Friday, February 29, 2008

Gleðilegan aukadag

Ef það er einhver dagur sem maður má eyða í vitleysu, er það dagurinn í dag.
Hann er auka.

Fullt að gerast þessa dagana:
-Endalaust mörg lúðra-dæmi (æfingar og keppnir) fram yfir næstu helgi.
-Vetrar(ó)hljóðahátíð í skólanum, sem ég reyndar hundsaði algerlega undir yfirskini þögulla mótmæla af minni hálfu. Góð hugmynd það. Mótmælti líka smá í sumum tímum í skólanum. Það var sko mótmælavika (bara hjá mér reyndar). Fólk á ekki að fá að vaða uppi með heimskulegar hugmyndir á þess að neinn mótmæli þeim. Já, verkefnið "að-fá-allt-sem-ég-vil-í-skólanum" er komið á fullt skrið.
-Á mánudaginn eru einmitt Tímamótatónleikar áðurnefnds verkefnis. Þá munu tónsmíðanemar leiða saman hesta sína og sýna fram á að þeir geti alveg haldið (vonandi frábærlega vel heppnaða og fjölsótta) tónleika upp á eigin spýtur. Allir að mæta!
Markmiðið er að slíkir tónleikar verði gerðir að skyldufagi, og því fylgi þá aðstoð æðri máttarvalda (yfirmanna tónsmíðadeildar-sem að mínu mati eru engan vegin að standa sig í að kynna starfsemi tónsmíðadeildar fyrir gestum og gangandi) við skipulagningu tónleikanna.

Það er margt í gangi.

Gaman að því.

Monday, February 25, 2008

Skúta

Jæja. Ekki vann Guluhanskalagið. Lagið sem vann er reyndar fínt. Það vantar bara tvennt til að það eigi séns á að fá stig í Útlöndum:
Frumleika og húmor.
En iss. Þetta er hvort eð er bara keppni fyrir kjeeellingar og kynvillinga.

Dreymdi um helgina að ég hefði fengið vinnu við að flytja seglskútu frá Ástralíu til Íslands. Þetta var ekki fíkniefnaskúta, heldur höfðu vel stæð eldri hjón fest kaup í skútunni, og vildu fá hana flutta til Íslands. Mitt verkefni var að vera í skútunni og hjálpa til við siglingar. Siglingakunnátta var ekki skilyrði. Um leið og mér var boðið þettta starf, var mér tjáð að ég færi til Ástralíu á morgun og það átti að taka nokkuð margar vikur að sigla skútunni norður um höf. Frábær vinna!

Ef einhver þarna úti hafði hugsað sér að bjóða mér svona vinnu, þá vil ég biðja viðkomandi að hafa samband.
Ég get samt ekki byrjað á morgun. Þá er skóli. Og lúðratónleikar.

Saturday, February 23, 2008

Guluhanskalagið

Maður má nú ekki láta hjá líða að tjá sig aðeins um júróvisjon, sem er einmitt í kvöld.

Ég ætla að halda með Guluhanskalaginu hans Doktor Gunna. Það er sko laaangbest.

Gleðilegt júróvisjonkvöld.

Wednesday, February 20, 2008

Frí eða ekki frí?

Núna er víst vetrarfrí í skólum Útlandsins. Það hefur af einhverjum ástæðum farið frekar mikið framhjá mér. En mér leiðist allavega ekki á meðan.

Næstu vikurnar mun flest snúast um lúðr. Keppnin eftir fáar vikur, og þangað til verða aukaæfingar og æfingatónleikar ansi stór hluti af daglegu lífi.

Það sem ég ætlaði hins vegar að gera í þessu fríi var að ná vinna upp verkefni í þeim fögum sem ég lenti eftirá í, vegna síðustu Íslandsfarar. Það gengur hægt. Vonast samt til að vera búin að ná mér nokkuð vel á strik á mánudaginn, þó dagarnir séu allir að fara í eitthvað annað.

Dagurinn í dag hvarf nánast í að laga nokkur smáatriði í einu lúðralagi. Þurfti að breyta öllum pörtum eitthvað smávegis, og það tók óhuggulega langan tíma. Smámunasemi mín í partagerð er farin að jaðra við geðsýki.
Þannig að ef þú er tónskáld og vantar starfskraft til að gera parta, þá er ég klárlega rétta manneskjan í starfið (já, mig vantar vinnu í sumar...)

