Saturday, December 31, 2005

Gamlársdagur

Við þessi tímamót er víst við hæfi að fara stuttlega yfir það helsta á líðandi ári.

Minnisstæðast:
-Minnið fór að gefa sig.

Niðurstaða:
-2005 var frábært ár! (eflaust)

Takk fyrir árið

Thursday, December 29, 2005

Aldur er afstæður

Í gær átti ég afmæli. Að því tilefni fór ég að velta því fyrir mér hvort ég væri eitthvað að eldast.

Nokkur merki þess að maður er að verða gamall:
- Maður er búinn að fá koníak í afmælisgjöf 2 ár í röð.
- Vinir manns eru margir hverjir búinr að vera giftir í nokkur ár.
- Maður hefur menntað sig til ákveðins starfs, en er kominn með leið á því starfi fyrir ansi löngu síðan.

Nokkur merki þess að maður eldist ekki neitt sama hvað árin líða:
- Maður er nánast undantekningalaust beðin um skilríki á stöðum þar sem sala vínveitinga er leyfð.
- Maður fær bók um Kaftein Ofurbrók í afmælisgjöf (og finnst það frábært)
- Maður lítur út fyrir að vera 15 ára
- Maður hagar sér eins og maður sé 15 ára (oft)
- Manni líður eins og maður sé 15 ára (alltaf)

Já. Ég held ég sé á óræðum aldri.

Tuesday, December 27, 2005

Snilldarball

Í gær var ball í Valakjálf. Við Þórunn Gréta áváðum að drífa okkur þar sem við höfum báðar verið inni öll jólin sökum veikinda.
Í stuttu máli sagt var þetta ball hrein snilld. Það hefur oft háð böllum í félagsheimilinu Valaskjálf (og eflaust fleiri slíkum skemmtistöðum) að ölvun fer langt út fyrir öll velsæmismörk og slagsmál brjótast út af minnsta tilefni. Ekki var því fyrir að fara á dansleik þessum. Þó voru 5-6 hundruð manns mætt á svæðið. Sá samt eina ælu á gólfinu. Með kartöflum í.
Niðurstaða: Gott ball, góð hljómsveit (Atómstöðin).

Reikna með að næsta sveitaballagagnrýni komi eftir áramótaball sem haldið verður á sama stað.

Í dag er semsagt þreyttur dagur af ofangreindum ástæðum. Er pínu slöpp ennþá, en þetta virðist allt vera að færast til betri vegar. Myndi helst vilja fara snemma að sofa í kvöld, en það er ekki í boði þar sem faðir vor er með kallasaumaklúbb heima í kvöld. Fyrsti kallinn mætti hálftíma of snemma. Við fyrstu kynni (sem voru mjög stutt) virtist sá auðveldlega geta unnið titilinn leiðinlegasti maður allra tíma. Ég fór niðrí kjallara að blogga. Er svo að fara á tónleika og í heimsókn uppí sveit. Ekki hægt að vera heima við þessar aðstæður.

Monday, December 26, 2005

Nú eru jólin

og að því tilefni er ég að sjálfsögðu með einhverja pest. Það er eins og mig minni að ég hafi verið eitthvað lasin undanfarin 7 jól, með hugsanlega örfáum undantekningum. Þetta finnst mömmu leiðninlegt. Og mér líka. Er orðin hundleið á að hósta og snýta mér.

Hér er tæmandi listi yfir það sem mig langar í í afmælisgjöf (eða bara jólagjöf á næsta ári ef afmælið er of stuttur fyrirvari):
- Lítil ryksuga sem ryksugar hor úr nefi. Kemur sér greinilega alltaf vel um þetta leyti árs.

Og þetta er það sem ég er búin að afreka þessi jólin:
- Borða mikið
- Sofa mikið
- Snýta mér miiiiiiiiiiiiiiikið
- Hósta dáldið
- Horfa á sjónvarpið

Ágætis árangur alveg hreint. Auk þess hef ég ekki farið út fyrir dyr síðan á Þorláksmessu, nema náttúrulega til að komast hingað í tölvuna í kjallaranum.

