Monday, February 27, 2006

Íþróttapartý

Í gær var íþróttapartý í skólanum. Þar sem við Berglind erum bara tvær í skólanum þá verðum við auðvitað að prófa allt dótið sem við höfum ekki prófað áður. Fórum smá í borðtennis, en eyddum mestöllu kvöldinu í að spila pool. Það er skemmtilegur leikur. Það var sérlega skemmtilegt vegna þess að við vorum báðar álíka góðar (lesist: MJÖG lélegar) í pool. Erum búnar að finna það út að þessir þúsundir fermetra sem við höfum til umráða eru alls ekkert svo stórt svæði fyrir okkur tvær. Bara mjög passlegt. Ótrúlegt að það skuli 150-200 manns komst hérna fyrir að öllu jöfnu.

Annars er þetta vetrarfrí að líða eins og flest önnur frí. Er að sofa u.þ.b. hálfan sólarhringinn og er hálfsofandi hinn helminginn af sólarhringnum. Mjög ljúft og afslappandi. Er akkúrat núna að hlusta á tónlist sem maður verður pottþétt geðveikur af að hlusta á lengi. Lag sem breytist ekkert í svona hálftíma, þá breytist smá (minimalismi). Passar ágætlega við ástandið þessa dagana, en ábyggilega ekki hollt fyrir andlega heilsu. Er alveg að verða að grænmeti.

Er að fara til Svíþjóðar á miðvikudaginn. Það verður gaman.

Friday, February 24, 2006

Partý og örorka

Nú er búið að vera vetrarfrí síðan um hádegi og alveg skuggalega margir nemendur ennþá á svæðinu. Örugglega 20 manns og það er langt liðið á kvöld. Bíst við að flestir fari til síns heima í nótt eða snemma í fyrramálið, en ég veit að einhverjir djassstrákar verða fram á sunnudag. Þeir eru held ég að fara í prufuspil einhversstaðar á mánudaginn. Þannig að á sunnudagskvöldið verðum við Berglind líklega orðnar einar á svæðinu. Þá verður sko partý. Er búin að fá lykil að öllum herbergjum skólans þannig að partýið getur dreift sér yfir ansi stórt svæði.

Skilaði í dag inntökuheimaprófinu í skólanum í Osló (næstum tveimur vikum of snemma). Það var nú eiginlega bara gaman að gera það próf. Það var reyndar einn hluti af því sem mér fannst frekar asnalegur. Þurfti að senda inn eina handskrifaða tónsmíð. Þar sem ég hef aldrei handskrifað neina tónsmíð þurfti ég að setjast niður og handskrifa eitthvað sem ég hafði áður samið á tölvu. Asnalegt. En hversu mikið mál getur verið að handskrifa smávegis? Komst að því að það er ansi mikið mál. Varð eiginlega mesta málið af öllu í þessu blessaða prófi. Sat allt miðvikudagskvöldið við að handskrifa tónverkið, og kláraði það. Var með náladofa í þumalputtanum eftir það, og er enn, tveimur sólarhringum síðar. Efast stórlega um að ég eigi nokkurntímann eftir að fá fulla tilfinningu í þennan putta aftur. Þannig að “handskrifa” -hlutinn af prófinu hefur sennilegast kostað mig varanlega örorku.

Thursday, February 23, 2006

Vetrarfríið að byrja

og nemendur skólans farnir að tínast til síns heima. Þó byrjar fríið í rauninni ekki fyrr en um hádegi á morgun, en margir eru ekki í neinum tímum fyrir hádegi á föstudögum. Í Húsi E erum við nú 3 eftir (held ég) og um hádegi á laugardaginn verð ég orðin ein heima (partý!). Staðsetning á mér verður nú eitthvað á reiki á meðan á fríinu stendur. Verð í Húsi E um helgina, sennilega í Osló á mánudaginn, Húsi E á þriðjudaginn og í Gautaborg miðvikudag til laugardags. Þá daga sem ég verð þar verð ég kannski ekki í símasambandi (þá veistu það mamma).

