Wednesday, November 30, 2005

MSN

Er komin með MSN (loksins). Nota netfangið mitt.

Er annars að fara að spila undir í karókí á eftir með stórsveitinni. Það verður æsispennandi. Hef ekki spilað helminginn af þessum lögum áður og nenni sko ekki að fara að æfa þetta núna á hálftíma. Alltaf gaman að lesa af blaði á "tónleikum".

Tuesday, November 29, 2005

Tónleikaferð dauðans

var í gær. Helmingur nemenda skólans var sendur í ferðalag til Tynset til að spila tvenna tónleika. Það eina sem flestir vissu um Tynset var að það tæki u.þ.b. 3 tíma að keyra þangað. Annars hefði þetta alveg eins getað verið eitthvað oná brauð (hefði svosum alveg geta verið eitthvað oná brauð sem var geymt 3 klukkutíma í burtu). Komumst að því eftir tæplega fjögurra tíma akstur að Tynset er bær. Fengum líka að vita það þegar við vorum komin á staðinn að þessi tiltekni staður er með þeim kaldari á landinu. Það var 12 stiga frost. Allar upplýsingar voru gefnar mað stysta mögulega fyrirvara. Fengum t.d. ekkert að vita klukkan hvað neitt ætti að ske fyrr en það gerðist. Dæmi: “Jæja krakkar. Nú eru tónleikar eftir 5 mínútur. Allir tilbúnir?” Mjög spennandi allt saman. Þetta varð langur dagur. Keyrt í 4+3 tíma (af einhverjum ástæðum tók klukkutíma styttri tíma að keyra til baka). Og spilaðir tvennir tónleikar í millitíðinni.
Það mest ógnvekjandi við þetta er þó að um mánaðarmótin janúar-febrúar verður farið í 4 eða 5 daga tónleikaferð, og þá verður keyrt svona helmingi meira á hverjum degi (allt að 10 tíma skilst mér) og haldnir fleiri tónleikar. Skil ekki alveg hvernig fólk á að geta lifað það af.
Það er samt óneitanlega mikið stuð að sitja fremst á æfri hæðinni í tveggja hæða rútu. Bjargar algerlega svona löngum ferðalögum. Og við fengum frí í tveim fyrstu tímunum í morgun af því að við komum svo seint heim. Ég þurfti reyndar að mæta í tónsmíðatíma í 1. tíma þannig að ég fékk ekkert frí. En það var nú bara gaman að því.

Fór til Osló á laugardaginn og keypti slatta af jólagjöfum. Og slatta af dóti handa sjálfri mér. Meðal annars skófatnað allra tíma. Held ég eigi varla eftir að skilja þennan skóbúnað við mig það sem eftir lifir vetrar.

Er líka búin að vera dugleg að tónsmíða og sækja um skóla. Búin að senda eina umsókn og sú næsta fer í póst á morgun (vonandi). Tónsmíðaði nýjan 2. kafla í strengjakvartett á sunnudaginn þar sem tónsmíðakennarinn drap þann gamla. Það var reyndar ekki mikill missir. Hann var hundleiðinlegur (fyrsti 2. kaflinn altso).

Friday, November 25, 2005

Löng helgi

Íha. Búin með fyrstu skólaumsóknina. Kannski ekki seinna vænna. Hún á að vera komin í hendur viðkomandi skólayfirvalda fyrir hádegi þann 1. des. Og það er bara bráðum! Þetta er fáránlega fljótt að líða. Alveg að koma jólafrí bara.

Nú er löng helgi framundan (frí bæði laugardag of sunnudag) þannig að margir eru farnir heim. Þ.á.m. allir úr Húsi E nema ég. Partý í Húsi E!

