Friday, March 31, 2006

Vor?

Einhverra hluta vegna stóð ég í þeirri meiningu að vorið kæmi á undan apríl í Útlandinu. Nú er apríl á morgun og ekkert bólar á vorinu. Í gær var slabb og í dag er frost og snjókoma, þannig að það er frekar hrukkótt að labba úti.

Það eru fáir í skólanum núna. Margir eru á lúðrasveitamóti í Þrándheimi. Örugglega ekki leiðinlegt þar. Svo ekki leiðinlegt að sumir sem spila ekkert á lúður fóru þangað á eigin vegum til að fá að vera með í partýinu á laugardagskvöldið. Það er víst eitthvað ótrúlegt dæmi. En ég verð bara heima í Húsi E. Það er fínt. Finnst ekki það gaman að ferðast og það er langt til Þrándheims.

Thursday, March 30, 2006

Páskafrí og þannig

Og afkastasemin heldur áfram. Nú er ég búin að sækja um íbúð fyrir næsta vetur. Var nefnilega bent á það ítrekað (í síðustu viku) að það væri best að sækja um íbúð STRAX, og það gerði ég (í næstu viku telst sem STRAX í þessu samhengi).

Annars fer nú að styttast í að ég skreppi til Íslands í páskafrí. Að því tilefni auglýsi ég hér með eftir eftirfarandi:
- Einhverjum sem nennir að sækja mig á Keflavíkurflugvöll föstudagskvöldið 7. apríl.
- Gistingu (hugsanlega) fyrstu helgina (ca. 7-10. apríl) sem ég verð í höfuðborg okkar Íslendinga (fer eftir fjölmenni á heimili systir minnar hinnar móðurlegri).
- Fólki sem er til í að gera eitthvað skemmtilegt þessa daga sem ég verð í borg óttans (7.-17. apríl).

Vek ennfremur athygli á því að Austurlandið verður að öllum líklega ekki heimsótt í þessari Íslandsheimsókn. Það verður síðar.

Wednesday, March 29, 2006

Dagur dauðans

var í dag. Spilaði á tveimur tónleikum á þrjú hljóðfæri. Þrjú lög eftir mig voru flutt á þessum tveimur tónleikum, þar af spilaði ég í tveimur. Auk þess fór ég í tónsmíðatíma og var í rosalegu saxófónsamspilsprógrammi í allan dag (þegar ég var ekki að spila á tónleikum). Ótrúlega mikið í gangi akkúrat í dag. Gaman að því. Reikna með því að það verði fleiri svona dagar fyrir lok skólaársins. Varð allt í einu alveg brjálað að gera. Hélt að nú ætti lítið eftir að gerast, en það var greinilega misskilningur. Og svo virðist sem ég geti fengið eins marga tónsmíðatíma og mér sýnist þessa dagana, þó ég sé löngu búin með kvótann. Frábær skóli.

Á morgun verður samt dáldið mikið frí. Það verður fínt.

Held að túba sé algerlega mitt hljóðfæri.

Sunday, March 26, 2006

Helgin

Þessi helgi er búin að vera ansi lífleg í Húsi E. Vinkona litlu stelpunnar var í heimsókn þannig að við vorum níu þessa helgina. Þar sem sjö stelpur koma saman er hávaði ekki mikið undir hættumörkum, þannig að piltarnir sem búa í Húsi E létu ekki mikið sjá sig þessa daga. Við stúlkurnar höfðum það mjög fínt. Hávaðamet var sett á föstudagskvöldið, og mér skilst aftur í nótt. En þá var ég sofandi og heyrði ekki neitt. Ótrúlegt hvað þessar stelpur geta fundið sterka þörf fyrir að öskra þegar þær eru margar saman. Við borðuðum líka ís og horfðum á stelpumynd. Lætin hættu rétt á meðan.

Í kvöld fer ég SNEMMA að sofa. Verð að fara að gera eitthvað að viti í þessum skóla svona undir lokin. Finnst ég reyndar búin að vera dugleg, þegar litið er yfir það sem af er þessu skólaári. Bara spurning um að halda dampi út árið.

Og svo þarf maður að fara að skipuleggja flutninga sumarsins. Alltaf gaman að flytja .......

Úr framtíðinni

Í gærkveld var því fagnað að við höfum fengið nýja klukku í matsalinn. Haldið var upp á það með nokkrum bjórum.

