Tuesday, May 22, 2007

Pakk

Þegar halda skal í lengri ferðalög (þ.e. ferðalög sem taka eiga langan tíma) eiga margir erfitt með að halda sig innan við þessi tuttugu kíló sem fara má með í flug. Ég tala nú ekki um þegar halda á til lands þar sem er kalt. Þó það sé sumar.

Hér er aðferð sem reynst getur mjög vel í slíkum aðstæðum:

1. Takið til það sem þið teljið ykkur þurfa á að halda. Athuga skal að taka einungis það allra nauðsynlegasta.

2. Skiljið svo helminginn af því eftir.

Og þá ætti þetta að vera komið.

1 dagur í brottför

Monday, May 21, 2007

Óþarfa áhyggjur

Gera oft vart við sig rétt áður en haldið er af stað í ferðalög. Sérstaklega ef um lengri tíma ferðalag er að ræða. Sem dæmi um slíkar áhyggjur eru:

- Maður hefði átt að gera e-ð áður en lagt var af stað, en gerði svo ekki.
- Stundvísi flugs (sérstaklega ef maður er á leiðinni á áríðandi fund/æfingu)
- Að maður sé að gleyma einhverju MJÖG mikilvægu (flugmiðanum, vegabréfinu eða að slökkva á eldavélinni).

Þetta er með öllu fáránlegt. Slíkar áhyggjur eru óþarfar og hreinlega mannskemmandi. Það deyr enginn þó maður gleymi einhverju (nema ef maður gleymir eldavélinni. Þá gæti reyndar einhver dáið), eða geri ekki alveg allt sem hefði kannski verið sniðugt að drífa í áður en haldið var af stað.
Þannig að ég ætla að hætta að hafa áhyggjur NÚNA.

Það sem ég hef hins vegar skuggalega litlar áhyggjur af er prófið á miðvikudagsmorguninn (nema ef því seinkar úr hófi fram, þá hef ég stórar áhyggjur. Þarf sko að mæta í flug). Þar fæ ég að hella úr skálum tónheyrnarkunnáttu minnar og syngja nokkur vel valin lög fyrir tvær indælar konur. Hefði verið gaman að taka nokkur íslensk ættjarðarlög, en þær vilja víst frekar heyra lög úr Modus novus. Skrítinn tónlistarsmekkur það.

Á morgun er pökkunardagur. Þá hyggst ég koma með nákvæmar leiðbeiningar um hvernig pakka skal niður fyrir lengri ferðir, þannig að farangur fari ekki yfir tuttugu kílóin.
Bíðið spennt.

2 dagar í brottför

Sunday, May 20, 2007

Klikk lið

Kláraði að lesa bók í dag. Hélt lengi framanaf að þetta væri venjuleg glæpasaga. En svo var ekki. Aðalpersónur bókarinnar urðu smám saman haldnar geðrænum kvillum og enduðu á því að drepa hvor aðra. Þó hittust þessar tvær persónur fyrr en í síðustu setningu bókarinnar. Spes.

Þegar maður les svona bók verður maður hálfskrítinn. Ákvað því að rifja upp sögur af skrítnara fólki:

Á mánudaginn sá ég Japana nokkurn á tónleikum. Hann er saxófónleikari, tónskáld og læknir. Afar fær á öllum sviðum. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa fundið upp trampólín til meðhöndlunar á heilaskaða.

Heyrði líka í vikunni sögu af norsku tónskáldi. Sá er víst kominn á heldri ár. Hann vinnur heima hjá sér í þar til gerðu vinnuherbergi, og hefur gert lengi. Á hverjum morgni vaknar hann klukkan átta, fær sér morgunmat og smyr sér nesti. Að því loknu fer hann út úr íbúðinni, niður í lyftunni, labbar hringinn í kringum húsið, aftur upp í lyftunni, inní íbúðina, og þá er hann kominn í vinnuna. Klukkan fjögur síðdegis gerir hann þetta sama aftur, en labbar hinn hringinn kringum húsið.
Mér finnst sterkar líkur á því að hann sé löngu búinn að gleyma að heimilið og vinnustaðurinn séu á sama stað.