Að öðru leyti er dagskrá næstu daga:
- Laugardagur: Bæjarferð (til Osló). Aðaltilgangur: jólagjafakaup.
- Sunnudagur: Tónsmíða leeeeeeengi og æfa sig soldið á lúðrana.
- Mánudagur: Ferðalag til Tynset. Tilgangur: tónleikahald

Ég veit eiginlega ekkert um Tynset nema að maður er 3 tíma að keyra þangað. Held að þetta sé bær einhversstaðar fyrir norðan. Við leggjum af stað um áttaleytið fyrir hádegi að staðartíma og komum til baka um miðnætti. Í millitíðinni spilum við tvenna tónleika í Tynset. Ég fæ að spila í bæði lúðrasveitinni og stórveitinni á samtals þrjá lúðra. Gaman að því.

Thursday, November 24, 2005

Einhverntímann er allt fyrst

Eða öllu heldur, þessa dagana er margt fyrst. Það er búið að vera viðbjóðslega mikið að gera síðustu dagana og þar af leiðandi ákvað undirrituð að taka til ýmissa misskemmtilegra aðgerða til að laga ástandið. Geðvonska í mínu heilahveli var nefnilega farin að nálgast hættumörk og það var bara tímaspursmál hvenær íbúar Húss E og aðrir nálægir hefðu fengið að kenna rækilega á þessari niðurbældu skapvonsku.

Til eftirtalinna aðgerða hefur verið gripið:

- Búin að hætta í einum kúrsi. Held reyndar að ég hafi gert það einu sinni áður um ævina.
- Búin að segja upp vinnunni, bæði munnlega og skriflega. Hef aldrei áður sagt upp vinnu án þess að ástæðan sé flutningur um fleiri hundruð kílómetra. Og hvað þá á útlensku.
- Er á námskeiði í að segja nei. Aukakúrs í tengslum við tónsmíðanámið sem felst í því að segja nei við öllu. Gengur ágætlega. Samt búin að taka að mér að spila í stórsveitinni aftur síðan ég byrjaði í þessum kúrsi. En búin að segja nei alveg ótrúlega oft síðustu 2 dagana.

Var þreytt í dag. Ákvað að sofa milli 5 og 7. Það gekk mjög vel. Svo vel að þegar ég vaknaði við vekjaraklukkuna klukkan 7 (19:00) hafði ég ekki hugmynd um hvort það var morgun eða kvöld, hvaða dagur var eða ár eða nokkrar aðrar tímasetningar. Var þó nokk með það á hreinu hver og hvar ég var. Það liðu örugglega 5-10 mínútur áður en ég fékk botn í tímamálin. Mjög sérkennileg lífsreynsla.

Er aðallega búin að vera að undirbúa skólaumsóknir síðustu dagana (svona þegar ég er ekki í tímum, sem er næstum alltaf). Það er gríðarlegt stuð. En alveg fáránlega mikið sem maður þarf að gera í umsóknarferlinu í sumum skólum. Þar má nefna margra klukkutíma tónfræðapróf (og þar erum við að tala um alveg 10-12 tíma) auk alls sem þarf að spila á bæði aðalhljóðfæri og píanó. Og svona líka fáránlega erfið lög og alla mögulega tónstiga í mörgum áttundum með báðum höndum á píanó. Maður hlýtur eiginlega að spyrja sig, hvað á maður eiginlega að læra þegar maður er kominn inn í skólann ef maður kann allt þegar maður sækir um?

