Tuesday, January 22, 2008

Gleði, undrun og ferðalag

Gleðifregnir dagsins: Ákveðið hefur verið að fresta flutningi á ruslstykkinu sem við erum að æfa í lúðrasveitinni hér ytra. En það verður þó flutt síðar, þar sem sveitin hefur skuldbundið sig til þess. Bömmer. Gaurinn fékk styrk til að skrifa þetta rusl. Þvílík peningasóun.
Í staðin fyrir ruslstykkið fengum við annað nýlegt stykki eftir hérlent tónskáld sem er mjög flott.
Gaman að því.

Undrunarefni dagsins: Stúlka ein sem er í fyrsta bekk í tónsmíðadeildinni hefur tekið sér hlé frá námi út þessa önn. Kemur verulega á óvart þar sem hún hefur verið jákvæðasta manneskja deildarinnar frá upphafi skólaárs. Kannski hefur hún jákvæðast yfir sig. Hver veit.
Þar með hefur virkum tónsmíðanemum fækkað í 11.

Ferðalag á morgun.

Monday, January 21, 2008

Slas

Fór á sax-kvintettæfingu í gær. Vorum reyndar bara tríó þar sem 1 var í London og 1 var slasaður. Þessi slasaði kom samt á æfinguna og söng með og taldi smá. Það var baritón-saxófónleikarinn sem slasaðist. Við hin höfum hann reyndar grunaðan um athyglissýki. Ef maður spilar á bassa-lúður fær maður nefnilega enga athygli. Einu skiptin sem einhver yrðir á mann er til að segja manni að láta heyrast minna í sér. Þess vegna höldum við að hann slasi sig viljandi. Til að fá athygli.
Fyrir jólin braut hann á sér hendina, og í þetta sinn ákvað hann að skera næstum af sér einn putta. Miðað við umbúðirnar á puttanum og lýsingar af öllu blóðinu þykir mér næstum ótrúlegt að honum hafi ekki blætt út.
Þrátt fyrir meiðslin lætur þessi bassa-lúðurspilari engan bilbug á sér finna og ætlar að mæta á æfingu á morgun til að fylgjast með (og láta vorkenna sér).

Kláraði áðan að setja allt dót á sinn stað eftir síðustu heimkomu. Ekki seinna vænna. Næsta niðurpökkun mun eiga sér stað á morgun.

Saturday, January 19, 2008

Tæknilegar framfarir

Tókst loksins að vista dót úr nótnaskriftarforritinu sem pdf-skjöl. Er búin að velta fyrir mér annað slagið í laaangan tíma hvernig maður eigi að fara að þessu, og spurja nokkra aðila, sem allir vissu nokkurn vegin hvað ætti að gera en samt ekki alveg. Það var ekki fyrr en ég spurði mann á förnum vegi sem leit út fyrir að vita þess háttar hluti að mér tókst ætlunarverkið.
Þó fyrr hefði verið...

Næsta tæknilega verkefni er að læra almennilega á “nýju” upptökugræjuna mína sem ég fékk í hendurnar snemma í desember og er nánast ekkert farin að prófa ennþá.

Tæknileg atrðiði eru í vinnslu þessa dagana.

Friday, January 18, 2008

Reitt blogg

Tvær fyrstu kennsluvikurnar eftir jól búnar, og í næstu viku er frí. Allavega hjá tónsmíðadeildinni. Verkefnavika hjá hinum.

Endaði þessa skólaviku á að fara á fund með tónsmíðadeildarráðinu. Þar sitja nokkrar manneskjur og ræða ýmis atriði sem lúta að kennslutilhögun deildarinnar. Ég mætti til að koma með nokkrar tillögur að valfögum fyrir næsta ár. Ekkert sem hefði átt að vera mál, að mér fannst. En, ó, hvað ég hafði rangt fyrir mér. Komst að því að þetta blessaða ráð er aðallega þarna til að láta námsskrána líta vel út, hver á sínu sviði. En enginn virðist hafa neina yfirsýn yfir námið í heild sinni.

Þannig að þarna kom ég með þá frábæru tillögu að tónsmíðanemar gætu tekið kammertónlist sem valfag, og unnið þá tónverk fyrir/í samvinnu við ákveðinn kammerhóp. Ætti ekki að vera mikið mál. Kammertónlist er skyldufag fyrir alla hljóðfæraleikarana, og leiðbeinandi úr röðum kennara hefur umsjón með hverjum hóp. Jú, þetta var mál. Skyldi ekki alveg af hverju, en einhverjum fannst að það þyrfti þá að vera sérstakur tónsmíðaprófessor sem hefði umsjón með tónsmíðanemanum í hópnum.
Þvílíkt bull.

Það skrítna var hvað það kom ráðinu í opna skjöldu að það væri lítið samstarf milli tónsmíðanema annars vegar og hljóðfæraleikara hins vegar, og litlir möguleikar á flutningi verka tónsmíðanema á tónleikum innan skólans.

Staðreyndin er nefnilega sú að þó þetta sé góður skóli og mikið gert fyrir ennþá meiri peninga þá hefur eitt grundvallaratriði einhvernvegin gleymst. Maður getur nefnilega hæglega klárað öll sín 4 ár og útskrifast úr tónsmíðadeildinni án þess að fá eitt einasta verk eftir sig flutt á tónleikum innan skólans eða annars staðar. Það er fáránlegt.