Annars er vikan búin að vera með líflegra móti. Þessa dagana snýst flest um inntökupróf í hina ýmsustu skóla. Fengum um síðustu helgi einkunnir úr tónfræðahluta inntökuprófsins, sem gildir í öllum tónlistarháskólum í Noregi. Það var reyndar strax ljóst að það var eitthvað mikið athugavert við þær niðurstöður. Krakkar sem höfðu farið í ca. 2 tónheyrnartíma á ævinni voru að fá nánast fullt hús stiga í tónheyrnarhlutanum á meðan aðrir, sem höfðu tekið prófið í fyrra líka (og náð), voru að fá næstum engin stig. Nokkrum dögum síðar kom það í ljós að allir þeir sem voru með eftirnafn sem byrjaði á F eða síðar í stafrófinu, höfðu fengið vitlausar einkunnir. Þvílíkt bull! Þannig sumir sem höfðu fengið að vita að þeir hefðu náð, féllu í rauninni og öfugt. Í mínu tilviki kom þetta ekki að sök. Náði í báðum tilvikum, fékk bara aðeins hærri einkunnir í seinna skiptið.

Það eru líka búin að vera tilraunaprufuspil hér í skólanum. Þar fá þeir sem vilja, prófa að spila við svipaðar aðstæður og í alvöru prufuspili. Fékk að vera einn af prófdómurunum í túbuprufuspilinu. Það var stuð. Spilaði líka sjálf eitt svona plat-prufuspil. Það var líka alveg ágætt. Er reyndar orðin alveg hundleið á þessum blessuðu lögum sem ég á að spila (og nenni næstum aldrei að æfa mig) og finnst því eiginlega alveg óþarflega langt í þetta (rúmar 2 vikur).

En allavega, alveg að koma frí.

Saturday, February 18, 2006

Í helgarfríi

Nú er langt helgarfrí sem mér (og fleirum í Húsi E) tókst að skipuleggja svo vel að það varð næstum of mikið að gera.

Fór í trommutíma í gær og lærði nokkur “trommugrúv”. Horfði á ótrúlega langa bíómynd í gærkvöldi. Í allan dag er ég búin að vera að gera heimainntökuprófið fyrir skólann í Osló. Er bara alveg að verða búin að þessu. Ætla að reyna að klára þetta fyrir þriðjudaginn (fresturinn til að skila þessu er reyndar ekki fyrr en 8. mars). Já, svona er maður nú tímanlega í hlutunum.

Í kvöld hyggjast flestir þeir nemendur skólans sem eru á svæðinu flykkjast á öldurhús bæjarins. Það verður nú gaman.

Thursday, February 16, 2006

Frí og frí og afmæli

Í dag á ég afmæli ... eina ferðina enn. Það er rétt sem mig grunaði. Í Útlandinu á maður miklu oftar afmæli. Í dag var semsagt haldið uppá afmæli allra sem eiga afmæli í fríum. Við fengum blöðrur. Nú er ég búin að eiga afmæli tvisvar á þessu ári og afmælið mitt er ekki fyrr en í desember! Ef þetta heldur svona áfram verð ég orðin fertug áður en árið er liðið.

Annars er ég að búa mig undir laaangt helgarfrí. Frí föstudag, laugardag, sunnudag og mestallan mánudaginn. Spurning um að fara á langt fyllerí eða leggjast í þunglyndi. Og svo er vetrarfrí í þarnæstu viku. Þá er ég í fríi föstudag, laugardag, sunnudag, mánudag, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag. Hélt reyndar að ég væri í inntökuprófi í Gautaborg einhverja af þessum dögum, en komst að því áðan að svo er ekki. Og ég veit þá ekki enn hvenær neitt inntökupróf er. Verð að viðurkenna að ég er orðin frekar þreytt á að bíða eftir upplýsingum um þessi próf. Veit nefnilega hvorki tímasetningu né heldur hvað í andsk.... ég á eiginlega að gera í þessum prófum. Jú í Osló á ég að spila eitthvað og eitthvað fleira líka. En í Gautaborg veit ég ekkert hvað á að ske. Held ég eigi ekki að spila neitt. Bara tala um sjálfa mig .... eða eitthvað. Vona bara að ég þurfi ekki að tala á sænsku. Það kann ég nefnilega ekki.

