Monday, March 31, 2008

Hegðunarreglur

Í dag byrjaði skólinn aftur, eftir páskafríið endalausa.

Þetta byrjaði nú rólega. Bara tveir og hálfur tími (sem byrjaði ekki fyrr en hálfþrjú). Og allur sá tími fór í að leggja okkur lífsreglurnar fyrir næsta mánudag. Þá fær minn bekkur nefnilega að vera viðstaddur æfingu hjá Alvöru Atvinnumanna sinfóníuhljómsveit, sem ætlar að æfa verk eftir okkur.

Svona á maður að haga sér þegar Alvöru Atvinnumanna sinfóníuhljómsveit æfir verkið manns:

-Sitja á fremsta bekk og vera tilbúinn til að svara spurningum stjórnandans, ef einhverjar eru.
-Svara spurningum, án málalenginga.
-Ekki tala beint við hljómsveitarmeðlimi. Öll samskipti eiga að fara í gegnum stjórnandann.
-Ekki tala nema á mann sé yrt.
-Ef maður fær að koma með athugasemdir að eigin vali, skal maður ekki koma með fleiri en þrjár. Helst bara eina.

Þetta eru mikilvægustu atriðin.

Í stuttu máli: Vera kurteis.

Finnst pínu fyndið að hafa fengið hegðunarreglur, en auðvitað bráðnauðsynlegt, þar sem ein svona æfing kostar nokkrar skrilljónir – og öll samskipti þurfa því að ganga ansi smurt svo það verði eitthvað úr æfingunni.

Lúðrasveitin mín hér ytra er líka að æfa verk eftir mig. Þar má ég tala við þá sem mér sýnist, og segja það sem mér sýnist, þegar mér sýnist.... get samt auðvitað ekkert verið að tala meðan ég er með lúður í munninum.

Og talandi um málæði (eða ritæði öllu heldur). Þetta er færsla númer þrjúhundruð.

Sunday, March 30, 2008

Nýir tímar

Þá er búið að breyta í sumartíma, snjórinn er farinn og vorið á næsta leyti (byrjar á þriðjudaginn, nánar tiltekið).

Finnst alltaf með ólíkindum að allir skuli muna eftir því einn daginn að breyta klukkunni. Ekki margt sem minnir á þann atburð. Stendur reyndar með pínulitlum stöfum á dagatalinu “sumartími byrjar”, en hver er að rýna í dagatalið á hverjum degi?

Þannig að nú er ég tveimur tímum á undan ykkur hinum. Nema ykkur, Unnar Geir og Sivin, er ég einum tíma á undan og þér, Sóley, er ég svo mörgum tímum á undan að ég kann ekki að telja uppí svo mikið.

Wednesday, March 26, 2008

Snjór

Það snjóaði meira í páskafríinu en alla hina dagana í vetur samanlagt. Og nú er snjór úti (örugglega heilir 2 sentimetrar að jafnaði) í fyrsta skipti í vetur. Pínu skrítið þar sem flestir höfðu frekar búist við vorinu um þetta leyti. En, hey, það er ekki eins og maður búi í Heitulöndunum.

Samkvæmt langtímaspánni mætir vorið á svæðið 1. apríl. Stundvíslega.

Sunday, March 23, 2008

Skír

Nýjasti meðlimur stórfjölskyldunnar heitir Friðrik.

Hann var skírður í dag einhvursstaðar á Norðurlandi Íslands.

Til hamingju með það Friðrik og fjölskylda.

Friday, March 21, 2008

Pásk

Þá er páskahátíðin upp runnin.

Ætlaði að fara í píslargöngu í tilefni dagsins, en ákvað svo að ég vildi ekki vera písl og hélt mig heima.