Hins vegar finnst mér ekki að það ætti að fara út í að pína tónlistarfólk til að flytja ný verk. Að mínu mati á tónlistarmaður alltaf að hafa neitunarvald þegar kemur að þessu atriði. Hvort sem hann er í skóla eða ekki. Hljóðfæraleikarar og söngvarar virðast oft haldnir ákveðinni minnimáttarkennd þegar kemur að þessu atriði. Finnst þeir ekki hafa nógu mikið vit á nútímatónlist eða eitthvað. En þetta snýst ekki um þekkingu á nútímatónlist, heldur smekk hvers og eins.

Sumir taka sig til og panta tónverk hjá ákveðnum tónskáldum. Útkoma úr slíkum pöntunum getur verið misjöfn. Oft eru slík verk góð. Sem betur fer. En stundum ekki.
Þannig verk má líka neita að flytja. Jafnvel þó þú hafir pantað tónverk, þá ertu (yfirleitt) ekki skuldbundinn til að flytja það.

Er einmitt að lenda í því núna í norsku lúðrasveitnni að það var pantað verk hjá tónskáldi. Það er rusl. En sveitinni finnst hún skuldbundin til að flytja verk sem er samið að þeirra beiðni. Þetta verk mun að öllum líkindum verða til þess að lúðrasveitin mín fellur niður um deild í lúðrakeppninni.
Það er ekkert góð hugmynd að byggja lúðratónverk á því að hver og einn meðlimur sveitarinnar ákveði sjálfur hvaða tóna á að spila og hvenær. Það er bara kjaftæði og gefur glögglega til kynna að tónskáldið hafi ekki verið að vinna vinnuna sína. Það er jú einmitt hans vinna að ákveða hver á að gera hvað og hvenær. Og hvernig í ósköpunum á einhver dómnefnd að ákveða hvort þetta sé vel spilað eða ekki? Ég gef þessum flutningi einkunina núll fyrirfram. Það er bara of heimskulegt að láta sig hafa það að spila svona rusl.

Skilaboð til tónlistarfólks:
Ekki láta ykkur hafa það að spila hvað sem er. Ef ykkur finnst tónverk einhverra hluta vegna ekki áhugavert viðureignar, sleppiði þá að flytja það.

Monday, January 14, 2008

Mánudagur

Þetta er búinn að vera aldeilis dandala góður mánudagur. Notaði helgina gríðarlega vel. Lærði, á milli þess sem ég æfði og djammaði með lúðrasveitinni, og gekk bara nokkuð vel á öllum sviðum. Nema kannski djamminu. Var frekar þreytt.

Tókst að gera tvennt frábært í dag:
1. Gera verkefnið í upptökukúrsinum. Er stundum ótrúlega tæknilega heft, en í dag gekk nokkuð vel.
2. Skila af mér verkefni í suðkúrsinum. Í þetta sinn áttu allir að greina sama verkið með þar til gerðum suð-táknum, og kynna sína greiningu í tímanum í dag. Ég var með áberandi langbesta verkefnið (að eigin mati). Það kom gríðarlega á óvart þar sem:
a) Mér leiðist suðkúrsinn.
b) Ég missti af fyrirlestrinum þar sem verkefni þetta var útskýrt.
Er steinhætt að hafa áhyggjur af því að ég missi af næsta tíma í suðkúrsinum. Greinilega alveg nóg að mæta í annað hvert skipti.

Í dag fékk ég líka verkpöntun frá ókunnugum aðila. Það hefur aldrei gerst áður.

Mánudagar geta líka verið góðir.

Friday, January 11, 2008

Kom heim í Útlandið

á mánudaginn.

Búið að vera klikkað að gera síðan ég kom. Er í næstum helmingi fleiri fögum þessa önn en þá síðustu, og þar sem hér eru flestir áfangar próflausir eru heimaverkefnin eftir því. Mörg.
Og mér sem fannst svo fínt að hafa þetta afslappað eins og síðstu önn. En jæja, ég get allavega huggað mig við að þetta er síðasta önnin sem ég þarf að vera í svona fáránleg mörgu.

Áhugamálið er líka farið að taka meiri tíma en efni stóðu til. Hellingur af aukaæfingum fram að lúðrakeppninni í mars, og einhverjar jólatrésskemmtana-spilamennskur þar á milli (til fjáröflunar fyrir bandið). Hérlendir virðist teygja jólavertíðina langt fram eftir janúar. Er búin að spila á tveimur jólaskemmtunum í þessari viku og það var alls ekki svo slæmt, en tímanum hefði kannski verið betur varið í annað akkúrat þessa vikuna. Og svo er auka-lúðraæfing stóran hluta af morgundeginum.

Náði að pakka upp úr töskunni, en það var kannski bara tímasóun þar sem næsta ferðalag hefst eftir tæpar tvær vikur .... Nei annars. Það er betra að hafa hlutina á sínum stöðum. Þó stutt sé.

Semsagt. Brjálað að gera og enginn tími fyrir eftirjólaþunglyndið.

Thursday, January 03, 2008

Gleðilegt nýtt ár!

Nú í upphafi ársins 2008 ætla ég að birta tölfræðilegar upplýsingar um staðsetningar á árinu 2007 (eftir því sem mig minnir). Upplýsingarnar sýna hversu oft á árinu hver staður var heimsóttur. Heimsókn er einungis talin með ef gist hefur verið á staðnum í þeirri heimsókn:

Egilsstaðaborg = 6
Noregur = 5
Reykjavík = 15
Sveitin = 2
Höfn í Hornafirði = 2
Vestmannaeyjar = 2
Svíþjóð = 1
Danmörk = 1

Eins og sjá má fór síðasta ár í að koma sér á milli staða.

Ferðalög þessa árs hefjast á morgun.

Vil að lokum þakka öllum fyrir ánægjulegar samverstundir á árinu sem liðið er.

Og gleðileg jól.