Tuesday, February 27, 2007

Vetrarhljóðahátíð

Maður er sko ekki látinn sitja aðgerðarlaus í skólanum.

Í síðustu viku var námskeið í þjóðlagatónlist, eins og fram hefur komið.

Þessa vikuna er svokölluð “Vetrarhljóðahátíð” í gangi. Eins og nafnið gefur til kynna er hér á ferðinni (enn ein) nútímatónlistarhátíðin. Hér í skólanum er nefnilega kennari sem hefur mjög gaman af að skipuleggja ýmsa viðburði, s.s. tónleika og fyrirlestra. Skil ekki alveg hvernig hann fer að því að fá fólk til að halda alla þessa fyrirlestra og spila á tónleikunum, því ég hef enn ekki fundið neinn sem skilur almennilega það sem hann segir.
Hann er sko Dani.

Á þessari hátíð, sem stendur yfir í 7 daga (byrjaði í gær), verða 9 tónleikar, 3 gestafyrirlesarar og 1 stutt námskeið. Og svo er auðvitað kennt samkvæmt venjulegri stundaskrá þar að auki. Reikna því með að flytja mitt aðsetur uppí skóla það sem eftir lifir vikunnar.

Eftir þessa viku mun ég líklega birta hér mjög harðorða gagnrýni á Vetrarhljóðahátíðina, og ýmislegt fleira sem viðkemur nútímatónlist (enn einu sinni).

Vona að það eigi eftir að vekja jafn sterk viðbrögð í kommentakerfinu og tónheyrnargagnrýnin. Hihi.

Saturday, February 24, 2007

Moldvarpan

Vegna fjölda áskorana (eða allavega tvennra) kemur hér sagan um norska tónheyrnarkennarann. Um er að ræða konuna sem hefur yfirumsjón með tónheyrnarkennslunni í skólanum.

Fyrir einhverjum árum síðan voru gerðir svokallaðir raunveruleikaþættir fyrir norska sjónvarpsstöð. Þættirnir báru titilinn “Moldavarpan” og gengu út á að þátttakendur leystu ákveðin verkefni af hendi. En einn af meðlimunum reyndi í laumi að koma í veg fyrir að hinum þátttakendunum tækist að leysa verkefninn. Sá var kallaður “Moldvarpan”.

Umræddur tónheyrnarkennari tók eitt sinn þátt í slíkum sjónvarpsþætti. Þátttakendur leystu hvert verkefnið á fætur öðru. Svo kom að verkefni sem fólst í að læra ansi langa talnarunu utanað. Tónheyrnarkennarinn lýsti því yfir, sigrihrósandi, að hún vissi nú aldeilis besta ráðið til að leysa þetta verkefni. Það var að sjálfsögðu að búa til lag (reikna fastlega með að hún hafi notað do-re-mí, eða eitthvað ámóta kerfi til að ákvarða tónhæð hverrar tölu).

Á meðan tónheyrnarkonan samdi lag, hæstánægð með notagildi eigin starfs, ræddu aðrir meðlimir um að sennilega væri hún “Moldvarpan”, þar sem þetta væri fáránleg aðferð til að leysa verkefnið.

Þar fór þetta notagildi tónheyrnar fyrir lítið.

Friday, February 23, 2007

Gagnlegur fróðleikur

Já. Námskeið í þjóðlagatónlist er algerlega málið. Lærði að spila, syngja og dansa samkvæmt gömlum hefðum og innbyrgði helling af ýmisskonar fróðleik um helstu hljóðfæri liðinna alda hér á landi og margt fleira athyglisvert.

Það var t.d. aðeins rætt um þjóðsögur og vísur. Hér fjalla flest kvæði og sögur um vondar kellingar. Ef það er góð kona í sögu, er hún oftar en ekki drepin af eldri systur sem vill gifast heitmanni þeirrar yngri. Svo finnst kannski líkið af yngri systurinni af ókunnugum mönnum, og af einhverjum ástæðum er líkömum látinna oft breytt í eitthvað annað. Í ýmsum löndum tíðkast það að sálir hinna látnu lifi í fuglum eða öðrum dýrum, en hér er líkinu oft breytt í hljóðfæri, t.d. fiðlu eða hörpu. Merkilegt.

