Bófi?
Ekki voru óhöpp fjölskyldunnar upptalin þessa helgina.
Móðirin fór í Kaupfélagið og tapaði veskinu sínu. Var hún sannfærð um að óprúttinn aðili hefði hnappað því í vefnaðarvörudeildinni.
En hver stelur veski af eldri frú í vefnaðarvörudeildinni í Kaupfélagi úti á landi?
Innan fjölskyldunnar fór fram veðmál, hvar veðjað var hvort umrætt veski myndi skila sér. Ég hélt ekki, en foreldrarnir væntu þess að veskið kæmist aftur til rétts aðila.
Sem það og gerði.
Í gær fór móðirin í Kaupfélagið, og viti menn, veskið hafði fundist. Í mjólkurkælinum. Með öllum verðmætum innanborðs. Ætli sú gamla hafi ekki bara ákveðið að leggja veskið frá sér á þennan prýðisstað í verslunarferðinni.
En ég tapaði rauðvínsflösku í veðmáli fjölskyldunnar.
Móðirin fær sko ekki að fara fleiri eftirlitslausar ferðir í Kaupfélagið meðan ég er í foreldrahúsum.
Annars er allt gott að frétta héðan heimanað.
Gleðilega jólahátíð.