Friday, December 23, 2005

Jólin

koma á morgun. Að því tilefni fór ég í kaupfélagið í dag. Með mömmu. Hún er búin að fara tvisvar og reikna fastlega með því að hún fari einu sinni enn í dag. Henni finnst rosa gaman að fara í kaupfélagið. Hún skoðar allt sem fæst þar, helst tvisvar, og kaupir svo ca. helminginn af því sem fæst þar. Það fæst margt í kaupfélaginu. Þess vegna verður sumt að vera úti þegar heim kemur, því ekki er pláss fyrir allt í ísskápnum.

Er búin að fara með allar ryksugurnar niðrí kjallara. Það er heldur ekki pláss fyrir þær uppi. Pabbi var ekki hress að fá ryksugurnar niður. Honum er illa við ryksugur.

Og mamma er að deyja úr stressi af því að það er ekki búið að skreyta. Ég hengdi upp eitt skraut og fannst það bara meira en nóg. Svo hef aldrei skilið þetta með jóladúkana ......

Annars óska ég ykkur gleðilegra og stresslausra jóla.

Tuesday, December 20, 2005

Fréttir af Héraði

Hér í foreldrahúsum er næstum ekkert eins og það var síðast þegar ég kom hingað. Búið er að skipta um eldhús, þannig að maður þarf að leyta í öllum skápum og skúffum til að finna það sem maður leytar að. Er búin að finna uppþvottavél. Slík maskína hefur aldrei fyrr verið brúkuð á heimili þessu. Önnur herbergi eru meira eða minna full af húsgögnum, þar sem híbýli formóðurinnar voru tæmd fyrr í haust. Ég hef ekki enn lagt í að kíkja í bílskúrinn, en þar er víst mjög skrautlegt um að litast. Ekkert jólatré verður keypt á þessu heimili sökum plássleysis, og er það vel.

Annars virðist ekkert mikið fleira hafa breyst í plássinu. Nema náttúrulega komið eitt nýtt hverfi og svo á víst fjöldkylda íslenska bachelorsins heima í næsta húsi. Ég hef blessunarlega sloppið við að fylgjast með þeim þáttum, og mun leggja mig alla fram til að vita sem minnst um framgang mála á þeim bæ. Vil helst sleppa við kjánahrollinn.

Sunday, December 18, 2005

Ferðalög

Það er alltaf jafn gaman að ferðast. Sérstaklega þegar maður er jafn heppinn á ferðalögum og ég.

Allur gærdagurinn fór í að bíða. Þetta er dótið sem ég beið eftir:
- Strætó
- Lest
- Að lestin kæmi á flugvöllinn
- Innritun á flugvellinum
- Flugvélinni
- Að flugvélin kæmist á áfangastað
- Farangrinum
- Að bíllinn kæmist til höfuðborgar okkar Íslendinga

Það var ótrúlega mikil seinkun á flugvélinni þannig að ég náði að gera heilmargt:
- Borða eins mikið og maginn þoldi
- Skoða allt dótið í fríhöfinni
- Drekka bjór
- Telja lítil strik í loftinu uppí þrúhundruðogellefuþúsundogfjörutíu

Þar sem komu minni til höfuðborgarinnar seinkaði umtalsvert missti ég af því að sjá Jólaævintýri Hugleiks, sem systir mín hin digrari skrifaði í félagi við nokkra aðra. En ég hvet þá bara alla aðra til að fara að sjá þetta. Örugglega frábært stykki.

Flugi mínu austur á bóginn flýkkaði hins vegar vegna niðurlagningar á því flugi sem ég hafði pantað far með. Dvöl mín á höfuðborgarsvæðinu styttist því um ca. 20% vegna seinkunnar/flýkkunnar á flugum.