Páskahret er greinilega ekki séríslenskt fyrirbæri. Hér ytra hefur ekki komið snjór í allan vetur, en í gær snjóaði. Og það er enn snjór. Það er hin eiginlega ástæða fyrir að ekkert varð úr áðurnefndri píslargöngu, en gönguskíðaóðir Norðmenn hafa sennilega hoppað hæð sína í loft upp af ánægju yfir snjónum.

Í stað þess að skella mér á gönguskíði eins og óður Norðmaður, gerði ég skattframtalið mitt eins og sannur Íslendingur. Eða öllu heldur þann hluta framtalsins sem mér bar að fylla út. Vísaði því svo aftur heim til föðurhúsanna.

Vil hér með nota tækifærið og óska vinum, vandamönnum og öðrum lesendum þessarar bloggsíðu, nær og fjær, gleðilegra páska.

Monday, March 17, 2008

Að gefnu tilefni

Ég hef, hingað til, forðast að rita um pólitísk málefni hér á þessa bloggsíðu.

En nú get ég ekki lengur orða bundist. Ástæðan? Jú, að sjálfsögðu ört fallandi gengi íslensku krónunnar... og hér verður stiklað á stóru um margt sem við kemur því máli, beint og óbeint.

Ég hef aldrei tekið ákveðna afstöðu til Kárahnjúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð. Mikið var rætt um umhverfissjónarmið í tengslum við þessar framkvæmdir, og er það að bera í bakkafullan lækinn að bæta einhverju við þá umræðu. Það sem mér fannst varhugaverðast þegar ráðist var í þessar framkvæmdir var þau áhrif sem þetta myndi óhjákvæmilega hafa á íslenskt efnahagslíf. Hefði viljað sjá íslensku krónunni skipt út fyrir evruna strax áður en framkvæmdir hófust. En það komst nú ekki einu sinni í umræðuna svo neinu næmi. Og sjá hvað gerist? Óvænt? Ég held nú síður.

Mótmælendur sem kenndir eru við að “bjarga Íslandi” eru þjóðflokkur sem mér hefur aldrei líkað við. Þekki fólkið ekki persónulega, hef einungis fylgst með fréttaflutningi og orðrómi austanlands um framkomu þeirra. Samkvæmt orðrómnum hafa flestir ógæfumenn í miðborg Reykjavíkur meiri sjálfsvirðingu en þessi hópur mótmælenda. Það sem þau afrekuðu var aðallega aukinn kostnaður ríkissins í löggæslu. Mín vegna hefði þetta lið alveg mátt detta niður úr krönum eða verða fyrir vörubílum, fyrst þau þurftu endilega að vera að flækjast fyrir. Hefði sparað í löggunni. Svo hefði náttúrulega aldrei átt að fangelsa lýðinn. Fjársektir hefðu verið viðeigandi. Ef fólk á ekki pening til að borga sínar sektir, þá á það að vinna. Veit t.d. um vinnustað á Reyðarfirði sem hefði eflaust getað séð þeim fyrir atvinnu....

Nú á að fara að byggja nýtt álver í Helguvík. Sá umræður um það í Kastljósi í síðustu viku. Þar komst fylgismaður álversins einhvernvegin þannig að orði að “kannski væri aukið fjárstreymi inn í landið einmitt það sem íslenskt hagkerfi þyrfti við núverandi aðstæður.”

ERTU HÁLFVITI?!

Nú er ég enginn fjármálasérfræðingur, en ég veit að verðbólga verður vegna þess að það eru til meiri peningar en dót til að kaupa fyrir peningana. Þetta er örugglega dáldið mikil einföldun á ástandinu, en þetta skilja allir. Þegar allir ætla kaupa dót fyrir peningana sína, og ljóst verður að það er ekki nógu mikið dót til, þá hækkar dótið sem eftir er í verði og peningarnir verða minna virði = gengið fellur. Og hvernig getur aukið fjárstreymi inn í landið verið gott við slíkar aðstæður?
Núna er ekki tíminn fyrir nýtt álver! Ef fólki vantar nauðsynlega vinnu akkúrat núna, þá er nóga vinnu að hafa á Íslandi, þó hún sé kannski ekki í næsta húsi. Það er alveg hægt að sækja vinnu í annað bæjarfélag tímabundið, eða flytjast búferlum þangað sem vinnan er.