Í nótt ferðaðist ég svo fram í tímann ...... um einn klukkutíma. Og þar er ég enn.

Ég er semsagt orðin tveimur tímum á undan ykkur heima á Fróni.

Wednesday, March 22, 2006

Undur og stórmerki

Í dag fengum við nýja klukku í mötuneytið. Hún er svört.

Og ég komst inn í skólann í Osló.

Ótrúlegt þegar það gerist svona margt á einum degi.

Tuesday, March 21, 2006

Þekktur slagari

Ostalagið fer að verða þekktur slagari í Útlandinu. Fólk farið að biðja um að fá það keypt fyrir hinar og þessar lúð(r)asveitir. Verst að það er ekki enn komið á slíkt form .... né heldur nokkuð annað sem ég er búin að semja. Spurning um að gera eitthvað í þeim málum bráðlega. Nenni því bara aldrei, og verð alltaf óendanlega pirruð þegar ég man að ég hef ekki hugmynd um hvað ég þarf að gera – á hvers lags formi þarf að skila þessu inn.

Monday, March 20, 2006

Dagar stórra hljóðfæra

Í gær eyddi ég ótrúlega löngum tíma í að leita að baritón-saxófóni. Maður skylda ætla að það væri hljóðfæri sem ekki er erfitt að finna. Ekki heimsins minnsta hljóðfæri. En það tók dágóða stund, þó ég nyti hljálpar tveggja aðila. Hljóðfærið fannst á endanum inni á kennarastofu. Einhver djassaulinn hafði skilið það eftir einhversstaðar í reiðileysi svo einhver kennarinn endaði á því að forða því frá pirruðu skúringafólki. Að því loknu hjálpaði ég minnstu stelpunni í Húsi E að ákveða hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór (í staðin fyrir hjálpina við leitina). Það gekk bara vel og tók styttri tíma en að finna lúðurinn.

Í dag er ég búin að spila á bæði baritón-saxinn og túbuna. Reikna með að það verði gert dálítið af því að spila á stóru hljóðfærin næstu daga og vikur.

Það er kúl að spila á stór hljóðfæri.

Sunday, March 19, 2006

Hin ég

Í gær var partý í sveitinni. Agalega huggulegur partýstaður í litlu félagshemili lengst inni í skógi. Flestir skemmtu sér hið besta en sumir gubbuðu. Ein ágæt vinkona mín eyddi dágóðum tíma hálf ofaní klósettinu. Ég og hin ég vorum duglegar að skiptast á að draga hana upp úr því.

“Hin ég” er stelpan í skólanum sem lítur út alveg eins og ég. Systir hennar var í heimsókn í gær. Hún lítur ekkert út eins og við. “Hin ég” heitir Sara og spilar á trompet. Mér finnst gaman að hafa einhvern sem er alveg eins og ég, en fyrsta daginn sem ég var í skólanum var þetta frekar skrítið. Maður var nýfluttur í Útland (og var hálfruglaður og út úr heiminum eftir flutningana), skildi ekki mikið og byrjaði skólaárið á kóræfingu. Á þessari kóræfingu lenti ég í því að standa beint fyrir aftan stelpuna sem var alveg eins og ég. Hugsanir á borð við: “Hei! Þarna er ég! Nei, það getur ekki verið. Ég er hér.” Voru ekki óalgengar í mínum haus þann daginn. En nú er þetta bara kúl.

Er þessa dagana að semja lag fyrir”hina mig” og klarinettustelpuna sem gubbaði. Það heitir “Tveir bláir sokkar”. Klarinettustelpan valdi nafnið.

Það er alltaf gaman að mæta í morgunmat daginn eftir svona partý. Ótrúlega mikið af ljósgrænum andlitum sem verða á vegi manns.

Farin aftur að sofa.

Friday, March 17, 2006

Venjulegir skóladagar (loksins)

Nú er flest komið aftur í eðlilegt horf hér á bæ. Flestir komnir til baka úr prufuspilum þannig að nú eru ótrúlega margir í þessum skóla allt í einu.

Fram að páskum eru nokkrir tónleikar og fáránlega margar kóræfingar. Við verðum nefnilega með kórtónleika í Budapest í vikunni eftir páska. Það verða líka kórtónleikar hér í næstu kirkju rétt fyrir páskafríið.