Núverandi staðsetning: Egilsstaðir, Ísland.

Friday, December 16, 2005

Ísland á morgun

Já. Á morgun er það Ísland.

Búið að vera fáránlega mikið stress í gangi í gær og dag. Fékk að vita að prufuspilið í Árósum er 12. janúar. Það er aðeins fyrr en ég reiknaði með. Á eftir að finna eitt verkið sem ég á að spila (hef aldrei spilað það áður) og það þarf eignlega að gerast áður en ég yfirgef svæðið. Ekki öruggt að ég geti fundið þetta tiltekna verk á Íslandi.

Það er æfing fyrir tónleikana sem eru í kvöld í mestallan dag.

Ég er ekki byrjuð að pakka neinu niður. Verð að gera það hið snarasta. Nenni því engan vegin seint í kvöld eða nótt.

Sjáumst

Wednesday, December 14, 2005

Reglugerðir um áleggsblöndun

Fékk að vita það áðan að ostur og sulta oná brauð stríðir gegn reglugerðum um áleggsblöndun. Þá vitiði það ......

Vill einhver sækja mig á flugvöllinn?

Kem á laugardaginn (17. des). Áætluð lending á Keflavíkurflugvelli er klukkan 15:45 að staðartíma. Það væri gaman ef einhver myndi nenna að sækja mig, en engin nauðsyn. Hugsa að ég reddi mér nú alveg í höfuðborgina hjálparlaust.

Annars var lúserahátíðin í gær alvöru lúserahátíð. Tónleikarnir samanstóðu aðallega af atriðum með þroskahefta fólkinu í skólanum. Þau fá eiginlega ekkert að vera með á opinberum skólatónleikum af því að þau eru svo þroskaheft greyin. Frábært að hafa sérstakan dag fyrir þá sem eru öðruvísi.

Í kvöld eru djasstónleikarnir. Reikna með að þeir verði töluvert lengri og leiðinlegri. Ótrúlegt hvað mörg lög geta verið alveg eins. Svo er eins og þessir djasskrakkar hafi ekkert tímaskyn, þannig að tónleikarnir þeirra dragast yfirleitt út í hið óendanlega.

Tuesday, December 13, 2005

Lúserahátíð

Fann útskýringu á þessu "Lúsíudegi" á Baggalúti. Ég hef greinilega misskilið þetta eitthvað. Þetta heitir semsagt Lúserahátíð. Dagurinn varð mun áhugaverðari fyrir vikið.

Eldhúsáhöld geta ráðist á fólk af minnsta tilefni

Það er nóg að gera í afleysingum í stórsveitinni þessa dagana. Eldhúsáhald réðist á tenórsaxófónstelpuna í síðustu viku og gataði á henni neðri vörina þannig að hún getur ekkert spilað fyrr en á næsta ári. Og baritónsaxófónstráknum tókst að brjóta í sér aðra framtönnina í partýinu á laugardaginn. Með flösku held ég. Ég leysi stelpuna af og einn slagverkskennarinn spilar á baritónsaxinn. Ég hefði alveg vilja taka baritóninn svona til tilbreytingar, en stelpan datt út fyrst þannig að ég var búin að spila hennar parta á æfingu. Bara að strákurinn hefði brotið þessa tönn fyrr. Þá hefði ég fengið hans pláss.

Í dag er lúsíudagurinn. Hef ekki hugmynd um hvað það er eiginlega. En það er einhver dagskrá í gangi í kvöld. Stofutónleikar held ég.

Annað kvöld eru djasstónleikarnir. Það verður spennandi eins og venjulega. Er reyndar búin að mæta á óvenju margar æfingar núna (2 og svo eina á morgun) en slagverkskallinn sem á að spila á barrann mætir bara á morgun.