Saturday, November 19, 2005

Hámark nördismans

er án efa að spila í lúðrasveitarkeppni milli nokkurra lúðrasveita í litlum bæjum í Noregi. Keppnin var afmörkuð við mjög takmarkað svæði í austurhluta Noregs. Í keppninni tóku þátt 13 lúðrasveitir (meðalaldur keppenda var í kringum 57 ár) og nokkur brassbönd (sem eru lúðrasveitir án tréblásturshljóðfæra). Skólinn minn sendi "lið" í báðar "deildir" keppninnar. Brassbandið vann en lúðrasveitin lenti bara í 3. sæti, sem voru gífurleg vonbrigði (lúðrasveitarkallinn var alveg miður sín) þar sem lúðrasveitin héðan hefur unnið þessa tilteknu keppni síðustu 4 árin. Ástæða "tapsins" er sennilega sú að meðlimir hljómsveitarinnar voru ekki allir að spila jafn hratt í nokkra takta í einu verkinu. Sumir voru komnir aðeins á undan (hafa sennilega misskilið keppnina aðeins og haldið að maður ætti að reyna að vera fyrstur að klára lagið).
Ein básúnustelpan í brassbandinu fékk sólistaverðlaun fyrir sitt framlag. Hún er kúl. Ætlar að sækja um í allavega einum tónlistarháskóla en er eiginlega búin að ákveða að læra eitthvað allt annað (sem ég man ekki hvað var akkúrat þessa stundina) þannig að hún kemur sennilega til með að afþakka boð um skólavist ef hún kemst inn. Í gær spurði hún mig einmitt hvort ég væri til í að semja lag fyrir brasskvintett. Og það ætla ég að gera um leið og ég er búin með strengjakvartettinn.

Hápunktur dagsins var tvímælalaust að fá að sitja fremst á efri hæðinni í tveggja hæða rútu. Það var sko ekkert smá gaman.

Friday, November 18, 2005

Nokkrar staðreyndir um hollustu

Það er ekki allur matur jafn hollur og margir vilja halda fram.
Hér eru nokkur dæmi um fæðu sem flestir telja holla en eru í raun megnasta óhollusta:
- Mjólk
- Soðið grænmeti
- Soðinn fiskur
- Ananas

Þetta eru hins vegar fæður sem flestir telja óhollar en eru meinhollar:
- Kaffi
- Súkkulaði
- Kokteilsósa
- Sulta

Og hér eru nokkur dæmi um baneitruð efni sem sumt fólk borðar:
- Diet kók
- Allar aðrar drykkjarvörur með forskeytinu “diet”
- Fiskbúðingur
- Hlaup

Tekið skal fram að þessar staðreyndir eru byggðar á áreiðanlegum rannsóknum.

Thursday, November 17, 2005

Hollráð um megrun

Það er búið að vera ansi líflegt á svæðinu síðustu daga. Nema á þriðjudaginn. Þá var meirihluti nemenda skólans að kynna sér starfsemi tónlistarháskóla nokkurs í Osló. Þar fengu hugsanlegir tilvonandi umsækjendur að vita allt mögulegt um starfsemi skólans og einnig var boðið upp á svokölluð “masterklöss” fyrir þá sem vildu taka þátt í slíku. Ég spilaði fyrir saxófónkennslukonu sem var mjög flink í að kenna (agalega mikil gribba samt) og svo hitti ég danskan tónsmíðakennara sem hafði líka ýmislegt áhugavert til málanna að leggja (og leit út eins og jólasveinninn). Hugsa að ég sæki um þessi nám í skólanum fyrir næsta ár. Á þessum kynningardegi voru allir hvattir til að sækja um, en um leið var þess getið að eiginlega enginn væri tekinn inn í skólann. Spes.

Í gær voru þrennir tónleikar hér í skólanum. 2 skólar sóttu okku heim og buðu upp á afþreyingu í formi tónlistar og þjóðdansa, auk hinna vikulegu nemendatónleika. Það var lítið annað gert þann daginn en setið á tónleikum, sem var alveg ágætt.

Í dag fór ég í saxófóntíma og spilaði ekkert. Held að slíkt hafi aldrei gerst áður. Var bara eitthvað að spjalla um mikilvæga hluti á þessu stigi málsins (kom sér reyndar ágætlega þar sem tími til æfinga hefur verið af skornum skammti síðustu dagana).

