Saturday, September 29, 2007

Auðkenni

Þá er ég búin að taka báða auðkennislyklana í notkun. Íslenska og útlenska. Tókst að fresta því alveg þar til núna að taka íslenska lykilinn í notkun, en nú voru líka komnar hótanir um lokun netbankans, þannig að það var ekki seinna vænna.

Agalega veitir það manni mikla efnahagslega öryggistilfinningu að hafa tvo kubba oní skúffu ... alveg þangað til maður fer í langt ferðalag, gleymir að taka kubbana með, og fær dráttarvexti á allt reikningadraslið.

Thursday, September 27, 2007

Kunnugir útlendingar

Áður en ég flutti til útlanda taldi ég mig ekki þekkja marga erlenda aðila, en síðan ég flutti hef ég rekið mig á að það var ekki alls kostar rétt munað. Það gerist nefnilega reglulega að ég hitti fólk sem ég kynntist í gamla daga (áður en ég fluttist erlendis). Síðustu tvo daga hef ég hitt tvo slíka einstaklinga, sem báðir eru af sænskum uppruna.

Annars vegar saxófónleikara sem tekur þátt í skandinavískum saxófóndögum sem haldnir eru í skólanum mínum þessa dagana. Þeim dreng kynntist ég í norrænni blásarasveit, þar sem hann spilaði jafnan á baritónsaxófóninn (allavega öll þrjú árin sem ég tók þátt í bandinu). Nú stundar hann nám í Danmörku.

Áðan hitti ég svo stúlku sem ég hef hvorki heyrt né séð síðan aldamótaveturinn síðastliðinn. Þann vetur stunduðum við báðar lúðurnám við sama skóla, hjá sama kennara (hmm ... ókei, það er kannski ekki hægt að kalla fagott lúður) og bjuggum báðar á Höfða. Hún bjó í næsta herbergi við mig þennan veturinn og gegndi hlutverki húsprests. Ótrúlega gaman að hitta hana aftur. Hlógum dáldið að því að hvorug okkar hefur breyst neitt á þessum árum (hún er samt orðin alveg þrjátíogeitthvað). Hún lauk meistaranámi í fagottleik frá mínum núverandi skóla eftir einleikaraprófið sitt úr Tónó og áður en ég hóf mitt nám hér á bæ, og er nú orðin virtur fagottleikari í sínu heimalandi.

Í dag barði ég einnig augum mongólskan kór í þjóðbúningum (afar skrautlegt) og heyrði þau syngja nokkur mongólsk dægurleg. Ég þekkti þau ekki (hvorki lögin né kórmeðlimi).

Einnig sat ég fyrirlestur hjá kínverskum prófessor. Á kínversku. Ég þekkti hvorki hann né tungumálið.

Monday, September 24, 2007

Unnar Geir bloggar

Leiðir margra virðast liggja til útlanda þessa dagana.

Nú er Unnar Geir líka kominn til útlands (sama útlands og Sivin bróðir), og er þar með líka farinn að blogga (eins og Sivin). Unnar Geir fær að sjálfsögðu tengil hér til hliðar (eins og Sivin).

Í mínu útlandi gleymdi dagurinn í dag að koma. Þad var dimmt í allan dag, og reyndar í gær líka. Kannski er fyrirbærið "dagur" búið að gleyma mínu útlandi. Það væri fúlt. En vonandi kemur einhverntímann aftur dagur eftir síðasta dag (sem var á laugardaginn).

Friday, September 21, 2007

Sivin bloggar

Þá er Sivin litli bróðir farinn að blogga frá sínu útlandi, og hefur hann fengið tengil hér til hliðar. Fannst svo hálf-asnalegt að skilja elsta systkinið útundan þannig að Hugga systir er líka komin með tengil. En hún byrjaði sko að blogga fyrir löngu.

Thursday, September 20, 2007

Gaman í lúðrasveit

Ekki brilleraði maður á þessum tónleikum (kannski ekki við því að búast eftir eina æfingu, og varla búin að snerta saxófón-lúðurinn í eitt og hálft ár), en enginn stór-skandall svosum. Mikið agalega er gaman að spila á lúður, og félagsskapurinn virðist ekki af verri endanum.

Gaman að því.

Þarf samt greinilega að fara að æfa mig. Var alveg að drepast í kjaftinum eftir tónleikana í gær. Einhverjir vöðvar og ein neðri vör eitthvað farin að gefa sig vegna æfingaskorts. En nú hef ég loksins ástæðu til að æfa mig.