Verkefnið "Að-fá-allt-sem-ég-vil-í-skólanum" gengur ágætlega. Er búin að fara í nemdendaviðtal (þar sem ég kvartaði yfir öllu mögulegu og ómögulegu), mæta á fund í Ráðinu og fá mér sæti í nefnd sem hefur það að markmiði að hefja skipulegt samstarf milli tónsmíðanema og hljóðfæraleikaranema. Það er einmitt eitthvað sem hefði átt að gerast um leið og skólinn var stofnaður. Finnst alger óþarfi að stofna einhverja nefnd um málið. Ég veit alveg hvernig á að gera þetta og finnst alveg óþarfi að ræða það neitt nánar (því auðvitað á ég að fá að ráða öllu sem ég vil, eins og sjá má í titli verkefnisins). En að öllu gamni slepptu, þá finnst mér svona fundir í nefndum og ráðum oft vera ansi mikil tímasóun. Alltof mikill tími í að tala um að gera hitt og þetta, í staðin fyrir að drífa bara í hlutunum.

Nóg að gera. Spurning um að skipuleggja sig aðeins betur.

Thursday, February 14, 2008

Orð dagsins

er "reifur". Sbr. að vera glaður og reifur.

Hvað þýðir eiginlega reifur?

Og hvernig teljið þið, lesendur góðir, að orð þetta útleggist á erlendu tungumáli (engilsaxnesku eða norsku)?

Monday, February 11, 2008

Núlifandi

Tókst um helgina að ná upp töpuðum svefni og vel það. Það var gott.

Fór í tréblásarahóptíma í dag. Það var stuð.
Eftir að verkið mitt var spilað fór í gang smá umræða um kosti þess að spila verk eftir núlifandi tónskáld. Þá er hægt að spurja það um ýmsa hluti og þannig. En tónskáld flestra verka sem tekin eru til flutnings eru jú dáin.

Í kjölfarið á þessari umræðu var mér óskað til hamingju með að vera núlifandi.

Þetta er með sérstökustu hamingjuóskum sem ég hef fengið.

Saturday, February 09, 2008

Stundum borgar sig að tuða

Það er eitt frábært við að vera fáránlega þreyttur í einn dag. Í marga daga á eftir er ekkert mál að vakna eldsnemma á morgnana, hoppa fram úr rúminu og segja: “Iss, maður hefur nú verið þreyttari en þetta” og hlæja stórkallalega. Þannig er vikan búin að vera. Og það er ekki slæmt skal ég segja ykkur.

Er ekkert eins mikið á eftir í skólanum og ég hélt ég myndi vera eftir fjarveruna, og það er heilmargt jákvætt í gangi.
Eins og glöggir lesendur muna kannski, fór ég á fund með tónsmíðadeildarráði skömmu áður en ég yfirgaf landið, og tuðaði talsvert. Meðan ég var fjarverandi komst það nokkurnvegin á hreint að tvennt af þessu þrenna sem ég tuðaði yfir fæ ég að gera án frekara tuðs. Á næsta ári fæ ég semsagt að læra á lúður og taka kúrs í norskri þjóðlagatónlist. Ennfremur var boðaður nýr fundur með kammermúsíkfólki. Sá fundur verður strax í næstu viku.
Það borgar sig greinilega að tuða hér á bæ. Tónsmíðadeildarráðsfólkið fær því stórt hrós!

Var á æfingu með tveimur drengjum sem ætla að spila verk eftir mig í tréblásarahóptíma (eins konar masterklass) á mánudaginn, og verður það að teljast talsverður sigur þegar hugsað er til þess hvað það er fáránlega erfitt að fá flutt verk eftir sig innan skólans.

Fór á tónleika með stórsveit Benna Hemm Hemm í vikunni. Tónleikarnir fóru fram á leynilegasta bar sem ég hef nokkru sinni fundið. Hélt að það myndu nú ekki margir mæta vegna staðsetningar á öldurhúsi þessu (inní skoti inní porti og engan vegin hægt að sjá eða heyra frá götunni að þarna væri eitthvað í gangi). En þar skjátlaðist mér sem betur fer. Kráin átti sér greinilega dágóðan fastakúnnahóp sem lét sig ekki vanta á þennan viðburð.
Vil þakka stórsveitar-drengjunum fyrir afar skemmtilega kvöldstund.