Tuesday, February 14, 2006

Að búa til vélar

Í dag máttum við velja okkur “tónfræðagreinahóp”. Í boði voru hópar þar sem lagt var stund á; kennslufræði, listasögulegt yfirlit 20. aldar með tilliti til ýmissa sögulegra atburða, hljómfræði/slagverksdót, listina að hlusta á tónlist (og talað mál) og að búa til vélar.

Ég valdi að búa til vélar. Og hvað gerir maður í hóp sem býr til vélar? Jú, maður getur búið til litlar vélar sem gera lítið, stórar vélar sem gera mikið og meðalstórar vélar sem gera ekki neitt. Þetta var verkefnalýsingin á hópnum sem ég valdi. Segir manni nákvæmilega ekki neitt, en þetta var það sem ég gerði í dag. Bjó til vélar. Aðallega frekar litlar vélar sem gerðu smá. Í næstu viku get ég kannski búið til stóra vél. Það væri nú gaman.

Monday, February 13, 2006

Lúdó

Spilaði Lúdó í tvo tíma á laugardagskvöldið. Ótrúlega skemmtilegir og gefandi tveir tímar. Og ég vann! Hélt reyndar að eitt Lúdó-spil gæti ekki tekið svona langan tíma, en jú. Eitt spil af Lúdó getur varað leeengi. Í gær var svo Trivial –kvöld í Húsi E. Hús 9 kom í heimsókn og spilaði Trivial við okkur í rúma 3 tíma. Held ég sé alveg komin með nóg af hvers konar spilum í dáldinn tíma.

Annars er merkilega lítið um að vera þessa dagana. Bara kalt úti (svona 20 stig í mínus) og flestir staðnir upp úr veikindum sýnist mér.

Svo eru víst prufuspil/viðtöl bráðum. Verst að ég veit eiginlega ekkert hvenær. En það kemur nú vonandi bráðum í ljós. Nenni bara ekki að spurja eftir upplýsingum sem eiga að koma upp í hendurnar á manni sjálfkrafa. En ég er allavega búin að fá heimaverkefnishlutann af inntökuprófinu í Osló. Sniðugt fyrirkomulag að hafa svona heimainntökupróf.

Saturday, February 11, 2006

Veikin (framhald)

Veikin var víst ekki alveg búin. Komst að eftirfarandi:
- Það er ekki svo slæmt að vera veikur í 3-4 daga. Eftir það verður það leiðinlegt.
- Það er ekki gaman að vera pollur.
- Það er ALLS ekki gaman að vera pollur með blóðnasir og vera næstum algerlega útúr heiminum sökum blóðmissis.

Fékk ótrúlega miklar blóðnasir á þriðjudagskvöldið sem entust meira eða minna fram á fimmtudag. Varð það til þess að ég var með furðu lítilli rænu þessa daga. En í gær var ég orðin ansi hress og í dag er ég eldspræk.

Held að Veikin hafi ekki lagst jafn hart á nemendur skólans og maður hefði haldið. En kennaraliðið hefur verið meira eða minna fjarverandi sökum veikinda. Kannski er þetta bara veiki sem gamalt fólk fær.

Í gær var stelpukvöld í Húsi E.

Monday, February 06, 2006

Veikin

er komin í heimsókn í Hús E. Að því tilefni er ég búin að liggja í rúminu frá því á föstudagskvöld. Þetta er án efa versta veikin sem sótt hefur skólann heim þetta skólaárið. Efast ekki um að flestir nemendur skólans eigi eftir að fá Veikina. Veikin lýsir sér í slatta af hita og hósta. Ágætis tilbreyting frá öllu horinu. Aðrir íbúar hússins eru frekar uggandi yfir ástandinu. Það getur nefnilega verið hættulegt þegar gamalt fólk fær svona mikinn hita. En þau eru búin að vera voða góð við Gömlu sína í veikindunum. Þó undarlegt megi virðast hafa aðrir íbúar Húss E sloppið við Veikina enn sem komið er. Vona bara að þau sleppi alfarið við hana.