Neysluvenjur Íslendinga eru þess eðlis að stórframkvæmdir eru ekki íslensku efnahagslífi til góða. Íslendingar eyða öllum sínum fjármunum strax, og helst aðeins meiru. Þetta er það heimskulegasta sem fólk getur gert við núverandi aðstæður. Núna er ekki tíminn til að kaupa nýjan bíl eða annað dýrt dót!
Þegar sambærilegar aðstæður komu upp í Noregi (olían fannst) tókst að koma allri þjóðinni í skilning um þessar aðstæður. Og hvað gerist? Jú, fólk tekur mark á þessu og sparar. Margir halda því fram að Norðmenn séu nískir. Það getur vel verið, en það er góð ástæða fyrir því. Og norska krónan er örugglega einn af öruggustu gjaldmiðlunum.

Þar sem Íslendingar vilja greinilega halda áfram stórframkvæmdum, og koma seint til með að breyta neysluhegðun sinni, þá mæli ég með að evran verði tekin upp sem fyrst. Áður en Ísland fer á hausinn, væri ágætis hugmynd.

Sjitt hvað allt væri miklu betra ef ég fengi að ráða öllu.

Sunday, March 16, 2008

Langt?

Þá er einn þriðji af þessu "endalaust langa páskafríi " liðinn.

Ef hinir tveir þriðju hlutarnir verða jafn fljótir að líða, verður þetta páskafrí búið á morgun.

En ég er búin að vera dugleg. Best að halda því áfram.

Friday, March 14, 2008

Listi

Þar sem fyrirliggjandi verkefni eru of mörg til að ég geti munað þau öll í einu verð ég að gera lista. Til að hann týnist nú örugglega ekki, ætla ég að hafa hann hér á blogginu mínu.

Þetta er ég búin að gera:
- Taka upp saxófón og gítar-lagið.
- Klippa og mixa ofangreint lag.
- Afla nauðsynlegra upplýsinga um hörpuleik.
- Byrja á lagi fyrir hörpu og slagverk.

Þetta á ég eftir að gera:
- Lag fyrir saxófón og rafhljóð, fyrir 1. apríl (þarf ekki að vera gott)
- Halda áfram (helst klára) hörpu og slagverks-verkið. Mikilvægt. Byrja á því.
- Gera næsta bút í píanósónötu, eftir ströngustu mögulegu reglum (tónsmíðatækni).
- Tónheyrnarritgerð. Fáránlegt verkefni. Geri þetta á síðustu stundu. Illa. Það var örugglega eitthvað fleira sem átti að gera í tónheyrn. Nenni ekki einu sinni að gá hvað það er (hvað þá að gera það). Og ég sem hélt að metnaður minn fyrir þessu fagi gæti ekki orðið minni.
-Útsetja 1 lag fyrir saxófónkvintettinn minn. Þarf fyrst að gá hvursu góður baritónsaxófónleikarinn er á flautu. Geri það á mánudaginn.
-Æfa með saxófónkvintettinum. Á mánudaginn.
-Æfa mig á píanóið. Lokapróf á píanó í vor.
-Gera greiningu fyrir suðkúrsinn. Á einu af mínum eigin verkum... Þar sem ég á ekkert sem gæti passað fyrir slíka greiningu stefni ég á að greina saxófón og rafhljóð-verkið. En það er ekki til ennþá.
-Þrífa heimilið áður en það veldur heilbrigðisvandamálum. Um helgina semsagt.
-Finna mér sumarvinnu.
-Gera tónlist fyrir 1 barnaleikrit.
-Gera byltingu.