Lúðrasveit er málið.

Wednesday, September 19, 2007

Lúður

Alveg síðan ég flutti hingað í höfuðborg lúðrasveitanna hef ég ætlað mér að spila með einni slíkri. Það hefur þó tafist um rúmlega ár af ýmsum orsökum. Í gær mætti ég loksins á mína fyrstu lúðraæfingu. Fínasta lúðrasveit alveg hreint, sem átti við saxófónleikaraskort að stríða. Spilar erfið lög og allt. Fyrstu tónleikarnir mínir með þessari sveit eru í kvöld. Það fékk ég að vita á æfingunni í gær. Reikna nú ekki með að brillera á þessum tónleikum, en mun gera mitt besta. Æfði mig á lúðurinn í dag og alles.

Á göngu minni í stigagangi skólans í dag, með lúðurinn mér um öxl, mætti ég ókunnri konu sem gaf sig á tal við mig. Samtalið var svona:

Kona: Ert þú Ida?
Ég: Nei.
Kona: Ertu að læra á saxófón hérna.
Ég: Nei, tónsmíðar.
Kona: En ertu til í smá afleysingakennslu á lúður?

Ég afþakkaði þetta atvinnutilboð. En það er semsagt nóg að vera lúðurtöskuberi til að fá slík tilboð. Þá vitiði það. Ef þið eruð atvinnulaus í höfuðborg lúðrasveitanna, þá er nóg að láta sjá sig á almannafæri með lúðurtösku. Þá fær maður vinnu.

Monday, September 17, 2007

Allt gott

Mest lítið að frétta þessa dagana.

Hef ekki rekist á neitt sem er í frásögur færandi uppá síðkastið, en eru ekki einmitt engar fréttir góðar fréttir? Dettur ekki einu sinni neitt í hug sem ég get pirrað mig yfir, og er þá mikið sagt. (Get það samt örugglega á morgun. Þá er tónheyrn. Ætla samt ekki að blogga um það.)

Í dag á herra Sigurjón afmæli. Bið því að heilsa í heiðardalinn.

Wednesday, September 12, 2007

Gítar

Byrjaði í dag að semja lag fyrir gítar og lúður. Þar sem gítarinn minn er annarsstaðar ákvað ég að teikna mynd af gítar mér til aðstoðar. Hún á örugglega eftir að koma sér vel.

Komst að því að ég er ótrúlega góð í hugar-gítarleik. Alveg með hlutina á hreinu. Kannski ekkert skrítið að það sé erfiðara að læra nýja hluti með aldrinum þegar heilinn á manni heldur upp á alls kyns upplýsingar sem hafa ekki verið notaðar í fjölda ára.

En í dag var ég glöð yfir að heilinn hafði geymt þessa kunnáttu.

Sunday, September 09, 2007

Einhverfir skór

Keypti skó í gær, sem eru dulbúnir sem gallabuxur. Það er frekar asnalegt. Maður sér alveg að þetta eru skór en ekki gallabuxur.
Góðir skór engu að síður.

Las Undarlegt háttalag hunds um nótt (á norsku: Den merkelige hendelsen med hunden den natten) og komst að því að ég er ekki einhverf.
Ekkert einhverfari en hver annar allavega.

Tuesday, September 04, 2007

Ostar

Nú er ég manneskja sem borðar nánast hvað sem er (nema ORA fiskbúðing úr dós). Sérlega er ég þó hrifin af ostum, og áður en ég flutti til Útlandsins hafði mér ekki tekist að finna vondan ost. En hér ytra hefur mér tekist að finna tvær tegundir af vondum osti:

1. Brúnostur: Hann er ógeð, en ef ykkur finnst mysingur góður, þá finnst ykkur það sennilega líka um brúnost. Brúnostur er nefnilega mysingur í ostformi.

2. Hvítostur: Þessi ostur lítur út alveg eins og venjulegur ostur (sem hér kallast gulostur), nema aðeins ljósari á litinn. Ég bjóst satt að segja ekki við að finna mikinn mun á gulosti og hvítosti. En, jú. Það var eiginlega aðeins of mikill munur. Hvítostur er einhvernvegin súr á bragðið. Semsagt ógeð.

Þetta var ostavarúðarhorn Ekkert rugl.

Saturday, September 01, 2007

September

er kominn.
Til hamingju með það.

Í allan dag hefur eitthvað drasl verið fast lengst uppí nefinu á mér þannig að ég get ekki hætt að hnerra.
Það er eiginlega óþolandi.