Tuesday, December 23, 2008

Bófi?

Ekki voru óhöpp fjölskyldunnar upptalin þessa helgina.

Móðirin fór í Kaupfélagið og tapaði veskinu sínu. Var hún sannfærð um að óprúttinn aðili hefði hnappað því í vefnaðarvörudeildinni.
En hver stelur veski af eldri frú í vefnaðarvörudeildinni í Kaupfélagi úti á landi?

Innan fjölskyldunnar fór fram veðmál, hvar veðjað var hvort umrætt veski myndi skila sér. Ég hélt ekki, en foreldrarnir væntu þess að veskið kæmist aftur til rétts aðila.

Sem það og gerði.

Í gær fór móðirin í Kaupfélagið, og viti menn, veskið hafði fundist. Í mjólkurkælinum. Með öllum verðmætum innanborðs. Ætli sú gamla hafi ekki bara ákveðið að leggja veskið frá sér á þennan prýðisstað í verslunarferðinni.

En ég tapaði rauðvínsflösku í veðmáli fjölskyldunnar.

Móðirin fær sko ekki að fara fleiri eftirlitslausar ferðir í Kaupfélagið meðan ég er í foreldrahúsum.

Annars er allt gott að frétta héðan heimanað.

Gleðilega jólahátíð.

Friday, December 19, 2008

Bæ blái bíll

Hitinn í húsinu komst í lag í gær, en hálkan var víst ekki alveg farin.

Föður vorum tókst allavega að rúlla bifreið sinni útí móa, 1,25 hring, hvar hún endaði sinn starfsferil. Bíllinn er semsagt alveg í maski, allar rúður brotnar og allt beyglað, er mér sagt. Er ekki búin að sjá gripinn.
Faðirinn slapp hins vegar allskostar ómeiddur. Fékk pínulitla skrámu á kinnina og glerbrot í hárið. Mjög vel sloppið miðað við afdrif bílsins myndi ég segja.

Búið að moka oní skurðinn fyrir utan húsið, þannig að nú kemst maður út eins og ekkert sé.

Hér eru því allir glaðir.
Nema blái bíllinn.
Hann er dáinn.

Thursday, December 18, 2008

Fréttir vikunnar

Manndrápshálkan entist ekki lengi í þetta skipti. Sem betur fer. Og nú er snjór og indælis veður með frosti og logni og björtu uppá hvern einasta dag. Prýðilegt alveg hreint.

Einhverjum mönnum þótti það afar góð hugmynd í þessu árferði að grafa skurð fyrir utan húsið. Það gerir það að verkum að erfitt er að komast lengra út úr húsi en rétt út fyrir dyr.
Þessi gröftur hefur ennfremur aukið aðeins á spennu hverdagsins:
-Á laugardaginn var kaldavatnslaust í nokkra tíma. Notaði tækifærið og smakkaði vont nammi. Eitthvað víetnamskt ógeð sem heitir "Khua Thaoui" eða eitthvað álíka. Lítur út eins og lakkrís en er EKKI þannig á bragðið. Ekki besta hugmynd í heimi að smakka vont nammi þegar ekki er hægt að fá sér vatn á eftir.
-Á sunnudaginn virkuðu ekki ofnarnir. Manni pípari kom og reddaði málunum með því að skrúfa aðal-ofnakranann í kjallaranum á fullt. Gott mál.
-Á mánudaginn var rafmagnslaust í smástund. En það var nú bara stutt.
-Á þriðjudaginn var kominn lítill heitur hver rétt fyrir ofan tröppurnar. Voða sætt, en örugglega ekkert rosalega sniðugt.
-Í dag hefur ekkert heitt vatn verið fáanlegt í húsinu. Sem þýðir ennfremur enginn hiti á ofnunum. Aftur. Og nú, síðdegis, er alveg byrjað að vera dáldið kalt inni. Enda sjö stiga frost úti. Vona bara að heita vatnið komi áður en nóttin kemur. Er ekki alveg til í útilegufílinginn á þessum árstíma.
Gröfumennirnir eru örugglega að leggja sitt af mörkum. Þeir eru allavega að grafa meirihluta sólarhringsins. Ekkert atvinnuleysi þar á bæ.

Þetta voru helstu fréttir vikunnar.

