Thursday, August 30, 2007

Hversu latur getur maður verið?

mjög

Tuesday, August 28, 2007

Þriðjudagar eru skóladagar

nú í byrjun skólaárs allavega. Stundaskrármanninum tókst að koma næstum öllum fögunum fyrir á einum degi. Það er eiginlega með ólíkindum. Verða reyndar dáldið strembnir dagar og eiginlega engar pásur, en á móti kemur að það er frí nánast alla aðra daga. Bara smá skóli á mánudögum og fimmtudögum. Þannig að nú er eiginlega komið helgarfrí (fyrir utan þennan eina tíma á fimmtudaginn, og heimaverkefnin auðvitað). En þetta verður nú ekki svona alltaf, það týnast inn fleiri kúrsar eftir því sem líður á önnina, og eftir jól verður þetta ansi þétt sýnist mér. Eins gott að nota þá haustönnina í að tónsmíða eitthvað (eða fullt).

Mætti í tíma í fjórum mismunandi fögum í dag, og hitti jafnmarga nýja kennara. Reyndar á ég að vera með sama píanókennara og í fyrra, en hann er í veikindaleyfi greyið (einsog nánast allan fyrravetur, held hann hafi mætt þrisvar eða fjórum sinnum allan veturinn). Konan sem leysir hann af virðist vera kjarnorkukvenmaður, komin af léttasta skeiði. Hún lítur ekki út fyrir að geta orðið veik, sem er gott. Aðrir kennarar eru bara venjulegir, en örugglega ágætir samt sem áður. Get ekki sagt að einbeitingin hafi verið upp á sitt besta þennan fyrsta langa skóladag. Held samt að ég hafi náð öllum mikilvægum upplýsingum. Eins gott. Annars gæti ég ekkert gert öll heimaverkefnin, sem eru mörg og skrítin.

En nú er ég þreytt. Það er erfitt að þurfa allt í einu að gera eitthvað eftir að hafa gert ekkert í rúma viku.

Sunday, August 26, 2007

Mappan fundin

Þá byrjar skólinn aftur á morgun. Búin að vera frábær sumarfríisvika í frábæru veðri í Útlandinu, en það verður að öllum líkindum líka gaman að byrja aftur í skólanum.

Og píanómappan fannst. Í hillunni þar sem hún átti að vera. Kom bara ekki auga á hana í fyrstu 10 skiptin sem ég leytaði hennar þar.

Semsagt:
Stanslaust stuð.

Friday, August 24, 2007

Hvar er píanómappan?

Það er ögn undarlegt að koma inn á heimili sitt eftir þriggja mánaða fjarveru, og allt er eins og maður skildi við það. Ég bjóst einhvernvegin við að hér yrði þykkt ryklag yfir öllu, og eitthvað hefði myglað sem gleymst hefði að henda. En, nei. Það var ekki einu sinni vont loft í holunni, og allt á sínum stað.

Nema eitt.

Píanómappan virðist hafa yfirgefið mig. Hún finnst hvergi.
Þá spyr maður sig:
- Hvenær sá ég hana síðast?
Í maí .... held ég...
- Hvar?
Uuuu. Hef ekki hugmynd. Veit ekki einu sinni hvort hún kom með til Íslands eða ekki.

Ef einhver af ykkur sem ég dvaldist hjá í lengri eða skemmri tíma í sumar hefur orðið var við þunna svarta möppu með píanónótum sem enginn kannast við, þá gæti verið að hún eigi heima hjá mér.

En mér þykir líklegast að hún hafi orðið eftir í einhverju æfingaherberginu hér ytra í vor, og þá er hún alveg týnd. Ekki það að neinn hafi tekið hana, en æfingaherbergin eru mööörg.

Annars er allt fínt að frétta. Þessi óvænta sumarfríisvika er senn á enda. Skóli á mánudaginn.

Wednesday, August 22, 2007

Fjárfesting dagsins

Í dag festi ég kaup í splunkunýjum HP LaserJet 1018 prentara, sem virkar alveg þvílíkt vel.

Ég vil nota tækifærið og bjóða þennan nýja fjölskyldumeðlim hjartanlega velkominn.

Sól og sumar í útlöndum.

Tuesday, August 21, 2007

Veikir

Í sumar þurfti ég tvívegis að leyta læknis vegna ákveðinna kvilla. Í fyrra skiptið vegna tognunar í kjálka (eftir allsvakalegt dett í Vestmannaeyjum) og í það síðara vegna kvefs, sem svo var greint sem vírus í hálsi. Í báðum tilvikum var mér ráðlagt að taka bólgueyðilyfið íbúfen. Það virkaði í bæði skiptin.

Ef þið viljið fækka læknisferðum, takið þá íbúfen. Það virkaði allavega fyrir mig í 100% tilvika í sumar.

Þessi ráðlegging var í boði actavis.

(Hálsvírusinn er semsagt á hröðu undanhaldi þessa dagana, fyrir ykkur sem voruð að velta fyrir ykkur heilsufarinu).

Monday, August 20, 2007

Hetjuför!

Komin aftur í Útlandið eftir hetjulegt ferðalag.

Ferðalagið sem slíkt gekk nú reyndar mjög smurt fyrir sig. Ekkert vesen. Hetjuskapurinn fólst aðallega í að sofa 0 klukkutíma fyrir ferðalagið (sem hóst klukkan fjögur um nótt) og mæta beint í skólann þegar til Útlandsins kom (eftir hádegi næsta dag). Þetta þótti mér afar hetjulegt. Var reyndar svo heppin að það voru ekki margir í flugvélinni þannig að ég fékk þrjú sæti fyrir mig, og gat því lagt mig. Húrra fyrir Iceland express!

Taldi ekki ráðlagt að vaka hátt í tvo sólarhringa eftir þessa hetjuför, þannig að ég lagði mig aðeins áðan. Eftir þá lífsreynslu get ég ekki mælt með svefnleysi til lengri tíma. Leið dáldið eins og hausinn á mér væri að grillast eftir lúrinn, og allur vökvi úr líkamanum virtist hafa yfirgefið bústað sinn í formi svita. Ekki þægilegt.

Sýnist svo á öllu að ég sé í fríi alla þessa viku, og það er góð veðurspá næstu daga. Það er semsagt sumarfrí í Útlöndum í viku. Jeij.

Kosningar virðast vera í nánd hér á bæ, og svo virðist sem ég sé með kosningarétt. Ætli maður fari ekki að kynna sér málin og nýta kosningaréttinn. Það verða jú allir að gera sem mega á annað borð kjósa.

Snemma að sofa í kvöld. Ójá!