Meðal annarra tónleika má nefna lúð(r)asveitartónleika þar sem m.a. verður spilaður einn kafli úr ostalaginu. Ég lánaði lúðrasveitarkallinum ostabókina á ensku. Hann var svo hrifinn af henni að hann las hana líka á sænsku og fann út að það er til heimasíða sem fjallar um sama efni. Er ansi hrædd um að hann sé búinn að stúdera bókina mun betur en ég gerði áður en ég samdi lagið. Það er allavega ekki hægt að segja annað en að hann sé áhugasamur um eigið starf kallinn.

Það eru líka 2-3 stórsveitargigg fyrir páska og nú fæ ég að spila á baritón-saxinn. Venjulega fæ ég bara að spila með stórsvetinni ef einhver er slasaður eða ekki á svæðinu, en nú bar svo við að strákurinn sem átti að spila á baritón-saxinn fram að páskum neitaði að spila á akkúrat það hljóðfæri. Honum var vikið tímabundið úr sveitinni. Það er nú ekki í lagi með þetta djasslið. Neita að spila á kúlasta hljóðfærið í bandinu.

Wednesday, March 15, 2006

Þetta var nú gaman

Þá er ég búin í prófunum. Fannst mér bara ganga ágætlega. Komst samt ekki í 2. umferð á sax. Fór svo í tónsmíðaprófið í gær. Og ÞAÐ var gaman! Fékk að gera allskonar skemmtilegt. T.d. spila eldfjall (eða eitthvað sem leit soldið út eins og eldfjall) og teikna mynd af nútímatónverki. Bað reyndar sjálf um að fá að teikna. Það voru 5 skrítnir kallar sem sátu inni í prófinu. Ég sagði þeim nokkrar skemmtilegar sögur (m.a. um ostalagið) og þeir flissuðu meira eða minna allan tímann. Nú hef ég ákveðið að sækja um aftur í tónsmíðadeildina þarna á næsta ári ef ég kemst ekki inn núna, bara að fara í inntökuprófið var alveg fáránlega gaman. Fæ sennilega að vita í næstu viku hvort ég komist að. Reikna ekki með því reyndar, veit að það komust margir inn í fyrra (alveg 4, venjulega taka þeir inn 1-2, sem þýðir að það er ekki einu sinni víst að þeir taki inn neinn þetta árið) og það voru 11 að taka prófið í ár.

Hitti alveg nokkra sem ég þekkti sem voru líka í inntökuprófum þarna, og eru ekki í skóla með mér núna. Það var dáldið gaman af því að ég hélt að ég þekkti enga aðra útlendinga en þá sem eru hér í skólanum. Svona er að vera gamall. Maður hefur hitt marga sem maður er búinn að gleyma.

Í dag stóð mér til boða að skreppa með til Svíðþjóðar í þeim tilgangi að smygla bifreið og áfengi til landsins. Ákvað að afþakka það góða boð þar sem ég er orðin ansi þreytt á ferðalögum núna. Vonast til að geta varið öllum mínum tíma fram að páskafríi innan skólasvæðisins.

Sunday, March 12, 2006

Partý og prufuspil

Í gærkveld héldu nokkrar stúlkur úr Húsi E út á lífið. Ég var nú frekar róleg og fór heim um 3 leytið. En hinar voru að tínast heim alveg fram undir hádegi í dag. Litlu stelpurnar í Húsinu (þessar tvær sem eru minni en ég) eiga tvímælalaust vinninginn þegar kemur að úthaldi þessa dagana. Mætti þeim í dyrunum þegar ég var á leiðinni í morgunmat. Þá voru þær að koma úr partýi. Höfðu lent í samkvæmi í heimahúsi ásamt fleirum úr skólanum eftir að skemmtistaðir bæjarins voru yfirgefnir. Komu heim með nokkra minjagripi, s.s. plakat, fána, keilu (svona alvöru “bowling” keilu) og vínflösku. Þessar sömu litlu stelpur voru á skíðum allan föstudaginn, vöknuðu eldsnemma í gærmorgun til að fara í leikfimi, og fara á morgun í þriggja daga skíða/hyttuferð með þroskaheftu krökkunum. Já, þetta kalla ég sko úthald í lagi.

