Tuesday, September 27, 2005

Bréf til lesenda

Ágætu bókmenntasinnuðu lesendur og aðrir (sem ég reikna ekki með að séu margir). Nú þarfnast ég ykkar hljálpar. Datt það snjallræði í hug að semja kórverk (þ.e. tónverk fyrir kór), en til að það sé gerlegt vantar mig texta. Það væri fínt að hafa hann á íslensku og jafnvel með rími og þannig, en einnig kemur allt annað til greina (og öll tungumál). Sjálfri hefur mér dottið í hug kvæði eftir Dr. Þórunni Guðmundsóttur sem endar eitthvað á þá leið “...... hann verður að spila á fagott.” En ég man bara ekkert eftir því að öðru leyti en þessu. Einhver ykkar vitið líklegast um hvað er rætt hér og ef þið gætuð grafið þann texta upp og sent mér væri það frábært. Ég mun að sjálfsögðu fá skriflegt leyfi höfundar ef ákveðið verður að nota umræddan texta.
Semsagt, texti óskast sem fyrst. Hugmyndir mega koma í kommentahólfið hér að neðan, en betra væri þó ef þið væruð til í að senda hugmyndir til mín í formi tölvupósts á netfangið baras@torg.is. Fleiri hugmyndir eru betri en færri. Þá hef ég eitthvað að velja úr.
Sá sem kemur með besta textann fær verðlaun að eigin vali + að vera frægur í útlöndum. Verkð verður (vonandi) flutt af 150 manna kór ef af verður.
Með von um einstaklega skjót viðbrögð.

Monday, September 26, 2005

Vinnuvikan búin

Jæja. Þá er maður búin að vinna þessa vikuna.
Soldið kúl að vinna bara á mánudögum. Alltaf ótrúlega stutt vinnuvika.
Í dag fékk ég far frá vinnustaðnum með rússneskri píanógellu sem kennir í sama skóla og ég. Hún var á grænum Bens. Og ÞAÐ er sko kúl.
Annars ekkert að ske. Bara skóli og þannig. Jú, ég opnaði norskan bankareikning í dag. Alltaf að fá meiri og meiri tök í hinum norska fjármálaheimi.

Friday, September 23, 2005

Stuð í útlöndum

Jebb. Það er allt að gerast

Í gær:
Átti ein sambýliskona afmæli. Til hamingju með það Viviann. Í tilefni dagsins var haldið í bæinn. Þar var etin flatbaka og ferðinni svo fram haldið á eitt af öldurhúsum bæjarins. Þar fór afmælisbarnið hamförum og tók bakföll af hlátri. Í bókstaflegri merkingu. Datt aftur fyrir sig af barstól. Hún fékk ansi myndarlega kúlu á hnakkann en hlaut að öllum líkindum ekki varanlegan skaða af. Það getur verið hættulegt að hlæja of mikið.
Komst líka að því að ponsulitla stelpan í Húsi E getur drukkið reiðinnar býsn af bjór. Getur sennilega drukkið allflesta undir borðið og vel það.
Það er ýmislegt sem skemmtistaðir í Noregi hafa fram yfir þá íslensku. Norðmenn fatta að það er ekki nauðsynlegt að hafa tónlist það hátt stillta að gestir staðarins hljóti varanlegan heyrnarskaða af. Og hér er bannað að reykja á slíkum stöðum sem er BARA frábært.
Á leiðinni heim í Hús E ákvað útlendingurinn í húsinu að láta reyna á klifurhæfni sína sem hún þjálfaði upp á eftirminnilegan hátt í Svíþjóð fyrr í sumar. Það tókst ekki mjög vel. Komst þó upp u.þ.b. hálfan ljósastaur og tókst í leiðinni að skera mig á fjórum fingrum hægri handar. Hver skilur eftir beitt dót á ljósastaur? Ég giska á Jón skólastjóra. Hann býr í næsta húsi við ljósastaurinn og hefur örugglega skilið eitthvað beitt eftir síðast þegar hann klifraði þarna upp svo einhverjir vesalings nemendur myndu skera sig. En hægri hendin er allavega ansi skrautleg þessa stundina, með fjóra Línu Langsokk plástra.

Í dag:
Sótti um skattkort. Fæ það sennilega í næstu viku.

Semsagt. Rosalegt stuð á hverjum degi. Alltaf gaman í útlöndum.

Wednesday, September 21, 2005

LOKSINS.....

.....kom dótið mitt frá Íslandi. Það tók fjórar vikur. Ekkert sérstaklega góður árangur hjá Samskipum það. En allavega, ég er semsagt komin með sængina mína og allt. Var komin með dáldið mikið leið á útilegufílingnum.