Þetta er það sem mig langar til að gera:
-Lesa Arnald. Er á góðri leið með að eignast allar bækur Arnaldar Indriðasonar. Á norsku.
-Prjóna.
-Huga að samstarfi með hinum frábæra dúett "Zwei Knaben bitte".

Já. Það er nóg að gera á litlu heimili.

Wednesday, March 12, 2008

Bylting?

Dagurinn fór í hljóðversvinnu. Tók upp lag eftir mig sjálfa (þetta sem var flutt á tónsmíðadeildartónleikunum í liðinni viku). Gaman að eiga svona “alvöru” upptöku sem maður hefur gert alveg sjálfur. Á reyndar eftir að klippa og hljóðblanda, en það verður gert á morgun. Drengjunum tveim sem spiluðu þetta fyrir mig þótti ótrúlega gaman að taka þátt í verkefninu, og fá að spila á tónleikum OG í hljóðveri. Þessar elskur héldu svo langa þakkarræðu áður en þeir yfirgáfu hljóðverið um hvað þetta hefði verið skemmtilegt alltsaman. Gaman að því.

Á leiðinni út hitti ég hljóðversmanninn. Spjallaði aðeins við hann. Sagði honum að allt hefði gengið vel og tónlistarmennirnir hefðu verið svakalega ánægðir með framtakið. Þá tók samtalið óvænta stefnu.
Hljóðversmaður þessi situr í tónsmíðadeildarráðinu og hefur því fengið nasaþefinn af verkefninu sem ber vinnuheitið “að-fá-allt-sem-ég-vil-í-skólanum”. Verkefni þetta stuðlar aðallega að því að tónsmíðanemar fái að vinna með hljóðfæraleikurum innan skólans, og að það verði skyldufag í námsskrá tónsmíðadeildar. Hann tjáði mér að í raun væru nánast allir sammála mér í þessu verkefni mínu. Þetta stoppaði bara á einu. Hann vildi ekki segja hvað það var, en ég mátti giska. Ég giskaði rétt í fysta. Það er helv... danskurinn sem er á móti verkefninu mínu. Mig hafði svosum alveg grunað það, en nú hef ég fengið staðfestinguna. Frekar fúlt þar sem Daninn ræður öllu, og hljóðversmaðurinn er ekki fyrsti kennari innan deildarinnar sem ég hitti, sem er ósammála Herra Hæstráðanda.
Hljóðversmaðurinn benti á að nemendur væru þeir einu sem gætu gert byltingu... Hint? Þaldénú.

Held ég haldi samt áfram að reyna að fá það sem ég vil á friðsamlegan hátt aðeins lengur áður en ég fer að safna liði í byltingu.

Tuesday, March 11, 2008

Nóg komið

af lúðrasveitardóti í bili.

Og þá er allt í einu komið frí í skólanum líka. Engin kennsla að ráði í þessari viku vegna inntökuprófa, og þá taka við tvær vikur af páskafríi. En uppsöfnuð verkefni eru ærin. Vona bara að ég nái að klára sem mest í þessu fríi (sem verður kannski ekkert svo mikið frí eftir alltsaman). Ýmis skólaverkefni sem hafa setið á hakanum alltof lengi. Nánar tiltekið, síðan ég var á Íslandi síðast. Maður er bara að breytast að í hálfgerðan tossa. Sveimérþá.

Það þýðir ekki lengur. Nú skulu ermar upp brettast.

Fór í stutta heimsókn í skólann í dag til að fræðast um hörpuleik. Varð öllu fróðari eftir þá ferð. Hitti í leiðinni 1 kunnulegan Íslending sem er að sækjast eftir inngöngu í skólann. Loksins! Eftir að hafa verið eini alvöru Íslendingurinn í skólanum í næstum tvö ár, eru loksins blikur á lofti um að samlöndum mínum fjölgi um 100%. Vona að hún fái inngöngu og hefji hér nám næsta vetur.
Þá yrði kominn markaður fyrir Íslendingafélag í skólanum. Það er eiginlega ekki hægt að vera 1 í félagi...