3 dagar í brottför

Saturday, May 19, 2007

Error

Ætlaði að vera voða dugleg í dag og klára þetta eina verkefni (sem ég er næstum alveg búin með, á bara eftir að fínapússa aðeins). Fór niður í stúdíó, en þar var einhver "keyboard error" í gangi, þannig að hvorki lyklaborðið né músin virkaði. Þá er mjööög lítið hægt að gera. Og kallinn sem svarar ef maður ýtir á hjálp-takkann á símanum er ekki í bænum (held annars að hann búi í skólanum, er allavega næstum alltaf þar). Verkefnið fær því að bíða þar til eftir helgi þegar hjálp-maðurinn kemur í bæinn og lagar dæmið.

Dugnaður dagsins fór því fyrir lítið.

Í dag á Einar trompet-Vestmanneyingur afmæli. Hann er orðinn tuttuguogsex ára (það er sko í tísku þessa dagana).
Til hamingju með daginn Einar.

4 dagar í brottför.

Friday, May 18, 2007

Stórhreingerning

gærdagsins gekk vonum framar. Kláraði að þrífa slotið og ganga frá pappírum (sem voru farnir að þekja meira eða minna öll borðpláss heimilisins). Ekkert smá gaman að vera búin að því.

Skólinn er alveg að klárast. Reyndar átti allri kennslu að vera lokið á miðvikudaginn var, en þar sem ákveðnir kennarar vilja endilega bæta upp tapaða tíma er eitthvað smávegis eftir helgina líka. Var í síðasta tónsmíðatíma vetrarins í dag. Stuð. Þá er bara eftir að klára eitt verkefni, mæta í einn tíma eftir helgina og svo þetta blessaða próf.

Aðalmálið fram að brottför verður þó sennilegast að æfa sig á lúðurinn. Ætla að spila á tónleikum með LR daginn eftir heimkomu (næ einni æfingu, kvöldið sem ég kem). Málið er bara að ég hef ekki aðgang að réttum lúðri í Útlandinu, og það er rúmlega eitt ár síðan ég hef snert á slíku hljóðfæri. Æfi mig á öðruvísi lúður og vona að það komi hljóð úr rétta lúðrinum á þessari einu æfingu sem ég næ með bandinu. En, hey ... lúður er bara lúður. Maður blæs í munnstykkið og ýtir á takkana, og þá kemur tónlistin út....

Hefði nú verið gaman að geta verið í æfingabúðum með hinum lúðunum um helgina í staðin fyrir að vera í Útlandinu (þar sem er ekki einu sinni gott veður!) og æfa sig einn á vitlausan lúður. En ég bið allavega að heilsa í Sveitina.

Í dag á Sivin bróðir afmæli. Hann er orðinn tuttuguogsex ára.
Til hamingju með daginn Sivin.

5 dagar í brottför.

Wednesday, May 16, 2007

Tvöfalt frí

á morgun.

Bæði þjóðhátíðardagur og uppstigningardagur á sama degi.

Að því tilefni skulu gerð alþrif á heimilinu. Það er farið að lykta eitthvað undarlega.

Annars bara fínt að frétta. Er að reyna að klára skólann og svona. Virðist ganga ágætlega.

Ein vika í brottför.

Sunday, May 13, 2007

Sigurvegarar dagsins

eru feita fólkið.

Feit gella vann júróviosjon.

Og meihlutinn hélt velli (með naumindum þó) með feitan kall í forsæti. Spurning um að leyfa frjálslindum að vera með og stofna alvöru feitukallabandalag.

Til hamingju með daginn feitir.

Tími rauðhærðra mun koma!

Saturday, May 12, 2007

Kosningarnar

líta út fyrir að verða æsispennandi.

Og svo er alltaf gaman að júróvisjon.

Stuð að vera Íslendingur í dag.