Í næstu viku á Hús E að sjá um morgunskemmtan. Það þýðir að við eigum að koma með skemmtiefni í 5-15 mínútur 2 morgna í vikunni. Annan þessara morgna ætlum við að vera með leikrit sem gerist neðansjávar. Ég á að leika krossfisk og hákarl. Hinn morguninn er hugmyndin að kynna nemendum nokkrar mikilvægar staðreyndir um lifnaðarhætti Íslendinga (og jafnvel smá um Færeyjar). Segi betur frá því síðar.

Er annars farin að taka upp á því að borða alveg óheyrilega mikið. Fékk þessa spurningu frá einni stelpu í dag: “Af hverju ert þú ekki feit? Þú borðar alveg fáránlega mikið og stundar ekki líkamsrækt af neinu tagi.” Mín kenning er sú að líkamsrækt sé hreinlega ekki eins holl og menn vilja ætla. Hins vegar er afar megrandi að sofa sem mest. Maður borðar ekki á meðan maður sefur. Heilráð til megrunarsinna er því: Hvernig væri nú bara að leggja sig aðeins (eða sofa lengur á morgnana) í staðin fyrir þessa endalausu líkamsrækt. Jújú, margir vilja vera í góðu líkamlegu formi. En hvað hefur það upp á sig? Fyrir mína parta vil ég segja eftirfarandi: Ég vil frekar deyja úr kransæðastíflu á miðjum aldri en enda snarrugluð á stofnun og lifa lengur en góðu hófi gegnir, og án alls gagns fyrir aðrar lifandi manneskjur (nema þá kannske til að skapa atvinnu).
Þetta var speki dagsins.

Saturday, November 12, 2005

Ný hljómsveit

Í morgun var stofnuð ný hljómsveit hér í skólanum. Norska klósettsinfóníuhljómsveitin. Nú þegar hefur verið ákveðið að flytja fiðludúett eftir Bach, útsett fyrir tvö klósett í e-moll. Einnig er meiningin að flytja Toccötu og fúgu eftir sama tónskáld (upphaflega samið fyrir orgel) og klarinettukonsert Mozarts. Ekki hefur endanlega verið ákveðið hvaða stöðu hver spilar, en allar stöður í sveitinni eru afar eftirsóknarverðar. S.s. 1. niðursturtari. Markmið sveitarinnar er að fá að koma fram á nútímatónlistarhátíð í Osló á næsta ári (Ultima festival). Meðlimir sveitarinnar telja það mjög mikilvægt að æfa ekki of mikið.

Eftir hádegið var svo tónlistarsögunámskeið þar sem klassíska tímabilið var til umfjöllunar. Meðal hlustunarefnis var trompetkonsert Haydns, spilaður á bílhorn. Ansi skemmtileg útfærsla á verkinu myndi ég segja.

Annars var merkisviðburður dagsins án efa tónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja sem haldnir voru í dag. Þar hefði ég gjarnan viljað vera, en var óvart stödd í allt öðru útlandi. Bið ég því kærlega að heilsa eyjaskeggjum og óska hlutaðeigandi góðrar skemmtunar í kveld. Ég verð bara með næst. Hef reyndar verið ótrúlega dugleg að heimsækja eyjuna fögru að undanförnu. Búin að fara þrisvar á undanförnum 8 mánuðum. Geri aðrir betur.

Thursday, November 10, 2005

Kæru Íslendingar

Ég mæli eindregið með því að klukkan verði færð fram um einn tíma yfir vetrarmánuðina eins og gert er í nágrannalöndunum. Held að þetta gæti lækkað þunglyndislyfjakostnað Íslendinga til muna.
Helsti kosturinn við þetta fyrirkomulag er að það er orðið nokkuð bjart eldsnemma á morgnana. Á móti kemur nátttúrulega að kvöldið verður ansi langt. En það getur nú bara verið gaman að því.
Aðalmálið er þetta: Það er ekki bara bjart úti akkúrat meðan allflestir eru í vinnunni heldur líka þegar fólk er á leiðinni í vinnuna (og jafnvel þegar það vaknar á morgnana).