Annars er bara allt í einu brjálað að gera. Byrjaði að vinna á mánudaginn. Það var alveg eins og ...... að vinna. Ekkert meira um það að segja. Tónlistarkennsla er ekki það mikið öðruvísi í Noregi. Í rauninni alveg eins. Bara á norsku. Fékk 4 nemendur og 1 lítinn samspilshóp.

Í gær var skólaferð í norsku óperuna. Sáum óperu eftir Puccini sem ég man ekki hvað hét. En hún hét það sama og aðalkjeellingin. Óperan endaði á því að kjeellingin dó, en fyrst var hún náttúrulega búin að syngja um að hún væri alveg að deyja í ca. 20 mínútur(og reyndar missa hárið líka).
Það er alltaf margt fyndið við dramatískar óperur. Ég held t.d. að það sé undantekningarlaust langt atriði þar sem fólk syngur um hvað það er mikið að flýta sér af því að einhver er að koma. Hvað er málið með það. Af hverju flýta þau sér bara ekki?

Spurning dagsins er:
Hvernig útlegst sögnin "að nenna" á engilsaxnesku?

Saturday, September 17, 2005

Allt í rólegheitum

Nú er fyrsta "langa helgin" í skólanum (frí bæði laugardg OG sunnudag) þannig að flestir (ca. 2/3 nemenda) eru heima í helgarfrí. Við erum bara tvær í kotinu þessa dagana. Ég og Helle. Henni er að batna veikin. Hún er með minnstu (talsvert mikið minni en ég) og afkastamestu manneskjum sem ég hef séð. Síðan hún kom er hún er hún búin að prjóna heilt sjal (til samanburðar má geta þess að ég er búin með hálfan vettling) og í hádeginu boðaði hún 1 og hálfan kjúkling án þess að blása úr nös. Ótrúlegt alveg hreint. Hún kemur frá Norður-Þrændalögum. Það er langt í burtu. Tekur 10-12 tíma að komast þangað.
Fyndið hvað þetta skólahúsnæði verður fáránlega stórt allt í einu þegar það eru bara örfáar hræður að rolast um. Nú eru t.d. flestir í matsalnum/stofunni og við erum svona frekar mikið eins og krækiber í helvíti. Gaman að því.

Og í dag á pabbi afmæli. Til hamingju með það.

Friday, September 16, 2005

Meðan ég man

Hér er heimilisfangið mitt ef einhver vill senda mér alvöru bréf eða pakka. Hlý föt eru t.d. mjög vel þegin þar sem Samskipum hefur enn ekki tekist að koma dótinu mínu á leiðarenda. Nú hefur það verið 5 daga á leiðinni frá Osló og hingað uppeftir. Þetta er leið sem tekur að öllu jöfnu einn og hálfan tíma að keyra. Samtals hefur flutningurinn nú tekið 25 daga og ekki sér enn fyrir endann á þeim tíma sem þetta mun taka. Kann ég Samskipum engar þakkir fyrir.
En allavega, hér er heimilsfangið:

Bára Sigurjónsdóttir
Toneheim Folkehogskole
Marmorvegen 15
2322 Ridabu
Norge

Og nýja gsm símanúmerið:
00 47 97 43 45 05

Thursday, September 15, 2005

Hryðjuverk og hor

Í gær héldu íbúar Húss E upp á þann áfanga að hafa snýtt 500 kílóum af hori, samtals. Haldið var upp á áfangann með því að fara snemma að sofa, sem var afar snjallt því hér þarf maður að vakna fyrir allar aldir til að mæta í morgunmat og manntal. Sumir ákváðu að bæta um betur og mættu bara hreint ekkert í skólann í dag sökum veikinda. Ég óska Helle og Sigmund góðs bata.

Í skólanum er einn nemandi eldri en ég. Öldungurinn (fæddur sama ár og ég). Hann er sköllóttur, með hökutopp og ættaður frá brúnu landi. Afar grunsamlegur aðili. Nokkrir nemendur skólans (aðallega stelpur skilst mér) tóku upp á því að breiða út sögum þess efnis að viðkomandi aðili væri hryðjuverkamaður. Ok, mér fannst hann grunsamlegur, en ekki SVONA grunsamlegur. Hvað í andskotanum ætti hryðjuverkamaður líka að vera að gera í lýðháskóla í Noregi?
Kræst.
Norðmenn eru asnar.

Wednesday, September 14, 2005

Algengar spuringar og svör við þeim

Hér eru 3 spurningar sem fólk hefur verið gjarnan spurt að eftir að til útlandsins kom:

Spurning 1: Eru sætir strákar þarna?
Svar: Jájá. En þeir eru flestir undir tvítugsaldrinum.

Spurning 2: Eru þeir ekki allir með yfirvaraskegg?
Svar: Nei. Þeim er í flestum tilvikum ekki farið að vaxa skegg. Yfirvaraskegg er semsagt ekki móðins hjá norskum börnum.