Annars fór ég í Oslóarferð nr. 1 (af a.m.k. 3 á einni viku) á föstudaginn. Það var gaman. Fór í saxófóntíma og hitti tvo stráka sem eru líka að fara að prufuspila á morgun. Ansi hreint huggulegir piltar. Við komumst að því að það eru allavega 4 að prufupila á saxófón (við 3 og 1 í viðbót miðað við tímasetningarnar sem við fengum). En sennilega eru eitthvað fleiri.

Er semsagt að fara í saxófónprufuspilið á morgun og tónsmíðaprófið á þriðjudaginn og kannski aftur í saxófónpróf á miðvikudaginn ef ég kemst í “3. umferð”. Hlakka ótrúlega til að fara í öll þessi próf. Þetta verður stuð!

Gangi mér vel.

Thursday, March 09, 2006

Hvar verður ÞÚ um páskana?

Leikskóladæmið gekk ótrúlega vel. Fékk að spila á túbuna og allt. Komst að því að litlir krakkar taka ótrúlega lítið pláss. Og það getur verið ansi strembið að búa til 40 mínútna “show” á þremur dögum.

Annars eru næstu dagar, dagar ferðalaga (til Osló). Fer til Osló á morgun í saxófóntíma, og svo á mánudag og þriðjudag í inntökupróf. Að því loku vonast ég til að þurfa ekki að yfirgefa skólasvæðið fram að páskafríi.

Talandi um páskafrí. Nú hafði ég hugsað mér að eyða páskafríinu í höfuðborginni vegna tónleka sem áttu að vera 12. apríl. Þeim tónleikum hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna Kínaferða ýmissa aðila. Þannig að spurningin er, hvar verður ÞÚ um páskana? Og hvar ætti ég eiginlega að vera? Reykjavík eða Egilsstaðir?

Monday, March 06, 2006

Túbu-Tarzan

Þessa vikuna er leikskólaverkefni í skólanum. Við eigum að búa til 40 mínútna “sýningu” fyrir leikskólabörn á þremur dögum í ca. 10 manna hópum og flytja fyrir nokkur hundruð leikskólabörn á fimmtudaginn. Þetta er bara ansi gaman. Hópurinn minn ákvað að setja upp söngleik sem fjallar um túbu sem er stolið í Afríku og aumingja Túbu-Tarzan sem þarf að leyta að túbunni sinni út um allt, og brestur í söng með mismunandi dýrum í skóginum af minsta tilefni. Ég fæ að leika ljón sem stelur túbu og páfagauk sem spilar á saxófón. Erum reyndar ekki alveg byrjuð að æfa ennþá, en það á að gerast á morgun.

Annars eru rosa fáir hérna. Rúmlega helmingurinn burtu í prufuspilum. Gaman að því.

Athyglisverðasta “kommbakkið” á án efa heimavistarkallinn. Hann er alltaf frekar appelsínugulur. Kom svo núna eftir tveggja vikna frí, og var APPELSÍNUGULUR. Spurning um að eyða aðeins of miklum tíma í sólbaði eða á ljósabekkjum.

Sunday, March 05, 2006

Átt þú ostabókina?

Komin heim frá Svíþjóð.

Öll ferðalög ferðarinnar gengu ótrúlega vel. Engar miklar seinkanir á lestum, en ég held að lestin okkar hafi klesst á eitthvað stórt á leiðinni til Svíþjóðar. Hún var allavega mjög illa farin á trýninu þegar við komum á leiðarenda.
Annars var þetta bara svona ferðalag. Mæli ekkert sérstaklega með því að ferðast til köldu landanna um miðjan vetur, því þar getur verið kalt. Ef þið hins vega hafið gríðarlegan áhuga á að upplifa hríðarbyl og skítakulda í öðru landi, þá er þetta algerlega málið.
Kom á óvart hvað það er mikið af hauskúpubúðum í Gautaborg (búðum sem selja dót með myndum af hauskúpum). Keypti bol í einni slíkri búð þar sem afgreiðslumaðurinn var á að giska 10 ára. Hlýtur að vera ansi kúl að vera 10 og vinna í hauskúpubúð.

Að öðru.

Á einhver þarna úti ostabókin (Hver tók ostinn minn?) á íslensku og er tilbúin/n til að lána mér hana til Noregs á næstunni?