Veit einhver af hverju klukkunni er ekki breytt einmitt í landinu þar sem fólk þarf kannske mest á því að halda?

Jæja. Best að farað leyta að hljóðfæri til að spila á í þessari blessuðu stórsveit (tenór-sax). Eina æfingin sem ég fæ með bandinu er nefnilega í fyrramálið.
Gaman að því hvað maður er eitthvað afslappaður þessa dagana. En til hvers að vera að stressa sig? Þetta fer aldrei verr en illa.

Tuesday, November 08, 2005

Skólar

Jæja. Þá er komið að því að fara að pæla í skólum Þ.e. hvaða skóla á að sækja um fyrir næsta árið. Eða maður getur farið hina leiðina. Sótt um í alla skóla sem manni mögulega dettur í hug að sækja um í og sjá svo til hvað kemur út úr því. Gott plan. Þá þarf ég ekki að pæla meira í því í bili.

Á næstu vikum koma gestir frá hinum ýmsustu útlenskum tónlistarháskólum til að kynna starfsemina. Í dag voru nokkrir krakkar frá skólanum í Árósum. Þau spiluðu agalega fínt á básúnurnar sínar. Seinna í vikunni koma svo einhverjir frá Skotlandi, og næstu vikurnar eftir það koma einhverjir nánast á hverjum degi, þannig að það ætti ekki að vera mikið mál að finna einhverja skóla. Mig langar samt eiginlega ekki til norður Noregs (of kalt) eða Bergen (alltaf rigning). Allt annað kemur til greina. Þá er bara að sækja um í þessa hundruðir skóla sem eftir eru. Alveg óþolandi að þurfa eitthvað að pæla í þessu svona löngu fyrirfram. Næstum heilu ári áður en næsta skólaár hefst. Best væri náttúrulega að ákveða þetta bara daginn áður en skólinn byrjar.

Áðan var lúðrasveitahittingur hér. Það komu tvær lúðrasveitir í heimsókn. Ein sem æfir hinumegin við götuna og önnur sem er líka í göngufæri við skólann. Alveg ótrúlegt hvað fólk nennir að spila mikið í lúðrasveitum hérna. Og þessi líka leiðinlegu lögin. Eiginlega öll lögin sem hinar sveitirnar spiluðu voru alveg eins. Held að okkar lög hafi verið meira mismunandi, eða kannski er maður bara hættur að taka eftir því að lögin sem maður spilar eru öll eins. Hvað veit maður. Þessi hittingur var eins konar æfing fyrir lúðrasveitarkeppni sem er eftir 10 daga. Einhverra hluta vegna fæ ég ótrúlega mikinn bjánahroll þegar ég hugsa til þess að vera að fara að taka þátt í slíku. Hvað er hægt að vera mikill nörd! En hér í landi lúðrasveita virðist þetta bara vera þokkalega kúl.

Einhvern vegin hefur það svo lekið út í lúðrasveitarkallinn að ég hef samið 1 fyrir lúðrasveit. Hann vill náttúrulega fá það til spilunar. Og hann vill að ég stjórni því sjálf. Veit nú ekki alveg um það, en og þó. Verður hálf óglatt af tilhugsununni um að þurfa að spila það enn einu sinni þannig að kannski er ágætis tilbreyting að stjórna í staðinn. Hef allavega tekið þetta mál til umhugsunar.

Um næstu helgi fæ ég sennilega að spila með Stórsveit hússins. Vantar staðgengil fyrir einn spilarann. Það er ágætis tilbreyting frá lúðrasveitardæminu. Undarlegt samt hvað djassnemendur eru oft með leiðinlegt viðhorf gagnvart annarri tegund tónlistar. Eru að öllu jöfnu alfarið á móti því að spila með í annars konar samspilshópum nema þeir séu hreinlega neyddir til þess. Þetta þykir mér í meira lagi undarlegt. Auðvitað hlýtur maður að vilja vera með í sem flestu. Er það ekki?