Á fimmtudagskvöldið eru litlu jólin. Og það er bannað að fara á fyllerí eftir það vegna þess að á föstudaginn eru generalprufa og tæknirennsli fyrir jólatónleikana sem eru þá um kvöldið. Tæknirennsli er mjög undarlegt fyrirbrigði. Þá er rennt í gegnum tónleikana en enginn spilar neitt. Allir labba þangað sem þeir eiga að fara og svo aftur til baka og einhverjir misgáfulegir nemendur skólans raða stólum og svoleiðis eftir þörfum. Þetta tekur gjarnan óheyrilega langan tíma. Yfirleitt mun lengri tíma en tónleikarnir sjálfir eru. Það verður semsagt stuð á föstudaginn.

Þá um kvöldið (strax eftir tónleikana) gera flestir ráð fyrir að drífa sig heim. Nokkrar eftirlegukindur verða þó hér fram á laugardag. Ég er semsagt ein af þessum kindum ...........

Monday, December 12, 2005

“The return of ........”

Var í bænum í dag, sem er nú ekki í frásögum færandi. Nema hvað að allt í einu gengur upp að mér norsk stúlka, ávarpar mig með nafni og spyr hvort ég muni eftir henni. Ég leit á viðkomandi og langaði mest til að flissa og hlaupa í burtu. Jú, viti menn. Þarna var kominn þroskahefti saxófóndvergurinn frá í hittífyrra! Manneskjan hefur greinilega minni á við fíl. Mundi hvað ég hét. Tveimur og hálfu ári síðar. Hún var semsagt í skólanum sem ég er í núna í fyrra. Mikið er ég fegin að hafa ekki verið hér þá. Held þetta sé ein af örfáum manneskjum í heiminum sem ég meika engan vegin að eiga samskipti við. Var eiginlega búin að gleyma að þetta væri alvöru manneskja. Hún var í mínum huga bara orðin að persónu í sögunni sem ég skrifaði eftir þá viku í Útlandinu. Ég hef reyndar grun um að hún komi til með að sækja um í sama skóla og ég fyrir næsta vetur. Hún var eitthvað að sniglast hér í skólanum í dag. Líklegast til að fá pappíra fyrir skólaumsóknina. Ef við verðum saman í skóla næstu árin verður sennilega skrifuð framhaldssaga í MÖRGUM hlutum um þroskahefta saxófóndverginn. Gæti orðið áhugavert.

Í kvöld er síðasta kvöldið fyrir jólafrí sem ekki er skipulögð dagskrá hér skólanum. Í tilefni að því er ég að hugsa um að prjóna og horfa á sjónvarpið, ef það er eitthvað íðí.

Sunday, December 11, 2005

Jólapartýið

var í gær. Flest ungmennin héldu af stað í gleðskapinn með því heilbrigða hugarfari að drekka sig alveg blindfull. Sem þau og gerðu. Þau gleymdu því bara sum hver að partýið var 7 klukkutíma langt (og ekki hægt að fara heim hvenær sem var vegna staðsetningar) þannig að úthaldið yrði að vera í lagi. Það voru rúmlega 100 krakkar í partýinu og undir lokin voru sennilega 20-30 þokkalega hressir ennþá. Undirrituð var að sjálfsögðu þar á meðal, þar sem hún nýtti sumarfríið vel til að þjálfa upp úthald að þessu tagi (þökk sé kééllingum frá Vestmannaeyjum).

Sá sem fyllstur í partýinu (og gubbaði á einn stól) var eini maðurinn á svæðinu sem ekki var nemandi í skólanum. Nefnilega samfélagsþjónustugaurinn. Hér er yfirleitt einn svoleiðis. Skilst að þetta séu nánungar sem ekki hafa viljað fara í herinn. Í Noregi er nefnilega herskylda. Nokkrir nemendur skólans voru í hernum í fyrravetur (slatti af strákum og ein stelpa). Þessir nemendur voru mjög auðþekkjanlegir í upphafi skólaárs. Þau komu um einni viku of seint í skólann og voru sköllótt. Í hernum er bannað að vera með hár á hausnum. Nú eru þau komin með smá hár.