Friday, May 11, 2007

Aumingja veika fólkið

Sumir eru oft veikir. Þar á meðal píanókennarinn minn. Dagarnir sem hann hefur getað kennt í vetur eru teljandi á fingrum annarrar handar. Og núna er hann kominn með einhverja svæsna nýrnasýki þannig að hann sleppur ekki út af spítalanum fyrr en skólaárið er liðið. Og þá hugsar maður: “ Hey, já ... rosalega er maður heppinn að vera heilsuhraustur”.

Ætla að reyna að muna þetta oftar og vorkenna mér sjaldnar. (Ekki það að ég sé mikið að vorkenna mér svona almennt og yfirleitt. Fín áminning engu að síður.)

Óska hér með mínum ágæta píanókennara góðs bata.

Og svo eru kosningar á morgun. Er ekki kominn tími nýjan meirihluta? Ha, krakkar?

Thursday, May 10, 2007

Áfram Úkraína

Júróvisjon í kvöld. Held klárlega með Úkraínu, en það væri auðvitað gaman ef Ísland kæmist í úrslitin.

Skólinn aaalveg að vera búinn. Skuggalega stutt þar til ég yfirgef heimili mitt vegna sumardvalar “erlendis”. Þarf að drífa í að klára öll verkefni, undirbúa mig fyrir prófið sem ég á eftir og taka almennilega til á heimilinu, á næstu tveimur vikum. Smá stress í gangi núna, en þá er bara að skipuleggja sig.

Farin að æfa mig fyrir verkefni morgundagsins.

Tuesday, May 08, 2007

Letin búin (loksins)

Búið að vera þetta fína inniveður síðustu daga (frekar kalt og ekkisól), þannig að ég er búin að vera dugleg að læra.

Afkastagetan er greinilega í beinu samhengi við veðurfar.

Frábært hjá Íslendingum að hafa sent þessa Rúmena úr landi. Það er allt í lagi að hafa atvinnuróna, en atvinnubetlarar eru óþolandi.

Saturday, May 05, 2007

Drekapeysa og gítaröldungur

Skyndilega er ekki lengur tuttugu stiga hiti og sól í Útlandinu. Það er tíu stiga hiti og ekkisól. Þar með er engin afsökun lengur fyrir að nenna ekki að læra, þannig að ég lærði ponsulítið í dag. Á víst að skila þremur lokaverkefnum í vikunni (ekki það að þau séu neitt stærri en önnur verkefni), en eftir næstu viku er ekki mikið eftir. Eiginlega mjög lítið. Og svo er komið sumarfrí. Jeij. Hlakka samt til að byrja aftur í skólanum næsta haust. Þá verð ég örugglega búin að fá nennuna aftur.

Í dag var markaðsdagur í götunni sem ég labba, á leið minni í skólann. Þá setur búðafólkið dótið úr búðunum út á götu, og það er bannað keyra og hljóla á götunni. Það tók aðeins lengri tíma en venjulega að komast alla leið vegna mannmergðar. Hvers vegna finnst fólki gaman að vera í svona fólksstöppu? Eða er það bara ég sem finnst ekkert sérstkalega gaman að vera innan um óþarflega margt fólk á litlu svæði? Maður þarf nú sitt pláss.

Sá tvennt skemmtilegt á leið minni gegnum fólksstöppuna:
1. Peysu með dreka á bakinu.
2. Eldgamla konu að spila á gítar með Hjálpræðishernum.

Markmið næstu daga:
Gera það sem ég þarf að gera.

Tuesday, May 01, 2007

Boðskapur gærdagsins

Í gær var ég á tignarlegri göngu um vesturálmu hallar minnar, þegar ég rak annan fótinn í stól. Í dag er næstminnsta táin ansi bólgin. Ekkert alvarlega samt.

Skömmu síðar var ég að tannbursta mig, en skyndilega ákvað tannburstinn að fara í smá flugferð. Hann tók glæsilegan sveig ... beint oní klósettið.

Boðskapur gærdagsins:
Ekki labba á. Það er vont.
Ekki hafa klósettið opið meðan á tannburstun stendur.