Wednesday, December 10, 2008

Mannréttindi

Síðan ég kom hingað austur hefur veðurfar verið með besta móti. Frost, ekki mikið rok (jafnvel logn af og til) og snjóalög með meira móti, sem gerir birtustig bærilegra meðan dagsljóss nýtur við.
Nú er hins vegar komin hláka, og er spáð meira af slíku næstu daga.

Þegar maður er staddur annarsstaðar en á Egilsstöðum city, og spáð er hláku hugsar maður: "oj, en fúlt". Þegar maður er staðsettur hér í bæ er hugsunin meira: "NEEEEEI". Hér þýðir hláka nefnilega bráð lífshætta um leið og fæti er stigið út fyrir dyr.
Fór í hættuför í kaupfélag staðarins áðan og svitnaði af áreynslunni við það eitt að halda mér á löppunum þessa nokkur hundruð metra. Mætti einni heldri frú á heimleiðinni og gat ráðlagt henni hvar hættuminnst væri að ganga. Það var góðverk dagsins. Vona bara að umrædd frú lifi ferðalagið af.

Þetta manndrápsástand varir að jafnaði um helming vetrar hér í bæ.

Mér þykja sjálfsögð mannréttindi að geta farið út án þess að eiga það á hættu að löppunum sé kippt undan manni fyrir tilstilli æðri máttarvalda.

Thursday, December 04, 2008

Á heimaslóðum

Þá er maður mættur í foreldrahúsin. Hress að vanda.

Ferðalögin gengu vel öll með tölu: Útland - Ísland - Sveitin (takk kærlega fyrir skutlið Þórunn Gréta) - Höfuðborgin - Egilsstaðir City, hvar ég mun dvelja fram á nýja árið.

Hef verið alnets-sambandslaus í rétta viku, og hefur það orsakað gríðarlegt tölvupóstflóð sem þarf að komast í gegnum. Það sem af er þessum degi hefur farið í það. Sé ekki fram á að vera verkefnalaus hér á landsbyggðinni, þar sem ég hef tekið með mér töluvert af skóla- og vinnuverkefnum. Vona að ég nái að klára sem mest áður en haldið verður aftur til Útlandsins.

Lenti í tölvuveseni meðan ég dvaldi í Höfuðstaðnum. Einmitt að morgni dagsins sem átti að fara í tölvuvinnu (auðvitað). Sá dagurinn fór því mestallur í heimsóknir á hin ýmsustu tölvuverkstæði.
Afar áhugavert að sjá mismunandi nálganir á viðfangsefnið. Var sjálf nokkuð viss um að hleðslutækið væri bilað. Á fyrsta verkstæðinu var tölvan sjálf úrskurðuð látin. Það þóttu mér ekki góðar fregnir og við tók nett taugadrulla af minni hálfu. Ákvað að leyta annað og fá annað álit á sjúkdómsgreininguna. Þar á bæ var tölvan hins vegar úrskurðuð sprelllifandi (bara sofandi) og hleðslutækið með undarlegan geðsjúkdóm - þar sem það sýndi öll merki um að vera lifandi þrátt fyrir að neita að veita rafmagni í tölvuna. Þetta þóttu mér afbragðsgóðar fregnir, og fór á þriðja staðinn til að festa kaup í viðeigandi hleðslugræju. Þar á bæ þurfti ég nánast að beita hörðu til að fá að kaupa varahlutinn, þar sem starfstúlkan sagði ekkert að geðsýkta hleðslutækinu og vildi láta leggja tölvuna inn til frekari rannsókna.
Að lokum tókst að sannfæra stúlkuna um vafasama fortíð hleðslugræjunnar og heilbrigði tölvunnar. Nýtt hleðslutæki fékkst keypt og allir voru glaðir.

Þetta gerði það hins vegar að verkum að ér náði nú ekki að klára alla þá vinnu sem ég ætlaði að skila af mér meðan ég dvaldist í Höfuðstaðnum (skilaði samt mestu), og ekki náði ég heldur að hitta allt fólkið sem ég ætlaði mér.

Hins vegar skilst mér að margir hafi hugsað sér að heimsækja heimaslóðir hér eystra í jólafríi komandi.

Hverjir koma?
Réttupphend