Annars er nú ekkert svo slæmt að vera veikur. Maður þarf ekkert að pæla í hvað maður eigi að gera. Maður getur bara gert eitt: Legið í rúminu. Manni leiðist ekkert. Er bara alltof sloj til að pæla í því hvort það sé gaman eða ekki. Ef maður vill ekki vera með hita getur maður tekið hitalækkandi lyf. Það finnst mér reyndar ekki gott af því að þá breytist maður í poll, og ég er meira fyrir að vera í þokkalega föstu formi.

En nú er ég allavega komin fram úr rúminu. Verð eiginlega að vera á löppum í fyrramálið líka af því að þá á að byrja að æfa Ostalagið fyrir alvöru. Það á víst að reyna að spila eitthvað af því á tónleikum seinnpartinn í febrúar. Og mér tókst að koma mér undan því að stjórna sjálf. Það er fínt, þá spila ég bara sama part og venjulega.

Nú í vikunni hlaut ég hið virðulega viðurnefni “Gamla” í Húsi E. Skil bara ekkert í þeim að hafa ekki byrjað fyrr að kalla mig “Gömlu”.

Thursday, February 02, 2006

Komin heim og orðin móðursystir

Þá er maður loksins orðinn móðursystir. Ef einhver vill vita meira um barnið eða sjá mynd af því er viðkomandi bent á bloggsíðu systurinnar (sjá tengil hér til vinstri). Takiði sérstaklega eftir þessum ótrúlega flotta Mikkamús náttgalla. Engu líkur.

Kom annars heim úr Tónleikaferð dauðans #2 í gærkveld. Verð að viðurkenna að þessi ferð var mun skárri en ég bjóst við (bjóst reyndar við svo ótrúlegum leiðindum og þreytu að ég hélt að mér væri jafnvel bráður bani búinn). Er semsagt enn lifandi.

Ferðalagið varði í fjóra daga og þrjár nætur. Eftirfarandi var gert í þessari ferð:
- Setið í rútu í ca. 40 tíma.
- Sofið í ca. 18 tíma
- Borðað nokkrum sinnum
- Spilaðir 5 tónleikar
- Heimsótt 1 stelpa úr Húsi E

Sá liður sem síðast var talinn upp var án efa sá skemmtilegasti. Maður verður nefnilega ansi þreyttur á að umgangast 80 manns allan sólarhringinn. Við fórum bara þrjár í heimsókn til Hús E stelpunnar. Ágætis pása frá mannmergðinni.

Annars var þetta ótrúlega meðfærilegur hópur fólks. Allir gerðu nákvæmilega það sem þeim var sagt að gera. Og það var ekki allt gáfulegt. M.a. að vakna um miðja nótt til að vera á brunavakt, vakna ELDsnemma alla morgnana (og þá meina ég meðan það var enn nótt) og bera fullt af drasli inn og út úr hinum ýmsustu tónleikastöðum. Og það kvartaði enginn yfir neinu alla ferðina. Það var með ólíkindum.

Við vorum aðallega í Bergen og svæðinu þar í kring og ég vissi ekki að það væru til svona mörg jarðgöng í öllum heiminum. Seinni helmingurinn af leiðinni til/frá Bergen (ca. 5 tímar) var meira inni í göngum en ekki.

Í tilefni af þessari “frábæru” ferð er meira eða minna frí í skólanum alveg fram yfir helgi.

Á eftir eru tónleikar hér í skólanum. Á efnisskránni er m.a. verk eftir tónsmíðakennarann minn sem saxófónkennarinn minn spilar. Það verður áhugavert. Býst reyndar við hinu versta (að sjálfsögðu) þar sem þessir tónleikar voru auglýstir sem nútímatónleikar. Þá er bara að finna út hvernig maður getur sagt “þetta var nú aldeilis hundleiðinlegt” á kurteisislegan hátt. Einhverjar hugmyndir?