Spurning 3: Ætlarðu ekki að fara að fá þér gönguskíði?
Svar: NEI!!! Over my dead body. Það mun EKKI gerast. Hins vegar gæti verið gaman að fara aðeins á venjuleg skíði ef tækifæri gefst.

Svo mörg voru þau orð.

Og Agnes, nú geturðu farið að kommenta. Gjörðu svo vel.

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

Monday, September 12, 2005

Hlaupahjól

Í dag keypti ég hlaupahjól.
Það var gaman.
Hlaupahjólið mitt er með bláum handföngum.
Endir.

Sunday, September 11, 2005

Nokkrar staðreyndir

Nú bý ég í Noregi. Hér koma nokkrar staðreyndir um búsetuhætti hér:
Skólinn minn er í Fellabæ Noregs, og þar bý ég. Fellabærinn heitir Ridabu og liggur ca. 3 kílómetra frá Hamar (Egilsstöðum).
Allir nemendur skólans búa í litlum húsum sem liggja 20-273 metra frá aðalskólabyggingunni. Ég bý í húsinu sem er lengst frá skólanum, þannig að ég þarf að labba heila 273 metra í skólann. Það er rosalegt þegar haft er í huga að hér er að jafnaði 3 metra jafnfallinn snjór og 30 stiga frost á veturna.
Húsið mitt heitir Hús E. Þar búa 6 Norðmenn, 1 Íslendingur og draugaálfur. Hann býr í skáp í eldhúsinu.
Rektorinn býr á miðju heimavistarsvæðinu. Hann heitir Jón. Hann á eina konu, tvö börn og grís sem heitir Biffen.
Í skólanum eru 153 nemendur. Þar af eru milljón Norðmenn, einn Dani, fjórir Suður-Afríkanar, ½ Finni og 2 ¾ Íslendingar.

Fyrsta vikan fór í að hlusta á langa fyrirlestra um allt sem er bannað að gera á skólasvæðinu. Hér er engan vegin tæmandi listi yfir það sem er bannað:
Hassreykingar og neysla annarra vímuefna (þ.á.m. áfengis)
Æfa sig í heimavistarhúsunum
Gera grín að svertingjum sem kunna ekki norsku
Gefa grís rektorsins að borða
Gera grín að þroskaheftum
Vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Ef maður kemur fullur heim á maður að fara beint að sofa Í SÍNU EIGIN RÚMI!!
Vera með læti í mötuneytinu.
Vera með læti í húsinu sínu eftir klukkan ellefu á kvöldin.
Fara með bollana úr mötuneytinu og skilja þá eftir útum allt
Mæta í minna en 90% tíma
Vera með gæludýr (krakkarnir í Húsi 6 eru samt með gullfiska)

En það má vera með draugagæludýr, þannig að draugaálfurinn er ekki bannaður.

Eina alvöruskóladaginn sem hefur verið fram að þessu (á þriðjudaginn) tókst mér að rífa kjaft í báðum tímunum sem voru fyrir hádegi. Nokkuð góður árangur þar sem maður verður að tala á norsku. Í fyrsta tímanum eftir hádegi var ég send til skólastjórans. Hann bauð mér vinnu í tónskóla í næsta bæ. Á morgun kemur skólastýran úr þeim skóla til að hitta mig.
Hér er ekki gert ráð fyrir að maður geti gert neitt sjálfur, þannig að öll samskipti við skrifstofur (í sambandi við flutningsvottorð, umsóknir um norskar kennitölur o.s.frv.) fara fram í gegnum skrifstofu skólans. Þar eru konur sem sjá um að redda öllum þeim pappírum sem þarf að fylla út og senda á viðeigandi staði. Það eina sem maður þarf að gera er að fylla út pappírana skv. nákvæmum upplýsingum skrifstofukvennanna. Afar þægilegt.
Á miðvikudaginn fóru allir nemendur skólans í tveggja daga “hytte-ferð”. Það var ..........u........já. Orðum það bara þannig að sú ferð hefði alveg mátt missa sín. Ferðin var hugsuð sem leið til að láta nemendur kynnast betur. En það er nú bara þannig að það er EKKI auðveldara að tala saman í gönguferð í bráluðu veðri í 1200-1800 metrum yfir sjávarmáli. Þá er fólk meira að reyna að anda nokkurn vegin eðlilega. Það var mígandi rigning og slagviðri meiri hluta ferðarinnar. Nú eru ca. 90% nemenda með kvef eða aðrar veikir. Þ.á.m. ég. En nú hefst fyrsta eðlilega skólavikan á morgun, og mikið hlakka ég til. Loksins kemst einhver rútína á hlutina hér á bæ. Ekkert rugl.