þetta Finnlandsdæmi. Rosa gaman að fá að taka þátt í svona ..... bara einhverju.

Monday, October 12, 2009

Komin

heim til mín. Loksins.

Búin að vera heima hjá mér í 2,5 vikur undanfarna 5 mánuði. Það verður að teljast frekar lélegur árangur. Markmið næstu daga og vikna er að vera miiikið heima að læra og koma lífinu í einhverja rútínu.

Kominn tími til.

Tuesday, October 06, 2009

Á byrjunarreit

Þá er ég komin aftur til Seattle. Ferðalagið endaði alveg eins og það byrjaði. Með grillaðri svínsöxl og bjór frá honum Hale (Hale´s Ale).

Legg af stað út á flugvöll eftir smástund, hvaðan skal flogið beinustu leið til Íslands.

Friday, October 02, 2009

Rokk!

Suðvesturhorn Bandaríkjanna er tvímælalaust það mest framandi hingað til. Í Nýju Mexíkó eru borgir ósýnilegar. Maður sér bara skilti sem gefur til kynna að þar sé borg, en húsin eru alveg eins á litin og klettarnir og eru því ósýnileg mannlegum augum. Í Arizona eru eyðimerkurkaktusar. Alveg eins og í teiknimyndum. Og í Californiu eru pálmatré. Keyrðum meðfram landamærum Mexíkó. Þar er vel fylgst með því að Mexíkóar séu ekki að svindla sér yfir landamærin. Keyrðum framhjá 3 landamæravarðastöðvum og þurftum að gera grein fyrir ferðum okkar. Þó við værum ekkert að fara til Mexíkó. Spes.

Nú er ég í Los Angeles. Þar býr fræga og ríka fólkið. Fór á Santa Monica ströndina í gær. Sá enga strandverði hlaupandi um í rauðum sundfötum. Svik! Rúntuðum líka um Beverly Hills og Hollywood. Greinilega ekki fátækt fólk sem býr þar. Labbaði líka fram hjá kvikmyndatöku úti á götu í gær. Fáránlega mikið af fólki sem er í kringum svona batterí. Gisti á Hilton hóteli í miðbæ LA. Það er sundlaug á þakinu, en stundum er hún notuð í kvikmyndatökur og því lokuð. Nú er hún öllum opin. Gott mál.

Það fækkaði um 1 í Bláa liðinu í dag. Stelpan sem var með og seldi dót fór heim. Þarf að fara til annarra útlanda á morgun. Það verður skrítið að vera bara 3 í Bláa liðinu restina af ferðinni, en nú er ekki mikið eftir.
San Francisco á morgun, Portland á sunnudaginn , og keyrt til baka til Seattle þá um kvöldið/nóttina.