Stelpurnar í Húsi E voru jólatré í partýinu. Við unnum ekki búningakeppnina, en vorum í 2. - 3. sæti. Pakkarnir unnu. Og einn engill vann strákadeild keppninnar. Mér fannst nú persónulega að Jesús hefði átt að vinna. Hann var mjög kúl með jólaseríu á hausnum.

Friday, December 09, 2005

Jólatré og límbyssa

Annað kvöld er jólapartý skólans. Það er reyndar ekki haldið í skólanum vegna áfengisbanns, heldur verður liðinu skutlað eitthvert með rútum. Þetta verður eflaust mjög skrautlegt. Búið er að brýna fyrir öllum að það sé bannað að gubba í rútuna (það kostar nefnilega sekt uppá fullt af péning) og allir verði að hjálpast að þannig að enginn gleymist nú á partýstaðum þegar rúturnar halda heim á leið. Jón rektor er búin að bjóðast til að geyma allt áfengi á skrifstofunni sinni fram að brottför svo enginn verði orðinn ofurölvi áður en lagt verður af stað. Furðulegur náungi þessi Jón.

Stelpurnar í Húsi E ætla að vera jólatré. Að því tilefni notaði ég límbyssu í fyrsta skipti áðan. Það gekk ótrúlega vel. Bjóst við að takast að líma saman allt sem væri í ca. 5 metra radíus. En viti menn. Mér tókst að líma ekkert nema það sem átti að límast. Geysileg framför í föndurmálum þykir mér. Sem er ágætt. Á morgun er föndurdagur í skólanum. Kannski maður föndri eitthvað fallegt fyrst maður er orðinn svona góður á límbyssuna.

Í kvöld er hins vegar skemmtidagskrá í boði málmblásara. Það verður spennandi að sjá. Þau eru búin að vera að æfa meira og minna alla eftirmiðdaga og öll kvöld síðustu tvær vikurnar.

Og svo fer að styttast í endurkomu á klakann ......

Tuesday, December 06, 2005

Jólin koma bráðum

og íbúar Húss E ætla sko ekki að láta þau framhjá sér fara. Einn íbúanna ákvað að kaupa súkkulaðidagatöl á línuna þannig að nú hanga 8 dagatöl í beinni röð á ganginum. Nöfnin okkar standa fyrir ofan dagatölin og það er sko fylgst rækilega með því að allir muni eftir að opna gluggann sinn á réttum degi.

Hef tekið það hlutverk að mér að vera “uppalandi” hússins (svona þegar ég er ekki of upptekin af að leika mér). Er búin að skamma stelpurnar í húsinu tvisvar í vikunni. Í gær þegar þær voru að kasta snjóboltum í gluggana (hótaði að koma út og berja þær í klessu ef þær hættu þessu ekki). Þær hættu og komu inn. Og á laugardagskvöldið þegar þær komu heim klukkan 1 um nótt og höfðu hátt. Næsti liður í uppalendahlutverkinu er að fara í vínbúðina og kaupa bús fyrir börnin. Þau eru nefnilega ekki nógu gömul greyin. Og það er stórt jólapartý á laugardagskvöldið.

Í dag spilaði lúð(r)asveitin Ostalagið. Það var .......... ágætt. Get ekki sagt að ég finni fyrir gríðarlegri löngun til að heyra þetta lag aftur, en nú á tónlistarvalnefnd sveitarinnar eftir að ákveða hvað á að taka til æfinga eftir jól. Erum búin að lesa í gegnum helling af dóti. Margt ansi hreint skemmtilegt.

Er allt í einu kominn með nokkuð stöðugt internetsamband í Hús E. Hef ekki hugmynd hvaðan það kemur. Þetta hefur þær afleiðingar að tími hangs á netinu hefur stóraukist (á kostnað tónsmíða að sjálfsögðu). Veit ekki alveg hvað þetta er sniðugt fyrirkomulag. En ágætis tilbreyting.