Monday, March 10, 2008

Þrándheimur

er frábær staður að vera á!

Skemmtileg blanda af Vestmannaeyjum og Gautaborg.

Það tekur reyndar dáldið langan tíma að komast þangað, en 7 tímar lest er ekkert miðað við 3 tíma í Herjólfi.

Bjó á flottasta hóteli sem ég hef séð. Yfir hundrað ára gamalt, með gosbrunni og 6 metra lofthæð í morgunverðarsalnum. Dáldið eins og klippt út úr Harry Potter bók. Endalaust miklir ranghalar og örugglega milljón herbergi. Það furðulega var að hótelið var bara þrjár hæðir að utan, en allavega sjö að innan.... Merkilegt.

Lentum í fjórða sæti í keppninni. Vel af sér vikið. Annars fór furðu lítill tími í að lúðranördast. Hlustaði bara á eina lúðrasveit, og þá var ekki tími fyrir meira lúðranörd vegna partýja. Náði fjórum fyrirpartýjum fyrir ofur-lúðrapartýið (sem innihélt 80 lúðrasveitir). Að því loknu héldu einhverjir áfram djammi í ýmsum eftirpartýjum. En ég ákvað að láta staðar numið eftir 12 tíma af partýhöldum.

Náði svo að túristast smá á sunnudeginum fyrir heimferð.

Hafði aldrei skilið af hverju sumir krakkar sem ég hef kynnst hér ytra vildu frekar búa í Þrándheimi en Osló. Nú skil ég það. Þrándheimur er klárlega staðurinn til að vera á.

Thursday, March 06, 2008

Síðan síðast:

- Endalaust margar lúðrasveitaræfingar, og auðvitað skóli eins og venjulega.
- Óslóarmeistarakeppni í lúðri. Við unnum. Jeij.
- Afskaplega vel heppnaðir tónsmíðanematónleikar. Passlega mörg, stutt og fjölbreytt verk. Ótrúlega margir mættir og fólk virtist ánægt með framtakið. Verður pottþétt endurtekið að ári, ef ekki fyrr.
- Mótmælavikan skilaði líka óvæntum árangri. Áttum að vera með “tónleika” í maí, þar sem verkefni í ákveðnum kúrsi skyldu flutt, af okkur sjálfum. Kúrs þessi gengur út á að skrifa punkta og strik á blað og spila á hljóðfæri sem við kunnum ekki á. Voða gaman eldsnemma á þriðjudagsmorgnum. En að framkvæma þetta fyrir framan fólk? Ég held nú ekki. Hljómar eins og lítil byrjendalúðrasveit, og er klárlega ekki áhugavert áheyrnar fyrir neinn. Eftir langar rökræður fékk ég það sem ég vildi. Þessum “tónleikum” hefur semsagt verið aflýst. Ákveðinn sigur þar líka.

Á morgun skal haldið á vit ævintýranna í Þrándheimi, og keppt í lúðri við allan Noreg. Efast nú um að við vinnum það, en planið er að falla allavega ekki niður um deild. Það er sko keppt í deildum eins og í fótbolta. Við keppum í úrvalsdeild.
Annars finnst mér ansi vafasamt að keppa í tónlistarflutningi. En svona er þetta hér í landi lúðrasveitanna. Í hugum flestra sem ég hef talað við um þennan viðburð, er aðalmálið þó partýið á laugardagskveldinu.
Eins gott að hafa forgangsatriðin á hreinu.


Viðbót:
Í þessari upptalningu um helstu atburði síðustu daga, gleymdi ég að minnast á að ég skilaði af mér mínu fyrsta verki fyrir sinfóníuhljómsveit í dag.
Stundum gleymast aðalatriðin.