Wednesday, February 06, 2008

Ferðalagið

Helstu afrek og atburðir – í tímaröð

-Tók að mér forfallakennslu í heilan dag. Gekk furðuvel miðað við það að ég hef ekki kennt neinum neitt í nokkur ár.

-Komst í Sveitina með dyggri aðstoð Björgunarsveitar Þorlákshafnar. Þeir skutluðu okkur síðasta spölinn, sem var ófær fyrir rútuna (og flesta aðra bíla). Feiknastuð að rúnta í björgunarsveitarbíl.
Fróðleiksmoli ferðarinnar: Hummerjeppar virka ekki sérlega við íslenskar aðstæður (hann festi sig), en eru víst góðir í eyðimerkurakstri.

-Náðum ekkert að æfa fyrsta kvöldið í Sveitinni vegna óvenjulangs ferðatíma, en gátum þó gert klárt fyrir æfingar næsta dags. Þær æfingar gengu alveg ágætlega. Mér tókst reyndar ekki alveg að klára síðustu æfingu dagsins. Var orðið ansi óglatt þegar um hálftími var eftir. Eyddi kveldinu og nóttinni í að gubba meiru en ég hélt að væri pláss fyrir í einum maga, og liggja í hitamóki. Gallar ælupestar eru augljósir, en kostirnir er þessir:
1. Þær ganga að öllu jöfnu fljótt yfir.
2. Maður fær ágætis forskot í megrunarkeppninni.
Var orðin góð morguninn eftir og gat haldið áfram að æfa eins og ekkert hefði í skorist.

-Eftir Sveitaferðina var orðið ljóst að líkaminn hafði ákveðið að taka upp sitt eigið veðrakerfi sem svipaði mjög til þess sem var við lýði utandyra í það og það skiptið. Eftir stormasama helgi tók við kuldakast. Hitastig bæði innan líkama og utan var því lægra en eðlilegt getur talist. Og tók það nokkra daga fyrir líkamann að hætta að herma eftir veðurfarinu.

-Þremur dögum síðar tókst að drífa sig undan sænginni og mæta á mikilvægan leikritunarfund með Sigguláru og leggja drög að frábæru barnaleikriti sem verður vonandi tilbúið í sumar.

-Tveimur dögum þarsíðar fékk ég upphringu eftir um eins tíma nætursvefn þar sem téð Siggalára var á barmi barnseignar, en barnapíurnar sem ætluðu að taka að sér þau börn sem þegar voru fædd, voru óvart fjarri góðu gamni. Ég dreif mig því á stað í gegnum miðbæinn (eftir árangurslausar tilraunir til að ná í leigubíl. Þeir hafa sennilega flestir verið í því að skutla fullu fólki í miðbæinn. Enda laugardagskvöld) og þótti ekki sérlega geðslegt. Fullt fólk er ógeðslegt í augum bláedrú og hálfsofandi fólks á hraðferð. Þegar barnapíustörfum var lokið, um tveimur tímum síðar (þegar næstu barnapíur tóku við), ákvað ég að forðast fjölmennið og ganga frekar í gegnum skuggalegar götur Þingholtanna. Örugglega stórhættulegt, en þess virði að sleppa við ógeðslega fulla fólkið sem gubbar á götuna, hefur hátt og kann ekki að klæða sig.

-Tónleikar Lúðrasveitarinnar voru daginn eftir þessar ósléttu næturfarir. Gekk alveg prýðilega og Útvarpið mætti á svæðið (öllum að óvörum) og tók upp tónleikana. Yfirileitt hefur einn leikmaður sveitarinnar séð um hljóðritun, og því aldrei verið vandamál að fá afrit að slíku. Spurning hvernig það á eftir að ganga í þetta skiptið.

-Náði að hitta nýjasta einstakling fjölskyldunnar eftir tónleikana og fyrir partýið. Hann er ponsulítill og það heyrist ekki hátt í honum (stór plús það). Meiri upplýsingar um drenginn er að finna á síðu móðurinnar.

-Þá var komið að lokahnykk ferðalagsins. Það var partý sem dróst heldur betur á langinn. Ég endaði á því að fara ekki að sofa áður en ég mætti í flug, og mætti svo beint í skólann þegar í Útlandið var komið. Á fjögurra tíma fyrirlestur um suð. Það var hetjulegt! en ég hef sjaldan verið jafn þreytt og þann daginn...

Monday, February 04, 2008

Þreytt

Meira síðar