Monday, December 05, 2005

Síðasti vinnudagurinn

var í dag. Og þvílík hamingja! Hef sjaldan verið glaðari á ævi minni. Í tilefni dagsins er ég að hugsa um að prenta út eina rödd sem vantar í Ostalagið (ekki seinna vænna, á að æfa það á morgun) og kannski prjóna smá.

Já, það er ýmislegt hægt að gera sér til dundurs hér í Útlandinu.

Á morgun fæ ég að sveifla prikinu á lúð(r)asveitaræfingunni af því að lúð(r)asveitarkallinn nennti ekki að stúdera verkið mitt. Sumt fólk er nú bara latt.

Til hamingju með afmælið á morgun Agnes !

Friday, December 02, 2005

Tónlist nútímans

Var að koma af tónleikum. Euphoniumkall og píanókona frá Tromsö spiluðu nokkur létt lög og eitt nútímatónverk. Þetta voru samt allt 20. aldar verk, en í þessari færslu skilgreinist nútímatónverk; “tónlist” sem hefur mjög lítinn eða engan snefil af laglínu, heldur aðallega tilraunir með hljóð.

Spurningarnar eru þessar:
Hvað vakir fyrir fólki sem semur slíka “tónlist” (ég kýs reyndar að kalla þetta hljóðlist)? Er það bara að reyna að gera líf okkar sem á hlíða aðeins leiðinlegra en ella? Af hverju má ekki öll tónlist sem flutt er á tónleikum vera skemmtileg (=hafa laglínu af einhverju tagi)? Og af hverju getur fólk ekki bara gert tilraunir með hljóð heima hjá sér og kynnt þau fyrir áhugasömum kollegum á þar til gerðum ráðstefnum (bara hugmynd)?

Ef einhver hefur gríðarlegan áhuga á að vita hvernig hljóð kemur ef hann klappar á munnstykki eða hljóðfæri án munnstykkis. Eða hvernig hljóð kemur þegar euphonium spilar á álpappír, þá held ég að sá hinn sami geti alveg prófað sjálfur til að heyra útkomuna. Líkurnar á að hinn almenni tónleikagestur hafi velt þessum hlutum fyrir sér eru hverfandi. Og líkurnar á að þessi sami tónleikagestur hafi áhuga á því að vita það eru jafnvel ennþá minni.

Sambærilegt dæmi annarra listgreina væri ef kvikmundagerðarmanni dytti í hug að klippa sama 15 sekúndna langa atriðið á 164 mismunandi vegu. Hefði einhver gaman af því að horfa á slíka mynd? Jú, kannski örfáir. En í flestum tilfellum: NEI.

Eða ef rithöfundur skrifaði bók þar sem sama setningin (sem hafði enga merkingu til að byrja með) er orðuð á óteljandi marga vegu.

Ég minnist þess að eitt sinn í blásarakennaradeildinni í Tónó fundum við út að klarinettumunnstykki passaði á garðslöngu og þegar blásið var í munnstykkið kom mjög djúpur tónn (varla greinanlegur). Okkur fannst þetta mjög merkilegt. EN, við gerðum okkur líka grein fyrir því að það væru MJÖG fáir utan þessarar skólastofu sem hefðu áhuga á þessari uppgötvun.

Ef tónskáld nútímans gerðu sér grein fyrir þessari staðreynd held ég að tónlist heimsins væri áheyrilegri en raun ber vitni. Fólk hefur nefnilega ekki áhuga á að hlusta á þetta rusl.

Niðurstaða: Tónlist/hljóðlist sem enginn hefur gagn eða gaman af er tilgangslaus.

Takk fyrir mig


Eftirmáli: Með þessari færslu hef ég að öllum líkindum fyrirgert rétti mínum til að stunda tónsmíðanám á Íslandi. En það verður bara að hafa það.