Sunday, November 06, 2005

Helgin

var með órólegra móti. Hitti fullt af útlenskum foreldrum, öfum, ömmum og systkinum. Ein stelpan var svo góð að lána mér mömmu sína til bráðabirgða, þannig að ég átti líka eitt foreldr á fjölskyldudaginn. Það var semsagt stappfullt af fólki hér um helgina, og maraþontónleikar meira eða minna frá föstudagskvöldi fram á laugardagskvöld.

Eftir að flestar fjölskyldur höfðu haldið heim á leið ákvað meirihluti íbúa Húss E og ýmsir fleiri nemendur skólans að halda í miðbæinn og kíkja aðeins í glas. Það endaði á því að verða skuggalega líkt venjulegu íslensku unglingafylleríi. Held ég hafi aldrei séð jafn mörg magainnhöld koma út öfuga leið. Og merkilegt nokk, þá ákvað minn magi að vera algerlega til friðs. Aðrar stúlkur úr Húsi E fóru hins vegar frekar illa út úr því og skildu við áður etnar fæðutegundir á hinum ólíklegustu stöðum. Kvöldið endaði á furðulegan hátt á Shellstöð að þrífa leigubíl um fjögurleytið í morgun.

Sé fram á að næsta vika verði með venjulegra móti, sem er gott. Þá finn ég kannske tíma til að æfa mig á lúðrana og tónsmíða. En á morgun er það vinnan (andvarp). Er komin með vinnuleiða á háu stigi. Hugsa að ég fái mér vinnu á skrifstofu þegar ég verð stór. Helst við að umslaga allan daginn.

Wednesday, November 02, 2005

Fjölskyldudagurinn

er á laugardaginn. Þá koma pabbar, mömmur og aðrir fjölskyldumeðlimir nemenda í heimsókn til að sjá hvað krakkarnir eru búnir að vera duglegir það sem af er vetri. Að þessu tilefni eru u.þ.b. milljón tónleikar hér í skólanum og næsta nágreni á föstudagskvöld og laugardag. Ykkur er velkomið að kíkja við ef þið eigið leið hjá.
Það snýst semsagt allt um þetta þessa vikuna. Flækjast um næsta nágreni til að vera á generalprufum á öllum þessum milljón tónleikum á réttum stöðum. Er engan vegin með það á hreinu hvaða tónleikar eru hvenær, eða hvar á að syngja og hvar á að spila á hljóðfærin sín. Veit bara að þetta er of margt til að ég ráði við að muna þetta allt.

Er farin að hallast að því að Útlendingar eigi oftar afmæli en Íslendingar. Það eru allavega búin að vera skuggalega mörg afmæli í Húsi E síðan skólinn byrjaði. Og það eru afmæli bæði í dag og á morgun. Til hamingju með það Espen og Bente. Það mest pirrandi við þessa útlensku afmælisdaga er að þá eiga allir að vakna eldsnemma og syngja afmælislag fyrir afmælisbarnið (og svo virðist sem hér séu í notkun óendanlega mörg afmælislög, er búin að heyra a.m.k. 3). Sem betur fer á ég ekki afmæli á skólatíma. Ég vil sko sofa eins lengi og ég vil á mínu afmæli, og finnst það alveg lágmarks tillitssemi að fólk sé ekki að vekja mann eldsnemma einmitt þann dag. Annars er ágætt þegar maður er vaknaður svona eldsnemma á afmælisdögunum og búinn að syngja afmælislag. Þá myndast hálfgerð partýstemming í Húsi E.

Það er búið að vera myrkur og rigning hér í útlandinu síðustu dagana en það birti loksins í dag, einni stelpu í Húsi E til mikillar undrunar. Hún leit út um gluggann í morgun og sagði í forundran: “Nei, hva, bara bjart úti í dag!”

Gleðilegan nóvember!