Í gærkveld var haldin hátíð til að gefa kost á að nýta hina nýfengnu kunnáttu við raunverulegar kringumstæður. Þar var etið, drukkið, sungið, spilað og dansað. Mjög skemmtilegt og sveitt. Norskir þjóðdansar byggjast að miklu leyti á að hlaupa og hoppa, þannig að sviti setti mark sitt á þá daga sem danskennsla fór fram.

Það að sýna fram á notagildi þess sem kennt var á námskeiðinu vakti mann til umhugsunar um skólagöngu almennt. Eru ekki allt of mörg fög sem hafa í raun lítið sem ekkert notagildi? Jafnvel í eins sérhæfðu námi og því sem ég stunda þessa dagana má finna fög sem mjög fáir koma til með að nota í framtíðinni.

Ætla að nefna eitt dæmi:
Tónheyrn. Það er fag sem talið er ótrúlega mikilvægt í mínu námi og allir í skólanum verða að taka í tvö ár. Áður hef ég tekið þrjú ár af þessu fagi í Tónlistarskólanum í Reykjavík, en það þótti ekki nógu góður grunnur fyrir núverandi nám. Þegar þessu námi lýkur verð ég með 5 ár af tónheyrnarmenntun á bakinu. Til þessa hefur hún ekki nýst mér, og ég sé ekki fram á að þessi tvö viðbótarár verði mér til góða. Hélt að ég væri í minnihluta um þessa skoðun á tónheyrn, en eftir viðræður við nemendur á síðari árum námsins hefur komið í ljós að þessi skoðun er almenn. Er ekki dálítið skrítið að innprenta það í fólk að fag sé ótrúlega mikilvægt fyrir framvinu náms, en sýna aldrei fram á ástæðu/notagilda viðkomandi kunnáttu? Hvað er eiginlega svona mikilvægt?

Hér gæti ég bætt við sögu um tónheyrnarkennara í norskum raunveruleikasjónvarpsþætti. En þetta er bara orðið svo ótrúlega löng færsla að ég efast um að neinn nenni að lesa alla leið hingað.

Þið segið til ef þið viljið söguna um tónheyrnarkennarann.

Tuesday, February 20, 2007

Harðangursfiðlur

Þessa vikuna er námskeið í þjóðlagatónlist í skólanum. Nú á að kenna öllum fyrsta árs nemum allt um norska þjóðlagatónlist á einni viku. Við eigum m.a. að læra að:

- Spila þjóðlagatónlist
- Syngja þjóðlagatónlist
- Dansa þjóðdansa

Og svo eru afar áhugaverðir fyrirlestrar inn á milli.

Í dag kom kall sem talaði um harðangursfiðlur (hardingfele) og spilaði fyrir okkur nokkur lög. Til þess hafði hann ekki tekið með sér eina eða tvær fiðlur, heldur fimm!
Harðangursfiðlur eru frábrugðnar venjulegum fiðlum að því leyti að þær hafa fleiri strengi (4 venjulega + 2-5 undirstrengi) og misjafnt er hvernig fiðlurnar eru stilltar eftir lögum. Það eru yfir 30 mismunandi stillingar í gangi, þar af ca 11 sem eru algengastar.
Ástæðan fyrir þessum mörgu fiðlum er semsagt að þurfa ekki að stilla alltaf uppá nýtt milli laga. Harðangursfiðlur eru jafnan fagurlega útskornar og með ámáluðu munstri.

Þetta var fróðleiksmoli dagsins.

Sunday, February 18, 2007

Ég vann

Samkvæmt hugleiðingum í þarsíðustu færslu á þessu bloggi, þá vann ég (eða kannski hinn illi tvífari minn?) undankeppni júróvisjon í gær.

Skál fyrir því

Thursday, February 15, 2007

Stutt yfirlit

- Það er gaman í skólanum (langoftast allavega)
- Búin að panta flug til Íslands um páskana
- Dettur ekkert í hug þessa dagana til að skrifa á þetta blogg. Kemur kannski á næstunni.

Sunday, February 11, 2007

Júróvisjon

Sá lögin sem taka eiga þátt í úrslitum í undankeppni fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Ætla ekki að vera með neinar stórorðar yfirlýsingar um mínar skoðanir á lögunum. En auðvitað hef ég skoðun á þeim. Eins og allir. Það er einmitt það skemmtilegasta við júróvisjon. Þjóðin öll fylgist með og hefur skoðun á málinu.

Held með Doktor Gunna laginu. Gullgallinn er geeeðveikt flottur.

Eiríkur Hauksson er líka kúl. En mér finnst það sennilega bara af því að hann lítur út alveg eins og ég, þegar ég er ekki búin að greiða mér í 5 daga. Og hann býr í Noregi eins og ég. Hmmm. Ætli ég og Eiríkur Hauksson séum sama manneskjan ...

Vil skora á eftirtaldar hljómsveitir að senda inn lög næsta ár:

- Hundur í óskilum
- Spaðar
- Litríkir postular

Takk

Wednesday, February 07, 2007

Leti

Einhverra hluta vegna varð minna úr heimalærdómi en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ástæður þess eru óljósar (eða bara leti).

Gerði verkefnið fyrir suðkúrsinn. Þurfti reyndar að lesa smávegis í blaðabunkanum til að geta það, þar sem ég missti af tímanum í síðustu viku, sem fór í að útskýra verkefnið. Í dag kynntum við svo verkefnin fyrir hvort öðru. Ég var meira að segja ekki með lélegasta verkefnið, þó ég hafi ekki mætt í síðasta tíma OG sé útlendingur (hah!).

Í þetta skiptið varð semsagt ekkert mikið mál að missa af einni viku í skólanum. Tölvan í stúdíóinu hrundi þannig að þar er ekkert hægt að gera þessa dagana. Þar með fóru reyndar einhver gömul verkefni, en ekkert sem skipti máli af minni hálfu. Einhver grey misstu þar margra klukkutíma vinnu. Aumingja þau.

Ótrúlega lítið að gerast. Nenni engu.

Kannski maður fari nú að prjóna eitthvað skemmtilegt af því tilefni.

Saturday, February 03, 2007

Aftur í Útlandinu

Þá er ég komin í Útlandið enn einu sinni.

Varð vör við talsverðar andstæður á ferðalögum mínum. Á leiðinni til Íslands lenti ég í nokkur þúsund manna biðröð, þar sem rýma þurfti flugstöðina í Osló. Setti þar með persónulegt met í bæði tímalengd biðraðar og fólksfjölda í biðröð. Tók reyndar mun styttri tíma að koma öllum í gegnum öryggishliðið aftur en ég reiknaði með. Missti samt af föstudagsæfingunni í Sveitinni, en náði djamminu.

Á leiðinni aftur til Útlandsins var Palli-var-einn-í-heiminum stemmingin allsráðandi. Það var nánast enginn í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Labbaði eftir öllum ganginum í átt að flugvélahliðinu og sá engan á leiðinni. Undarlegt mjög.

Tónleikarnir heppnuðust bara þokkalega held ég. Tónleikagestir virkuðu allavega nokkuð ánægðir. Og svo var auðvitað partý eftir tónleikana. Sem entist langt fram á morgun að mér skilst. Alltaf gaman að því.

Missti af einni viku í skólanum, og verð örugglega smástund að vinna það upp miðað við lesefnisbunkann sem var í pósthillunni minni í skólanum áðan. Þá er bara að láta hendur standa fram úr ermum. Held samt að það verði lítið gert í dag. Er hálf dösuð ennþá eftir ferðalög og partý, og verkefni dagsins sýnist mér vera að pakka upp úr töskunni og sortera pappírana úr hillunni. Sit nefnilega heima hjá mér núna í hrúgu af fötum, pappírum og ýmsu drasli sem ég hirti úr geymslu systur minnar.

En það er sól úti. Það er gaman.